Yeonmi Park: Gleymið ekki Norður-Kóreu

Yeonmi, Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Jónas Sigurgeirsson útgefandi. Ljósm.: visir.is Anton Brink

Yeonmi Park, höfundur bókarinnar Með lífið að veði, flutti erindi um lífið í Norður-Kóreu fyrir troðfullum hátíðasal Háskóla Íslands föstudaginn 25. ágúst. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra kynnti Yeonmi, en bók hennar hefur verið á metsölulistum á Íslandi og víðar mánuðum saman. Hún kvað erfitt að lýsa ástandinu í Norður-Kóreu fyrir öðrum. Þar hefði Kim-ættin stjórnað með harðri hendi frá lokum síðasta stríðs, og væru einræðisherrarnir tignaðir sem guðir. Sagðist hún fegin að sjá, hversu vingjarnlegur og blátt áfram forsætisráðherra Íslands væri í samanburði við þá Kim-menn. Jafnmargir hefðu týnt lífi í hungursneyðinni í Norður-Kóreu á tíunda áratug 20. aldar og byggju nú á Íslandi, um og yfir 300 þúsund manns. Hún hefði rekið upp stór augu, þegar hún hefði í fyrsta skipti séð ruslatunnu í öðrum löndum. Í Norður-Kóreu væri engu fleygt, sem ætilegt væri.

Yeonmi er á 24. aldursári. Hún stundar nú háskólanám í Bandaríkjunum. Ljósm. visir.is Anton Brink

Í erindi sínu lýsti Yeonmi ævintýralegum flótta sínum og móður sinnar til Kína fyrir tíu árum, en þar hefðu þær mæðgur lent í klóm mansalshrings, sem hefði selt þær í nauðungarhjónabönd. Eftir tveggja ára misjafna vist í Kína hefðu þær flúið yfir Gobi-eyðimörkina til Mongolíu og eftir mikla mæðu komist þaðan til Suður-Kóreu. Yeonmi kvaðst hafa verið lengi að venjast frelsinu í Suður-Kóreu. Hún hefði til dæmis ekki vitað, hverju hún ætti að svara, þegar hún var spurð, hver eftirlætislitur hennar væri. Í Norður-Kóreu hefði rauður verið fyrirskipaður litur, því að hann væri litur byltingarinnar og verkalýðsins. Norður-Kóreumenn ættu erfitt uppdráttar í Suður-Kóreu, því að þeir væru vanir að hlýða, en ekki að velja og hafna sjálfir.

Vera Knútsdóttir, stjórnmálafræðingur og framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, stjórnaði umræðum að erindinu loknu. Aðspurð sagðist Yeonmi telja, að Kínverjar myndu ráða úrslitum um örlög Norður-Kóreu. Þeir héldu verndarhendi yfir kommúnistastjórninni þar. Hins vegar yrði frelsun Norður-Kóreu að vera verk þjóðarinnar sjálfrar, ekki annarra. Hún taldi litlar líkur á, að Norður- og Suður-Kórea myndu sameinast á næstu árum. Íbúarnir hefðu fjarlægst á síðustu áratugum. Til dæmis væri orðaforðinn í Suður-Kóreu annar en í norðurhlutanum. Yeonmi hvatti til stuðnings við mannréttindasamtök, sem reyndu að hafa áhrif til góðs í heimalandi hennar. Hún kvaðst vita af mörgum brýnum úrlausnarefnum á Vesturlöndum, en bað menn að gleyma samt ekki Norður-Kóreu.

Að fundinum stóðu Almenna bókafélagið, sem gaf bók Yeonmi Park út, RNH og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands. Þátttaka RNH í honum er liður í samstarfsverkefni með ACRE, Evrópusamtökum íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna: Minninguna um kommúnismann“. Erindi Yeonmi var streymt á visir.is, og þar má horfa á það í heild, og gerðu það um fimm þúsund manns. Einnig má horfa á upptöku af því á heimasíðu Háskólans. Morgunblaðið birti leiðara um heimsókn Yeonmi Park og boðskap, og Kastljós Sjónvarpsins ræddi við hana 29. ágúst.

Comments Off

Föstudagur 25. ágúst: Yeonmi Park

RNH heldur ásamt Almenna bókafélaginu og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands fund í hátíðasal Háskóla Íslands í hádeginu föstudaginn 25. ágúst, þar sem Yeonmi Park, höfundur bókarinnar Með lífið að veði, segir frá lífi sínu í Norður-Kóreu, síðasta kommúnistaríkinu.

Park er aðeins 24 ára, en hún flúði fyrir tíu árum frá Norður-Kóreu með móður sinni. Bók hennar hefur verið þýdd á fjölda mála og verið efst á metsölulistum hérlendis. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra kynnir höfundinn, og Vera Knútsdóttir, stjórnmálafræðingur og framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, stjórnar umræðum að erindi Parks loknu.

Fundurinn er kl. 12:00–13:15. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir, á meðan húsrúm leyfir. Fundurinn er liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“.

Comments Off

Hannes um styttur og önnur minnismerki

Málverkið af Bjarna Benediktssyni er fyrir aftan Reagan.

Fara ætti eftir sáraeinfaldri reglu um það, hvaða styttur, brjóstmyndir og önnur minnismerki ætti að fjarlægja af almannafæri, sagði rannsóknastjóri RNH, prófessor Hannes Hólmsteinn Gissurarson í viðtali við Bylgjuna 22. ágúst 2017. Reglan væri sú, að einstaklingarnir á minnismerkjunum hefðu gerst sekir um glæpi gegn mannkyni, gegn friðnum eða gegn mannréttindum, eins og slíkir glæpir voru skilgreindir í Nürnberg-réttarhöldunum yfir leiðtogum nasista. Farið var eftir þessari reglu í Þýskalandi eftir seinni heimsstyrjöld: Hvergi væru þar á almannafæri styttur eða önnur merki um Hitler, Göring eða Göbbels. Hins vegar ættu menn enn á hættu að rekast sums staðar í Austur-Evrópu á styttur, brjóstmyndir eða málverk af Lenín, Stalín og böðlum þeirra og jafnvel á götunöfn tengd þeim. Hannes rifjaði upp, að hann tæki þátt í starfsemi Evrópuvettvangs minningar og samvisku, sem berst fyrir því, að styttur og önnur minnismerki um hina blóði drifnu kúgara í kommúnistaríkjunum fyrrverandi væru fjarlægðar.

Hannes sagðist ekki sjá sömu þörf á því að fjarlægja styttur á almannafæri af herforingjum Suðurríkjanna í bandaríska borgarastríðinu, til dæmis Robert Lee. Stríðið hefði ekki verið um þrælahaldið eitt, sem vitaskuld væri óafsakanlegt, heldur líka um viðskiptafrelsi og aðskilnaðarrétt. Við verðum að lifa við sögu okkar, jafnvel þótt við neitum að veita ódæðismönnum eins og Hitler og Stalín sömu viðurkenningu og öðrum valdamönnum, sagði Hannes. Hann rifjaði upp, að vinstri menn, sem komust til valda í Reykjavík 1994, flýttu sér að fjarlægja málverk af Bjarna Benediktssyni í Höfða, þótt það hefði orðið heimsfrægt, þegar það var baksvið fundar Reagans og Gorbatsjovs  í Höfða. Sú ákvörðun var röng, taldi Hannes. Hitt væri undarlegt, að við innganginn í Hátíðasal Háskólans gæti að líta brjóstmynd af Brynjólfi Bjarnasyni, fyrsta og eina formanni kommúnistaflokks Íslands 1930–1938 og harðskeyttum stalínista. Viðtalið við Hannes var þáttur í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamgtaka íhaldsmanna og umbótasinna í Evrópu, um „Evrópu fórnarlambanna“.

Comments Off

Fjörugar umræður um smáríki

Hannes og prófessor Bent Jensen á heimili Jensens 11. ágúst.

Rannsóknastjóri RNH, prófessor Hannes H. Gissurarson, flutti fyrirlestur á málstofu um alþjóðamál á þingi NOPSA, Norrænu stjórnmálafræðingasamtakanna, í Óðinsvéum 8.–12. ágúst 2017. Fyrirlesturinn bar heitið Til varnar smáríkjum, „In Defence of Small States,“ þar sem Hannes reyndi að hrekja efasemdir, sem prófessorarnir Anne Sibert og Baldur Þórhallsson létu í ljós eftir bankahrunið íslenska 2008, um að Ísland fengi vegna smæðar sinnar staðist sem ríki. Hannes rifjaði upp, að þeir Rousseau, Marx  og Engels og prófessor Alfred Cobban hefðu látið í ljós svipaðar efasemdir, og sneri sér síðan að þeirri röksemd Siberts, að kostnaðarsamara væri að reka lítil ríki en stór. Hannes benti á, að þetta væri ekki alltaf rétt. Útgjöld á mann til framleiðslu samgæða eins og löggæslu og landvarna væru lægri á Íslandi og öðrum Norðurlöndum en í mörgum fjölmennari ríkjum, til dæmis Bandaríkjunum og Bretlandi. Ástæðan væri, að smáríki væru iðulega samleit, samheldin, gagnsæ og friðsöm og nytu rótgróinna siða. Gagnsæið í smáríkjum minnkaði einnig líkurnar á „harðri“ spillingu eins og fjárkúgun og mútum, þótt eflaust yrðu eftir tækifæri til klíkuskapar og flokkshygli (en slíkrar „mildrar“ spillingar gætti líka í stórum ríkjum eins og Kína, Indlandi og Brasilíu). Sannleikurinn væri sá, að smáríki væru oft auðugri en stór ríki, ekki síst vegna þess að þau stunduðu frjálsa verslun. Samrunaþróunin í alþjóðaviðskiptum síðustu hálfa öldina hefði bætt hag smáríkja, jafnframt því sem hún hefði minnkað þörfina á samrunaþróun í stjórnmálum.

Hannes ræddi um skjólkenningu samkennara síns, Baldurs Þórhallssonar, fyrrverandi varaþingmanns Samfylkingarinnar og eins helsta talsmann ESB-aðildar á Íslandi. Baldur taldi Ísland þurfa skjól í Evrópusambandinu, ekki síst eftir að Bandaríkjamenn sneru við landinu baki. Hannes kvað Íslandssöguna sýna hið gagnstæða. Íslendingar hefðu komist að því, þegar þeir héldu sig komna í skjól norsku og síðar dönsku krúnunnar, að þeir hefðu í raun lent í gildru. Krúnan hefði einangrað þá, neytt upp á þá verslunareinokun og unnið með innlendum landeigendum að því að stöðva þróun sjávarútvegs. Afleiðingin hefði verið, að Íslendingar hefðu soltið, þótt allt væri fullt af fiski á hinum gjöfulu miðum í kringum landið. Krúnan hefði lítt skeytt um Ísland og þrisvar reynt að selja Hinrik VIII. Englandskóngi landið og einu sinni þýskum Hansakaupmönnum. Á 19. öld hefðu Danir velt því fyrir sér í fullri alvöru að bjóða Prússum Ísland í skiptum fyrir Norður-Slésvík. Þegar Svíar hefðu fengið Noreg í sárabætur fyrir Finnland, sem Rússar hefðu lagt undir sig, hefðu þeir ekki hirt um að krefjast Íslands með, jafnvel þótt það væri gamalt norskt skattland.

Hannes benti á, að orðið „skjól“ merkti venjulega var eða afdrep undan vondu veðri eða hættu. Þess vegna ætti það illa við um gagnkvæm og frjósöm menningartengsl þjóða, jafnt stórra og smárra. Það ætti ekki heldur við um gagnkvæm og ábatasöm viðskipti einstaklinga og fyrirtækja yfir landamæri. Sannleikskjarninn í skjólkenningunni væri hins vegar, að smáríki væru vegna takmarkaðs hernaðarstyrks veikburða og þyrftu því bandamenn og jafnvel verndara. Bandalag Íslands og Bandaríkjanna 1941–2006 um það, að Bandaríkin tækju að sér hervernd landsins gegn aðstöðu í landinu, hefði tekist vonum framar. Ísland ætti að reyna að endurvekja þetta bandalag og treysta um leið böndin við önnur grannríki í Norður-Atlantshafi, Noreg, Bretland og Kanada. Þetta þyrfti ekki að fela í sér, að tengslin við Evrópusambandið veiktust, enda væru lönd þess góðir viðskiptavinir. En því færi fjarri, að ESB hefði sama hernaðarmátt og Bandaríkin, og líklega færi samrunaþróunin innan þess í stjórnmálum ekki lengra. Hannes rifjaði upp, að Jón Sigurðsson, leiðtogi sjálfstæðisbaráttunnar, hefði viljað versla við marga aðila og ekki aðeins einn.

Glærur Hannesar í Óðinsvéum

Fjörugar umræður urðu eftir fyrirlestur Hannesar, og stýrði þeim prófessor Anders Wivel frá Danmörku. Andmælandinn, prófessor Gunnar Fermann, lét í ljós ánægju með það, að þetta mikilvæga mál væri rætt á Íslandi. Hann kvaðst sjálfur taka undir margt í gagnrýni Hannesar á Evrópusambandið. Sverrir Steinsson, sem stundar framhaldsnám í stjórnmálafræði og hefur birt ritgerðir með Baldri Þórhallssyni um skjólkenninguna, lagði áherslu á, að kenningin væri óháð skoðunum manna á Íslandi um ESB. Hann taldi einnig, að Hannes hefði stundum sérvalið dæmi máli sínu til stuðnings. Aðrir þátttakendur í umræðunum veltu því fyrir, hvernig skilgreina bæri smáríki, hvort stór ríki, sem veittu smáríkjum skjól, krefðust ekki einhvers endurgjalds og hvort eðlilegasta skjólið eða vettvangurinn fyrir Ísland væri ekki með öðrum Norðurlöndum.

Hannes notaði tækifærið í Danmörku til að heimsækja 11. ágúst hinn kunna og virta sagnfræðing prófessor Bent Jensen, sem býr skammt frá Óðinsvéum. Árið 2012 var Jensen fyrsti fyrirlesari hins nýstofnaða Rannsóknarseturs, RNH. Hann hefur gefið út fjölda bóka um Stalín, Ráðstjórnarríkin og erindreka þeirra á Vesturlöndum og sögu Kalda stríðsins í Danmörku. Þeir Hannes og Jensen ræddu um, hvernig minnast bæri 100 ára afmælis bolsévíkabyltingarinnar rússnesku. Kommúnisminn hefði kostað um hundrað milljón mannslíf á 20. öld, og enn tórði hann í Norður-Kóreu og á Kúbu. Hannes fór frá Danmörku til Englands og heimsótti þar 14. ágúst Mervyn King lávarð, fyrrverandi seðlabankastjóra Breta. Hannes tók viðtal við King lávarð um hina alþjóðlegu fjármálakreppu 2007–9 og um íslenska bankahrunið, sem hann er að semja um skýrslu fyrir fjármálaráðuneytið. Fyrirlestur Hannesar á ráðstefnunni í Óðinsvéum og fundurinn með King lávarði voru þættir í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“, en fundurinn með prófessor Jensen var þáttur í öðru samstarfsverkefni sömu aðila um „Evrópu fórnarlambanna“.

Pétur Fjeldsted tók viðtal við Hannes um erindi hans í Óðinsvéum:

Comments Off

Jónas Sigurgeirsson um Norður-Kóreu

Jónas með Norður-Kóreu í baksýn.

Norður-Kórea er eitt furðulegasta land í heimi, en ástæðulaust er að hafa það í flimtingum, því að kúgunin þar er hrottaleg, sagði Jónas Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri Almenna bókafélagsins og RNH, í viðtali á Morgunvaktinni á Ríkisútvarpinu 15. ágúst. Tilefni viðtalsins var útkoma íslenskrar þýðingar á bók eftir unga stúlku frá Norður-Kóreu, Yeonmi Park, Með lífið að veði, en hún hefur komið út í mörgum löndum og selst mjög vel. Höfundurinn, sem er aðeins 24 ára, lýsir uppvexti sínum í landinu, en hungursneyð geisaði þar árin 1994–1998. Faðir hennar var handtekinn fyrir „brask“, en Yeonmi og móðir hennar ákváðu að flýja til Kína. Þar lentu þær hins vegar í klónum á mansalshring, og var mæðgunum nauðgað og þær seldar í hjónabönd. Eftir miklar raunir tókst þeim að flýja til Mongólíu og komast þaðan til Suður-Kóreu. Stundar Park nú nám við Columbia-háskóla í New York og er nýgift.

Jónas lýsti líka í útvarpsviðtalinu ferð sinni vorið 2017 til Suður-Kóreu á ráðstefnu Mont Pèlerin-samtakanna, alþjóðasamtaka frjálslyndra fræðimanna, en þá skreið hann einn daginn ásamt öðrum ráðstefnugestum um jarðgöng til Norður-Kóreu, en Norður-Kóreumenn höfðu grafið þau til að geta laumað njósnurum og undirróðursmönnum inn til Suður-Kóreu. Munurinn á lífskjörum í Norður- og Suður-Kóreu er ótrúlegur. Útgáfa bókar Parks er þáttur í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna: Minninguna um kommúnismann“.

Comments Off

Fyrirlestur í Danmörku

Rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, flytur fyrirlestur á norræna stjórnmálafræðingamótinu í Óðinsvéum 8.–11. ágúst. Þar tekur Hannes þátt í málstofu um „Foreign Policy: Nordic perspectives and beyond“ undir forystu Tuomas Forsbergs og Anders Wivels í herbergi U68 í Syddansk Universitet, og er hún haldin frá kl. 13:30 þriðjudaginn 8. ágúst til kl. 12:00 föstudaginn 11. ágúst. Fyrirlesturinn nefnist „In Defence of Small States“ og er á dagskrá kl. 15:15 fimmtudaginn 10. ágúst. Andmælandi verður Gunnar Fermann. Útdráttur úr fyrirlestrinum hljóðar svo:

After the 2007–9 financial crisis, scholars argued that it showed Iceland’s unsustainability as a state. She needed a shelter such as the EU. In this paper, two sets of arguments are examined. One is economic and comparative: Small countries such as Iceland cannot enjoy economies of scale in public administration, production of collective goods and economic life in general, while their economy tend to be unstable and their political system characterised by nepotism and party patronage. Another set of arguments is mainly historical: Iceland, like other small countries, has always needed a shelter, which she found respectively in Norway, Denmark, and the US, and could now find in the EU. The examination here shows however that small states can enjoy the benefits of international free trade without having to join larger political units—a fact which explains the proliferation of small states. It is also not necessarily true that collective goods are more expensive in small states. Because of more trust and cohesion, law and order are for example on average cheaper to maintain in the Nordic countries than in bigger societies. While nepotism and party patronage certainly exist in small societies, they are not absent in larger ones. The examination also shows that while small states certainly need business partners, cultural exchanges and security arrangements, the risk is when they seek a shelter that they find a trap, as happened to Iceland in 1400–1800. Finally, the international strategy of a small nation like Iceland after the Cold War is discussed: Which option should she adopt, the Nordic, the North Atlantic or the Continental European? A possible answer is: All three, although in different fields, finding business partners in the European market, keeping close cultural ties with the other Nordic countries and seeking security arrangements with her Anglo-Saxon neighbours in the North Atlantic.

Fjórir aðrir Íslendingar taka þátt í málstofum á ráðstefnunni, Sverrir Steinsson (hinni sömu og Hannes), Hulda Þórisdóttir, Grétar Þór Eyþórsson og Eva Heiða Önnudóttir.

Glærur Hannesar í Óðinsvéum

Þátttaka Hannesar í ráðstefnunni er í tengslum við samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans.

Comments Off