Almenna bókafélagið

Aatami Kuortti

Almenna bókafélagið á sér langa forsögu. Undir forystu Kristins E. Andréssonar og með stuðningi ráðstjórnarinnar í Moskvu náðu íslenskir kommúnistar verulegum ítökum í íslensku menningarlífi á fjórða og fimmta áratug tuttugustu aldar. Þeir réðu yfir fjölmennu bókafélagi, Máli og menningu, sem stofnað hafði verið 17. júní 1937, og ráku einnig bókaútgáfuna Heimskringlu. Þeir gáfu út tvö tímarit, Tímarit Máls og menningar og Rétt, sem veittu byltingarsinnuðum rithöfundum eins og Halldóri Laxness, Þórbergi Þórðarsyni, Jóhannesi úr Kötlum og Halldóri Stefánssyni eindreginn og fyrirvaralausan stuðning, jafnframt því sem gert var lítið úr frjálslyndum eða íhaldssömum rithöfundum, til dæmis Davíð Stefánssyni frá Fagraskógi, Tómasi Guðmundssyni skáldi og Guðmundi G. Hagalín rithöfundi. Um skeið starfaði einnig Félag byltingarsinnaðra rithöfunda, en það varð óþarft, þegar kommúnistar náðu fullum yfirráðum yfir Rithöfundafélagi Íslands 1944. Þá klofnaði það, að mestu leyti (en samt ekki að öllu leyti) eftir stjórnmálaskoðunum, og rithöfundar undir forystu Guðmundar G. Hagalíns stofnuðu Félag íslenskra rithöfunda.

Richard Krebs

Andstæðingar kommúnista gáfu út ýmis rit til að fræða íslenskan almenning um hina herskáu heimshreyfingu kommúnista og reynsluna af yfirráðum þeirra yfir stórum ríkjum. Eitt þessara rita var Þjónusta, þrælkun, flótti (Präst. Tvångsarbetare. Flykting á s.) eftir finnska prestinn Aatami Kuortti, en þar lýsti höfundur vist sinni í vinnubúðum ráðstjórnarinnar við heimskautsbaug. Kristilegt stúdentafélag gaf bókina út haustið 1938, um sama leyti og Gerska æfintýrið eftir Halldór Laxness birtist. Ísafoldarprentsmiðja gaf út tvö rit eftir rússneska andófsmanninn Ívan Solonevítsj, Í fjötrum (á þ. Rußland im Zwangsarbeitslager) 1942 og Flóttann (Flucht aus dem Sowjetparadies á þ.) 1944. Solonevítsj hafði setið í fangabúðum, en tekist að flýja. Þegar Menningar- og fræðslusamband alþýðu hugðist gefa út bókina Úr álögum (Out of the Night á e.) eftir Jan Valtin, öðru nafni Richard Krebs, sumarið 1941, brugðust kommúnistar ókvæða við og reyndu að koma í veg fyrir útgáfuna. Það tókst ekki, og kom fyrra bindið út 1941. En MFA treysti sér ekki til að gefa út seinna bindið, og voru „Nokkrir félagar“ skráðir fyrir því.

George Orwell. Teikning: Gunnar Karlsson

Lárus Jóhannesson, hæstaréttarlögmaður og alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn, gaf út nokkur rit um alræðisskipulagið, skáldsöguna Félaga Napóleon (Animal Farm) eftir George Orwell 1949 og Ég kaus frelsið. Sjálfsævisögu eftir rússneska flóttamanninn Víktor Kravtsjenko 1951. Jón Sigurðsson frá Kaldaðarnesi þýddi fyrri bókina, þótt þess væri þá ekki getið, en Lárus þýddi sjálfur síðari bókina, sem vakti mikla athygli. Málgagn kommúnista, Þjóðviljinn, dylgjaði um það, að Lárus hefði fengið fjárhagslegan stuðning frá Bandaríkjastjórn til að gefa út bók Kravtsjenkos. Snæfellsútgáfan gaf 1947 út skáldsögu Arthurs Koestlers, Myrkur um miðjan dag. Hún var um Moskvuréttarhöldin, þegar hreinsanir Stalíns í Ráðstjórnarríkjunum náðu hámarki. Kaflar úr bók Koestlers um kommúnisma, Glópnum og jálkinum (The Yogi and the Commissar), höfðu birst í Morgunblaðinu 1946. Þeir Geir Hallgrímsson og Eyjólfur Konráð Jónsson höfðu síðan forystu um lítið útgáfufélag nokkurra ungra manna, Stuðlaberg, sem gaf út fræðsluefni um alræðisstefnuna: greinasafnið Guðinn, sem brást. Sex staðreyndir um kommúnisma eftir Arthur Koestler, André Gide og fleiri 1950, hrollvekjuna Nítján hundruð áttatíu og fjögur eftir George Orwell 1951 og minningabókina Bóndann. El Campesino eftir Valentin Gonzalez 1952. Ísafoldarprentsmiðja gaf síðan 1954 út Konur í einræðisklóm (Als Gefangene bei Stalin und Hitler á þ.) eftir Margarete Buber-Neumann, en hún var handtekin í hreinsunum Stalíns og á meðal þeirra þýsku kommúnista, sem Stalín afhenti Hitler, eftir að þeir félagar gerðu griðasáttmála sumarið 1939.

Geir Hallgrímsson

Þeir Geir Hallgrímsson og Eyjólfur Konráð Jónsson gengu á fund Bjarna Benediktssonar, sem þá var menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, og reifuðu við hann hugmynd um öflugt bókafélag, sem væri skipulagt svipað og Mál og menning, en ekki í höndum alræðissinna. Bjarni tók hugmyndinni vel, og lýstu nokkrir kunnir rithöfundar yfir stuðningi við hana, þar á meðal þeir Gunnar Gunnarsson, Davíð Stefánsson, Tómas Guðmundsson, Guðmundur G. Hagalín, Kristján Albertsson og Kristmann Guðmundsson. Stofnað var félagið Stuðlar, sem vera skyldi bakhjarl Almenna bókafélagsins, og var Geir Hallgrímsson stjórnarformaður þess. Duglegastur að selja hluti í því félagi og safna þannig fé til að hrinda hugmyndinni í framkvæmd var Magnús Víglundsson kaupmaður. Almenna bókafélagið var síðan stofnað 17. júní 1955. Bjarni Benediktsson var formaður stjórnar þess frá upphafi og til æviloka. Eyjólfur Konráð Jónsson var fyrsti framkvæmdastjórinn, og gegndi hann því starfi til 1960, en þá tók Baldvin Tryggvason við af honum. Bókmenntaráð starfaði við hlið stjórnar, og var Gunnar Gunnarsson fyrsti formaður þess. Þorkell Jóhannesson sagnfræðiprófessor tók við af honum, en síðan var Tómas Guðmundsson lengi formaður.

Eyjólfur K. Jónsson

Í framkvæmdastjóratíð Eyjólfs Konráðs Jónssonar lét Almenna bókafélagið mjög að sér kveða. Eitt fyrsta verkið, sem það gaf út, var Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir eistneska menntamanninn Ants Oras. Einnig gaf það út Þjóðbyltinguna í Ungverjalandi eftir danska blaðamanninn Erik Rostböll, Hina nýju stétt eftir Milovan Djilas, Sívago lækni eftir Borís Pasternak, Dag í lífi Ívans Denísovítsj eftir Aleksandr Solzhenítsyn og mörg önnur rit, sem Mál og menning hefði aldrei gefið út, en það félag fékk reglulega háa fjárstyrki frá Ráðstjórnarríkjunum, og voru framkvæmdastjóra þess, Kristni E. Andréssyni, jafnvel greidd sérstök eftirlaun samkvæmt sérstakri samþykkt miðstjórnar kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna. Ekki var þó síður um það vert, að Almenna bókafélagið studdi við bakið á ýmsum rithöfundum, sem komið höfðu sér út úr húsi hjá kommúnistum með stuðningi við frelsi og lýðræði. Gaf það meðal annars út vönduð og vegleg ritsöfn Gunnars Gunnarssonar, Tómasar Guðmundssonar, Kristmanns Guðmundssonar og Guðmundar G. Hagalíns.

Bókmenntaráð AB um 1970. Frá v.: Tómas Guðmundsson (formaður), Kristján Albertsson, dr. Sturla Friðriksson, Matthías Johannessen, dr. Jóhannes Nordal, Indriði G. Þorsteinsson, Birgir Kjaran, Höskuldur Ólafsson og Guðmundur G. Hagalín. Þáverandi starfsmenn AB, Baldvin Tryggvason og Páll Bragi Kristjónsson, standa.

Eftir fráfall Bjarna Benediktssonar 1970 var Kristján Karlsson alþingismaður formaður stjórnar Almenna bókafélagsins til 1976, er Baldvin Tryggvason tók við af honum, en hann hafði þá látið af starfi framkvæmdastjóra félagsins. Brynjólfur Bjarnason varð þá framkvæmdastjóri, en síðan gegndu starfinu Kristján Jóhannsson, Óli Björn Kárason og Friðrik Friðriksson. Almenna bókafélagið lenti í erfiðleikum á níunda áratug, þótt það væri rekið til 1996, en þá var það tekið til gjaldþrotaskipta. Hinn gamli keppinautur Almenna bókafélagsins í menningarlífinu, Mál og menning, lenti einnig í rekstrarerfiðleikum, en varð ekki gjaldþrota, heldur sameinaðist öðrum útgáfufyrirtækjum, og eru enn gefnar út bækur undir merki Máls og menningar.

Jónas Sigurgeirsson tekur á móti frelsisverðlaunum SUS.

Árið 2011 keypti Bókafélagið, sem þá hafði starfað í nokkur ár undir forystu Jónasar Sigurgeirssonar, Almenna bókafélagið, og hafa ýmsar bækur síðan komið út undir merki Almenna bókafélagsins, þar á meðal þessar:

 • Íslenskir kommúnistar 1918–1998 eftir dr. Hannes Hólmstein Gissurarson prófessor, 2011
 • Uppsprettan eftir Ayn Rand í þýðingu Þorsteins Siglaugssonar, 2011
 • Icesave-samningarnir: Afleikur aldarinnar? eftir Sigurð Má Jónsson blaðamann, 2011
 • Undirstaðan eftir Ayn Rand í þýðingu Elínar Guðmundsdóttur, 2012
 • Búsáhaldabyltingin: sjálfsprottin eða skipulögð? eftir Stefán Gunnar Sveinsson sagnfræðing, 2013
 • Kíra Argúnova eftir Ayn Rand. Þýðandi er ókunnur, en Frosti Logason útvarpsmaður bjó hana til prentunar, og Ásgeir Jóhannesson skrifaði eftirmála, 2013
 • Tekjudreifing og skattar í ritstjórn Ragnars Árnasonar og Birgis Þórs Runólfssonar, en aðrir höfundar eru Hannes H. Gissurarson, Helgi Tómasson, Axel Hall og Arnaldur Sölvi Kristjánsson, 2014
 • Heimur batnandi fer eftir Matt Ridley í þýðingu Elínar Guðmundsdóttur, 2014
 • Andersen-skjölin: Rannsóknir eða ofsóknir? eftir Eggert Skúlason, 2015
 • Barnið sem varð að harðstjóra eftir Boga Arason, 2015
 • Eftirlýstur eftir Bill Browder í þýðingu Elínar Guðmundsdóttur, 2015
 • Gjaldeyriseftirlitið: Vald án eftirlits? eftir Björn Jón Bragason, 2016
 • Með lífið að veði eftir Yeonmi Park, 2017
 • Framfarir eftir Johan Norberg, 2017

Almenna bókafélagið er að endurútgefa á Netinu ýmsar bækur, sem komu út til varnar frelsinu í Kalda stríðinu og fyrir það og eftir og eru löngu ófáanlegar, þar á meðal Svartbók kommúnismans og mörg þeirra rita, sem getið er hér að ofan. Árin 2015–2017 komu út þessi rit:

 • Greinar um kommúnisma eftir Bertrand Russell, úr íslenskum blöðum 1937–1956
 • Konur í þrælakistum Stalíns eftir Elinor Lipper og Aino Kuusinen, úr íslenskum blöðum 1951–1974, síðari hlutinn í þýðingu Sveins Ásgeirssonar
 • Úr álögum eftir Jan Valtin (Richard Krebs) í þýðingu Emils Thoroddsens, en hún kom út í tveimur hlutum 1941 og 1944
 • Leyniræðan um Stalín eftir Níkíta Khrústsjov í þýðingu Stefáns Pjeturssonar ásamt Erfðaskrá Leníns í þýðingu Franz Gíslasonar
 • Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir Ants Oras í þýðingu sr. Sigurðar Einarssonar
 • Eistland. Smáþjóð undir oki erlends valds eftir Andres Küng í þýðingu Davíðs Oddssonar
 • El campesino — Bóndinn eftir Valentín González og Julián Gorkin í þýðingu Hersteins Pálssonar
 • Þjónusta, þrælkun, flótti eftir Aatami Kuortti í þýðingu sr. Gunnars Jóhannessonar
 • Ég kaus frelsið eftir Víktor Kravtsjenko í þýðingu Lárusar Jóhannessonar
 • Nytsamur sakleysingi eftir Otto Larsen í þýðingu Guðmundar G. Hagalíns
 • Ráðstjórnarríkin: Goðsagnir og veruleiki eftir Arthur Koestler í þýðingu Jens Benediktssonar

Fyrirhuguð er útgáfa nokkurra annarra bóka í þessari ritröð, þar á meðal Til varnar vestrænni menningu: Ræður sjö rithöfunda 1950–1958, Framtíð smáþjóðanna: Erindi 1945–1948 eftir Arnulf Øverland, Guðinn sem brást eftir Arthur Koestler, André Gide og fleiri og Konur í einræðisklóm eftir Margarethe Buber-Neumann. Einnig eru væntanleg rit um vestræna menningu og eignarrétt eftir sagnfræðingana Niall Ferguson og Richard Pipes. Þá er ætlunin að hafa ætíð ýmis frjálshyggjurit á boðstólum, setja þau á Netið og prenta eftir þörfum, m. a. Leyndardómar fjármagnsins eftir Hernando de Soto, Hagfræði í hnotskurn eftir Henry Hazlitt, Lögin eftir Fréderic Bastiat og Löstur er ekki glæpur eftir Lysander Spooner.

Comments are closed.