Hannes: Bankahrunið ekki sökum „nýfrjálshyggjunnar“

Las Vegas: Wynn-gistihúsið, þar sem ársmót APEE fór fram, er t. v. fyrir miðju.

Ýmsir vinstri sinnar halda því, að bankahrunið íslenska hafi verið vegna misheppnaðrar tilraunar til að hrinda í framkvæmd „nýfrjálshyggju“, eins og það er kallað. Prófessor Hannes H. Gissurarson vísaði þeirri skýringu á bankahruninu á bug í fyrirlestri, sem hann flutti á málstofu á ársmóti APEE, Association of Private Enterprise Association, í Las Vegas 14. apríl 2014. Hann kvað þá skýringu stangast á við tvær skýrar staðreyndir. Hin fyrri væri, að sömu lög og reglur hefðu gilt um íslenska fjármálamarkaðinn og í öðrum aðildarríkjum EES, Evrópska efnahagssvæðisins. Hin síðari væri, að útþensla og skuldasöfnun íslensku bankanna hefði ekki hafist fyrr en 2004, þegar á Íslandi hefði verið vikið frá markaðskapítalisma (eða „nýfrjálshyggju“) til klíkukapítalisma. Að sögn Hannesar var þó örlítill sannleikskjarni í þessari skýringu vinstri sinna: Ísland hefði getið sér gott orð vegna röggsamlegrar og frjálslyndrar stjórnar árin 1991–2004, þegar fylgt var markaðskapítalisma. Þá var fjáraustri úr opinberum sjóðum í illa rekin einkafyrirtæki hætt, skattar lækkaðir, ríkisfyrirtæki seld, lífeyrissjóðir efldir, kvótakerfið í sjávarútvegi betrumbætt og skuldir ríkisins greiddar niður, jafnframt því sem verðbólga hjaðnaði. Lánstraust landsins og um leið íslenska fyrirtækja hefði því aukist mjög, og hefðu bankarnir notið góðs af því. Þeir hefðu haft nær ótakmarkaðan aðgang að ódýru lánsfé frá útlöndum og þess vegna vaxið hratt og langt umfram getu íslenska ríkisins til að bjarga þeim, færi illa. „Laun dygðarinnar er syndin,“ sagði Hannes.

Tvenns konar kerfisáhætta hefði því verið á Íslandi til viðbótar við hina almennu og alþjóðlegu kerfisáhættu. Vegna klíkukapítalisma áranna 2004–2008 hefðu íslensk fyrirtæki verið orðin mjög skuldug og háð hvert öðru. Jafnframt hefði rekstrarsvæði bankanna verið allt EES, en baktryggingarsvæði þeirra Ísland eitt, eins og komið hefði í ljós í lánsfjárkreppunni, þegar hún náði hámarki haustið 2008. Ísland hefði þá hvergi fengið aðstoð ólíkt öðrum löndum. Bandaríski seðlabankinn hefði ekki viljað gera gjaldeyrisskiptasamninga við íslenska seðlabankann, eins og hann gerði þó við seðlabanka Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar og Sviss, Bretar hefðu ekki viljað aðstoða breska banka í eigu Íslendinga, eins og þeir aðstoðuðu þó alla aðra breska banka, sem það vildu eða þurftu, og til að bæta gráu ofan á svart hefðu Bretar sett hryðjuverkalög á Ísland, en það hefði einangrað landið og gert að engu allar vonir um að bjarga einhverju úr rústum bankanna.

Prófessor Joshua Hall, forseti APEE.

Fjörugar umræður urðu að fyrirlestri Hannesar loknum, og var auðheyrt, að Bandaríkjamenn vissu lítt af erfiðleikum Íslendinga í bankahruninu. Ársmót APEE sóttu að þessu sinni um fimm hundrað manns, þar á meðal margir háskólanemar, og var það hið fjölmennasta í sögu samtakanna. Rætt var um íslenska þjóðveldið 930–1262 á annarri málstofu á mótinu. Hélt prófessor Carrie B. Kerekes frá Florida Gulf Coast University fyrirlestur um helstu stofnanir þess og vakti athygli á því, að Íslendingar hefðu búið við lög án ríkisvalds í rösk þrjú hundruð ár. Réttarvarsla hefði þá verið í höndum einstaklinga. Prófessor John E. Mueller frá Ohio State University flutti einn aðalfyrirlesturinn á ársmótinu. Kvað hann bandarísk stjórnvöld ýkja stórlega hættuna af hryðjuverkum. Geipifé væri tekið af skattgreiðendum og notað til hryðjuverkavarna. Niels Veldhuis frá Fraser-stofnuninni flutti ræðu á hádegisverðarfundi á mótinu og sýndi, hvernig Kanadamenn hefðu breytt um stefnu á miðjum tíunda áratug 20. aldar, minnkað ríkisútgjöld, lækkað skatta og örvað hagvöxt.

Hannes notaði tækifærið á mótinu til að hitta ýmsa gamla kunningja, frá því að hann sótti mörg námskeið og sumarskóla Institute of Humane Studies á níunda áratug 20. aldar, þar á meðal prófessor Roger Garrison í Auburn University, próffessor Larry White í George Mason-háskóla, dr. Gerald P. O’Driscoll í Cato-stofnuninni, Dr. Nigel Ashford í IHS, prófessor Peter Boettke í George Mason-háskóla og prófessor Sanford Ikeda í Purchase-skólanum í Ríkisháskólanum í  New York. Á mótinu voru einnig nokkrir nýlegir gestir RNH á Íslandi, þar á meðal prófessor Douglas Rasmussen í St. John’s-háskóla, dr. Eamonn Butler í Adam Smith-stofnuninni og dr. Yaron Brook í Ayn Rand-stofnuninni. Prófessor Joshua Hall í Háskólanum í Vestur-Virginíu var kjörinn forseti APEE, en næst verður ársmót samtakanna í Cancún í Mexíkó.

Comments Off

Hannes um bankahrunið í Las Vegas: Mánudag 14. apríl

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, heldur fyrirlestur um skýringar á íslenska bankahruninu 2008 á árlegri ráðstefnu  bandarísku samtakanna APEE, Association of Private Enterprise Education, í Las Vegas í Nevada mánudaginn 14. apríl 2014. Erindi hans er kl. 2.55–4.10 síðdegis á málstofu, sem Anna Sachko Gandolfi stjórnar. Aðrir fyrirlesarar á málstofunni eru James Lee Caton, Jr. frá George Mason-háskóla í Virginíu og þeir Atin Basuchoudhary, Samuel Allen og Troy Siemers frá Herháskólanum í Virginíu, Virginia Military Institute. Hannes vísar þar á bug tveimur algengum skýringum á falli bankanna. Önnur er, að það hafi orðið vegna nýfrjálshyggjutilraunar Davíðs Oddssonar. Tvær staðreyndir nægja til að hnekkja þeirri skýringu að sögn Hannesar. Útrás bankanna erlendis hófst af alvöru 2004, sama ár og Davíð lét af starfi forsætisráðherra. Hin staðreyndin og sýnu mikilvægari er, að á Íslandi giltu sömu reglur um fjármálamarkaði og í öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu, þar á meðal öllum ríkjum Evrópusambandsins.

Hin skýringin, sem Hannes hafnar, er, að íslenskir bankamenn hafi verið miklu óreyndari og fífldjarfari en starfsbræður þeirra og -systur erlendis. Hannes færir tvær röksemdir gegn þessari skýringu. Íslenskir bankamenn hafi fengið lán frá erlendum bankamönnum, og þá þurfi að skýra, hvers vegna þessir erlendu bankamenn voru svo fífldjarfir og óreyndir að gera það. Í öðru lagi hafi komið í ljós, að margir erlendir bankar hafi riðað til falls í hinni alþjóðlegu lánsfjárkreppu, til dæmis UBS í Sviss, RBS í Bretlandi og Danske Bank í Danmörku, en þeim hafi verið bjargað, meðal annars vegna þess að seðlabankar hafi margir getað gert gjaldeyrisskiptasamninga við bandaríska seðlabankann.

Að dómi Hannesar liggja rætur bankahrunsins frekar í ákvörðunum erlendis. Bandaríski seðlabankinn hafi neitað að gera gjaldeyrisskiptasamning við íslenska seðlabankann, og ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins hafi ekki aðeins neitað að aðstoða banka í eigu Íslendinga, á sama tíma og hún aðstoðaði alla aðra banka í Bretlandi, heldur hafi hún sett hryðjuverkalög á Landsbankann, Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið og með því gert að engu allar vonir um að bjarga einhverjum íslenskum bönkum úr rústunum. Hannes hefur áður flutt erindi á ársfundum samtakanna APEE og birt ritgerðir í tímariti þeirra, Journal of Private Enterprise. Fyrirlestur hans í Las Vegas er þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

HHG.Las Vegas.14.04.2014

Comments Off

Heisbourg: Evrópudraumurinn orðinn að martröð

Evrópudraumurinn er orðinn að martröð vegna þeirra mistaka að taka upp sama gjaldmiðil, evruna, í mestöllu Evrópusambandinu, þótt mörg aðildarríki hefðu verið vanbúin því, sagði François Heisbourg, einn kunnasti sérfræðingur Evrópu á sviði öryggis- og alþjóðastjórnmála, í fyrirlestri á fundi RNH og fleiri stofnana og samtaka í Háskóla Íslands 5. apríl 2014. Hann benti á, að hagvöxtur hefði síðustu sjö árin verið miklu örari í Bandaríkjunum, Kína og Brasilíu og á Indlandi en á evrusvæðinu. Vegna evrunnar hefðu ýmis ríki Suður-Evrópu ekki getað lagað sig að breyttum aðstæðum. Evran væri skráð of hátt fyrir þau, en of lágt fyrir Þýskaland. Menn hefðu trúað því, að ein stærð hæfði öllum, en reyndin hefði orðið, að ein stærð hæfði engum. Heil kynslóð æskufólks í Evrópu gengi um atvinnulaus. Evrópusambandið hefði verið stofnað til að tryggja friðsamleg samskipti í álfunni og verja fjórfrelsið — frjálsa flutninga fólks, vöru, þjónustu og fjármagns á milli Evrópulanda. Til þess að bjarga Evrópusambandinu þyrfti að leggja niður evruna. Það væri skásti kosturinn af mörgum vondum.

Heisbourg vék að Íslandi í fyrirlestrinum. Hann sagði, að vissulega hefði það komið sér vel í kreppunni 2007–2009 að standa utan evrusvæðisins og geta örvað útflutning með gengisfellingu. Hins vegar hefði Bretar og Hollendingar líklega ekki tekið Íslendinga sömu fantatökum og raun bar vitni, hefði Ísland átt aðild að Evrópusambandinu. Stefán Jóhann Stefánsson, hagfræðingur í Seðlabanka Íslands, andmælti þessari skoðun. Hefði Ísland átt aðild að Evrópusambandinu, sagði Stefán Jóhann, þá myndi sambandið hafa neytt Ísland til að taka að sér miklu víðtækari skuldbindingar en gert var.  Ásgeir Jónsson hagfræðingur spurði Heisbourg í umræðum eftir fyrirlesturinn, hvort Frakkar væru reiðubúnir að taka aftur upp franka og binda hann við þýskt mark, eins og þeir hefðu gert fyrir upptöku evrunnar. Heisbourg svaraði því til, að vissulega hefði frankinn verið bundinn þýska markinu áður, svo að Frakkar hefðu talið sér það sjálfstæðismál, að evran tæki við af markinu. En það hefði líklega ekki mikil áhrif á franskt atvinnulíf að leggja niður evru. Það myndi hins vegar breyta miklu til batnaðar í Suður-Evrópu.

Í Íslandsför sinni hitti Heisbourg meðal annarra Sigmund Davíð Gunnarsson forsætisráðherra og Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra og talaði á fundi utanríkismálanefndar Sjálfstæðisflokksins. Fyrirlestur Heisbourgs á fundi RNH vakti mikla athygli. Einn fundargesta, Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, bloggaði um Heisbourg. Morgunblaðið birti viðtal við Heisbourg 5. apríl, og fréttamenn Sjónvarpsins og Stöðvar tvö töluðu einnig við hann.

Comments Off

Heisbourg um evruna og ESB: Laugardag 5. apríl 11–12

Einn kunnasti sérfræðingur Evrópu í öryggis- og alþjóðastjórnmálum, François Heisbourg, heldur fyrirlestur um evruna og Evrópusambandið á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og RNH laugardaginn 5. apríl 2014 kl. 11–12 í Odda, stofu O-202, í Háskóla Íslands. Heisbourg fæddist 1949 og hlaut menntun sína í franska stjórnsýsluháskólanum, L’École nationale d’administration (ENA). Hann starfaði í franska utanríkisráðuneytinu frá 1978 til 1984 og var þá meðal annars öryggisráðgjafi utanríkisráðherra Frakklands. Hann var aðstoðarframkvæmdastjóri vopna- og raftækjasmiðjunnar Thomson-CSF 1984–1987, eftir að Mitterand forseti hafði þjóðnýtt hana, og forstöðumaður IISS, International Institute for Strategic Studies, í Lundúnum 1987–1992. Hann hefur síðan gegnt margvíslegum störfum, meðal annars kennt við háskóla og verið ráðgjafi ýmissa stofnana og ráða. Hann hefur verið stjórnarformaður IISS frá 2001.

Bók Heisbourgs, La Fin du Rêve Européen, Endalok evrópska draumsins, sem kom út haustið 2013, hefur vakið mikla athygli. Þar heldur hann því fram, að Evrópuríkin verði að leggja evruna niður, ætli þær að halda áfram samstarfi í efnahagsmálum og stjórnmálum. Heisbourg segir, að evrópski draumurinn hafi vegna evrunnar breyst í martröð. Hann er eindreginn stuðningsmaður Evrópusambandsins, en er þeirrar skoðunar, að myntbandalag Evrópuríkja hafi verið ótímabært og valdi þeim búsifjum. Fyrirlestur Heisbourgs er þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna. Hann verður fluttur á ensku. Tómas Ingi Olrich, fyrrverandi menntamálaráðherra og sendiherra í París, stjórnar fundinum. Að honum standa auk Alþjóðamálastofnunar og RNH samtökin Þjóðráð og Heimssýn.  Sjá má viðtal við Heisbourg hér á Youtube:

Comments Off

Hannes: Smæðin tækifæri ekki síður en takmörkun

Hannes flytur fyrirlestur sinn í Öström. Ljósm. Heinesen-myndir

Smæð þjóða getur verið tækifæri ekki síður en takmörkun, sagði dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, forstöðumaður rannsókna RNH, á fundi stjórnmálafélagsins Framsóknar í Færeyjum í samkomuhúsinu Öström í Þórshöfn laugardaginn 22. mars 2014. Í erindi sínu rakti Hannes í örstuttu máli sögu Íslendinga, sem hefðu öldum saman setið fastir í gildru Malthusar. Þá hefði fólksfjöldi ekki komist yfir fimmtíu þúsund manns, af því að nokkrir stórbændur hefðu í samstarfi við Danakonung haldið niðri sjávarútvegi, sem einn hefði verið sæmilega arðbær. Lífskjör á Íslandi hefðu verið helmingur á við það, sem gerðist í Danmörku, allt til 1940. Frá þeim tíma og fram á síðasta áratug 20. aldar hefðu Íslendingar haldið uppi betri lífskjörum en efni stóðu til með aðstoð Bandaríkjanna í heitu stríði og köldu, fjórum útfærslum fiskveiðilögsögunnar og rányrkju, sem hefði leitt til hruns síldarstofnsins og næstum því til hruns þorskstofnsins. Tímamót hefðu hins vegar orðið 1991, þegar Íslendingar hefðu opnað hagkerfið og aukið atvinnufrelsi. Hætt hefði verið að ausa fé í óarðbær fyrirtæki, verðbólga hjaðnað, hallarekstri ríkissjóðs verið snúið í afgang, sem notaður hefði verið til að greiða skuldir hins opinbera, ríkisfyrirtæki verið seld, skattar lækkaðir, kvótakerfið í sjávarútvegi betrumbætt og lífeyrissjóðir efldir.

Önnur tímamót hefðu hins vegar orðið 2004, þegar fámenn auðklíka undir forystu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í Baugi hefði náð völdum á Íslandi. Þá hefði klíkukapítalismi leyst markaðskapítalisma af hólmi. Varpaði Hannes upp línuriti með tölum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu, en það sýndi að sögn hans, að auðklíka Jóns Ásgeirs hefði fyrir hrun safnað miklu meiri skuldum en hinar viðskiptasamstæðurnar tvær, sem rannsóknarnefndin skilgreindi. Vegna krosseignatengsla og ofmetinna eigna hefði þannig myndast sérstök kerfislæg áhætta á Íslandi, sem hefði bæst við þá aðra kerfislægu áhættu, að rekstrarsvæði íslensku bankanna hefði verið miklu stærra en baktryggingarsvæði þeirra, eins og komið hefði á daginn haustið 2008. Þá hefðu ákvarðanir í New York og Lundúnum velt hinum óstöðuga íslenska fjármálamarkaði um koll. Bandaríkjamenn hefðu ekki gert gjaldeyrisskiptasamninga við Íslendinga eins og við aðrar Norðurlandaþjóðir, og Bretar hefðu ekki aðeins neitað að veita breskum bönkum í eigu Íslendinga aðild að fyrirgreiðslu, sem aðrir breskir bankar fengu, heldur hefðu þeir sett hryðjuverkalög á Landsbankann, Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið og með því gert að engu allar vonir um, að einhverjir íslenskir bankar gætu lifað áfram.

Bankahrunið haustið 2008 hefði valdið snöggri vinstrisveiflu á Íslandi, sem hefði síðan gengið til baka í kosningunum vorið 2013. En bankahrunið hefði sýnt Íslendingum, að erfitt gæti verið að standa uppi vinafáir. Þrátt fyrir skeytingarleysi Bandaríkjamanna og Breta um hag Íslendinga væru þeir ásamt Kanadamönnum eðlilegustu bandamenn Íslendinga. Einskis skjóls væri að leita í Evrópusambandinu eins og dæmi Kýpur hefði sýnt. Umfram allt yrðu smáþjóðir þó að treysta á sjálfar sig í hörðum heimi, nýta auðlindir sínar skynsamlega, halda skattheimtu í hófi og auðvelda verðmætasköpun. Fyrirlestur Hannesar var þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Comments Off

Hannes: Erlendir úrslitaþættir bankahrunsins

Hannes flytur fyrirlestur sinn í Humboldt-háskóla.

Þegar leið fram á árið 2008, var ástandið á íslenska fjármálamarkaðnum viðkvæmt og stefndi í djúpa kreppu, eins og Íslendingar hafa stundum þurft að glíma við, en þrír erlendir áhrifaþættir felldu íslensku bankana og breyttu fyrirsjáanlegri kreppu í fullkomið hrun. Þessir áhrifaþættir voru, að bandaríski seðlabankinn skyldi neita íslenska seðlabankanum um lánalínur í dölum, á meðan hann veitti danska, sænska og norska seðlabankanum slíkar lánalínur; að Bretar skyldu neita breskum bönkum í íslenskri eigu um lausafjárfyrirgreiðslur, á meðan þeir veittu fjölda annarra banka slíka fyrirgreiðslu, til dæmis RBS og Lloyds; að Bretar skyldu að nauðsynjalausu setja hryðjuverkalög á íslenskt fyrirtæki með víðtækum afleiðingum fyrir önnur íslensk fyrirtæki. Þetta voru meginatriðin í fyrirlestri dr. Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar prófessors á fjölmennri ráðstefnu Evrópskra frjálshyggjustúdenta, ESL, European Students for Liberty, sem haldin var í Humboldt-háskólanum í Berlín 14.–16. mars 2014.

Hannes vísaði einnig á bug algengum skýringum á bankahruninu íslensku. 1) Íslensku bankarnir voru ekki stærri hlutfallslega en hinir svissnesku, sem var bjargað, meðal annars með lánalínum í dölum frá bandaríska seðlabankanum. Höfðu svissnesku bankarnir þó gerst sekir um að farga skjölum um innstæður Gyðinga og stunda viðskipti við þjóðir á bannlista Breta og Bandaríkjamanna, meðal annars nokkur ríki á lista breska fjármálaráðuneytisins um hryðjuverkasamtak, þar sem Landsbankinn var um nokkurt skeið.  2) Íslensku bankamennirnir voru hvorki betri né verri en bankamenn erlendis, sem tóku stórkostlega áhættu, til dæmis með undirmálslánum í Bandaríkjunum, enda þurftu þeir síðan stórfé í ríkisaðstoð, jafnt lausafjárfyrirgreiðslu og aukið eigið fé. RBS og Lloyds, sem fengu aðstoð frá breska ríkinu, höfðu til dæmis ýmislegt misjafnt á samviskunni. 3) Íslenska bankahrunið var ekki vegna misheppnaðrar tilraunar til að framkvæma „nýfrjálshyggju“ á Íslandi, enda laut íslenski fjármálamarkaðurinn nákvæmlega sömu reglum og slíkir markaðir í öðrum aðildarríkjum EEA, Evrópska efnahagssvæðisins. Hannes viðurkenndi hins vegar, að tveir sérstakir áhættuþættir hefðu verið að verki á íslenska fjármálamarkaðnum, krosseignatengsl og óeðlileg skuldasöfnun einnar viðskiptasamsteypunnar, Baugsklíkunnar, eins og kom fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis frá 2010, og einnig sú staðreynd, að rekstrarsvæði bankanna var miklu stærra en baktryggingarsvæði þeirra, sem reyndist að lokum vera Ísland eitt — vegna þeirra erlendu úrslitaþátta, sem áður var um getið.

Ráðstefnugestir í hátíðasal Humboldt-háskóla að ræðu Johans Norbergs lokinni. Hann heldur fremst á merki samtakanna. Hannes H. Gissurarson situr í 3. röð lengst t. v. Tom Palmer stendur við vinstri útganginn, lengst t. v., og við hlið hans Dan Grossman, stjórnarformaður Atlas Network.

Fyrirlestur Hannesar var þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“, en á meðal styrktaraðila ráðstefnunnar var New Direction, sem er eins konar hugveita AECR. Lukas Schweiger stjórnaði fundinum með Hannesi. Á meðal annarra fyrirlesara á ráðstefnu ESL voru bandaríski heimspekingurinn dr.  Tom Palmer og sænski sagnfræðingurinn og rithöfundurinn Johan Norberg, og var gerður góður rómur að máli þeirra. Aleksandar Kokotovic frá Belgrad-háskóla er formaður ESL, en Yaël Ossowski frá Vínarháskóla var aðalskipuleggjandi ráðstefnunnar. Þótti hún takast hið besta.

Comments Off