Evrópa fórnarlambanna

„Evrópa fórnarlambanna: Kommúnisminn í sögulegu ljósi“ er röð fyrirlestra, útgáfuverka og viðburða, sem RNH hefur skipulagt frá 2012 ásamt ACRE, Evrópusamtökum íhalds- og umbótamanna (áður AECR). Fyrsti viðburðurinn var 27.  febrúar 2012, þegar danski sagnfræðiprófessorinn Bent Jensen talaði um kommúnista á Norðurlöndum og tengsl þeirra við ráðamenn í Moskvu. Dr. Guðni Jóhannesson, forseti Sögufélagsins, var fundarstjóri. Annar viðburðurinn var, þegar danski sagnfræðiprófessorinn Niels Erik Rosenfeldt hélt opinberan fyrirlestur í sameiginlegu boði RNH og Varðbergs í Háskóla Íslands mánudaginn 10. september 2012 um leynistarfsemi Kominterns, alþjóðasambands kommúnista, sem starfaði 1919–1943 og kommúnistaflokkur Íslands var aðili að. Rosenfeldt er viðurkenndur alþjóðlegur sérfræðingur um þetta mál, og nýlega kom út tveggja binda verk hans á ensku um það. Björn Bjarnason, fyrrv. dómsmálaráðherra, var fundarstjóri.

Einn stærsti liðurinn í þessu verkefni var alþjóðleg ráðstefna í Háskóla Íslands laugardaginn 22. september 2012. Fyrirlesarar voru Stéphane Courtois, ritstjóri og einn aðalhöfundur Svartbókar kommúnismans, dr. Roman Joch, ráðgjafi forsætisráðherra Tékklands í utanríkismálum, Oystein Sorensen, prófessor í Háskólanum í Osló og sérfræðingur um alræðisstefnur, dr. Hannes H. Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, og Anna Funder, höfundur bókarinnar Stasiland. Nánar má fræðast um fyrirlesarana hér. Fundarstjórar voru Egill Helgason sjónvarpsmaður, Jakob F. Ásgeirsson, stjórnmálafræðingur og rithöfundur, og Ragnhildur Kolka bókmenntafræðingur. Stéphane Courtois kom fram í Silfri Egils, sem skoða má  hér, og Anna Funder í Kiljunni, sem skoða má hér.

Fyrir og eftir ráðstefnuna komu einstakir fyrirlesarar á henni sérstaklega fram. Prófessor Øystein Sørensen hélt erindi um „Alræðishugarfar Anders Breiviks“ á vegum RNH og Varðbergs föstudaginn 21. september 2012 kl. 12–13 á Háskólatorgi, HT-102, í Háskóla Íslands. Björn Bjarnason, fyrrv. dómsmálaráðherra, var fundarstjóri. Anna Funder sagði frá nýútkominni skáldsögu sinni, All That I Am, sem hlotið hefur mikið lof og fjölda verðlauna, á fundi Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum í Háskóla Íslands mánudaginn 24. september 2012 kl. 12–13 í stofu O-201 í Odda í Háskóla Íslands. Martin Regal, prófessor í ensku, var fundarstjóri.

Sjötti viðburður í samstarfsverkefninu var, að Hannes H. Gissurarson hélt uppi vörnum fyrir kínverska rithöfundinn Jung Chang, sem skrifaði ásamt Jon Halliday fræga ævisögu Maós formanns, á fundi Konfúsíusarstofnunarinnar í Háskóla Íslands föstudaginn 2. nóvember 2012 kl. 12–13, í stofu 207 í aðalbyggingu Háskólans. Forstöðumaður Konfúsíusarstofnunar, Magnús Björnsson, var fundarstjóri. Hér má sjá, hvað helst þótti fréttnæmt í bók Hannesar um Íslenska kommúnista 1918–1998. Hér eru svör hans við gagnrýni Péturs Tyrfingssonar og hér við gagnrýni Árna Björnssonar.

Sjöundi viðburður í verkefninu var þátttaka Hannesar H. Gissurarsonar í málstofu í Varsjá 14.–15. maí 2013 um þjóðarmorð og minninguna um þau. Málstofuna hélt Evrópuvettvangur minningu og samvisku, PEMC, í samstarfi við þrjár stofnanir, safnið um uppreisnina í Varsjá 1944, MPW, Rannsóknarstofnun um alræðisstjórnir í Prag, USTR, og Þjóðminningarstofnun Póllands, IPN.

Davíð Oddsson tekur við merki af eistneska fánanum úr hendi dr. Marts Nutts. Ljósm. Ómar Óskarsson.

Næsti viðburður og hinn áttundi í röðinni var 23. ágúst 1013, en Evrópuþingið hefur gert þann dag að sérstökum minningardegi um fórnarlömb alræðisstefnunnar, nasisma og kommúnista, því að 23. ágúst 1939 gerðu Hitler og Stalín griðasáttmála sinn, sem hleypti af stað heimsstyrjöldinni síðari. Föstudaginn 23. apríl 1013 kl. 16 var sérstök myndasýning um „Heimskommúnismann og Ísland“ opnuð í Þjóðarbókhlöðunni, og voru myndirnar valdar úr bók Hannesar H. Gissurarsonar, Íslenskum kommúnistum 1918–1998. Í tengslum við opnun sýningarinnar fluttu dr. Mart Nutt, sagnfræðingur og þingmaður á eistneska þinginu, og dr. Pawel Ukielski, forstöðumaður safnsins um uppreisnina í Varsjá 1944, erindi um lönd sín undir oki kommúnisma og nasisma. Hannes H. Gissurarson stjórnaði fundinum, sem Þjóðarbókhlaðan, Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og Varðberg, samtök um vestræna samvinnu og alþjóðastjórnmál, stóðu að ásamt RNH.

Illugi Gunnarsson og Andreja Zver. Ljósm.: Ólafur Engilbertsson.

Myndasýningunni lauk mánudaginn 16. september 2013, og við það tækifæri flutti sagnfræðingurinn dr. Andreja Zver frá Slóveníu erindi um það, hvers vegna við mættum ekki gleyma fórnarlömbum alræðisstefnunnar í Evrópu. Fundarstjóri var Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra. Þjóðarbókhlaðan, Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og Varðberg, samtök um vestræna samvinnu og alþjóðastjórnmál, stóðu að fundinum ásamt RNH. Á honum afhenti Hannes H. Gissurarson handritadeild Landsbókasafnsins afrit af skjölum þeim í söfnum í Moskvu, sem dr. Arnór Hannibalsson prófessor hafði fundið, en þegar heilsa Arnórs brast, lét hann Hannes fá þessi skjöl til að vinna úr. Arnór lést í árslok 2012, og var þessi fundur haldinn til minningar um hann.

Tíundi viðburðurinn í þessu samstarfsverkefni var, þegar Dr. Yaron Brook, forstöðumaður Ayn Rand-stofnunarinnar í Kaliforníu, fylgdi 1. nóvember 2013 úr hlaði skáldsögu Ayns Rands, Kíru Argúnovu, sem er sótt í reynslu höfundar af kúgun kommúnista í Rússlandi á fyrstu stjórnarárum þeirra. Almenna bókafélagið gaf bókina út.

Hannes H. Gissurarson lýsti samstarfsverkefninu um „Evrópu fórnarlambanna“ á fundi Evrópuvettvangs minningar og samvisku, Platform of European Memory and Conscience, PEMC, í Haag 12. nóvember 2013. Við sama tækifæri gerðist RNH aðili að Evrópuvettvangnum, en hafði áður starfað með honum. Tólfti viðburðurinn var þátttaka Hannesar í ráðstefnu í Prag 12.–13. júní 2014 um arfleifð alræðisstefnunnar og hinn 13. þátttaka hans í málstofu í Prag 29. júlí 2014 um réttlæti handa fórnarlömbum alræðisstefnunnar.

Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður tekur við bókagjöfinni 23. ágúst 2014. Ljósm.: Ólafur Engilbertsson.

Hannes H. Gissurarson flutti fyrirlestur á 28. norræna sagnfræðingamótinu í Joensuu í Finnlandi 16. ágúst 2013 um tvær örlagasögur, sem fléttuðust saman á öld alræðisstefnunnar: Voru þær um þýskan nasista, sem varð kommúnisti, og þýska gyðingakonu, sem varð Íslendingur. Var fyrirlesturinn 14. viðburðurinn í samstarfsverkefninu með ACRE. Hinn 23. ágúst 2014, á minningardegi fórnarlamba alræðisstefnunnar, gaf RNH Þjóðarbókhlöðunni ýmsar bækur í tengslum við samstarfsverkefnið, þar á meðal tveggja binda skýrslu rannsóknarnefndar í Eistlandi á framferði kommúnista og nasista allt frá hernámi Eistlands sumarið 1940 og tveggja binda verk Bents Jensens um Danmörku í kalda stríðinu. Hannes hélt erindi á ársfundi Evrópuvettvangs minningar og samvisku, Platform of European Memory and Conscience, í Brüssel 4.–5. nóvember 2014 um samstarfsverkefnið „Evrópu fórnarlambanna“ og fyrirhugaða endurútgáfu ýmissa rita, sem gefin voru út á Íslandi í baráttunni við alræðisstefnurnar. Í samstarfsverkefninu „Evrópu fórnarlambanna“ var 17. viðburðurinn fyrirlestur, sem Hannes H. Gissurarson hélt í Tartu í Eistlandi 28. apríl 2015 um íslensku kommúnistahreyfinguna. Hann hélt annan fyrirlestur svipaðs efnis í eistneska þinginu í Tallinn 29. apríl.

Árið 2015 voru þrír næstu viðburðir í samstarfsverkefninu endurútgáfa rita, sem komu á sínum tíma út gegn alræðisstefnu, og voru þau nú gefin út jafnt á Netinu og í takmörkuðu upplagi á pappír: Greinar um kommúnisma eftir Bertrand Russell 17. júní 2015, Konur í þrælakistum Stalíns eftir Elinor Lipper og Aino Kuusinen 19. júní 2015 og Úr álögum (Out of the Night) eftir Jan Valtin (Richard Krebs) 23. ágúst 2015, á minningardegi fórnarlamba alræðisstefnunnar í Evrópu. RNH starfar með Almenna bókafélaginu, AB, að þessari endurútgáfu rita um alræðisstefnuna. Í samstarfsverkefninu var 22. viðburðurinn þátttaka Hannesar H. Gissurarsonar og erindi á ársfundi Evrópuvettvangs minningar og samvisku, Platform of European Memory and Conscience, í Wroclaw í Póllandi 18.–19. nóvember 2015. Næst gerðist það tvennt, að bandaríski fjárfestirinn Bill Browder flutti fyrirlestur 20. nóvember í hátíðasal Háskóla Íslands um Rússland Pútíns, jafnframt því sem Almenna bókafélagið gaf út bók hans, Eftirlýstur (Red Notice), en hún er um framferði rússneskra stjórnvalda. Grein eftir Hannes H. Gissurarson í Vísbendingu, 33. árg. 33. tbl., „Hvers virði var Rússagullið?“ var næsti viðburður, en þar komst höfundur að þeirri niðurstöðu, að fjárhagslegur stuðningur Kremlverja við hreyfingu íslenskra kommúnista og vinstri sósíalista tímabilið 1955–1970 hefði numið um 3 milljónum Bandaríkjadala að núvirði. Frumsamda bókin Barnið sem varð að harðstjóra eftir Boga Arason blaðamann, sem Almenna bókafélagið gaf út haustið 2015, var 27. viðburðurinn í verkefninu, en hún er um nokkra grimmustu alræðisherra tuttugustu aldar.

Endurútgáfa rita um alræðisstefnu hélt áfram árið 2016. Leyniræðan um Stalín eftir Níkíta Khrústsjov kom út 25. febrúar ásamt Erfðaskrá Leníns, þar sem Stalín var harðlega gagnrýndur. Í formála benti Hannes H. Gissurarson á, hversu mikilvæg þessi skjöl voru á sínum tíma í baráttunni gegn hinum öflugu og fjársterku íslensku kommúnistum. Afhjúpanirnar í Moskvu voru þeim alvarlegt áfall. Dagana 28.–30. júní sótti Hannes ráðstefnu Evrópuvettvangs um minningu og samvisku í Viljandi í Eistlandi, en þar var umræðuefnið alræði, nauðungarflutningar og brottflutningar. Sagði Hannes í fyrirlestri þar frá tveimur þýskum útlögum á Íslandi fyrir seinna stríð, en örlög þeirra fléttuðust margvíslega saman. El campesino – Bóndinn eftir Valentín González með aðstoð Juliáns Gorkins kom út 17. júlí 2016, þegar 80 ár voru liðin frá upphafi spænska borgarastríðsins.

Kelam.

Þess var minnst 26. ágúst 2016, að aldarfjórðungur var liðinn frá því, að Ísland varð fyrst ríkja til að viðurkenna Eystrasaltsríkin. Af því tilefni endurútgaf Almenna bókafélagið með stuðningi RNH tvær bækur, Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir prófessor Ants Oras, sem kom út í þýðingu Sigurðar Einarssonar í Holti 1955, og Eistland. Smáþjóð undir oki erlends valds eftir Andres Küng, sem kom út í þýðingu Davíðs Oddssonar 1973. Í útgáfuhófi, sem haldið var þennan dag kl. 17–19 á Litlatorgi í Háskóla Íslands á vegum AB og ræðismanna Eystrasaltsríkjanna þriggja á Íslandi, fluttu Davíð Oddsson, sem var forsætisráðherra, þegar Eystrasaltslöndin voru viðurkennd, og Tunne Kelam, Evrópuþingmaður frá Eistlandi og einn af leiðtogum sjálfstæðisbaráttu Eistlands, ávörp. Var útgáfuhófið 33. viðburður verkefnisins.

Hannes H. Gissurarson sótti ársfund Evrópuvettvangs minningar og samvisku í Kænugarði (Kiev) í Úkraínu 24.–25. nóvember 2016 og sagði þar frá helstu áföngum í verkefninu. Fundargestir sátu kvöldverð menntamálaráðherra Úkraínu og minningarsamkomu um fórnarlömb hungursneyðarinnar í Úkraínu í boði forseta landsins. Hinn 25. desember 2016, þegar aldarfjórðungur var liðinn frá endalokum Ráðstjórnarríkjanna, kom út bókin Þjónusta, þrælkun, flótti eftir Aatami Kuortti, sem sat í þrælabúðum Stalíns, en slapp til Finnlands 1930. Bók hans kom fyrst út á íslensku haustið 1938, á sama tíma og Gerska æfintýrið eftir Halldór Kiljan Laxness.

Koestler

Hinn 7. nóvember 2017 voru hundrað ár liðin frá byltingu bolsévíka í Rússlandi, og AB gaf þá út í samstarfi við RNH þrjú rit, Ráðstjórnarríkin: Goðsagnir og veruleiki eftir ensk-ungverska rithöfundinn Arthur Koestler (frá 1945), Ég kaus frelsið eftir úkraínska flóttamanninn Víktor Kravtsjenko (frá 1950) og Nytsamur sakleysingi eftir norska sjómanninn Otto Larsen (frá 1956), en hann hafði verið sendur saklaus í þrælabúðir Stalíns. Hannes H. Gissurarson skrifaði formála allra bókanna og rifjaði meðal annars upp, að rit Koestlers varð eitt aðaldeiluefnið fyrir bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík 1946. 38. viðburðurinn í samstarfsverkefninu var, að Hannes sótti ársfund Evrópuvettvangs minningar og samvisku í Vilnius í Litáen 28.–30. nóvember. 39. viðburðurinn var, að hugveitan New Direction í Brüssel birti skýrslu eftir Hannes, Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature , þar sem hann ræddi um sögulegt eðli kommúnismans og bókmenntaverk um hann, þar á meðal fangabúðasögur, skáldsögur, sagnfræðirit og sjálfsævisögur.

Snemma árs 2018 átti 40. viðburðurinn sér stað, þegar ACRE í Brüssel birti rit eftir Hannes H. Gissurarson, Totalitarianism in Europe: Three Case Studies, Alræði í Evrópu: Þrjár rannsóknir. Kaflarnir þrír voru um Elinor Lipper, sem var um skeið áhrifamikið vitni gegn kommúnismanum, örlög tveggja Þjóðverja á Íslandi, sem fléttuðust saman, nasista, sem varð kommúnisti, og gyðingakonu, sem varð Íslendingur, og ævi og störf Halldórs K. Laxness, en hann var lengi einn harðskeyttasti stalínisti á Íslandi. Rætt var um ritið á málstofu í Reykjavík 26. apríl 2018, og var dr. Dalibor Rohac, sérfræðingur AEI (American Enterprise Institute) í Evrópumálum, umsegjandi. Ásamt RNH og AB stóð Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála í Háskóla Íslands að málstofunni, og var Bessí Jóhannsdóttir sagnfræðingur fundarstjóri. 41. viðburðurinn í samstarfsverkefninu var, þegar Hannes H. Gissurarson hélt tölu á alþjóðlegri ráðstefnu í Tallinn í Eistlandi 23. ágúst 2018, á minningardegi fórnarlamba alræðisstefnunnar, og stóð Stofnun sögulegra minninga í Eistlandi að ráðstefnunni. Hannes sótti einnig alþjóðlega ráðstefnu um kommúnisma í Ljubljana, „Skuggahlið tunglsins,“ 13.–14. nóvember 2018 og flutti þar erindi. Hann sótti síðan ársfund Evrópuvettvangs minningar og samvisku í Bled 15. nóvember.

Gunnar Gunnarsson flytur ræðu sína 1954. Ljósm. Ól. K. M.

Á hundrað ára fullveldisafmæli Íslands 1. desember 2018 átti 44. viðburðurinn sér stað, þegar bókin Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958  var gefin út, en í henni var safnað saman ræðum sex íslenskra rithöfunda gegn alræðisstefnunni. Höfundar eru Tómas Guðmundsson, Gunnar Gunnarsson, Kristmann Guðmundsson, Guðmundur G. Hagalín, Sigurður Einarsson í Holti og Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. Hlutu þeir óspart ámæli frá íslenskum þjónum hins austræna trölls, eins og rakið er í formála dr. Hannesar H. Gissurarsonar prófessors og í skýringum aftanmáls.

Á sjötíu ára afmæli Atlantshafsbandalagsins 4. apríl 2019 kom út greinasafnið Framtíð smáþjóðanna: Erindi á Norðurlöndum 1946–1948 eftir norska skáldið Arnulf Øverland, og voru tvær greinanna fyrirlestrar, sem hann flutti á Íslandi fyrir fullu húsi í maí 1948, þar sem hann hvatti Íslendinga til að ganga til varnarsamstarfs við aðrar vestrænar þjóðir gegn hinu austræna trölli, sem skók þá vopn sín ákaflega. Siguðu íslenskir kommúnistar sínum ritfærustu mönnum á Øverland, Jóhannesi úr Kötlum, Halldóri Kiljan Laxness, Sverri Kristjánssyni og Jónasi Haralz (en þeir Kiljan og Jónas áttu eftir að skipta um skoðun). Var þetta 45. viðburðurinn í samstarfsverkefninu. Hinn 17. maí 2019 skiptust prófessorarnir Stefán Snævarr og Hannes H. Gissurarson á skoðunum um alræðishugtakið á fundi RNH og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála í Háskóla Íslands, og var Ólafur Þ. Harðarson fundarstjóri. Voru þá viðburðirnir orðnir 46 samtals í samstarfsverkefninu.

RNH nýtur ekki aðeins stuðnings ACRE við að setja verk gegn alræðisstefnunni á Netið, heldur líka Atlas Network. Ætlunin er, að ýmsir fyrirlestrar í þessu samstarfsverkefni komi á prent á bók, og hafa þeir Jensen, Rosenfeldt, Courtois, Sørensen og Ukielski þegar sent þá til RNH, en beðið er eftir öðrum. Áfram er unnið að því að gera Svartbók kommúnismans aðgengilega á Netinu, og er stefnt að því að opna vefsíðu með henni og öðrum bókum um alræðisstefnu nasista og kommúnista. Meðal þeirra bóka, sem ætlunin er að endurútgefa á Netinu á næstu árum, eru Guðinn sem brást eftir Arthur Koestler, André Gide og fleiri, Myrkur um miðjan dag eftir Arthur Koestler og Konur í einræðisklóm eftir Margarete Buber-Neumann. Sumar þessara bóka verða einnig endurútgefnar á pappír.

Comments are closed.