Nazism and Communism: Two of a Kind?

In the foreword to the book In Defence of Western Culture: Speeches by Six Authors in 1950–1958, Professor Hannes H. Gissurarson argues that Hitler’s National Socialism and Stalin’s Communism were two variants of Twentieth Century Totalitarianism: Modern totalitarians had tried to subdue the soul no less than the body. In this Gissurarson echoes the six Icelandic intellectuals whose speeches from the Cold War are reprinted in the book, Tomas Gudmundsson, Gunnar Gunnarsson, Kristmann Gudmundsson, Gudmundur G. Hagalin, Sigurdur Einarsson and David Stefansson. On the other hand, Professor Stefan Snaevarr doubts that the concept of totalitarianism is useful and does not think that National Socialism and Communism have much in common. Gissurarson and Snaevarr exchange views about the issue at a seminar organised by RNH and the Institute of Public Administration Studies and Politics at the University of Iceland, in Room 101 in Oddi at the University of Iceland, 16–17:30 Friday 17 May 2019. Professor Olafur Th. Hardarson will chair the meeting.

Comments Off

Eru nasismi og kommúnismi greinar af sama meiði?

Í formála bókarinnar Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958 heldur dr. Hannes H. Gissurarson prófessor því fram, að þjóðernisjafnaðarstefna Hitlers og sameignarstefna Stalíns hafi verið tvær greinar af meiði alræðisstefnu tuttugustu aldar, en alræðissinnar hafi leitast við að leggja undir sig sálir manna ekki síður en líkama. Fetar hann þar í fótspor rithöfundanna sex, sem eiga ræður í bókinni, þeirra Tómasar Guðmundssonar, Gunnars Gunnarssonar, Kristmanns Guðmundssonar, Guðmundar G. Hagalíns, Sigurðar Einarssonar í Holti og Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Dr. Stefán Snævarr prófessor efast hins vegar um nothæfni alræðishugtaksins og skyldleika nasisma og kommúnisma. Þeir skiptast á skoðunum á málstofu RNH og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála í stofu 101 í Odda í Háskóla Íslands föstudaginn 17. maí kl. 16–17:30, en fundarstjóri er dr. Ólafur Þ. Harðarson prófessor.

Comments Off

Hannes: Norræn leið smáþjóða

Frá fundinum í Lundúnum 9. maí.

Samruni í efnahagsmálum auðveldar smáríkjamyndun, sagði dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, rannsóknastjóri RNH, í fjórum fyrirlestrum, sem hann flutti í „Frjálsum markaði á ferð“, Free Market Road Show, í maí. Fyrsti fyrirlesturinn var í Þessaloniki 6. maí, annar í Aþenu 7. maí, hinn þriðji í Lundúnum 9. maí og hinn fjórði í Stokkhólmi 10. maí. Á meðal annarra fyrirlesara á fundunum voru dr. Richard Rahn, fyrrverandi aðalhagfræðingur bandaríska verslunarráðsins, og bandaríski heimspekiprófessorinn Andrew Bernstein. Austurríska hagfræðistofnunin, Austrian Economics Center, undir forystu dr. Barböru Kolm skipulagði ferðina.

Hannes rifjaði upp skýringu Adams Smiths á velmegun. Hún væri vegna verkaskiptingar á frjálsum markaði, en hún yrði því víðtækari og hagkvæmari sem markaðurinn væri stærri. Ástæðan til þess, að smáríki gætu þrátt fyrir það þrifist og dafnað, væri sú, sagði Hannes, að þau hefðu aðgang að stórum alþjóðlegum mörkuðum og gætu þannig nýtt sér kosti verkaskiptingarinnar. Sjálfstæð ríki hefðu verið 76 talsins árið 1946, þegar Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar, en nú ættu 193 ríki aðild að þeim, en auk þeirra mætti telja Páfagarð og Taívan sjálfstæð. Hannes benti á, að þjóðir margra smáríkja væru líka samleitar, svo að kostnaður af réttarvörslu yrðu ekki eins mikill á mann og í stórum og sundurleitum ríkjum. Smáríki væru almennt ekki heldur herská, svo að útgjöld til hermála væru þar tiltölulega lág.

Hannes vék sérstaklega að Norðurlöndum í þessu sambandi. Hann kvað velgengni þeirra ekki vera vegna jafnaðarstefnu, heldur þrátt fyrir hana. Helstu ástæður til hennar væru, að réttarríkið væri öflugt á Norðurlöndum, þjóðir þeirra stunduðu frjáls viðskipti og væru í þriðja lagi samleitar, sem stuðlaði að sjálfsprottinni samábyrgð og samhug og lækkaði þannig kostnað af rekstri ríkisins. Hannes minnti á, að sterk frjálshyggjuhefð væri á Norðurlöndum, til dæmis í Svíþjóð. Sænsk-finnski presturinn Anders Chydenius hafði sett fram á undan Adam Smith kenningu um sátt einkahags og almannahags við frjálsa samkeppni, og á nítjándu öld hefðu frjálslyndir stjórnmálamenn aukið stórkostlega atvinnufrelsi í Svíþjóð með þeim afleiðingum, að hagvöxtur hefði verið þar örari en í nokkru öðru landi árin 1870–1936.

Að sögn Hannesar gæti Evrópusambandið þróast í ýmsar áttir á næstunni. Það hefði upphaflega verið vettvangur fyrir sátt Frakka og Þjóðverja, sem væri auðvitað lofsverð. Spurningin væri nú hins vegar sú, hvort ESB þróaðist yfir í opinn markað eða lokað ríki, hvort það yrði ríkjasamband eða sambandsríki. Nú væri þjóðríkishugmyndin víða að eflast. Þjóðernisjafnaðarstefnan hefði reynst hræðilega, en ef til vill fengi þjóðernisfrjálshyggja staðist. En ríkið mætti ekki verða fangelsi, heldur heimili.

Comments Off

Hámörkun auðs ekki tilgangurinn

Á málstofu Frelsissjóðsins bandaríska, Liberty Fund, í Pétursbæ (Petrópolis) í Brasilíu um hámörkun auðs og lagahugtakið sagði Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, að frjálst hagkerfi væri stefnulaust, en ekki tilgangslaust. Það hefði ekki þann tilgang að hámarka eitt né neitt, heldur að koma í kring gagnkvæmri aðlögun einstaklinga í keppni þeirra að markmiðum, sem oft rækjust á. Bandaríski dómarinn og réttarheimspekingurinn Richard Posner hefði hins vegar leitt rök að þeirri hugmynd, að dómarar ættu að stefna að hámörkun auðs (wealth maximisation) í úrskurðum sínum. Taldi Hannes þessa hugmynd oft eiga rétt á sér, en ekki alltaf. Rifjaði hann upp hinn fræga dóm Salomóns konungs, þegar portkonurnar tvær gerðu tilkall til sama barnsins. Þegar Salomón hefði látið færa sér sverð til að höggva barnið í tvo jafna hluta, sinn handa hvorri konu, hefði hann ekki verið að stunda nein helmingaskipti, heldur verið að prófa, hvorri konunni barnið væri meira virði. Þetta væri dæmi um hámörkun auðs. Hefði hins vegar verið vitað, hvor konan ætti barnið, hefði henni auðvitað verið dæmt það. Dómarinn ætti því fyrst að spyrja um réttindi manna og kröfur, en að því frágengnu leitast við að hámarka auð, flytja verðmæti í arðbærustu notkun þeirra.

Talsvert var rætt á málstofunni um slys og verðmat mannslífa. Hannes benti í því sambandi á, að ótrúleg verðmæti færu í súginn í hinni ströngu öryggisgæslu nú á dögum á flugvöllum, þar sem farþegar væru látnir bíða í röðum í hálftíma eða lengur, átta milljónir manna á hverjum degi. Væri hægt að meta mannslíf til fjár, þá borgaði sig hugsanlega að minnka stórlega slíka gæslu, þótt það hefði í för með sér, að einhver mannslíf týndust í hryðjuverkaárásum. Í umræðum um endurdreifingu fjármuna vísaði Hannes þeirri algengu hugmynd á bug, að einn Bandaríkjadalur væri hinum fátæka meira virði en hinum ríka, svo að heildaránægjan í heiminum myndi aukast við tilfærslu dalsins frá hinum ríka til hins fátæka. Hann kvað hinn ríka oft vera ríkan einmitt vegna þess, að einn dalur væri honum meira virði en öðrum. Sumir auðmenn væru með hugann við ný fyrirtæki og þyrfti allt sitt til að hrinda þeim í framkvæmd. Fjörugar umræður urðu um ýmis önnur efni á málstofunni, sem fór fram á portúgölsku undir stjórn prófessors Eduardos Mayora frá Guatemala dagana 11.–14. apríl 2019.

Þátttakendur á málstofu Frelsissjóðsins. Ljósm. Daniela Becker.

Comments Off

Norræna leiðin er frjálshyggja

Þegar talað er um Norðurlönd, dettur mörgum í hug jafnaðarstefna, enda voru jafnaðarmenn við stjórnvölinn áratugum saman á tuttugustu öld í Svíþjóð, Danmörku og Noregi. En sterk frjálshyggjuhefð er á Norðurlöndum, sagði dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor í erindi, sem hann flutti 6. apríl 2019 á ráðstefnu Samtaka um framtaksfræðslu, Association of Private Enterprise Education, APEE, á Sældarey, Paradise Island, á Bahama-eyjum. Hannes benti á, að sænsk-finnski presturinn Anders Chydenius hafði sett fram kenningu um sátt eiginhagsmuna og almannahags á undan Adam Smith og að sænski stjórnmálamaðurinn Johan August Gripenstedt hafði um og eftir miðja nítjándu öld markað fyrstu sænsku leiðina, sem fólst í atvinnufrelsi og einkaframtaki. Á meðan henni var fylgt, urðu stórstígar framfarir í Svíþjóð: Hagvöxtur var þar einn hinn örasti í heimi árin 1870–1936. Önnur sænska leiðin var reynd árin 1970–1990, víðtæk endurdreifing og háir skattar, en reyndist ófær, og hafa Svíar horfið frá henni og fara nú þriðju sænsku leiðina. Þeir hafa lækkað skatta og aukið svigrúm til einkareksturs, þótt þeir hafi ekki horfið frá viðamiklu velferðarkerfi.

Hannes benti á, að Jón Sigurðsson, leiðtogi Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni, aðhylltist frjálshyggju, eins og fram kemur í fjölmörgum greinum hans í Nýjum félagsritum. Höfundar tveggja fyrstu ritanna um hagfræði á íslensku, þeir Arnljótur Ólafsson og Jón Þorláksson, var líka eindregnir frjálshyggjumenn. Hannes rakti efnahagsumbæturnar á Íslandi 1991–2004, þegar ríkisfyrirtæki voru seld, skattar lækkaðir og lífeyrissjóðir efldir, jafnframt því sem hagkerfið var opnað með aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu. Taldi hann eitt merkið um, hversu vel til hefði tekist, að Íslendingar hefðu verið tiltölulega fljótir að rétta úr kútnum eftir bankahrunið 2008.

Glærur Hannesar á Sældarey

Comments Off

Ráðstefna á Sældarey

APEE, Association of Private Enterprise Education, Samtök um framtaksfræðslu, halda árlega ráðstefnu sína í Atlantis-gistihúsinu á Paradise Island, Sældarey, í Bahama-eyjaklasanum dagana 5.–8. apríl 2019. Margt er á dagskrá, þar á meðal aðalfyrirlestrar eftir prófessor Mario Rizzo, New York-háskóla, um skynsemi og hagræna hugsun, prófessor Peter Boettke, George Mason-háskóla, um stjórnsýslu frá sjónarmiði frjálshyggjumanna og dr. Alex Chafuen, Acton Institute, um hindranir í vegi verðmætasköpunar. Rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, flytur erindi á málstofu um frjálshyggju í Evrópu, og er það um frjálshyggju á Norðurlöndum, ekki síst í Svíþjóð. Dr. Michael Walker, fyrrverandi forstjóri Fraser Institute í Vancouver, stjórnar umræðum, en önnur erindi á málstofunni eru um aðstæður í Úkraínu, Eystrasaltsríkjunum og öðrum fyrrverandi kommúnistaríkjum.

Glærur Hannesar á Sældarey

Comments Off