Erlendir hugsuðir

John Locke fæddist 29. ágúst 1632 í Wrington í Somerset á Suður-Englandi. Hann stundaði nám í heimspeki og læknislist í Oxford-háskóla, en gerðist síðar trúnaðarlæknir eins áhrifamesta stjórnmálamanns Breta, Shaftesburys jarls, sem vildi eftir megni takmarka vald konungs. Varð Locke að flýja undan konungi 1683 til Hollands, en sneri aftur, þegar Jakobi II. Bretakonungi var steypt af stóli í „byltingunni blóðlausu“ 1688. Talið er, að Locke hafi skrifað Tvær ritgerðir um ríkisvald (Two Treatises on Civil Government) snemma á níunda áratug 17. aldar, þegar átök konungs og frjálslyndra manna voru sem hörðust, en verkið kom ekki út fyrr en eftir byltinguna blóðlausu og þá undir dulnefni. Hann lést 28. október 1704.

Seinni hluti þessa verks, Ritgerð um ríkisvald, kom 1986 út á íslensku í þýðingu Atla Harðarsonar. Þar leiddi Locke rök að því, að einstaklingar gætu öðlast séreignarrétt á gæðum náttúrunnar, þótt Guð hefði gefið mönnunum jörðina saman. Þetta gerðist, þegar þeir blönduðu vinnu sinni saman við gæðin. Locke setti hins vegar tvo fyrirvara við slíku eignarnámi, að ekki væri tekið svo mikið af gæðum, að þau skemmdust í vörslu eigandans, og að nóg yrði eftir af gæðum handa öðrum. Locke taldi síðari fyrirvaranum fullnægt við séreign, þar sem þar yrði framleitt miklu meira en við sameign.  Hann skrifaði í Ritgerðinni (37. gr.): „Sá, sem slær eign sinni á land með vinnu sinni, minnkar ekki, helur eykur sameiginleg föng mannkyns, því sá afrakstur, sem fæst af einni ekru afgirts ræktarlands og gagnast mönnum til viðurværis, er  — svo ég dragi nú heldur úr en ýki — tíu sinnum meiri en sá afrakstur, sem fæst af ekru jafngóðs lands, sem liggur ósáð í almenningi.“

Sósíalistar halda því fram, að John Locke hafi með kenningu sinni um réttmæta afgirðingu almenninga gengið erinda auðmanna, en því hefur verið svarað til, að í augum hans hafi verið aðalatriðið að takmarka geðþóttavald konungs, og því valdi sé ekki síður beitt gegn fátæklingum en efnamönnum. Fyrir honum hafi vakað að tryggja almenn mannréttindi, sem til væru á undan og óháð ríkisvaldi. Tvær ritgerðir um ríkisvald og ýmsar greinar Lockes um efnahagsmál eru aðgengilegar á frummmálinu í Frelsisbókasafni bandarísku stofnunarinnar Liberty Fund á Netinu.

 

Adam Smith fæddist í júní 1723 í Kirkcaldy í Skotlandi. Hann stundaði heimspekinám í háskólunum í Glasgow og Oxford, hóf heimspekikennslu í Háskólanum í Glasgow 1748, en varð prófessor í rökfræði þar 1751 og síðar einnig í siðfræði. Hann gaf út Kenningu um siðferðiskenndirnar (A Theory of Moral Sentiments) 1759. Hann gerðist einkakennari á heimili hertogans af Buccleuch 1763 og ferðaðist þá víða um Norðurálfuna. Hann gaf út Auðlegð þjóðanna 1776 og lagði með þeirri bók hornstein að nýrri vísindagrein, hagfræðinni. Smith varð tollstjóri í Edinborg 1778, en lést 17. júlí 1790.

Í Auðlegð þjóðanna setti Adam Smith fram tvær áhrifamiklar hugmyndir. Hin fyrri var, að eins gróði þyrfti ekki að vera annars tap. Með því að skipta með sér verkum og skiptast síðan á vöru og þjónustu á frjálsum markaði gætu menn fullnægt þörfum hver annars miklu betur en ella. Sneiðar manna eða hópa gætu stækkað, af því að kakan stækkaði, en ekki af því að sneiðar annarra minnkuðu. Adam Smith skýrði vaxandi velmegun á sínum dögum þannig með verkaskiptingu og frjálsum viðskiptum. Menn næðu oft betri árangri með verðlagningu gæðanna sín í milli en með skipulagningu að ofan.

Seinni hugmynd Adams Smiths var, að atvinnulífið gæti verið skipulegt án þess að vera skipulagt. Regla gæti komist á, án þess að nokkur kæmi henni á. Menn löguðu sig hver af öðrum vegna ávinningsvonarinnar. „Ósýnileg hönd“ leiddi þá að marki, sem þeir hefðu sjálfir ekki nauðsynlega sett sér. „Það er ekki vegna góðvildar slátrarans, bruggarans eða bakarans, sem við væntum þess að fá málsverðinn okkar, heldur vegna þess að þeir hugsa um eigin hag,“ sagði Smith.

Auðlegð þjóðanna var snarlega þýdd á aðrar tungur, meðal annars á dönsku 1779–1780. Kann bók að hafa haft áhrif á dönsk stjórnvöld, sem afnámu einokunarverslunina við Ísland 1787. Þeir Jón Sigurðsson forseti, Arnljótur Ólafsson, sem samdi fyrsta hagfræðiritið á íslensku, og Jón Þorláksson, verkfræðingur og forsætisráðherra, deildu líka allir þeirri hugmynd með Adam Smith, að aukin verkaskipting væri aðalskýringin á vaxandi velmegun. Fyrri hluti Auðlegðar þjóðanna kom samt ekki út á íslensku fyrr en 1997 í þýðingu Þorbergs Þórssonar og með inngangi eftir Hannes H. Gissurarson prófessor. Síðari hlutinn er enn óútgefinn. Mörg verk Smiths eru aðgengileg á frummálinu í Frelsisbókasafni bandarísku stofnunarinnar Liberty Fund á Netinu.

 

John Stuart Mill fæddist 20. maí 1806 í Pentonville, úthverfi Lundúna. Hann stundaði heimanám undir handleiðslu föður síns, heimspekingsins James Mills, en gerðist síðan starfsmaður Austur-indverska verslunarfélagsins. Fór hann á eftirlaun, þegar félagið var lagt niður 1858. Hann sat í neðri málstofu breska þingsins 1865–1868. Hann lést 8. maí 1873. Mill var mjög áhrifamikill hugsuður, sem gaf út fjölda rita, og hafa þrjú þeirra birst á íslensku. Frelsið (Essay on Liberty) var fyrst gefið út í þýðingu Jóns Ólafssonar ritstjóra 1886, en aftur í annarri þýðingu Jóns Hnefils Aðalsteinssonar og Þorsteins Gylfasonar 1970. Kúgun kvenna (The Subjection of Women) var gefið út í þýðingu Sigurðar Jónassonar 1900 og aftur í sömu þýðingu endurskoðaðri 2003. Nytjastefnan (Utilitarianism) var gefið út í þýðingu Gunnars Ragnarssonar 1998.

Mill var frjálshyggjumaður, sem hafði áhyggjur af misnotkun valds, jafnvel þótt því valdi væri beitt í nafni almennings og með samþykki hans. Lýðurinn gæti verið sami harðstjóri og konungar, keisarar og páfar fyrri alda. „Sú „þjóð“, sem fer með valdið, er ekki ætíð sama þjóðin og fyrir því verður,“ skrifaði hann í Frelsinu. Mill setti þar fram kunna frelsisreglu: „Því aðeins er öllu mannkyni, einum manni eða fleirum, heimilt að skerfa athafnafrelsi einstaklings, að um sjálfsvörn sé að ræða.“ Jafnframt mælti hann fyrir málfrelsi, jafnvel þótt það gæti verið frelsi til að fara með rangt mál. „Við getum aldrei verið viss um, að skoðun, sem við viljum kveða niður, sé röng. Og jafnvel þótt við værum viss, væri bannsetning mesta böl.“ Hann taldi verslunarfrelsi hins vegar ekki helgan rétt manna í sama skilningi og málfrelsi, þótt sterk nytjarök mætti færa fyrir því.

Sósíalistar halda því fram, að Mill hafi ekki verið raunverulegur frjálshyggjumaður, þar eð hann hafi einmitt ekki talið verslunarfrelsi helgan rétt. En því hefur verið svarað til, að stuðningur frjálshyggjumanna við verslunarfrelsi sé ekki vegna hagsmuna kaupmanna, heldur neytenda. Mill taldi að vísu, að sósíalismi gæti komist á í atvinnulífinu, en þá vegna þess að fyrirtæki í eigu starfsmanna yrði miklu arðbærari en fyrirtæki í séreign. Hann var með öðrum orðum hlynntur sjálfvöldum sósíalisma, ekki valdboðnum. Mill hafði enn fremur miklu meiri áhyggjur af öflugu ríkisvaldi en flestir sósíalistar. Hann studdi til dæmis ekki ríkisskóla, því að hann taldi hætt við, að þeir steyptu alla einstaklingana í sömu mót. Frelsið, Nytjastefnan og Kúgun kvenna eru ásamt öðrum verkum Mills aðgengilegt á frummálinu í Frelsisbókasafni bandarísku stofnunarinnar Liberty Fund á Netinu.

 

Ludwig von Mises fæddist 29. september 1881 í Lemberg í Galísíu í austurríska keisaradæminu (nú Lvív í Úkraínu). Hann lauk doktorsprófi í lögfræði og hagfræði frá Vínarháskóla 1906 og gerðist eftir það starfsmaður austurríska verslunarráðsins, en hélt um leið uppi kennslu í hagfræði í Vínarháskóla, og varð vikuleg málstofa hans fræg. Hann fluttist undan nasistahættunni til Svisslands 1934, þar sem hann varð hagfræðiprófessor við Alþjóðamálastofnunina í Genfarháskóla (Institut universitaire des hautes études internationales). Hann flýði aftur undan nasistum til Bandaríkjanna 1940 og varð hagfræðiprófessor í New York-háskóla (New York University) 1946, og þar hélt hann aftur fræga málstofu vikulega. Hann var stofnfélagi Mont Pelerin Society 1947, en forgöngumaður þess félags, Friedrich A. von Hayek, hafði verið nemandi hans í Vínarborg. Mises lést 10. október 1973.

Mises var frjálshyggjumaður eins og flestir aðrir úr röðum austurrísku hagfræðinganna svonefndu, en á meðal þeirra voru Carl Menger og Eugen von Böhm-Bawerk. Mises skrifaði fjölda rita um ýmis svið hagfræðinnar, þar á meðal um hagsveiflur og eðli peninga og fjármagns. Eitt áhrifamesta verk hans var Sameignarskipulagið (Die Gemeinwirtschaft á þ., Socialism á e.), sem kom fyrst út 1922. Þar hélt hann því fram, að miðstýrður áætlunarbúskapur eins og sósíalistar höfðu hugsað sér væri óframkvæmanlegur, því að miðstjórnin gæti aldrei aflað nægilegra upplýsinga um þarfir fólks og kostina á að fullnægja þeim. Þess vegna gæti engin áætlun hennar orðið skynsamleg. Á frjálsum markaði fengjust þessar upplýsingar hins vegar sjálfkrafa í viðskiptum á markaði, þar sem vara væri verðlögð eftir framboði og eftirspurn. Hugleiðingar um hagmál komu út eftir Mises á íslensku 1991 í þýðingu Jónmundar Guðmarssonar. Mörg verk Mises eru aðgengileg á ensku í Frelsisbókasafni bandarísku stofnunarinnar Liberty Fund á Netinu.

 

Friedrich August von Hayek fæddist 8. maí 1899 í Vínarborg. Hann lauk doktorsprófi í lögfræði 1921 og í stjórnmálafræði 1923 frá Vínarháskóla og stundaði þar einnig nám í hagfræði undir leiðsögn Ludwigs von Mises. Hann var forstöðumaður Austurrísku rannsóknarstofnunarinnar um hagsveiflur, uns hann varð prófessor í hagfræði í Hagfræðiskólanum í Lundúnum (LSE) 1931. Hann gaf út metsölubókina Leiðina til ánauðar 1944, þar sem hann varaði við miðstýringu í atvinnulífinu og hélt því fram, að kommúnismi og nasismi væru tvær greinar af sama meiði. Útdráttur úr bókinni birtist í bandaríska tímaritinu Reader’s Digest vorið 1945. Ólafur Björnsson prófessor sneri honum og birti í nokkrum hlutum í Morgunblaðinu sumarið 1945, og urðu þá harðar deilur um boðskap Hayeks í blöðum. Samband ungra sjálfstæðismanna gaf útdráttinn út í bæklingi árið 1946 með formála eftir Jóhann Hafstein.

Vorið 1947 hafði Hayek forgöngu um alþjóðlega ráðstefnu, sem frjálslyndir menntamenn héldu á Pílagrímsfjalli, Mont Pelerin, í Sviss, þar sem rætt var um hættur, sem steðjuðu að einstaklingsfrelsinu vegna aukinnar miðstýringar. Ráðstefnugestir stofnuðu með sér samtök til skrafs og ráðagerða, Mont Pelerin Society, og var Hayek forseti félagsins til 1961. Hann var prófessor í hugmyndasögu í Chicago-háskóla 1950–1962 og prófessor í hagfræði í Freiburg-háskóla í Þýskalandi 1962–1968 og í Salzburg 1968–1977. Hann var breskur þegn frá 1938, og sæmdi Elísabet II. Bretadrottning hann titlinum „Companion of Honour“ 1984 að ráði forsætisráðherrans, Margrétar Thatchers, en Hayek hafði haft mikil áhrif á hana. George H. W. Bush veiti honum frelsismerki Bandaríkjaforseta, „Medal of Freedom,“ 1991. Hayek lést 23. mars 1992.

Hayek kom til Íslands vorið 1980 og hélt hér tvo fyrirlestra. Hinn fyrri var í Háskóla Íslands um „Skipulag peningamála“, en þar reifaði Hayek þá kenningu sína, að eina leiðin til að takmarka hina þrálátu misnotkun seðlaprentunarvalds væri að leyfa frjálsa samkeppni um seðlaútgáfu. Síðari fyrirlesturinn var á fundi Félags frjálshyggjumanna um „Miðju-moðið“, en þar hélt Hayek því fram, að sósíalismi tuttugustu aldar væri reistur á einni ranghugmynd Johns Stuarts Mills, sem væri, að gera mætti greinarmun á lögmálum um sköpun verðmætanna og skiptingu þeirra. Rætt var við Hayek í blöðum, útvarpi og sjónvarpi, og hagfræðingarnir Jónas Haralz og Þröstur Ólafsson skiptust á skoðunum um boðskap hans í sjónvarpssal. Hannes H. Gissurarson þýddi Leiðina til ánauðar í heild sinni, og hann sneri einnig fyrirlestrum Hayeks á Íslandi, sem birtust fyrst í tímaritinu Frelsinu 1980 og 1983, en síðan 1994 í greinasafninu Lausnarorðið er frelsi eftir ýmsa höfunda.

Harkaleg árás birtist á Hayek í Skírni 1984 eftir heimspekiprófessorinn Þorstein Gylfason, sem fullyrti, að Hayek gengi erinda auðmanna gegn fátæklingum. Hann aðhylltist sérhyggju frekar en frjálshyggju. Hannes H. Gissurarson svaraði honum á sama vettvangi 1986. Kvað hann Hayek reisa stjórnmálaskoðun sína á þeirri kenningu, að þekkingin dreifðist á menn, svo að ógerlegt væri fyrir einn aðila, hvort sem hann væri einræðisherra, miðstjórn eða sérfræðingar einhvers áætlunarráðs, að safna henni saman og nýta til að samhæfa hin ólíku markmið, sem einstaklingar kepptu að. Þessa þekkingu væri aðeins unnt að nýta með frjálsri verðmyndun á markaði, en hún miðlaði í senn upplýsingum um mannlegar þarfir og möguleikana á að fullnægja þeim og um mannlega hæfileika og í hvaða brautir ætti að beina þeim. Samkeppni væri því umfram allt þrotlaus þekkingarleit. Aðaltilgangur hennar væri ekki að umbuna hinum hæfu og refsa hinum miður hæfu, heldur að veita fólki upplýsingar um það, hvernig það gæti lagað sig hvert að öðru, samhæft starfsemi sína, í keppninni um knöpp gæði lífsins. Þá og því aðeins myndi fátækt minnka, að slíkar upplýsingar fengju að streyma sæmilega hindrunarlaust um atvinnulífið.

Nokkur verk Hayeks eru aðgengileg á ensku í Frelsisbókasafni bandarísku stofnunarinnar Liberty Fund á Netinu.

 

Milton Friedman fæddist í Brooklyn í New York-borg 31. júlí 1912. Hann lauk stærðfræðiprófi frá Rutgers-háskóla í New Jersey, hagfræðiprófi frá Chicago-háskóla og doktorsprófi í hagfræði frá Columbia-háskóla í New York. Hann var lengst hagfræðiprófessor í Chicago-háskóla og rannsóknarfélagi í Hoover Institution í Stanford-háskóla. Friedman gat sér orð meðal hagfræðinga fyrir að blása nýju lífi í peningamagnskenninguna svonefndu, en samkvæmt henni er verðbólga ætíð peningalegt fyrirbæri: Hún orsakast af því, að peningamagnið vex hraðar en framleiðslumagnið, sem peningarnir eru ávísanir á. Hann gaf ásamt Önnu J. Schwartz út mikið verk 1963 um sögu peningamála í Bandaríkjunum, A Monetary History of the United States. Þar héldu höfundar því fram, að ein meginástæðan til heimskreppunnar miklu hefði verið skyndilegur samdráttur peningamagns í Bandaríkjunum, sem stafað hefði af mistökum seðlabankamanna. Friedman hlaut Nóbelsverðlaunin í hagfræði 1976. Friedman var þó kunnari meðal almennings fyrir blaðagreinar sínar og sjónvarpsþætti, þar sem hann reifaði ýmis rök fyrir einstaklingsfrelsi. Hann var forseti Mont Pelerin Society 1970–1972. Hann lést 16. nóvember 2006.

Milton Friedman kom ásamt konu sinni, Rose, í heimsókn til Íslands haustið 1984, skiptist á skoðunum við félagshyggjumenn í sjónvarpssal og flutti fyrirlestur undir heitinu „Í sjálfheldu sérhagsmunanna“ (The Tyranny of the Status Quo). Fyrirlestur hans birtist ásamt spurningum og svörum að honum loknum og umræðum á blaðamannafundi með honum í bókinni Lausnarorðið er frelsi 1994. Almenna bókafélagið gaf út Frelsi og framtak (Capitalism and Freedom) eftir Friedman 1982 í þýðingu Hannesar H. Gissurarsonar. Í Þjóðmálum 2006 birtust „Minningabrot um Milton Friedman“ eftir Hannes H. Gissurarson. Gauti B. Eggertsson hagfræðingur sagði 2006 lauslega frá Friedman á Vefriti ungs félagshyggjufólks. Birgir Þór Runólfsson skrifaði 2011 grein um Friedman, aðallega framlag hans til hagfræðinnar, á Vísindavef Háskóla Íslands.

Friedman setti fram margar frumlegar hugmyndir. Hann var eindreginn talsmaður þess, að herkvaðning (draft) væri lögð niður í Bandaríkjunum, enda væri hún ein tegund ánauðar. Þess í stað væri eðlilegt að greiða mönnum fyrir herþjónustu. Friedman var talsmaður „neikvæðs tekjuskatts“ (negative income tax), en hann var fólginn í því að skattlegja menn með tekjur ofan einhvers tiltekins lágmarks og greiða þeim bætur, sem hefðu tekjur neðan lágmarksins, en sleppa öllum öðrum millifærslum og tilraunum til að raska þeirri tekjuskiptingu, sem væri afleiðing frjálsra markaðsviðskipta. Friedman lagði til ávísanakerfi (vouchers) í skólamálum, en samkvæmt því sendi ríkið foreldrum ávísanir, sem þeir gætu síðan greitt fyrir skólagöngu barna sinna með. Þannig tækist að sameina frelsi neytenda til að velja um þjónustu og tryggingu fyrir því, að allir nytu skólagöngu óháð efnahag foreldra. Friedman var ráðgjafi Ronalds Reagans Bandaríkjaforseta og hafði mikil áhrif á marga aðra stjórnmálamenn, jafnvel í einræðisríkjum eins og Kína og Síle.

 

Robert Nozick fæddist í Brooklyn í New York-borg 16. nóvember 1938. Hann lauk prófum í heimspeki frá Columbia-háskóla í New York og Princeton-háskóla í New Jersey, en dvaldist síðan um skeið við framhaldsnám í Oxford-háskóla. Hann var lengst prófessor í heimspeki í Harvard-háskóla. Hann lést 23. janúar 2002. Kunnasta verk Nozicks er Stjórnleysi, ríki og staðleysur (Anarchy, State, and Utopia), sem kom út á ensku 1974. Það skiptist í þrjá hluta. Í hinum fyrsta leiddi Nozick rök að því, að ríkið gæti myndast í sjálfsprottinni þróun án þess að brjóta rétt á neinum. Í öðrum hlutanum hélt Nozick því fram, að ríkið yrði að vera lágmarksríki, ella bryti það rétt á fólki. Þar gagnrýndi hann meðal annars réttlætiskenningar Johns Rawls og Karls Marx. Í þriðja hlutanum lýsti Nozick því, hvernig fólk gæti myndað sitt eigið fyrirmyndarskipulag með öðrum, sem væru sama sinnis, en án þess að neyða aðra undir það.

Nozick mælti í bók sinni fyrir séreignarrétti í víðum skilningi. Hann tók undir það með John Locke, að setja yrði fyrirvara við afgirðingu almenninga: Til þess að einstaklingar gætu með réttu slegið eign sinni á gæði, sem áður hefði verið óheftur aðgangur að, yrði að vera nóg eftir handa öðrum. Nozick taldi hins vegar eins og Locke, að verðmætasköpun væri svo miklu meiri við séreign en sameign, að við venjulegar aðstæður þyrfti ekki að hafa áhyggjur af þessum fyrirvara. Nozick viðurkenndi, að menn verðskulduðu ekki alltaf hæfileika sína eða þær tekjur, sem af þeim flytu. En enginn annar verðskuldaði þetta frekar. Eðlilegt væri því að gera ráð fyrir því, að menn ættu sjálfir tilkall til hæfileika sinna og þeirra tekna, sem af þeim flytu. Tekjuskipting væri ekki verkefni, heldur niðurstaða. Hún ætti að ráðast af frjálsu vali einstaklinga. Þeir ættu að láta frá sér eins og þeir veldu og fá til sín eins og þeir væru valdir. Áhugamenn um körfuknattleik greiddu til dæmis glaðir aðgangseyri fyrir að horfa á leiki með íþróttakappanum hávaxna Wilt Chamberlain. Afleiðingin væri, að áhorfendur væru hver og einn örfáum Bandaríkjadölum fátækari, en Chamberlain sjálfur mörgum dölum ríkari. Hvert væri ranglætið?

Kafli úr fyrsta hluta Stjórnleysis, ríkis og staðleysna kom út á íslensku í Hugi 2002 og kafli úr þriðja hluta bókarinnar í Ritinu sama ár. Jón Ólafsson þýddi hvort tveggja.

Comments are closed.