Hannes: Velsæld Norðurlanda þrátt fyrir jafnaðarstefnu

Ljósm. Olav A. Dirkmaat.

Prófessor Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, hélt fyrirlestur á þingi APEE, Association for Private Enterprise Education, á Maui, einni af Havaíeyjum, 12. apríl um „Norrænu leiðirnar: Velsæld þrátt fyrir endurdreifingu“. Hann kvað einskæra goðsögn, að Norðurlandaþjóðirnar ættu velgengni sína að þakka langvinnum yfirráðum jafnaðarmanna. Skýringarnar væru frekar, að þær stæðu vörð um réttarríkið og frjáls utanríkisviðskipti og vernduðu eignarrétt, jafnframt því sem samhugur, gagnkvæmt traust og gagnsæi væri mikið vegna samleitni þeirra og glöggrar sjálfsvitundar.

Hannes benti á, að allt frá 18. öld hefði verið til sterk frjálslyndishefð á Norðurlöndum, eins og sést hefði í ritum Anders Chydeniusar, sem hefði bent á ósýnilegu höndina á undan Adam Smith, og í verkum Johans Augusts Gripenstedts, sem hefði sem forsætisráðherra Svíþjóðar lagt undirstöður undir velmegun Svía. Hin frjálslynda stjórnarskrá Norðmanna frá árinu 1814 og útfærsla einstaklingsréttinda í Danmörku eftir afnám einveldis 1849 væru líka til marks um frjálslyndishefðina. Þrír heimskunnir sænskir hagfræðingar á 20. öld hefðu verið frjálshyggjumenn, Eli Heckscher, Gustav Cassel og Bertil Ohlin. Ef menn ætluðu sér að tala um „sænsku leiðina“, þá yrðu þeir að vita, að þær voru að minnsta kosti þrjár: frjálslynda leiðin 1870–1970, jafnaðarleiðin 1970–1990, þegar sköpun í atvinnulífinu var nær stöðvuð, og blandaða leiðin, sem síðan hefur verið fylgt og felur að miklu leyti í sér afturhvarf til frjálslyndu leiðarinnar.

Gabriel Calzada of the Francisco Marroquin University in Guatemala, Matt Ridley and Professor Gissurarson.

Gabriel Calzada frá Francisco Marroquin háskóla í Guatemala, Matt Ridley og Hannes. Ljósm. Parellada Centeno Javier.

Hannes lagði fram ýmis gögn máli sínu til stuðnings. Til dæmis væru lífskjör sænskættaðs fólks í Vesturheimi miklu betri en Bandaríkjamanna almennt og enn betri en lífskjör Svía í Svíþjóð. Sýndi það í senn áhrif menningar og stofnana á árangur. Annað dæmi væri samanburður „norrænu“ landanna í Vesturheimi, Manitoba, Minnesota, Dakota-ríkjanna beggja, Alberta og Saskatchewan og Norðurlandanna fimm. Velmegun væri að meðaltali miklu meiri í norrænu ríkjunum vestan hafs en í Evrópu. Sýndi þetta áhrif stofnana á árangur.

Loks vék Hannes að frjálslyndishefðinni á Íslandi, sem lesa mætti út úr ritum Jóns Sigurðssonar, leiðtoga Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni, Arnljóts Ólafssonar, höfundar fyrsta hagfræðiritsins á íslensku (sem samið var beint upp úr riti eftir Frédéric Bastiat), og Jóns Þorlákssonar, stofnanda Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra. Hannes lýsti einnig hinum víðtæku og árangursríku umbótum í frjálslyndisátt í stjórnartíð Davíðs Oddssonar 1991–2004. Þótt Íslendingar væru fámenn þjóð á útkjálka heimsins, hefði þeim enn fremur tekist að mynda tvö tiltölulega vel heppnuð kerfi til að leysa úr árekstrum einstaklinga í heimi nískrar náttúru og takmarkaðs náungakærleika. Annað hefði verið íslenska þjóðveldið 930–1262, þar sem réttarvarsla hefði verið í höndum einstaklinga, sem valið gátu um verndarstofnanir (goðana). Hitt væri íslenska kvótakerfið, þar sem framseljanlegum aflakvótum væri úthlutað til útgerðarfyrirtækja. Fyrsta skrefið í þá átt var tekið 1975 (í síld), en kerfið varð altækt 1991. Fiskveiðar á Íslandsmiðum væru í senn sjálfbærar og arðbærar, en sumir horfðu öfundaraugum til útgerðarmanna. Lét Hannes í ljós þá von, að Íslendingar týndu ekki þessari uppgötvun sinni eins og þeir hefðu týnt Vesturheimi eftir að hafa fundið hann árið 1000.

Á þinginu var prófessor Gabriel Calzada, rektor Francisco Marroquin háskóla í Guatemala, kjörinn forseti APEE og prófessor J. R. Clark frá Tennessee háskóla í Chattanooga endurkjörinn ritari. Fyrirlestur Hannesar var þáttur í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Hann hafði á Maui tækifæri til að hitta marga Íslandsvini, sem minnast heimsókna sinna hingað af ánægju, meðal annarra Matt Ridley, Barböru Kolm, Bob Lawson, Douglas Rasmussen og Douglas Den Uyl.

Glærur Hannesar á Maui 12. apríl 2017

Comments are closed.