Saga kvenhetju

Almenna bókafélagið hefur gefið út bók eftir flóttakonu frá Norður-Kóreu, Með lífið að veði. Höfundurinn, Yeonmi Park, er aðeins 23 ára, fædd í október 1993. Skömmu eftir að hún fæddist, skall á hungursneyð í landinu, og er talið, að mörg hundruð þúsund manns hafi þá soltið í hel. Faðir Park hóf svartamarkaðsbrask til að hafa í og á fjölskyldu sína, en var sendur í þrælabúðir. Móðir hennar var líka um skeið fangelsuð.

Þær mæðgur ákváðu vorið 2007 að flýja norður til Kína. En smyglararnir, sem fengnir voru til að koma þeim yfir landamærin, stunduðu mansal. Strax og til Kína kom, var móður Park nauðgað og síðar henni sjálfri, og báðar voru þær seldar í nauðungarhjónabönd. Maðurinn, sem tók Park að sér, lagði ást á hana, en fór misjafnlega með hana. Þær mæðgur gáfust ekki upp, og tókst þeim í febrúar 2009 að komast til Mongólíu eftir margra sólarhringa gang í fimbulkulda yfir Góbí-eyðimörkina. Þar beið þeirra óvissa, sem lauk með því, að suður-kóresk stjórnvöld fengu þær afhentar.

Park sló eftirminnilega í gegn í alþjóðlegum sjónvarpsþætti haustið 2014, og á tveimur dögum horfðu 50 milljónir manna á ræðu hennar á Youtube. Bók hennar kom út á ensku haustið 2015, og stundar hún nú háskólanám í Bandaríkjunum, jafnframt því sem hún vekur ötullega athygli á mannréttindabrotum í Norður-Kóreu. Útgáfa bókarinnar er studd af RNH og liður í samstarfsverkefni við ACRE, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna: Minninguna um kommúnismann“. Jónas Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri Almenna bókafélagsins, hafði tækifæri til að ræða við enskukennara og leiðbeinendur Park á fundi Mont Pèlerin samtakanna í Seoul í Suður-Kóreu í maí 2017. Norður-Kórea er sem kunnugt er eitt af tveimur kommúnistaríkjum, sem eftir standa í heiminum. Að næturlagi sést vel munurinn á kommúnisma og kapítalisma frá gervihnetti:

Comments are closed.