Félag frjálshyggjumanna

Félag frjálshyggjumanna var stofnað 8. maí 1979, á áttræðisafmæli Friedrichs A. von Hayeks. Tilgangur þess var að miðla upplýsingum um frjálshyggju með fyrirlestrum, ritum og öðrum ráðum. Átt var þá við frjálshyggju í sígildum skilningi, eins og Hayek og ýmsir aðrir hugsuðir höfðu skýrt hana, John Locke og Adam Smith, Alexis de Tocqueville og Acton lávarður, Ludwig von Mises, Milton Friedman og James M. Buchanan. Í stjórn félagsins sátu Friðrik Friðriksson, formaður, Árni Sigfússon, Auðun Svavar Sigurðsson, Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, Hreinn Loftsson og Skafti Harðarson.

Fyrsti opinberi fundur Félags frjálshyggjumanna var fyrirlestur, sem David Friedman hélt um íslenska þjóðveldið í ágúst 1979. Friedman hélt því fram, að Þjóðveldið væri merkilegt fyrirbæri frá fræðilegu sjónarmiði séð, þar eð réttarvarsla hefði verið þar í höndum einstaklinga. Ekkert eiginlegt ríkisvald hefði verið þar til. Annar fundur félagsins var í nóvember 1979. Þar sagði Ólafur Björnsson prófessor frá Ludwig von Mises og þeim röksemdum hans gegn miðstýrðum áætlunarbúskap, að þar væru skynsamlegir útreikningar óframkvæmanlegir.

Hayek flytur fyrirlestur um „Miðju-moðið“ á fundi Félags frjálshyggjumanna í Reykjavík 5. apríl 1980.

Friedrich A. von Hayek var gestur Félags frjálshyggjumanna vorið 1980. Hann hélt hér tvo fyrirlestra. Hinn fyrri var í Háskóla Íslands 2. apríl og bar heitið „Skipulag peningamála“. Þar hélt Hayek því fram, að eina leiðin til að takmarka þráláta misnotkun seðlaprentunarvaldsins væri að leyfa frjálsa samkeppni í seðlaútgáfu. Síðari fyrirlestur Hayeks var á fundi Félags frjálshyggjumanna 5. apríl um „Miðju-moðið“. Þar gagnrýndi Hayek John Stuart Mill fyrir að hafa gert greinarmun á lögmálum um sköpun verðmætanna og skiptingu þeirra. Hugmyndir jafnaðarmanna á tuttugustu öld stæðu og féllu með þessum greinarmun. En sannleikurinn væri sá, sagði Hayek, að menn fengju ekki nauðsynlegar upplýsingar um, hvernig þeir ættu að skapa verðmætin, nema þeir fengju að skiptast á þeim í frjálsum viðskiptum á markaði. Skipting verðmætanna væri ekki aðeins afleiðing af slíkum skiptum, heldur líka ómissandi leiðbeining um það, hvernig þeir ættu að nota hæfileika sína öðrum til gagns.

Í Íslandsför sinni bauð Hayek einum stjórnarmanni Félags frjálshyggjumanna, Hannesi H. Gissurarsyni, sem þá stundaði nám í sagnfræði og heimspeki í Háskóla Íslands, að sækja þing Mont Pelerin Society í Stanford í Kaliforníu. Það var í fyrsta skipti, sem Íslendingur kom þar á fund. Næstu árin sóttu nokkrir stjórnarmenn í Félagi frjálshyggjumanna samkomur Mont Pelerin Society, þeir Hannes, Friðrik Friðriksson og Skafti Harðarson. Hannes H. Gissurarson varð félagi í Mont Pelerin Society 1984, en þá stundaði hann doktorsnám í stjórnmálafræði í Oxford-háskóla. Með þessu tengdist Félag frjálshyggjumanna hinni alþjóðlegu hreyfingu frjálshyggjufólks.

Félag frjálshyggjumanna hóf 1980 útgáfu ársfjórðungsrits, sem nefndist Frelsið. Hannes H. Gissurarson var ritstjóri þess, en fimm menn sátu í ritnefnd, Gísli Jónsson norrænufræðingur, Jónas Haralz bankastjóri, Matthías Johannessen skáld, Ólafur Björnsson prófessor og Þorsteinn Sæmundsson stjarneðlisfræðingur. Margar greinar um frjálshyggju og erindi hennar til Íslendinga birtust næstu árin í Frelsinu, þar á meðal einkaviðtal við heimspekinginn Karl R. Popper, sem Hannes H. Gissurarson tók á heimili Poppers í Penn, Buckinghamshire. Ýmsir fyrirlestrar erlendra gesta voru einnig birtir í íslenskum þýðingum. Guðmundur Magnússon tók við ritstjórn tímaritsins 1987.

Comments are closed.