Rannsóknarráð

Ragnar Árnason, formaður rannsóknarráðsins, fæddist 1949. Hann lauk prófum í hagfræði og stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands, prófum í hagfræði og hagmælingum frá Hagfræðiskólanum í Lundúnum (LSE) og doktorsprófi í fiskihagfræði frá Háskólanum í Bresku Kólumbíu. Hann er prófessor í fiskihagfræði í Háskóla Íslands og hefur birt nokkrar bækur og fjölda fræðilegra ritgerða, aðallega í ritrýndum tímaritum á ensku, meðal annars í European Journal of Operational Research, Natural Resource Modeling og Marine Resource Economics. Hann hefur setið í bankaráði Seðlabanka Íslands frá 2009. Hann ritstýrði (ásamt Hannesi H. Gissurarsyni) greinasafninu Individual Transferable Quotas in Theory and Practice 1999 og (ásamt Birgi Þór Runólfssyni) greinasafninu Advances in Rights Based Fishing. The Role of Property in Fisheries Management 2008. Hér er viðtal við hann á ÍNN 2010. Umsögn hans vorið 2012 um frumvarp til laga um veiðigjöld er hér. Viðtal við hann á Stöð tvö 2012 um íslenskan sjávarútveg er hér. Ragnar fékk 2011 frelsisverðlaun ungra sjálfstæðismanna, sem kennd eru við Kjartan Gunnarsson. Hann flutti fyrirlestur um dreifingu rentu af fiskveiðum á alþjóðlegri ráðstefnu, sem RNH hélt 6. október 2012 um sjálfbærar og arðbærar fiskveiðar, og er hann hér á ensku.

 

Hannes H. Gissurarson fæddist 1953. Hann lauk B. A. prófi í heimspeki og sagnfræði og cand. mag. prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands og doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla, þar sem hann var R. G. Collingwood Scholar í Pembroke College 1984–1985. Hann hefur verið Institute for Humane Studies Scholar og Fulbright Scholar í Bandaríkjunum og Sasakawa-fræðimaður í Japan. Hann var framkvæmdastjóri Stofnunar Jóns Þorlákssonar 1983–1994 og er nú ritstjóri fræðirita RNH. Hann er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur gefið út fjölda bóka, þar á meðal ævisögur og heimspekirit. Hinar nýjustu eru Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör 2009, Kjarni málsins 2010 og Íslenskir kommúnistar 1918–1998 2011. Hér er viðtal við hann á ÍNN um Kjarna málsins 2010 og hér viðtal á sömu stöð um Íslenska kommúnista 2011, en hér viðtal í Sjónvarpinu um þá bók. Einnig þýddi Hannes og ritstýrði Svartbók kommúnismans 2009. Hér er ræða eftir hann frá því í febrúar 2012 um verkefnin framundan. Hann sat í stjórn Mont Pelerin Society 1998–2004 og í bankaráði Seðlabanka Íslands 2001–2009. Hann hlaut 2012 frelsisverðlaun ungra sjálfstæðismanna, sem kennd eru við Kjartan Gunnarsson. Hann flutti fyrirlestur um íslenska kommúnista 1918–1998 á alþjóðlegri ráðstefnu, sem RNH hélt 22. september 2012 um Evrópu fórnarlambanna, um fátækt á Íslandi á fundi Sagnfræðingafélagsins 9. október, um íslenska peningalykt í Þjóðarspeglinum 26. október, um Winston Churchill sem stjórnmálaskörung á fundi Churchill-klúbbsins á Íslandi 16. nóvember, um frjálshyggju og kapítalisma á fundi Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála 19. febrúar 2013, um ósýnilegu höndina á ráðstefnunni Forum da liberdade í Porto Alegre 9. apríl (og er viðtal við hann hér) og um bankahrunið íslenska á ráðstefnu á Bifröst 3. maí.

 

Birgir Þór Runólfsson fæddist 1962. Hann lauk hagfræðiprófum frá Lewis & Clark College og George Mason-háskóla og doktorsprófi í hagfræði frá George Mason-háskóla. Hann er varamaður í bankaráði Seðlabankans, dósent í hagfræði í Háskóla Íslands og hefur birt fjölda ritgerða um fiskveiðistjórnun og almannaval. Hann birti meðal annars ritgerðina „Fencing the Oceans: A Rights-Based Approach to Privatising Fisheries“ í Policy 1998, skrifaði skýrslu til sjávarútvegsráðuneytisins 1998, „Sjávarútvegur Íslendinga, þróun, staða og horfur,“ greinina „Eignarréttur er undirstaða hagkvæmni í fiskveiðum“ í Hagmál 2000 og var (ásamt Ragnari Árnasyni) ritstjóri greinasafnsins Advances in Rights Based Fishing: Extending the Role of Property in Fisheries Management, 2008. Hann bloggar reglulega á eyjan.is um efnahagsmál, með einu línuriti á hverju bloggi.

Comments are closed.