Eitt helsta verkefni rannsóknarsetursins RNH er að rannsaka hlut framkvæmdamanna (e. entrepreneurs) í nýsköpun og hagvexti.
Einn þátturinn í að vekja athygli á þessu er útgáfa þriggja skáldverka rússnesk-bandaríska rithöfundarins Ayns Rands, en hún skrifar ekki síst um skapandi einstaklinga úti í atvinnulífinu og andstæðinga þeirra, sem vilja gera sjálfsaflafé upptækt í þágu valdhafa. 2011 kom út Uppsprettan (The Fountainhead) eftir Rand í þýðingu Þorsteins Siglaugssonar. 2012 kom út Undirstaðan (Atlas Shrugged) eftir hana í þýðingu Elínar Guðmundsdóttur. 2013 kom út Kíra Argúnova (We the Living) eftir hana, og birtist þýðingin upphaflega í Morgunblaðinu 1949, en Frosti Logason bjó hana til prentunar. Ásgeir Jóhannesson, lögfræðingur og heimspekingur, skrifaði eftirmála um ævi og störf Rands.
Annar þátturinn er fyrirlestraröð í Háskóla Íslands, sem hófst árið 2012 undir heitinu „Ísland, Evrópa og framtíð kapítalismans“. Þar ræða innlendir og erlendir fræðimenn þar meðal lánsfjárkreppuna, sem reið yfir heiminn 2007–2008 og kapítalismanum hefur oft verið kennt um, og um Ísland á milli hinna 27 ríkja Evrópusambandsins og 50 ríkja Bandaríkjanna. RNH hefur samstarf við AECR, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna, og við Atlas Foundation um þessa fyrirlestraröð og einstakar ráðstefnur henni tengdar og tilraunina til að vekja athygli á hlut framkvæmdamanna með útgáfu skáldsagna Ayns Rands. RNH hefur samstarf við Almenna bókafélagið um útgáfu skáldsagna Ayns Rands.
RNH heldur á lofti minningu þeirra mörgu dugmiklu framkvæmdamanna, sem lögðu sitt af mörkum til að koma Íslandi úr fátækt í bjargálnir, en gerðu sér um grein fyrir, að frelsið er ekki fyrirhafnarlaust: Erlendis er Sir Anthony Fisher (sem heimsótti Ísland einu sinni) gott dæmi, en hér á landi má nefna Thor Jensen útgerðarmann, Björn Ólafsson, verksmiðjueiganda og ráðherra, Loft Bjarnason hvalveiðimann, Einar ríka Sigurðsson, útgerðarmann í Vestmannaeyjum, Pálma Jónsson, kaupmann í Hagkaupum, og Þorsteinn Má Baldvinsson útgerðarmann. Þeir efnuðust sjálfir, en sköpuðu um leið öðrum tækifæri til að bæta kjör sín, jafnvel til að brjótast úr fátækt, með dugnaði og sparsemi.
RNH hélt alþjóðlega ráðstefnu 14. október 2013 til minningar um einn slíkan framkvæmdamann, sem var um leið fræðimaður í Háskóla Íslands. Hann var Árni Vilhjálmsson prófessor, sem var einnig stjórnarformaður Granda og sat í stjórnum fjölmargra fyrirtækja, svo sem Landsbankans, Hampiðjunnar, Nýherja og Flugleiða. Ráðstefnan var um fiskveiðiarð og veiðigjöld, og töluðu þar meðal annarra prófessorarnir Ralph Townsend, Ragnar Árnason og Hannes H. Gissurarson.