Eitt helsta verkefni rannsóknarsetursins RNH er að halda á lofti minningu fórnarlamba alræðisstefnu tuttugustu aldar, nasisma og kommúnisma, en alræðissinnar hafna því frelsi til orða og athafna, sem leiðir til nýsköpunar og hagvaxtar. Flestir viðurkenna að vísu, að dómur sögunnar sé þegar genginn um nasismann vegna myrkraverka hans. En sumir tregðast við að viðurkenna illvirki kommúnista, þar sem þeir hrifsuðu til sín völd. Samkvæmt Svartbók kommúnismans, sem fyrst kom út á frönsku árið 1997, féllu hátt í eitt hundrað milljón manna á tuttugustu öld af völdum kommúnismans.
Árið 2005 kom út á íslensku hjá Uglu Kommúnisminn. Sögulegt ágrip eftir Richard Pipes, sagnfræðiprófessor í Harvard-háskóla, í þýðingu Jakobs F. Ásgeirssonar og Margrétar Gunnarsdóttur. Bókin er stutt og skýr greinargerð um það böl, sem af kommúnismanum hefur leitt.
Árið 2009 kom út á íslensku hjá Háskólaútgáfunni Svartbók kommúnismans eftir Stéphane Courtois og fleiri franska fræðimenn í þýðingu dr. Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar prófessors, sem einnig ritstýrði útgáfunni.
Árið 2009 kom út á íslensku hjá Uglu bókin Nótt eftir bandaríska rithöfundinn Elie Wiesel, sem er af rúmenskum gyðingaættum og var á unglingsárunum sendur í útrýmingarbúðir nasista, fyrst í Auschwitz, síðan í Buchenwald. Lýsir hann vistinni þar í bókinni. Stefán Einar Stefánsson þýddi.
Árið 2010 kom út hjá Uglu bókin Sovét-Ísland. Óskalandið eftir dr. Þór Whitehead prófessor, þar sem lýst er starfsemi íslenskra kommúnista, tengslum þeirra við valdsmenn í Moskvu og ofbeldi þeirra í stjórnmálaátökum og vinnudeilum. Hér er viðtal Björns Bjarnasonar við hann um bókina.
Árið 2011 kom út hjá Almenna bókafélaginu bókin Íslenskir kommúnistar 1918–1998 eftir dr. Hannes Hólmstein Gissurarson prófessor, en þar er yfirlit yfir sögu íslenskra kommúnista og sósíalista, allt frá því að þeir störfuðu í Alþýðuflokknum sem minni hluti og fram til þess að Alþýðubandalagið var lagt niður. Lesa má hér um fund, sem Sagnfræðingafélagið hélt gegn ritum þeirra Þórs og Hannesar Hólmsteins. Hér er viðtal við höfund í Kastljósi sjónvarpsins vegna bókarinnar og hér viðtal Björns Bjarnasonar á ÍNN af sama tilefni. Hér er yfirlit yfir ýmislegt fréttnæmt í bók hans. Hér er svar hans við gagnrýni Péturs Tyrfingssonar á bók hans. Hér er svar hans við gagnrýni Árna Björnssonar á sama verk.
Árið 2011 kom út hjá Uglu bókin Engan þarf að öfunda eftir Barböru Demick, sem stýrði Kína-skrifstofu bandaríska stórblaðsins Los Angeles Times. Er hún um kúgunina í Norður-Kóreu, einu af örfáum kommúnistaríkjum, sem eftir eru í heiminum. Elín Guðmundsdóttir þýddi.
Árið 2011 kom út hjá Uglu bókin Roðinn í austri eftir Snorra G. Bergsson sagnfræðing, þar sem rakin er í smáatriðum saga íslenskra kommúnista fram til 1924. Ritið er hið fyrsta úr viðamikilli rannsókn Snorra á sögu íslenskra kommúnista.
Árið 2012 kom út hjá Uglu bókin Stasiland. Sögur af fólki handan Berlínarmúrsins eftir Önnu Funder, en þar lýsir höfundur lögregluríkinu í Austur-Þýskalandi, sem hrundi um leið og Berlínarmúrinn 9. nóvember 1989. Elín Guðmundsdóttir þýddi.
27. febrúar 2012 hélt danski sagnfræðiprófessorinn Bent Jensen erindi um norrænan kommúnisma og eðli hinnar alþjóðlegu kommúnistahreyfingar. Jensen hefur skrifað fjölda bóka um danska kommúnista og haft umsjón með rannsóknarverkefni um þátt þeirra í kalda stríðinu.
10. september 2012 hélt danski sagnfræðiprófessorinn Niels Erik Rosenfeldt erindi um leynistarfsemi Alþjóðasambands kommúnista, Kominterns, en hann hefur sérstaklega rannsakað hana í skjalasöfnum í Moskvu.
Laugardaginn 22. september 2012 hélt RNH alþjóðlega ráðstefnu í Reykjavík undir yfirskriftinni: „Evrópa fórnarlambanna: Glæpir kommúnismans í sögulegu ljósi.“ Á meðal fyrirlesara voru Stéphane Courtois, Anna Funder og Hannes H. Gissurarson. Einnig töluðu þar Dr. Roman Joch, ráðgjafi forsætisráðherra Tékklands í utanríkismálum, Øystein Sørensen, sagnfræðiprófessor í Oslo og sérfræðingur í hugmyndum alræðissinna, og Þór Whitehad, sagnfræðiprófessor í Háskóla Íslands.
Föstudaginn 2. nóvember 2012 hélt prófessor Hannes H. Gissurarson erindi um deilur íslenskra sagnfræðinga um ævisögu Maós eftir þau Jung Chang og Jon Halliday. Langar ádeilur höfðu birst á ævisöguna í Sögu og Lesbók Morgunblaðsins.
Dagana 14.–15. maí 2013 tók prófessor Hannes H. Gissurarson þátt í málstofu í Varsjá um, hvernig best væri að halda á lofti minningu fórnarlamba alræðisstefnunnar. Málstofuna hélt Evrópuvettvangur minningu og samvisku, PEMC, í samstarfi við þrjár stofnanir, Minningarsafnið um uppreisnina í Varsjá, MPW, Rannsóknarstofnun um alræðisstjórnir í Prag, USTR, og Þjóðminningarstofnun Póllands, IPN. RNH gerðist síðan aðili að Evrópuvettvangnum á aðalfundi hans í Haag 12. nóvember 2013, og við það tækifæri skýrði prófessor Hannes H. Gissurarson stuttlega frá verkefninu „Evrópu fórnarlambanna“.
Evrópuþingið hefur gert 23. ágúst að minningardegi fórnarlamba alræðisstefnunnar, og 23. ágúst 2013 var opnuð í Þjóðarbókhlöðunni myndasýning um heimskommúnismann og Ísland, sem prófessor Hannes H. Gissurarson hafði haft umsjón með. Við þetta tækifæri fluttu dr. Mart Nutt, sagnfræðingur og þingmaður frá Eistlandi, og dr. Pawel Ukielski, forstöðumaður safnsins um uppreisnina í Varsjá 1944, erindi um hlutskipti landa sinna undir alræðisstjórn. Þegar sýningunni var lokað 14. september, flutti sagnfræðingurinn dr. Andreja Zver frá Slóveníu erindi um, hvers vegna þyrfti að minnast fórnarlambanna.
Almenna bókafélagið gaf 1. nóvember 2013 út skáldsöguna Kíru Argúnovu eftir rússnesk-bandaríska metsöluhöfundinn Ayn Rand, en þar styðst Rand við reynslu sína af alræðisstjórninni rússnesku. Dr. Yaron Brook frá Ayn Rand-stofnuninni í Kaliforníu fylgdi bókinni úr hlaði með ræðu um siðferðiskenningu Rands.
Réttur aldarfjórðungur er 9. nóvember 2014 liðinn frá hruni Berlínarmúrsins og falli kommúnismans. Við það tilefni gefur Almenna bókafélagið út á Netinu fjölda bóka, sem komið hafa út á íslensku til varnar frelsinu og gegn alræðisstefnu kommúnista, sósíalista, fasista og nasista, þar á meðal Svartbók kommúnismans.