Norrænu leiðirnar í Las Vegas

Hannes flytur umsögn sína. T. v. við hann situr prófessor Gwartney.

Á „Freedomfest“, frelsisveislunni, í Las Vegas í júlí 2019 var rannsóknastjóri RNH, prófessor Hannes H. Gissurarson, beðinn að vera umsegjandi um fyrirlestur prófessors James Gwartneys um jafnari tekjudreifingu í heiminum. Gwartney studdist við tölur frá Angus Maddison-verkefninu og Alþjóðabankanum, sem sýna, að tekjudreifing, eins og hún mælist samkvæmt Gini-stuðlinum svonefnda, hefur verið að jafnast í heiminum. Taldi Gwartney meginskýringuna vera byltingu í upplýsingamiðlun og samgöngutækni, sem væri að því leyti mikilvægari en iðnbyltingin í lok átjándu aldar, að hún næði til alls heimsins. Fjölmennar þjóðir hefðu brotist úr fátækt í bjargálnir.  Gwartney taldi, að tiltölulega jöfn tekjudreifing á Norðurlöndum væri ekki síst vegna samleitni (homogeniety) þjóðanna, sem þau byggðu.

Í umsögn sinni ræddi Hannes sérstaklega um Norðurlönd. Hann benti á, að Norðurlandaþjóðirnar byggju að langri og sterkri frjálshyggjuhefð. Til dæmis hafði sænsk-finnski presturinn Anders Chydenius sett fram kenninguna um samband ávinningsvonar og almannahags í krafti frjálsrar samkeppni á undan Adam Smith, og frjálslyndir sænskir stjórnmálamenn nítjándu aldar hefðu beitt sér fyrir víðtækum umbótum, sem hleypt hefðu af stað örum og samfelldum hagvexti í marga áratugi, og mætti kalla það fyrstu sænsku leiðina. Að sögn Hannesar hvíldi velgengni Svía á tuttugustu öld eins og annarra Norðurlandaþjóða á öflugu réttarríki, opnu hagkerfi og samheldni og sáttarhug vegna samleitni þjóðarinnar, eins og Gwartney hefði bent á. Það hefði ekki verið fyrr en árin 1970–1990, sem sænskir jafnaðarmenn hefðu lagt inn á braut ofurskatta og stórfelldra afskipta af atvinnulífinu.

Önnur sænska leiðin, sem farin var 1970–1990, reyndist ófær að sögn Hannesar. Svíar voru lentir öfugum megin á Laffer-boganum svonefnda, þar sem aukin skattheimta hafði ekki í för með sér auknar skatttekjur, heldur minnkandi. Sjá hefði mátt í Svíþjóð þá sviðsmynd, sem Ayn Rand hefði brugðið upp í skáldsögunni Undirstöðunni (Atlas Shrugged), en hún hefur komið út á íslensku: Þeir, sem sköpuðu verðmæti, hurfu ýmist á brott, hættu að framleiða eða fitjuðu ekki upp á nýjungum. Í einkageiranum urðu nánast engin störf til á þessu tímabili, aðeins í opinbera geiranum. En nú reyndist Svíum vel samheldnin og sáttarhugurinn, kvað Hannes: Með þjóðinni myndaðist óskráð samkomulag frá 1990 og áfram um að fara þriðju sænsku leiðina, sem felst ekki síst í að efla einkaframtak og halda sköttum í hófi. Þátttaka Hannesar í Freedomfest er liður í samstarfsverkefni við ACRE, Samtök íhaldsmanna og umbótasinna í Evrópu, um kapítalisma 21. aldar.

Comments Off

Grænn kapítalismi í Las Vegas

Hannes flytur erindi um grænan kapítalisma.

Árlega halda frjálslyndir menn og íhaldssamir í Bandaríkjunum, andstæðingar vinstri stefnu, eins konar uppskeruhátíð, bera saman bækur sínar og sýna kvikmyndir, í Las Vegas undir heitinu „Freedomfest“, frelsisveisla. Er hún mjög fjölmenn og fjölbreytni mikil í vali fyrirlesara og umræðuefna. Rithöfundurinn og fjárfestingarráðgjafinn prófessor Mark Skousen skipuleggur ráðstefnuna. Rannsóknastjóra RNH, prófessor Hannesi H. Gissurarsyni, var boðið að halda þar fyrirlestur 17. júlí 2019 um „grænan kapítalisma“, en um hann skrifaði Hannes bókarlanga skýrslu á ensku fyrir hugveituna New Direction í Brüssel 2017.

Í fyrirlestrinum gerði Hannes greinarmun á hófsamri umhverfisverndarstefnu (wise use environmentalism), þar sem stefnt er að sjálfbærri og arðbærri nýtingu náttúruauðlinda, og öfgaumhverfisstefnu (ecofundamentalism), þar sem náttúran er gerð að sjálfstæðum rétthafa æðri venjulegu fólki og stefnt að friðun frekar en verndun. Benti hann á, að öfgaumhverfisstefna bæri svip af ofsatrú og ætti sínar heilögu kýr eins og hindúasiður.

Dr. Richard Rahn, Hannes og prófessor Mark Skousen.

Ef markmiðið er hins vegar verndun, þá krefst hún raunverulegra verndara, sagði Hannes. Til dæmis er unnt að breyta veiðiþjófum í Afríku í veiðiverði með einu pennastriki: með því að gera þá að eigendum dýrastofna í útrýmingarhættu, svo sem fíla og nashyrninga, en bein fílanna og horn nashyrninganna eru eftirsótt. Raunhæfasta ráðið til að tryggja skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda er að skilgreina eigna- eða afnotaréttindi á þeim, koma þeim í umsjá. Í því sambandi lýsti Hannes stuttlega kvótakerfinu í íslenskum sjávarútvegi, en Íslendingar búa ólíkt flestum öðrum þjóðum við sjálfbært og arðbært kerfi í fiskveiðum.

Enn fremur gerði Hannes hvalveiðar að umtalsefni, en Bandaríkjamenn hafa lengi krafist þess, að Íslendingar hætti hvalveiðum. Virðast hvalir vera umhverfisöfgamönnum sem heilagar kýr. Hannes minnti á, að á Íslandsmiðum veiða Íslendingar árlega um og yfir einni milljón lesta (tonna) af fiski, en hvalir éta á sama tíma um sex milljónir lesta af sjávarfangi og fiski. Krafa öfgaumhverfissinna er með öðrum orðum, að Íslendingar fóðri hvalina á eigin kostnað, en fái ekki að veiða þá. Þeir verða þá eins og freki bóndinn, sem rekur sauði sína í bithaga annarra, en harðneitar grönnum sínum um nytjar af þeim. Þátttaka Hannesar í ráðstefnunni var liður í samstarfsverkefni við ACRE, Samtök íhaldsmanna og umbótasinna í Evrópu, um kapítalisma 21. aldar.

Comments Off

Frelsisveisla í Las Vegas

Rannsóknastjóri RNH, prófessor Hannes H. Gissurarson, heldur fyrirlestur á Freedomfest 17. júlí 2019, Frelsisveislunni, sem prófessor Mark Skousen hefur skipulagt áratugum saman í Las Vegas, en þar hittast frjálslyndir og íhaldssamir menn í öllum heiminum, en aðallega þó frá Bandaríkjunum. Fyrirlestur Hannesar er um grænan kapítalisma, en um hann samdi hann skýrslu fyrir hugveituna New Direction í Brüssel árið 2017. Hann er klukkan þrjú síðdegis í fundarsalnum Champagne 4 á Paris Hotel and Spa. Hannes er einnig umsegjandi á málstofu um tekjudreifingu í heiminum klukkan eitt sama dag, en þar er prófessor James Gwartney frummælandi. Hannes samdi skýrslu fyrir hugveituna New Direction í Brüssel um það efni árið 2018. Frelsisveislan stendur í fjóra daga, og sækja hana um tvö þúsund manns. Þar eru kynntar bækur og sýndar kvikmyndir, sem tengjast baráttunni fyrir frelsi, friði og lágum sköttum.

Glærur HHG Las Vegas 17. júlí 2019

Comments Off

Bjørndal: Bláuggatúnfiskur kominn á Íslandsmið

Í viðtali við Morgunblaðið 19. júní 2019 lýsti Trond Bjørndal, prófessor í fiskihagfræði við Viðskiptaháskólann í Björgvin, vandkvæðunum á því að stjórna veiðum á einum verðmætasta fiski í heimi, bláuggatúnfisknum. Hann er uppsjávarfiskur, sem fer um öll heimsins höf, inn og út úr fiskveiðilögsögu fjölmargra ríkja, svo að erfitt er að ná samkomulagi um nýtingu hans. Það hefur þó tekist síðustu árin, og er stofninn að ná sér eftir nokkra hnignun. Veiðist bláuggatúnfiskur nú jafnvel á Íslandsmiðum. Bjørndal flutti fyrirlestur á ráðstefnu, sem Félagsvísindasvið Háskóla Íslands hélt til heiðurs Ragnari Árnasyni prófessor 14. júní 2019.

Comments Off

Wilen: Stjórn strandveiða sé sjálfsprottin

Strandveiðar, oft með handfærum, eru mikilvægar, en erfiðlegar hefur gengið að stjórna þeim en úthafsveiðum og þess vegna er enn mikil sóun í þeim, segir James Wilen, prófessor emeritus í fiskihagfræði í Kaliforníuháskóla í Davis, í viðtali við Morgunblaðið 18. júní 2019. Kerfi framseljanlegra aflakvóta hefði reynst mjög vel í úthafsveiðum, en líklega væru einhvers konar staðbundin (TURF=Territorial Use Rights in Fisheries) réttindi eða hópbundin raunhæfari í strandveiðum, sérstaklega í fátækum löndum. Stjórnin þyrfti að koma neðan að, ekki ofan frá. Wilen flutti fyrirlestur á ráðstefnu, sem Félagsvísindasvið Háskóla Íslands hélt til heiðurs Ragnari Árnasyni prófessor 14. júní 2019.

Comments Off

Munro: Samstarf útgerðarmanna mikilvægt

Í viðtali við Morgunblaðið 17. júní benti Gordon Munro, prófessor emeritus í fiskihagfræði við Háskólann í Bresku Kólumbíu, á, að mikilvægt væri, að útgerðarmenn næðu samkomulagi sín í milli um skynsamlega nýtingu fiskistofna. Rakti hann þróunina í Bresku Kólumbíu, sem væri um sumt svipuð þróun kvótakerfisins á Íslandi. Nú litu útgerðarmenn á fiskistofnana sem verðmæti, sem yrði að gæta, og hefðu gott samstarf um nýtingu þeirra. Munro flutti fyrirlestur á ráðstefnu um fiskihagfræði, sem Félagsvísindasvið Háskóla Íslands hélt til heiðurs Ragnari Árnasyni prófessor sjötugum 14. júní 2019.

Comments Off