Auðlindanýting og umhverfisvernd

Eitt helsta verkefni rannsóknarsetursins RNH er að rannsaka, hvernig skynsamlegast sé að nýta auðlindir án þess að spilla umhverfinu. Þar á meðal eru rannsóknir á mengun, sóun auðlinda og dýrum í útrýmingarhættu. Sérstök áhersla er lögð á rannsóknir á kvótakerfinu í íslenskum sjávarútvegi.

RNH sækir hugmyndir til hinna mikilvægu verka Ronalds Coases og Harolds Demsetz um, hvernig einkaaðilar geti leyst úr margvíslegum vanda af neikvæðum áhrifum efnahagslegra athafna (til dæmis mengun) með frjálsum samningum sín í milli, og til brautryðjendaverka H. Scott Gordons og Anthonys Scotts um fiskihagfræði og sóun náttúruauðlinda með ótakmörkuðum aðgangi að þeim.

Dr. Ragnar Árnason prófessor, formaður rannsóknarráðs RNH, vinnur að fjölda ritgerða á ensku fyrir fræðileg tímarit um auðlindanýtingu. Umsögn hans vorið 2012 um frumvarp til laga um veiðigjöld er hér.

Dr. Hannes H. Gissurarson prófessor vinnur að bók um umhverfisvernd og atvinnufrelsi og að ritgerð um hvalveiðar, „The Case for (Sustainable) Whaling.“ Hlaða má niður bók hans frá 2000, Overfishing: The Icelandic Solution, sem Institute of Economics í Lundúnum gaf út, hér.

RNH hélt alþjóðlega ráðstefnu um sjálfbærar og arðbærar fiskveiðar í Háskóla Íslands 6. október 2012. Á meðal fyrirlesara voru Árni Mathiesen frá FAO, dr. Gunnar Haraldsson frá OECD, Michael Arbuckle frá Alþjóðabankanum, prófessor Þráinn Eggertsson og fiskihagfræðingarnir Ragnar Árnason, prófessor í Háskóla Íslands, og Rögnvaldur Hannesson, prófessor í Viðskiptaháskólanum í Björgvin.

Hannes H. Gissurarson hélt fyrirlestur á málstofu félagsvísindasviðs 26. október 2012 um „peningalykt“ frá sjónarmiði stjórnmálahagfræðinnar.

RNH hélt alþjóðlega ráðstefnu um fiskveiðar og veiðigjöld í Háskóla Íslands 14. október 2014. Var hún haldin í minningu Árna Vilhjálmssonar, prófessors og stjórnarformanns útgerðarfyrirtækisins Granda. Á meðal fyrirlesara voru einn kunnasti fiskihagfræðingur heims, prófessor Ralph Townsend, prófessor Ragnar Árnason, dr. Gunnar Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, og prófessor Hannes H. Gissurarson.

Mikið rit eftir dr. Matt Ridley, einn kunnasta vísindarithöfund heims, metsölubókin The Rational Optimist, sem hefur á íslensku hlotið heitið Heimur batnandi fer, kemur út á vegum Almenna bókafélagsins sumarið 2014, en með stuðningi RNH. Þar ræðir Ridley sérstaklega auðlindanýtingu og umhverfisvernd.

Um ráðstefnuna um fiskveiðar í Morgunblaðinu 11. október 2012.

Comments are closed.