Frelsisveisla í Las Vegas

Rannsóknastjóri RNH, prófessor Hannes H. Gissurarson, heldur fyrirlestur á Freedomfest 17. júlí 2019, Frelsisveislunni, sem prófessor Mark Skousen hefur skipulagt áratugum saman í Las Vegas, en þar hittast frjálslyndir og íhaldssamir menn í öllum heiminum, en aðallega þó frá Bandaríkjunum. Fyrirlestur Hannesar er um grænan kapítalisma, en um hann samdi hann skýrslu fyrir hugveituna New Direction í Brüssel árið 2017. Hann er klukkan þrjú síðdegis í fundarsalnum Champagne 4 á Paris Hotel and Spa. Hannes er einnig umsegjandi á málstofu um tekjudreifingu í heiminum klukkan eitt sama dag, en þar er prófessor James Gwartney frummælandi. Hannes samdi skýrslu fyrir hugveituna New Direction í Brüssel um það efni árið 2018. Frelsisveislan stendur í fjóra daga, og sækja hana um tvö þúsund manns. Þar eru kynntar bækur og sýndar kvikmyndir, sem tengjast baráttunni fyrir frelsi, friði og lágum sköttum.

Glærur HHG Las Vegas 17. júlí 2019

Comments Off

Bjørndal: Bláuggatúnfiskur kominn á Íslandsmið

Í viðtali við Morgunblaðið 19. júní 2019 lýsti Trond Bjørndal, prófessor í fiskihagfræði við Viðskiptaháskólann í Björgvin, vandkvæðunum á því að stjórna veiðum á einum verðmætasta fiski í heimi, bláuggatúnfisknum. Hann er uppsjávarfiskur, sem fer um öll heimsins höf, inn og út úr fiskveiðilögsögu fjölmargra ríkja, svo að erfitt er að ná samkomulagi um nýtingu hans. Það hefur þó tekist síðustu árin, og er stofninn að ná sér eftir nokkra hnignun. Veiðist bláuggatúnfiskur nú jafnvel á Íslandsmiðum. Bjørndal flutti fyrirlestur á ráðstefnu, sem Félagsvísindasvið Háskóla Íslands hélt til heiðurs Ragnari Árnasyni prófessor 14. júní 2019.

Comments Off

Wilen: Stjórn strandveiða sé sjálfsprottin

Strandveiðar, oft með handfærum, eru mikilvægar, en erfiðlegar hefur gengið að stjórna þeim en úthafsveiðum og þess vegna er enn mikil sóun í þeim, segir James Wilen, prófessor emeritus í fiskihagfræði í Kaliforníuháskóla í Davis, í viðtali við Morgunblaðið 18. júní 2019. Kerfi framseljanlegra aflakvóta hefði reynst mjög vel í úthafsveiðum, en líklega væru einhvers konar staðbundin (TURF=Territorial Use Rights in Fisheries) réttindi eða hópbundin raunhæfari í strandveiðum, sérstaklega í fátækum löndum. Stjórnin þyrfti að koma neðan að, ekki ofan frá. Wilen flutti fyrirlestur á ráðstefnu, sem Félagsvísindasvið Háskóla Íslands hélt til heiðurs Ragnari Árnasyni prófessor 14. júní 2019.

Comments Off

Munro: Samstarf útgerðarmanna mikilvægt

Í viðtali við Morgunblaðið 17. júní benti Gordon Munro, prófessor emeritus í fiskihagfræði við Háskólann í Bresku Kólumbíu, á, að mikilvægt væri, að útgerðarmenn næðu samkomulagi sín í milli um skynsamlega nýtingu fiskistofna. Rakti hann þróunina í Bresku Kólumbíu, sem væri um sumt svipuð þróun kvótakerfisins á Íslandi. Nú litu útgerðarmenn á fiskistofnana sem verðmæti, sem yrði að gæta, og hefðu gott samstarf um nýtingu þeirra. Munro flutti fyrirlestur á ráðstefnu um fiskihagfræði, sem Félagsvísindasvið Háskóla Íslands hélt til heiðurs Ragnari Árnasyni prófessor sjötugum 14. júní 2019.

Comments Off

Stórfróðleg ráðstefna um fiskihagfræði

Rektor setur ráðstefnuna. Ljósm: Árni Sæberg.

Fjórir heimsþekktir fiskihagfræðingar töluðu á alþjóðlegri ráðstefnu Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, RNH og annarra aðila til heiðurs Ragnari Árnasyni 14. júní 2019 um „Úthafsveiðar heims: Í áttina að sjálfbæru og arðbæru kerfi“. Þeir voru prófessorarnir Trond Bjorndal, Rögnvaldur Hannesson, Gordon Munro og James Wilen. Dr. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, setti ráðstefnuna og rifjaði upp, að prófessorsembætti í fiskihagfræði við Háskóla Íslands var stofnað 1989, en Ragnar, sem nú lætur af störfum fyrir aldurs sakir, var fyrsti og eini prófessorinn í greininni. Jón Atli lét í ljós þá von, að Háskólinn mætti áfram njóta starfskrafta Ragnars.

Bjorndal ræddi um bláuggatúnfisk í Norður-Atlantshafi og Miðjarðarhafi, en hann er verðmætasti fiskur í heimi. Hann er uppsjávarfiskur af makrílætt, sem fer víða um. Svo margir aðilar koma því að ákvörðunum um veiðar, að litlar takmarkanir hafa í reynd verið á aðgangi að honum, en það hefur valdið hættu á ofveiði. Afli minnkaði talsvert um skeið, en hefur verið að aukast aftur vegna skynsamlegrar fiskveiðistjórnunar og varlegra ákvarðana um leyfilegan hámarksafla.

Frá v.: Birgir Þór, Bjorndal, Munro, Wilen, Rögnvaldur og Grainger. Ljósm.: Árni Sæberg

Rögnvaldur talaði um, þegar síldarstofninn hvarf næstum því á Norður-Atlantshafi seint á sjöunda áratug. Mátti litlu muna, að stofninn lifði ekki af, en hann hefur smám saman verið að styrkjast síðan. Þetta sýnir, sagði Rögnvaldur, hversu þrautseig og þolgóð náttúran er, en leiða megi stærðfræðileg rök að því, að fremur ólíklegt hefði verið, að stofninn styrktist. Þetta hefði verið slembilukka.

Munro fór orðum um framseljanlega aflakvóta og aðrar aðferðir við fiskveiðistjórnun. Enginn vafi væri á því, að framseljanlegir aflakvótar hefðu reynst vel. En því fleiri sem handhafar slíkra kvóta væru, því erfiðara væri að gera hagkvæma samninga um notkun þeirra. Skilvirkt samstarf kvótahafa væri hins vegar nauðsynlegt. Leikjafræði mætti nota til að greina möguleika og takmarkanir slíks samstarfs, og þar þyrfti fiskihagfræðin að hasla sér völl.

Gísli Hauksson, Jónas Sigurgeirsson og Hannes H. Gissurarson í móttökunni.

Wilen velti fyrir sér strandveiðum um víða veröld. Þær væru venjulega stundaðar með handfærum á litlum bátum, nálægt ströndum og næðu til margra stofna. Þótt framseljanlegir aflakvótar væru hagkvæmir í úthafsveiðum, þar sem stofnar væru fáir, gætu aðrar aðferðir hentað betur í handfæraveiðum, til dæmis staðbundin veiðiréttindi (einkaeignarréttur yfir afmörkuðum fiskimiðum) eða hópbundin (eignarréttur tiltekins hóps yfir fiskimiðum). Vafalaust myndu tekjur fiskimanna aukast verulega, ef slík réttindi væru skilgreind, en það væri þó ekki vandalaust, sérstaklega ekki í fátækum löndum með losaralegt stjórnarfar.

Í lokaorðunum á ráðstefnunni benti Ragnar á, að flestir fiskistofnar heims hefðu verið ofnýttir, þegar hann fór að gefa fiskihagfræði gaum um og eftir 1980. Þetta hefði sem betur fer breyst. Nú væri nýting fiskistofna víða hagkvæm. Að einhverju leyti væri það að þakka brautryðjendum í fiskihagfræði eins og fyrirlesurunum fjórum á þessari ráðstefnu, Bjorndal, Hannesson, Munro og Wilen. Að ráðstefnunni lokinni var móttaka í Háskólanum, þar sem dr. Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs, og Trond Bjorndal mæltu nokkur orð til Ragnars og létu skála fyrir honum. Þrátt fyrir blíðviðri og sumarleyfi var aðsókin að ráðstefnunni góð og umræður fjörugar, en prófessor Corbett Grainger var umsegjandi að fyrirlestrunum fjórum loknum. Dr. Birgir Þór Runólfsson hagfræðidósent stjórnaði ráðstefnunni.

Um kvöldið höfðu þau Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og kona hans, Ágústa Johnson, boð inni fyrir Ragnar Árnason, konu hans, Önnu Agnarsdóttur, fyrirlesara og nokkra fleiri gesti. Í skálaræðu sinni fyrir Ragnari lagði Guðlaugur Þór áherslu á, hversu mikilvægar fiskveiðar væru Íslendingum, enda hefði Halldór Laxness lagt einni söguhetju sinni í munn hin fleygu orð: „Lífið er saltfiskur.“ Þátttaka RNH í ráðstefnunni var liður í samstarfsverkefni við ACRE um „Blágrænan kapítalisma fyrir Evrópu“. Í Viðskiptablaðinu birti Óðinn grein um Ragnar 13. júní 2019, og Morgunblaðið tók viðtöl við fyrirlesarana fjóra.

Frá v.: Kristján Loftsson, James Wilen, Anna Agnarsdóttir, Ragnar Árnason og Ágústa Johnson.

Comments Off

Ráðstefna 14. júní til heiðurs Ragnari

Félagsvísindasvið Háskóla Íslands, RNH og nokkrir aðrir aðilar halda alþjóðlega ráðstefnu undir yfirskriftinni „Offshore Fisheries of the World: Towards a Sustainable and Profitable System“ til heiðurs Ragnari Árnasyni, prófessor í fiskihagfræði, sjötugum. Verður hún í hátíðasal Háskóla Íslands föstudaginn 14. júní kl. 16–18. Að ráðstefnunni lokinni verður móttaka á Litla torgi í Hámu kl. 18–19. Ragnar hefur áratugum saman verið einn af kunnustu og virtustu auðlindahagfræðingum heims og margoft verið vitnað til verka hans á alþjóðlegum vettvangi. Á ráðstefnunni flytja erindi nokkrir heimsþekktir fiskihagfræðingar.

  • 16:00–16:05 Setningarávarp. Jón Atli Benediktsson háskólarektor
  • 16:05–16:25 Próf. Trond Bjorndal: The Northeast Atlantic and Mediterranean Bluefin Tuna Fishery: Stock Collapse or Recovery?
  • 16:25–16:45 Próf. Rögnvaldur Hannesson: Stock Crash and Stock Resilience: The Norwegian Spring Spawning Herring
  • 16:45–17:05 Próf. Gordon Munro: ITQs, Other Rights Based Fisheries Management Schemes, and the New Frontier
  • 17:05–17:25, Próf. James Wilen: Problems and Prospects for Artisanal Fisheries Reform
  • 17:25–17:30, Próf. Corbett Grainger: Critical Comments
  • 17:30–17:45 Spurningar og svör
  • 17:45–17:50 Lokaorð. Próf. Ragnar Árnason
  • 17:50–19:00 Móttaka á Litla Torgi í Hámu

Fundarstjóri verður dr. Birgir Þór Runólfsson hagfræðidósent. Háskólaútgáfan gefur út afmælisrit fyrir Ragnar, sem nefnist Fish, Wealth and Welfare, og gefst áhugamönnum kostur á að skrá sig á Tabula Gratulatoria hér. Eru þar endurprentaðar tíu kunnustu vísindaritgerðir Ragnars. Kostar ritið 6.990 kr. og kemur út haustið 2019. Í afmælisnefnd Félagsvísindasviðs og ritnefnd afmælisritsins sitja Trond Bjorndal (formaður), Birgir Þór Runólfsson, próf. Hannes H. Gissurarson og próf. Þráinn Eggertsson. Einnig gefur Háskólaútgáfan út fyrirlestrana á þessari ráðstefnu undir sama heiti og ráðstefnan ásamt fyrirlestrum á fyrri ráðstefnum RNH um auðlindanýtingu og fyrirkomulag fiskveiða, 6. október 2012, 14. október 2013, 29. október 2013 og 29. ágúst 2016.

Háskólinn og RNH kosta ráðstefnuna, en SFS, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, og Seðlabankinn leggja útgáfu ráðstefnuritsins lið. Þátttaka RNH í ráðstefnunni er liður í samstarfsverkefni með ACRE um „blágrænan kapítalisma fyrir Evrópu“. Ragnar var um árabil deildarforseti hagfræðideildar og stjórnarformaður Hagfræðistofnunar. Hann er formaður rannsóknarráðs RNH og sat um skeið í bankaráði Seðlabankans. RNH hyggst síðan efna til frelsiskvöldverðar haustið 2019, þar sem Ragnar verður aðalræðumaður, en áður hafa meðal annarra dr. Tom Palmer og Davíð Oddsson verið aðalræðumenn í frelsiskvöldverðum.

Hannesson slides

Munro slides

Comments Off