Jón Sigurðsson fæddist á Hrafnseyri í Arnarfirði 17. júní 1811. Hann tók stúdentspróf 1829, var biskupsritari í nokkur ár, en hóf 1833 nám í málfræði, bókmenntum og sögu í Kaupmannahafnarháskóla. Gerðist hann einn sögufróðasti Íslendingur síns tíma og leiðtogi Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni við Dani. Stundaði hann rannsóknir á sögu Íslendinga og bókmenntum alla ævi, en komst misjafnlega af. Jón fann skilríki um það, að Íslendingar hefðu aldrei gengist undir Dani, heldur aðeins svarið konungi Noregs og síðar Danmerkur hollustu sína. Einnig reiknaði hann út, hvað óstjórn Dana á Íslandi hefði kostað. Jón var vel að sér í hagfræði og áhugamaður um verslunarfrelsi. Hann hafði lesið rit Jeans-Baptistes Says, sem var helsti lærisveinn Adams Smiths í Frakklandi. Einnig dáðist Jón að breskri stjórnskipan, þar sem valdinu er dreift og því þannig haldið í skefjum. Jón var lengi alþingismaður og forseti Alþingis. Hann lést 7. desember 1879. Komið hafa út nokkrar ævisögur um Jón, og er hin rækilegasta eftir dr. Pál Eggert Ólason prófessor, en hin nýjasta eftir Guðjón Friðriksson sagnfræðing.
Jón Sigurðsson var frjálshyggjumaður. Hann skrifaði í tímariti sínu, Nýjum félagsritum, 1844: „Margir hinna vitrustu menn, sem ritað hafa um stjórnaraðferð á Englandi og rannsakað hana nákvæmlega, hafa álitið félagsfrelsið aðalstofn allrar framfarar þar á landi. Hin mikilvægustu fyrirtæki, bæði til andlegra og líkamlega þarfa þjóðarinnar, tilbúningur á vegum, höfnum, brúm, hjólskipum og mýmörgum öðrum stórsmíðum, sem stjórnin hefði með engu móti getað afkastað eða komist yfir að láta gjöra, er allt gjört með félagssamtökum manna.“ Með félagsfrelsi átti Jón við atvinnufrelsi.
Jón Sigurðsson var þjóðernissinni, sem vildi frjáls viðskipti við aðrar þjóðir. Hann skrifaði í bréfi til bróður síns 1866: „Þú heldur, að einhver svelgi okkur. Látum þá alla svelgja okkur í þeim skilningi, að þeir eigi við okkur kaup og viðskipti. Frelsið er ekki í því að lifa einn sér og eiga ekki viðskipti við neinn. Ég efast um, að Símon Stylites eða Díógenes hafi verið frjálsari en hver önnur óbundin manneskja. Frelsið kemur að vísu mest hjá manni sjálfum, en ekkert frelsi, sem snertir mannfélagið, kemur fram nema í viðskiptum, og þau eru því nauðsynleg til frelsis.“
Arnljótur Ólafsson fæddist á Auðólfsstöðum í Langadal 21. nóvember 1823. Hann lauk stúdentsprófi 1851 og stundaði hagfræðinám í Kaupmannahafnarháskóla í nokkur ár, en lauk síðan guðfræðiprófi 1863. Hann var prestur á Bægisá og síðar Sauðanesi. Hann var einnig lengi þingmaður, síðast fyrir Heimastjórnarflokkinn. Arnljótur var höfundur fyrstu íslensku bókarinnar um hagfræði, Auðfræði, sem kom fyrst út 1880, en einnig skrifaði hann bók um rökfræði. Hann lést 29. október 1904.
Í Auðfræðinni boðaði Arnljótur frelsi í atvinnumálum, enda sneið hann verkið að miklu leyti eftir ritum franska frjálshyggjumannsins Frédérics Bastiats. Hann lýsti svo frjálsri verðmyndun á markaði: „Samkeppnin er hinn ósýnilegi löggjafi í sérhverju atvinnufrjálsu mannfélagi, er leggur lag á varning manna — og það betur en goðarnir forðum daga gerðu við Austmenn og sýslumenn síðar við Hansamenn og Englendinga.“
Arnljótur lýsti í Auðfræðinni hinni ósýnilegu hendi Adams Smiths, sem leiðir menn í keppni þeirra að eigin hag að því að vinna að almannahag: „Samkeppnin lætur sjálfselskuna ráða gjörðum sínum fyrst í stað, því samkeppnin er frjálslynd, hún er frelsið sjálft, en hún tekur þó í taumana, í eintóma frelsistauma og leiðir sjálfselskuna nauðuga viljuga til að láta á almennings hag og vinna fyrir almennings gagn.“
Jón Þorláksson fæddist á Vesturhópshólum í Vesturhópi 3. mars 1877. Hann lauk einhverju hæsta stúdentsprófi, sem tekið hefur verið, frá Lærða skólanum (síðar Menntaskólanum í Reykjavík) 1897, stundaði verkfræðinám í Tækniháskólanum í Kaupmannahöfn og lauk prófi 1903. Hann sinnti rannsóknum á húsagerð fyrir landstjórnina 1903–1905, en varð landsverkfræðingur 1905. Þeirri stöðu gegndi hann til 1917, er hann stofnaði byggingarvöruverslun og verkfræðistofu, sem hann rak til æviloka. Þegar sósíalistar tóku að láta að sér kveða á Íslandi, beitti Jón sér fyrir sameiningu frjálslyndra manna í einn flokk, sem var íhaldssamur í þeim skilningi, að hann vildi halda í fengið frelsi. Hann var formaður Íhaldsflokksins 1924–1929 og Sjálfstæðisflokksins 1929–1935. Hann var fjármálaráðherra 1924–1927 og jafnframt forsætisráðherra 1926–1927 og borgarstjóri í Reykjavík 1933–1935. Á meðan Jón var fjármálaráðherra, tók hann sér fyrir hendur að rannsaka gaumgæfilega sveiflur í afkomu landsmanna, ríkisfjármál og peningamál, og skrifaði um það Lággengið, sem kom út 1924, og var það annað frumsamda hagfræðiritið á íslensku. Jón lést 20. mars 1935. Greinasafn kom út eftir Jón 1985 og ævisaga hans eftir dr. Hannes Hólmstein Gissurarson prófessor 1992.
Jón var eindreginn frjálshyggjumaður og hafði orðið fyrir miklum áhrifum frá hinum frjálslynda sænska hagfræðingi Gustav Cassell. Í grein um frjálslynda íhaldsstefnu sína 1926 skrifaði hann: „Aðalhugsjónin er sú, að þjóðfélagið verði samsafn sem flestra sjálfstæðra og frjálsra einstaklinga, sem hver fyrir sig geti haft sem óbundnastar hendur til þess að efla farsæld síns heimilis og þar með alls þjóðfélagsins öðrum að skaðlausu.“ Í þingræðu 1927 sagði Jón: „Reynslan hér í Norðurálfu hefir og orðið sú, að því landi hefur vegnað best í stjórnarfarslegu tilliti, þar sem lagabókstafirnir eru fæstir, en stjórnarvenjurnar fastastar.“
Í erindi á landsfundi Íhaldsflokksins vorið 1929 sagði Jón:„Tilgangi efnahagsstarfseminnar, að sjá fyrir fullnægingu mannlegra gæða, verður ekki eins vel fullnægt með neinu öðru móti og því, að sjálfsbjargarhvötin fái óhindruð að knýja hvern einn til að vinna sem best fyrir aðra. Í hinni sjálfvirku vél frjálsra viðskipta er eiginhagsmunagæslan sá aflgjafi, sem knýr hvert einstakt hjól, en afrek vélarinnar er framleiðsla til fullnægingar allra þörfum.“
Sigurður Nordal fæddist á Eyjólfsstöðum í Vatnsdal 14. september 1886. Hann var náskyldur öðrum Húnvetningi, Jóni Þorlákssyni. Sigurður lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum (síðar Menntaskólanum í Reykjavík) 1906, stundaði síðan nám í norrænum fræðum í Kaupmannahafnarháskóla, lauk meistaraprófi 1912 og doktorsprófi 1914. Hann stundaði framhaldsnám í Berlín og Oxford næstu ár, en var prófessor í íslenskum fræðum í Háskóla Íslands 1918–1951, án kennsluskyldu frá 1945. Í prófessorstíð sinni lagði hann mikið af mörkum í fjölda rita til að skilgreina og skýra sjálfsvitund Íslendinga eða þjóðareðli, meðal annars í safnritinu Íslenskri lestrarbók 1924 og Íslenskri menningu 1942. Sigurður var gistiprófessor í Harvard-háskóla 1931–1932. Hann var sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn 1951–1957. Sigurður lést 21. september 1974. Almenna bókafélagið gaf út ritsafn hans í þremur hlutum, sem hver um sig var þrjú bindi: Mannlýsingar 1986, List og lífsskoðun 1987 og Fornar menntir 1993. Hið íslenska bókmenntafélag gaf síðan út fjórða hlutann, Samhengi og samtíð, í þremur bindum 1996.
Sigurður Nordal var frjálslyndur og víðsýnn menntamaður, þótt hann skipaði sér aldrei í einn flokk eða undir merki einnar stefnu. Hann lýsti svo stjórnmálaskoðun sinni í Íslenskri menningu: „Hún er ögn einföld, helst í því fólgin, að takmark allrar stjórnar og stjórnmála sé að leyfa sem flestum, helst öllum, einstaklingum að njóta sín, ráða sér og þroskast við eðli þeirra og hæfi, búa þeim sem best skilyrði þess, — forsjá annarra nái því betur tilgangi sínum sem hún er í meira hófi höfð.“ Sigurður sagði í sama riti: „Háski sá, sem vofir yfir lýðræði nútímans og hefur víða gert það svo valt, er framar öllu fólginn í fláttskapnum, þegar almenningi er talin trú um, að hann sé kúgaður samkvæmt umboði frá honum sjálfum, eða hann er fyrst féflettur og síðan látinn þiggja sína eigin eign í mútur og náðargjafir.“
Eftir að Sigurður sneri heim frá Danmörku 1957, sagði hann í útvarpserindi: „Ef fólki er kennt, að ríkið eigi að leysa og geti leyst öll þess vandamál, fer það að lokum að kenna ríkinu um öll sín mein. Hvort tveggja er vitanlega jafnfjarstætt. Það verður bæði að grafa dýpra, skyggnast víðar um og seilast hærra en ríkisvaldið getur nokkurn tíma náð til þess að finna brýnustu þarfirnar, mestu verðmætin, alls konar mannlegt böl og bölvabætur.“
Benjamín H. J. Eiríksson fæddist 19. október 1910 í Hafnarfirði. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1932 og stundaði næsta vetur hagfræðinám í Berlín, þar sem hann varð vitni að valdatöku nasista. Hann hélt námi sínu áfram í Stokkhólmi, en gerði þó hlé á því 1935–1936, þegar hann gekk á flokksskóla kommúnista í Moskvu. Þá var ógnarstjórn Stalíns að færast í aukana, og skömmu eftir að Benjamín fór frá Moskvu, var unnusta hans og barnsmóðir þar handtekin að tilefnislausu og send í vinnubúðir, þar sem hún hvarf ásamt dóttur þeirra. Benjamín lauk prófi í hagfræði, tölfræði og slavneskum málum og bókmenntum frá Stokkhólmsháskóla 1938. Þar var Gunnar Myrdal einn af kennurum hans. Eftir þetta sinnti Benjamín ýmsum verkefnum í Reykjavík, uns hann hélt í framhaldsnám til Bandaríkjanna 1942. Hann lauk meistaraprófi í hagfræði og stjórnmálafræði frá Háskólanum í Minnesota 1944 og doktorsprófi frá Harvard-háskóla 1946. Þar var leiðbeinandi hans hinn frægi hagfræðingur Joseph A. Schumpeter. Benjamín starfaði hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington-borg 1946–1951. Næstu ár var hann ráðunautur ríkisstjórnar Íslands í efnahagsmálum, en 1953 gerðist hann bankastjóri Framkvæmdabankans. Hann gegndi því starfi til 1965, er hann dró sig í hlé til að sinna ýmsum hugðarefnum sínum. Hann lést 23. júlí 2000.
Benjamín var í æsku sannfærður kommúnisti og sótti leshring hjá Einari Olgeirssyni á námsárum sínum á Akureyri. Hann snerist þó smám saman frá kommúnisma og gerðist talsmaður atvinnufrelsis og einkaframtaks. Bókin Orsakir erfiðleikanna í atvinnu- og gjaldeyrismálunum kom út eftir hann haustið 1938, og var þriðja frumsamda ritið um hagfræði á íslensku (á eftir Auðfræði Arnljóts Ólafssonar og Lággengi Jóns Þorlákssonar). Þar greindi hann innri mótsögn í haftabúskapnum, sem rekinn hafði verið á Íslandi frá því í upphafi heimskreppunnar: Á sama tíma og stjórnvöld reyndu að takmarka kaupgetu almennings með höftum, juku þau hana með ógætilegri stefnu í peningamálum. Benjamín var fenginn til þess 1949–1950 ásamt Ólafi Björnssyni prófessor að leggja á ráðin um það, hvernig Íslendingar gætu horfið frá höftunum. Skrifaði hann rækilega skýrslu fyrir stjórnvöld um það, að atvinnufrelsi væri framkvæmanlegt á Íslandi ekki síður en annars staðar, og tókst honum að sannfæra marga stjórnmálamenn í Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum um þetta. Næsta hálfan annan áratug birti Benjamín margar greinar um atvinnumál og stjórnmál, þar á meðal úttekt á tölum frá Ráðstjórnarríkjunum um lífskjör þar, sem vakti mikla athygli. Greinasafnið Rit 1938–1965 var gefið út eftir hann 1990. Dr. Hannes H. Gissurarson prófessor samdi ævisögu hans, Benjamín H. J. Eiríksson í stormum sinna tíða, sem kom út 1996 og varð metsölubók.
Ólafur Björnsson fæddist 2. febrúar 1912 í Hjarðarholti í Dölum. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1931, las lögfræði í einn vetur í Háskóla Íslands, en stundaði síðan hagfræðinám í Kaupmannahafnarháskóla og lauk þaðan prófi 1938. Hann starfaði á hagstofunni 1938–1942, en kenndi síðan hagfræði í viðskiptadeild Háskóla Íslands. Hann var skipaður prófessor 1948. Ólafur sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1956–1971. Hann var formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja 1948–1956 og sat í bankaráði Seðlabankans 1963–1968 og í bankaráði Útvegsbankans 1969–1980. Hann lést 22. febrúar 1999. Eftir hann liggur fjöldi rita um hagfræði og atvinnumál.
Ólafur var sósíalisti fyrstu ár sín í Kaupmannahöfn, en kynntist síðan ritum austurrísku hagfræðinganna Ludwigs von Mises og Friedrichs A. von Hayeks, þar sem þeir sýndu fram á, að sósíalismi væri óframkvæmanlegur, að minnsta kosti í hefðbundinni merkingu sem miðstýrður áætlunarbúskapur. Ástæðan væri, að miðstjórnin gæti aldrei hagnýtt sér alla þá þekkingu, sem dreifðist á einstaklingana úti í atvinnulífinu. Dreifing þekkingar krefðist dreifingar valds. Þegar Halldór Kiljan Laxness kom við í Kaupmannahöfn vorið 1938 á leið frá Ráðstjórnarríkjunum og flutti erindi yfir stúdentum um, hversu vel hefði tekist að skipuleggja atvinnulífið undir ráðstjórn, læddist Ólafur út undir dynjandi lófataki samstúdenta sinna og hugsaði með sjálfum sér, að þessi fundur minnti helst á samkundu hjá hjálpræðishernum. Þegar heim kom, gerðist Ólafur einn helsti gagnrýnandi haftabúskaparins á Íslandi. Taldi hann fráleitt, að fámenn nefnd gæti ákveðið, hvaða þörfum mætti fullnægja og hverjum ekki, jafnvel þótt skipuð væri hinum bestu mönnum. Ólafur benti á, að höftin fælu í sér ritskoðun: Stjórnskipuð nefnd ákvæði, hvaða bækur mætti flytja til Íslands. Þau fælu líka í sér átthagafjötra: Sama nefnd ákvæði, hvort menn fengju gjaldeyri til utanlandsferða. Ólafur lagði á ráðin um það árin 1949–1950 ásamt Benjamín Eiríkssyni, hvernig Íslendingar gætu lagt niður höftin og aukið viðskiptafrelsi.
Vorið 1945 birtist útdráttur úr bók Hayeks, Leiðinni til ánauðar (The Road to Serfdom), í bandaríska tímaritinu Reader’s Digest. Hayek hélt því fram, að kommúnismi og nasismi væru tvær greinar af sama meiði. Alræðissinnar tuttugustu aldar hefðu snúið af braut sjálfsprottinnar samstillingar, sem mörkuð hefði verið á átjándu og nítjándu öld. En þar eð miðstýrður áætlunarbúskapur eins og nasistar og kommúnistar hugsuðu sér hann gæti aldrei náð tilgangi sínum, hlyti hann fyrr eða síðar að leiða til alræðis. Til þess að skipuleggja atvinnulífið yrði fyrst að skipuleggja mennina. Ólafur Björnsson þýddi þennan útdrátt á íslensku. Var hann prentaður í nokkrum hlutum í Morgunblaðinu sumarið 1945 og vakti mikla athygli og umræður. Árið 1978 gaf Ólafur út bókina Frjálshyggju og alræðishyggju, þar sem hann gerði skýra grein fyrir kenningum Hayeks, Mises og Karls Poppers um stjórnmál og atvinnulíf. Félag frjálshyggjumanna gaf síðan út greinasafn eftir Ólaf, Einstaklingsfrelsi og hagskipulag, á sjötugsafmæli hans 1982.
Frelsisverðlaun Kjartans Gunnarssonar hafa verið veitt árlega frá 2007. Þau eru kennd við Kjartan Gunnarsson, lögfræðing og fyrrverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, vegna baráttu hans áratugum saman fyrir auknu einstaklingsfrelsi. Sér Samband ungra sjálfstæðismanna um að velja verðlaunahafa. Þeir hafa verið:
- 2007: Rithöfundurinn Andri Snær Magnason og vefritið Andríki
- 2008: Margrét Pála Ólafsdóttir, forvígismaður einkaskóla, og Viðskiptaráð Íslands
- 2009: Davíð Scheving Thorsteinsson iðnrekandi og Hugmyndaráðuneytið
- 2010: Brynjar Níelsson lögfræðingur og InDefence-hópurinn
- 2011: Ragnar Árnason prófessor og Advice-hópurinn
- 2012: Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor og vefritið amx.is
- 2013: Gunnlaugur Jónsson og Samtökin 78
- 2014: Pawel Bartoszek og RNH