Hannes: Hvikum ekki frá frjálsum alþjóðaviðskiptum

Dr. Klaus flytur erindi sitt.

Þrír Íslendingar, sem allir tengjast RNH, Gísli Hauksson stjórnarformaður, Hannes H. Gissurarson rannsóknastjóri og Jónas Sigurgeirsson framkvæmdastjóri, sóttu svæðisþing MPS, Mont Pèlerin samtakanna, í Seoul í Suður-Kóreu 7.–10. maí 2017. MPS eru alþjóðleg samtök frjálslyndra fræðimanna og stuðningsmanna einstaklingsfrelsis, sem þeir Friedrich A. von Hayek, Frank H. Knight, Ludwig von Mises, Karl R. Popper, Milton Friedman og fleiri stofnuðu í Sviss vorið 1947. Halda þau allsherjarþing annað hvort ár og svæðisþing eftir atvikum þess í milli. Á meðal fyrirlesara í Seoul voru margir kunnir fræðimenn, þar á meðal Nóbelsverðlaunahafarnir Vernon Smith og Lars Peter Hansen og hagfræðingarnir prófessor Israel Kirzner, sérfræðingur um frumkvöðla og framkvæmdamenn, og prófessor John B. Taylor, sem Taylor-reglan um peningastefnu er kennd við. Vaclav Klaus, fyrrverandi forseti Tékklands, og Hwang Kyo-ahn, starfandi forseti Suður-Kóreu, ávörpuðu þingið, en svo vildi til, að forsetakjör fór fram í Kóreu á næstsíðasta degi þingsins, 9. maí.

Hwang, forsætisráðherra Kóreu og starfandi forseti, ávarpar samkomuna.

Umræðuefnin á svæðisþinginu voru fjölmörg, þar á meðal hagvöxtur og ójöfn tekjudreifing, félagslegar bætur og skattlagning, hið alþjóðlega fjármálakerfi, öryggismál á Kóreuskaga og kóreska hagkerfið. Umræður eru bundnar trúnaði og ekki ætlast til þess, að menn segi frá öðru en því, sem þeir sjálfir færa fram. Hannes H. Gissurarson var umsegjandi þriggja fyrirlestra um hagþróun í Kóreu í samanburði við önnur lönd. Hann tók undir það, sem kom fram í fyrirlestrum á svæðisþinginu, að hagþróun í Kóreu gengi kraftaverki næst. Í byrjun sjöunda áratugs 20. aldar var Suður-Kórea eitt fátækasta land heims, en nú er hagkerfi þess hið 11. stærsta í heimi. Árið 1950 var landsframleiðsla á mann (sem er algengasti mælikvarðinn á lífskjör) um 1% af meðallandsframleiðslu á mann í löndum OECD, Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar. Þá skall á Kóreustríðið, en í því féllu hálf önnur milljón manna, og 40% iðnaðarins var lagður í rústir. En árið 1970 var landsframleiðsla á mann komin upp í 14% af meðaltalinu í löndum OECD og árið 2016 upp í 85%.

Dr. Ed Feulner, Heritage Foundation, segir frá kynnum sínum af Kóreu.

Hannes taldi, að velgengni Kóreumanna hefði orðið þrátt fyrir ríkisafskipti, sem voru veruleg í landinu, aðallega fram undir 1960, en ekki vegna þeirra. Hann benti á, að velgengni lítilla ríkja væri ekki síst vegna þess, að þau væru oftast mjög samleit og samstæð (homogeneous), gagnkvæmt traust mikið og gagnsæi verulegt. Þetta skýrði tvímælalaust að miklu leyti velgengni Norðurlanda, sem hefðu auk þess ætíð stutt réttarríkið og stundað alþjóðaviðskipti. Hagkerfi þeirra hefðu verið opin. Hannes sagði, að fríverslunarsamningar milli þjóða, eins og Kóreumenn væru að gera, væru eflaust oft til hins betra, en auðvitað væri hagkvæmast og best, að heimurinn væri allur eitt fríverslunarsvæði. Þjóðir sköðuðust mest sjálfar á því að reisa í kringum sig tollmúra til að vernda innlenda framleiðslu. Fríverslunarsamningar gætu líka skaðað þriðju aðila: Til dæmis gerði það Kóreu erfitt fyrir, þegar Mexíkó gerði fríverslunarsamning við Bandaríkin.

Jónas, Hannes og Gísli. T. h. er merki ráðstefnunnar, Kóreuhlutarnir tveir, myrkur og ljósadýrð.

Kóreumenn hefðu líka forðast þau mistök valdsmanna í mörgum öðrum fátækum löndum  að halda landbúnaði niðri. Jafnframt því sem þungaiðnaði var vissulega gert léttara fyrir með skattaívilnunum og greiðum aðgangi að lánsfé, var jarðnæði skipt upp á milli bænda og mynduð skilyrði til blómlegrar matvælaframleiðslu. Enn fremur hefðu ríkisafskiptin af iðnframleiðslu einkum miðast að því að efla útflutning, en ekki vernda innlend fyrirtæki fyrir samkeppni. Leiðin fram á við væri í Kóreu hin sama og annars staðar að mismuna hvergi ólíkum atvinnugreinum og opna hagkerfið eftir megni.

Þegar rætt var um, hvort bæta ætti innlendum framleiðslugreinum upp, þegar þær væru sviptar tollvernd, rifjaði Hannes upp söguna af því, þegar hann hefði haustið 2984 kynnt einn íslenska seðlabankastjórann fyrir Milton Friedman svofelldum orðum: „Prófessor Friedman, hér er maður, sem myndi missa starfið, væru kenningar yðar framkvæmdar á Íslandi.“ Friedman svaraði að bragði: „Nei, hann myndi aðeins þurfa að færa sig í arðbærara starf.“ Hannes kvað þetta lögmál markaðarins: Menn yrðu að færa sig í arðbærari störf, þegar aðstæður breyttust. Hinu væri ekki að neita, að oft gæti slík aðlögun verið vandkvæðum bundin og valdið ólgu í stjórnmálum, eins og sjá mætti á Vesturlöndum.

Hannes tók annað dæmi um óvinsælar, en farsælar aðgerðir í átt að hagræðingu. Það væri, þegar verksmiðja væri flutt úr hálaunalandi í láglaunaland. En þá væri um endurdreifingu tekna að ræða frá ríkum til fátækra, sem ætti að vera öllum mannúðarsinnum kappsmál. Tiltölulega hálaunaðir launþegar misstu af einu tækifæri til að selja vinnuafl sitt og munaði lítt um það, en fátækt fólk í viðtökulandinu fengi tækifæri til að bæta kjör sín með dugnaði. Endurdreifingin væri líka aðeins til skamms tíma, en til langs tíma væri þeim, sem misstu spón úr sínum aski, bætt það upp. Þar eð varan væri nú framleidd ódýrar en áður, yrði til tekjuafgangur, sem skilaði sér annaðhvort í verðlækkun hennar eða auknum gróða, en hvort tveggja hefði að lokum í för með sér aukið framboð lífsgæða.

Hannes lagði áherslu á, að frjálslyndir stjórnmálaleiðtogar mættu hvergi hvika frá stuðningi sínum við frjáls alþjóðaviðskipti. Enn ætti það við, sem ensk-þýski stjórnmálamaðurinn John Prince Smith hefði sagt: Tilhneiging okkar til að skjóta á aðra minnkar, ef við sjáum í þeim væntanlega viðskiptavini. Ekki ætti síður við það, sem væri oft kennt Bastiat, en Thomas Watson hjá IBM hefði líklega sagt fyrstur: Ef varan fær ekki að fara yfir landamærin, þá mun herliðið þramma yfir þau.

Í Seoul fékk Hannes líka tækifæri til að skiptast á skoðunum um starfsemi seðlabanka og íslenska bankahrunið við prófessor John Taylor. Peter Boettke, hagfræðiprófessor í George Mason-háskóla, er forseti Mont Pèlerin-samtakanna, en prófessor Pedro Schwartz frá Spáni var formaður dagskrárnefndar og þeir Kyu-Jae Jeong, Tae-shin Kwon og Inchul Kim höfðu forystu um skipulagninguna. Næsta svæðisþing þeirra verður í Stokkhólmi 2.–5. nóvember 2017. Þar verður rætt um þá ógn, sem frelsinu stafar af auknu lýðskrumi í hinum vestræna heimi (populisma). Næsta allsherjarþing samtakanna verður síðan á Kanaríeyjum 30. september til 6. október 2018. Þátttaka þeirra Gísla, Hannesar og Jónasar í þinginu í Seoul var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Alliance of Conservatives and Reformists in Europe, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Málstofa um frumkvöðla í frjálsu hagkerfi. Frá v.: J. R. Clark, Israel Kirzner og Nóbelsverðlaunahafarnir Lars Peter Hansen og Vernon Smith.

Comments are closed.