Evrópa, Ísland og framtíð kapítalismans

RNH hefur ásamt AECR, Alliance of European Conservatives and Reformists, skipulagt fyrirlestraröð frá 2012 í Háskóla Íslands og víðar um Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans og jafnframt útgáfu bóka um þetta efni. Í fyrirlestrunum ræða innlendir og erlendir fræðimenn meðal annars, hvort kenna megi kapítalismanum um hina alþjóðlegu lánsfjárkreppu, sem reið yfir heiminn 2007–2008. Þeir svara einnig margvíslegri gagnrýni sósíalista á séreign og samkeppni, en þeir skipulögðu fyrirlestraröð í Háskóla Íslands veturinn 2009–2010 undir heitinu: „Eilífðarvélin: Uppgjör við nýfrjálshyggjuna“ — og gáfu út bók undir sama heiti. Eitt stefið eða umræðuefnið í fyrirlestraröðinni er á sambærilegan hátt: Frelsið til að vaxa og þroskast: Uppgjör við sósíalismann.

Matt Ridley á Íslandi 27. júlí 2012. Ljósm.: Birgir Ísl. Gunnarsson

Fyrstu fyrirlesarar árið 2012 voru breski rithöfundurinn Matt Ridley, sem talaði 27. júlí 2012 um óþarfa bölsýni um framtíð kapítalismans, og kanadíski hagfræðingurinn dr. Michael Walker frá Fraser Institute, sem talaði 17. september um mælingar á atvinnufrelsi í  heiminum, sérstaklega á Íslandi. Þá var haldin alþjóðleg ráðstefna í Háskóla Íslands 6. október um „Fiskveiðar: sjálfbærar og arðbærar“, þar sem erindi fluttu prófessor Þráinn Eggertsson, prófessor Ragnar Árnason, prófessor Rögnvaldur Hannesson, Árni Mathiesen, forstöðumaður fiskveiðimála hjá FAO, Gunnar Haraldsson, sérfræðingur OECD í fiskveiðimálum, og Michael Arbuckle, sérfræðingur Alþjóðabankans í fiskveiðimálum.

Kate Hoey

Næstu fyrirlesarar árið 2012 voru  íslenski stjórnmálafræðiprófessorinn Hannes H. Gissurarson, sem talaði hjá Sagnfræðingafélaginu 9. október um „Fátækt á Íslandi 1991–2004“ og svaraði þar ýmsum fullyrðingum sumra samkennara sinna; norski rithöfundurinn Jan Arild Snoen, sem talaði 15. október um skekkta mynd fjölmiðla af Bandaríkjunum; Hannes H. Gissurarson, sem talaði 26. október á málstofu félagsvísindasviðs um mengun og úrræði gegn henni á frjálsum markaði; bandaríski heimspekiprófessorinn Douglas Rasmussen, sem talaði 26. október um kenningar Ayns Rands í tilefnu útkomu Undirstöðunnar eftir Rand;  Mats Persson, framkvæmdastjóri Open Europe, sem talaði 12. nóvember um samrunaþróunina í Evrópu; dr. Daniel Mitchell, skattasérfræðingur Cato Institute í Washington DC, sem talaði 16. nóvember um rökin gegn stighækkandi tekjuskatti; Hannes H. Gissurarson, sem talaði hjá Churchill-klúbbnum 17. nóvember um „Stjórnmálaskörunginn Churchill“; breska þingkonan Kate Hoey, sem talaði hjá Þjóðráði 19. nóvember um „Hættuna við að ganga í Evrópusambandið“.

Philip Booth 13. mars 2013 á Íslandi.

Fyrsti fyrirlesarinn árið 2013 var dr. Nils Karlson frá Ratio Institute í Stokkhólmi, sem talaði 14. janúar um nýju sænsku leiðina 14. janúar. Annar fyrirlesarinn var dr. Hannes H. Gissurarson stjórnmálafræðiprófessor, sem talaði 19. febrúar um „Frjálshyggjuna, kreppuna og kapítalismann“. Næstu fyrirlesarar voru breski hagfræðiprófessorinn Phil Booth, sem talaði 13. mars um raunverulegar orsakir fjármálakreppunnar frá 2008, og Martha Andreasen, fyrrverandi yfirbókari framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sem talaði 30. ágúst um spillinguna innan ESB. Matthew Elliott, einn af stofnendum bresku Skattgreiðendasamtakanna, lýsti því 20. september 2013, hvernig borgararnir gætu varist sífellt ágengara og ágjarnara ríki.

Eamonn Butler 7. október 2013 á Íslandi.

7. október 2013, fimm árum eftir íslenska bankahrunið, hélt RNH alþjóðlega ráðstefnu í Reykjavík um fjármálakreppuna og áhrif hennar á Íslandi. Dr. Eamonn Butler, forstöðumaður Adam Smith-stofnunarinnar í Lundúnum, ræddi um orsakir fjármálakreppunnar, og dr. Pythagoras Petratos, kennari í fjármálafræði í Said School of Business í Oxford-háskóla, lýsti hlutskipti Kýpur. Prófessor Hannes H. Gissurarson greindi orsakir bankahrunsins íslenska, og dr. Ásgeir Jónsson, lektor í hagfræði í Háskóla Íslands og höfundur bókar á ensku um hrunið, ræddi um „eftirhrunið“, þau mál, sem enn eru óleyst. Fæðingardagur Margrétar Thatchers, sem lést á árinu, er 13. október, og þann dag flutti breski rithöfundurinn John O’Sullivan, sem starfaði lengi með Thatcher, fyrirlestur um „hina raunverulegu járnfrú“. 14. október 2013 hélt RNH alþjóðlega ráðstefnu í Reykjavík um kvótakerfi og veiðigjald, og var Ralph Townsend, prófessor í Maine-háskóla, aðalræðumaður, en einnig fluttu þar erindi prófessor Ragnar Árnason um veiðigjald, dr. Gunnar Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, um fiskveiðistefnu Evrópusambandsins, CFP, og prófessor Hannes H. Gissurarson um siðferðileg og stjórnmálaleg sjónarmið, þegar myndaður væri eignarréttur á náttúruauðlindum.

Jón Steinar.

29. október 2013 leiddu saman hesta sína Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, og Helgi Áss Grétarsson, dósent í lögum í Háskóla Íslands, og ræddu þeir um veiðigjald í sjávarútvegi, sem Jón Steinar telur stjórnarskrárbrot. 4. nóvember 2013 talaði dr. Daniel Mitchell, skattasérfræðingur Cato-stofnunarinnar, um það, hvernig hætta mætti að fóðra tröllið, en með því er átt við sívaxandi ríkisbákn. Forstöðumaður rannsókna í RNH, prófessor Hannes H. Gissurarson, flutti marga fleiri fyrirlestra á árinu, aðallega um íslenska bankahrunið og framtíð kapítalismans, í Porto Alegre 9. apríl 2013, á Bifröst 3. maí, í Vilnius 12. september, Cambridge 22. september, Stokkhólmi 29. október og Búdapest 15 November.

François Heisbourg.

Fyrirlestraröðin hélt áfram 2014. Breski rithöfundurinn og bloggarinn dr. Richard North velti 30. janúar 2014 fyrir sér, hvaða kosti Bretar ættu, gengju þeir úr Evrópusambandinu, og þótti honum álitleg aðild að nýju og breyttu Evrópsku efnahagssvæði, EES. Einn kunnasti sérfræðingur Evrópu í öryggismálum, François Heisbourg, varpaði því fram 5. apríl 2014, hvort evran væri að ganga af ESB dauðu. Taldi hann myntbandalagið krefjast miklu víðtækari samruna en Evrópusambandsþjóðirnar væru reiðubúnar að gangast undir. Hannes H. Gissurarson hélt fyrirlestra um ýmsar hliðar bankahrunsins 2008 í Reykjavík 14. mars 2014, Berlín 15. mars, Þórshöfn í Færeyjum 22. mars og Las Vegas 14. apríl. Hann ræddi enn fremur um áhrif netsins á einstaklingsfrelsi í Porto Alegre 25. maí og Curitiba 31. maí.

Robert Lawson á Íslandi.

Í júlí 2014 var öld liðin frá því, að Norðurálfuófriðurinn mikli (síðar kallaður heimsstyrjöldin fyrri) skall á, en þá lá við, að frjálsræðisskipulag Vesturlanda ylti um koll. Prófessor Robert Lawson, einn af höfundum alþjóðlegrar vísitölu atvinnufrelsis, lýsti í fyrirlestri 28. júlí samsetningu vísitölunnar og helstu ályktunum, sem draga má af henni. Prófessor Hannes H. Gissurarson hélt nokkur erindi á áliðnu ári 2014: Þrjú þeirra voru á norræna stjórnmálafræðingamótinu í Gautaborg 12.–15. ágúst, og voru þau um Icesave-deilu Íslendinga og Breta, um bankahrunið 2008 og um íslenska velferðarríkið; eitt var á alþjóðlegri ráðstefnu í Manhattanville í New York-ríki 10. október um, hvernig vinna mætti úr kenningu Friedrichs A. von Hayeks um sjálfsprottna þróun; eitt var á alþjóðlegri ráðstefnu Evrópusamtaka frjálshyggjustúdenta (ESFL) í Björgvin 18. október um kröfu franska hagfræðingsins Thomasar Pikettys um tekjujöfnun; eitt var á ráðstefnu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands 31. október um skýringar á fjandskap bresku Verkamannaflokksstjórnarinnar í garð Íslendinga; eitt var 27. nóvember í Institute of Economic Affairs í Lundúnum um, hvers vegna Ísland hefði í fjármálakreppunni 2007–2008 verið skilið eftir úti í kuldanum.

Corbett Grainger

Almenna bókafélagið hélt ásamt RNH móttöku 21. ágúst 2014 í tilefni þess, að út var komið greinasafn um tekjudreifingu og skatta, sem þeir Ragnar Árnason prófessor og Birgir Þór Runólfsson dósent ritstýrðu, en þeir eru báðir í rannsóknaráði RNH. Málstofa var síðan um tekjudreifingu og skatta 24. október 2014, þar sem prófessor Corbett Grainger reifaði helstu röksemdir gegn auðlindaskatti og fyrir myndun einkanýtingarréttinda á auðlindum, prófessor Ragnar Árnason benti á skekkjur í mælingum á tekjudreifingu og prófessor Hannes H. Gissurarson gagnrýndi kröfu Thomasar Pikettys um alþjóðlega endurdreifingu tekna.

Tara Smith

Almenna bókafélagið gaf 30. október 2014 út bók Matts Ridleys, Heimur batnandi fer (The Rational Optimist), í íslenskri þýðingu, og af því tilefni kom Ridley til Íslands og hélt erindi á málstofu RNH. Prófessor Þráinn Eggertsson ræddi um helstu hugmyndir Ridleys, og Birgir Þór Runólfsson dósent lýsti einu dæmi um það, hvernig leysa má samnýtingarvandann um auðlindir, en það er kvótakerfið íslenska. RNH studdi alþjóðlega ráðstefnu Evrópusamtaka frjálshyggjustúdenta í Reykjavík 15. nóvember 2014, en þar talaði Birgir Þór Runólfsson um helstu stofnanir og reglur íslenska þjóðveldisisins og Hannes H. Gissurarson um kenningar Pikettys um fjármagn og tekjudreifingu á 21. öld. RNH hélt áfram að kynna hugmyndir Ayns Rands, eins helsta talsmanns frjálsræðisskipulagsins á tuttugustu öld: Prófessor Tara Smith hélt erindi 24. nóvember 2014 um siðferðikenningu Rands, einkum hugmyndina um peninga sem frelsisauka.

Málstofan 14. janúar. Ljósm. Árni Sæberg.

Fyrirlestraröð RNH og AECR hélt áfram árið 2015. Dr. Guðni Jóhannesson sagnfræðingur og Hannes H. Gissurarson prófessor töluðu á málstofu RNH 14. janúar 2015 um ný gögn um íslenska bankahrunið. Hannes flutti einnig erindi á nokkrum ráðstefnum á öndverðu árinu: 9. apríl talaði hann á morgunverðarfundi hugveitunnar Ratio í Stokkhólmi um samskipti Íslendinga og Svía, ekki síst í bankahruninu; 11. apríl rifjaði hann á árlegri ráðstefnu Evrópusamtaka frjálshyggjustúdenta í Berlín upp kynni sín af þeim Friedrich A. von Hayek, Karli Popper og Milton Friedman; 21. apríl lýsti hann á ráðstefnu Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands sölu eigna hinna föllnu íslensku banka 2008–2014, meðal annars sölu FIH banka í Danmörku; 30. apríl gagnrýndi hann í Verslunarháskólanum í Tallinn í Eistlandi kenningar Thomasar Pikettys.

Ragnar Árnason 3. október 2015.

RNH studdi alþjóðlega ráðstefnu Evrópusamtaka frjálshyggjustúdenta í Reykjavík 3. október 2015, en þar talaði Ragnar Árnason prófessor um hagfræðilegu rökin fyrir eignarrétti. RNH stóð ásamt félagsvísindasviði og hagfræðideild Háskóla Íslands að ráðstefnu 8. október 2015 um umhverfisvernd og auðlindanýtingu til heiðurs Rögnvaldi Hannessyni prófessor. Þar töluðu auk Rögnvalds prófessor Bengt Kriström frá Umeå-háskóla Svíþjóð og Julian Morris frá Reason Foundation í Bandaríkjunum. Tilefni ráðstefnunnar var útkoma bókarinnar Ecofundamentalism eftir Rögnvald. Hannes H. Gissurarson flutti fyrirlestur um „Liberty in Iceland, 930–2015“ á ráðstefnu Evrópusamtaka frjálshyggjustúdenta í Sofíu í Búlgaríu 17. október 2015. Ragnar Árnason og Hannes H. Gissurarson fluttu báðir erindi í Þjóðarspeglinum 30. október 2015, Ragnar um hagkvæma og sjálfbæra skuldastöðu þjóðarbúsins, Hannes um tilraunir frá 1518 til 1868 til að veðsetja Ísland, selja eða rýma.

Áheyrendur á fyrirlestri Browders 20. nóvember 2015.

Hannes H. Gissurarson flutti fyrirlestur á fundi RNH og Stofnunar stjórnmála og stjórnsýslu í Háskóla Íslands 5. nóvember 2015 um „Sköpunargleði í stað sníkjulífs: Siðferðilega vörn Ayns Rands fyrir kapítalismanum“. RNH studdi fund Politica, félags stjórnmálafræðinema, 12. nóvember 2015 um „Valdatíð Davíðs“, en þar voru framsögumenn Hannes H. Gissurarson prófessor, Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra, og dr. Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst og fyrrverandi alþingismaður. Var fundurinn tekinn upp og settur á Youtube og fluttur á sjónvarpsstöðinni ÍNN. Bandaríski fjárfestirinn Bill Browder flutti erindi 20. nóvember 2015 um „Rússland Pútíns“ á vegum RNH og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands. Af því tilefni gaf Almenna bókafélagið út metsölubók Browders, Eftirlýstur (Red Notice), þar sem höfundur lýsir tilraunum Pútíns til að berja niður andóf í Rússlandi og sölsa undir sig og klíku sína auð landsins.

Auk þeirra rita, sem þegar hafa verið nefnd, Heimur batnandi fer eftir Matt Ridley, Tekjudreifing og skattar eftir Ragnar Árnason og fleiri, og Eftirlýstur eftir Bill Browder, hefur Almenna bókafélagið í samstarfi við RNH gefið út nokkur frumsamin rit um íslensk þjóðmál: Icesave-samningarnir — Afleikur aldarinnar? eftir Sigurð Má Jónsson 2011; Búsáhaldabyltingin — Sjálfsprottin eða skipulögð? eftir Stefán Gunnar Sveinsson sagnfræðing 2013; og Andersen-skjölin — Rannsóknir eða ofsóknir? eftir Eggert Skúlason blaðamann 2015. Er útgáfa þeirra þáttur í samstarfsverkefninu „Evrópa, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Comments are closed.