Frjálshyggja, trú og trúleysi

Yaron Brook í ræðustól. Frá v. á palli sitja faðir Sirico, dr. Gregg og Hannes.

Frjálshyggjumenn geta verið hvort tveggja, trúaðir og trúlausir, sagði prófessor Hannes H. Gissurarson á málstofu um siðferðilegar forsendur frjálshyggjunnar á þingi Mont Pèlerin-samtakanna í Miami 18.–23. september 2016. Hann var umsegjandi (commentator), en erindi fluttu dr. Yaron Brook, forstöðumaður Ayn Rand-stofnunarinnar, sem taldi alla skynsama menn hljóta að vera trúlausa, og dr. Samuel Gregg frá Acton-stofnuninni, sem taldi frjálshyggju fara vel saman við kristna trú. Faðir Robert Sirico stjórnaði málstofunni.

Hannes benti á, að sumar menningarheildir hefðu búið við tiltölulega fastmótað siðferði án þess að vera trúaðar, til dæmis Rómverjar hinir fornu og Japanir. Ekki mætti þó gleyma hinu, að kristnir söfnuðir og hópar hefðu á tuttugustu öld verið nánast eina aflið til að veita alræðisherrunum í Norðurálfunni mótspyrnu. Kristinn siður gerði ráð fyrir því, að allir væru settir undir lögmál, líka valdsmennirnir. Hann næði til allra, ríkra og fátækra, karla og kvenna, hvítra og svartra. Alræðisstefnan væri á hinn bóginn skynsemistrú, sem komin væri út í öfgar. Hún væri tilraun dauðlegra manna til að leika guði. Ólíkt ýmsum öðrum trúflokkum teldu kristnir menn, að gjalda ætti keisaranum það, sem keisarans væri, en Guði það, sem Guðs væri. Kristni fæli með öðrum orðum í sér aðskilnað andlegs og veraldlegs valds. Kristur hefði ekki verið hermaður, sem sveiflað hefði sverði af hestbaki, eins og Múhameð. Boðorðin tíu hefðu (þrátt fyrir nafnið) verið bönn frekar en boð og fallið betur að hugmyndum frjálslyndra manna um reglur en bein fyrirmæli.

Hannes varpaði fram eigin skilningi eða skýringum á tveimur kristilegum dæmisögum. Hann benti á, að frásögnin um miskunnsama Samverjann væri um það, 1) að hættur væru af stigamönnum í fjöllunum, svo að löggæsla væri nauðsynleg, 2) að presturinn og levítinn gengu fram hjá særða manninum, og væri það ádeila á menntamenn með hart hjarta, 3) að Samverjinn hefði verið aflögufær, og 4) að hann hefði gert góðverk sitt á eigin kostnað, ekki annarra. Kvað Hannes ellefta boðorðið eiga að vera: Þú skalt ekki gera góðverk þín á kostnað annarra. Þegar Jóhannes skírari hefði sagt, að sá, sem ætti tvo kyrtla, ætti að gefa náunga sínum annan, hefði hann ekki verið að mæla með valdboðinni endurdreifingu tekna, heldur benda á þann vanda, sem hlytist af fátækt. Þann vanda mætti leysa til langs tíma með því að auðvelda fólki að sauma sér kyrtla, fjölga tækifærum. Aðalatriðið væri saumastofa í fullum gangi.

Hannes sagði, að Ayn Rand verið merkur hugsuður, þótt hann tæki ekki undir fjandskap hennar við kristna trú. Greinarmunur hennar á sköpun og sníkjulífi væri enn í fullu gildi. Auðmenn ættu ekki að skammast sín fyrir auð sinn, væri hann vel fenginn, heldur vera stoltir af honum. Stolt þyrfti ekki að vera hroki. Framkvæmdamenn og fjármagnseigendur hefðu nauðsynlegu hlutverki að gegna í gróandi atvinnulífi. Jafnt trúaðir menn og trúleysingjar ættu erindi í Mont Pèlerin-samtökin. Þátttaka Hannesar í þinginu var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans.“

Sir Roger Douglas og Hannes.

Á meðal fyrirlesara á þingi samtakanna voru sagnfræðingurinn Niall Ferguson frá Bretlandi, félagsfræðingurinn Charles Murray frá Bandaríkjunum, hagfræðingurinn José Piñera frá Síle og þrír kunnir bandarískir hagfræðingar, Nóbelsverðlaunahafinn Edward C. Prescott, John Taylor og Diana Furchgott-Roth. Prófessor Pedro Schwartz frá Spáni vék sem forseti samtakanna fyrir prófessor Peter Boettke frá Bandaríkjunum. Þingið var fjölsótt og fundarmenn hinir ánægðustu. Næstu þing samtakanna verða í Seoul 7.–10. maí 2017 og á Gran Canaria 30. september–6. október 2018. Eftir þingið sótti Hannes frelsismót Atlas Network, Liberty Forum, 24.–25. september í Miami. Atlas Network eru regnhlífarsamtök rannsóknarstofnana, sem leita sjálfsprottinna lausna á málum í stað valdboðinna, vilja verðleggja í stað þess að skattleggja. Þau Sir Roger Douglas, fjármálaráðherra Nýja Sjálands 1984–1988, og Ruth Richardson, fjármálaráðherra 1990–1993, lýstu þar hinum róttæku efnahagsumbótum í landi sínu. Bandaríski sjónvarpsmaðurinn John Stossel stjórnaði umræður um, hvernig kynna mætti frelsið á fleiri miðlum en bókinni, til dæmis í sögum og myndum. Linda Whetstone frá Bretlandi tók á þinginu við stjórnarformennsku Atlas Network af Daniel Grossman frá Bandaríkjunum. Linda er dóttir stofnanda Atlas Network, Sir Antonys Fishers.

Comments Off

Fiskveiðistefna Íslendinga gott fordæmi?

Hannes heldur erindi. Fundarstjóri var Diego Zuluaga.

Á Bretlandseyjum er verulegur áhugi á íslenska kvótakerfinu í sjávarútvegi, enda losna Bretar við útgönguna úr Evrópusambandinu undan hinni sameiginlegu fiskveiðistefnu, CFP, Common Fisheries Policy, sem hefur reynst mjög illa. Þetta kom fram á ráðstefnu um einkalausnir í opinbera og hálfopinbera geiranum, sem IEA í Lundúnum, Institute of Economic Affairs, og Epicenter, samtök nokkurra evrópskra rannsóknastofnana, hélt í Flórens á Ítalíu 7.–9. september 2016. Þar flutti prófessor Hannes H. Gissurarson erindi um samnýtingarbölið svokallaða (common pool problem), en það felst í því, að við ótakmarkaðan aðgang að takmörkuðum auðlindum eykst sóknin í þær, uns allur hugsanlegur gróði hefur verið þurrkaður upp. Samnýting leiðir til ofnýtingar. Lausnin er oft sú að skilgreina einkaréttindi til nýtingar gæðanna, afgirða almenninga á ýmsa vegu, og lýsti Hannes nokkrum dæmum frá Íslandi: beitarréttindum á almenningum (ítölunni), sem Forn-Íslendingar skilgreindu; veiðiréttindum í laxveiðiám, sem bændur eiga saman; og síðast, en ekki síst, aflaheimildum á Íslandsmiðum. Hannes kvað íslenska kvótakerfið hafa reynst vel, enda væri aðaláhyggjuefni andstæðinga þess, að útgerðarmönnum græddist fé, á meðan sjávarútvegur annars staðar væri víðast rekinn með tapi og háum framlögum úr almannasjóðum.

Á meðal annarra fyrirlesara voru þýski hagfræðingurinn Guido Hülsmann, sem velti fyrir sér eðli og hlutverki seðlabanka, hagfræðingurinn Diogo Costa frá Brasilíu, sem talaði um deilihagkerfið, og efnafræðingurinn Terence Kealey frá Bretlandi, sem leiddi rök að því, að opinberir styrkir til vísindarannsókna næðu ekki yfirlýstum tilgangi sínum, þótt sterkt samband kæmi í ljós milli framlaga úr einkageiranum til vísindarannsókna og framfara í vísindum. Einnig var talsvert rætt um, hvort Evrópusambandið gæti þróast í frjálsræðisátt. Þátttaka Hannesar í ráðstefnunni var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Hannes notaði líka tækifærið í Flórens til að rannsaka ævi og verk Niccòlos Machiavellis, en hann kennir um hann í stjórnmálaheimspeki. Að dvölinni í Flórens lokinni hélt Hannes til Rómar, þar sem hann hitti að máli prófessor Antonio Martino, sem var um árabil utanríkisráðherra og varnarmálaráðherra Ítalíu og um skeið forseti Mont Pèlerin-samtakanna, alþjóðlegs málfundafélags frjálslyndra fræðimanna. Martino, sem var einnig lengi prófessor í peningamálahagfræði, er einn af ráðgjöfum RNH.

Glærur Hannesar í Flórens 8. september 2016

Comments Off

Uppboðsleiðin óskynsamleg

Gary Libecap flytur fyrirlestur sinn.

Uppboðsleið í sjávarútvegi er óþörf og óskynsamleg, enda búa Íslendingar nú þegar við hagkvæmt kerfi. Þetta var sameiginleg niðurstaða tveggja heimskunnra sérfræðinga, sem töluðu á ráðstefnu hagfræðideildar Háskóla Íslands, RNH og RSE um uppboð og aflareynslu 29. ágúst 2016. Gary Libecap, prófessor í hagfræði í Kaliforníuháskóla í Santa Barbara og einn þekktasti auðlindahagfræðingur heims, rakti í erindi sínu samnýtingarbölið (tragedy of the commons) í fiskveiðum: Við óheftan aðgang að fiskimiðum eykst sókn, uns allur arður er uppurinn. Takmarka þarf aðganginn, og það er eðlilegast að gera með því að úthluta eftir aflareynslu veiðiréttindum til þeirra, sem þegar stunda veiðar. Þá fer hin nauðsynlega breyting, sem felst í takmörkun aðgangs og minnkun sóknar, fram tiltölulega friðsamlega. Kvótakerfið íslenska hefði verið raunveruleg markaðslausn, en uppboð á veiðiréttindum hefði ekki gefist vel, þar sem það hefði verið reynt. Charles Plott, prófessor í California Institute of Technology, sem er sérfræðingur í tilraunahagfræði og hefur einkum skoðað uppboð, benti á það í pallborðsumræðum, að þegar væri til skilvirkt kerfi í íslenskum sjávarútvegi, kerfi framseljanlegra og ótímabundinna aflakvóta, og óþarfi að raska því. Uppboð á knöppum gæðum ættu stundum rétt á sér, en ekki í þessu dæmi.

Ragnar Árnason, prófessor í fiskihagfræði í Háskóla Íslands, andmælti í fyrirlestri sínum þremur villum, sem eru að sögn hans á kreiki í umræðum um fiskveiðimál: 1) að auðlindarentan þar fáist aðeins af auðlindinni einni saman, en sé ekki sköpuð að neinu leyti af útgerðarfyrirtækjunum; 2) að handhafar aflaheimilda njóti einir auðlindarentunnar í sjávarútvegi; og 3) að auðlindaskattur, hvort sem hann sé innheimtur beint eða á reglubundnum opinberum uppboðum á aflaheimildum, hafi engin áhrif á stærð auðlindarentunnar. Auk prófessors Plotts tóku þátt í pallborðsumræðum þeir dr. Tryggvi Þór Herbertsson, Helgi Áss Grétarsson, dósent í auðlindarétti, og Hannes H. Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, en Háskólaútgáfan gaf nýlega út bók eftir hann um málið, The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem einnig er aðgengileg á Netinu.

Ráðstefnan var fjölsótt og vakti mikla athygli. Rækileg frásögn var af fyrirlestrum þeirra Libecaps og Ragnars Árnasonar í Morgunblaðinu 30. ágúst og viðtal við Charles Plott í sama blaði 15. september. „Ég skil ekki hvatann á bak við að trufla iðnað, sem gengur upp,“ sagði Plott. „Uppboð myndi vera mjög truflandi fyrir sjávarútveginn. Það skemmir fyrir hvötum fólks til að sækja sjóinn, það skemmir fyrir stofnunum í útvegi. Ef það er hægt að kaupa og selja kvóta á opnum markaði, verður á þeim markaði eðlileg þróun, þar sem hann færist frá þeim óskilvirku til þeirra skilvirku.“ Plott rakti einnig dæmi, þar sem uppboð væru skynsamleg. Þátttaka RNH í ráðstefnunni var liður í samstarfsverkefni við AECR, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

 

Glærur Garys Libecaps

Glærur Ragnars Árnasonar

 

Comments Off

Frelsisneistinn varð að báli

Davíð flytur ávarp sitt.

Helsta hlutverk Íslands og annarra vestrænna lýðræðisríkja gagnvart Eystrasaltsríkjunum, á meðan þau voru hernumin af rússnesku ráðstjórninni, var að reyna að hlúa að þeim neista frelsisins, sem síðan blossaði sem betur fer upp, sagði Davíð Oddsson ritstjóri á samkomu, sem Almenna bókafélagið hélt í Háskóla Íslands ásamt ræðismönnum Eystrasaltsríkjanna 26. ágúst 2016. Þá var réttur aldarfjórðungur liðinn frá því, að Ísland tók fyrst ríkja aftur upp stjórnmálasamband við Eystrasaltsríkin, þegar Ráðstjórnarríkin voru að gliðna í sundur. Davíð var þá forsætisráðherra. Almenna bókafélagið hafði af þessu tilefni endurútgefið tvær bækur, sem komu út á sínum tíma um frelsisbaráttu Eystrasaltsþjóðanna, Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum 1955 eftir eistneska bókmenntafræðiprófessorinn Ants Oras, sem séra Sigurður Einarsson í Holti snaraði, og Eistland: Smáþjóð undir oki erlends valds 1973 eftir eistnesk-sænska rithöfundinn Andres Küng, en Davíð Oddsson þýddi hana, þá ungur laganemi. Prófessor Hannes H. Gissurarson skrifar formála og skýringar að báðum bókunum, sem einnig eru aðgengilegar á Netinu.

Kelam talar við blaðamann Morgunblaðsins, Stefán Gunnar Sveinsson.

Tunne Kelam, einn af leiðtogum frelsisbaráttu Eistlands og þingmaður á Evrópuþinginu, flutti einnig ávarp á samkomunni. Hann kvað siðferðilegan stuðning Vesturveldanna hafa verið Eystrasaltsþjóðunum ómetanlegan hinn langa hernámstíma. Óhjákvæmilegt væri líka að gera upp hina dapurlegu sögu Ráðstjórnarríkjanna. Húsfyllir var á samkomunni, og gerðu gestir góðan róm að. Morgunblaðið sagði frá samkomunni 27. ágúst og birti viðtal við Kelam 15. september. Þar rifjaði hann upp, að þeir Hitler og Stalín sömdu um það í griðasáttmála sínum í ágúst 1939, að Eystrasaltslöndin og austurhluti Póllands féllu Stalín í skaut, en Hitler fengi vesturhluta Póllands. Þegar Hitler réðst síðan inn í Pólland í septemberbyrjun, skall seinni heimsstyrjöld á. Kelam kvað Rússa undir stjórn Pútíns nú vera ágenga, og yrðu Vesturveldin yrðu að standa saman um að tryggja sjálfsákvörðunarrétt Eystrasaltsþjóðanna, sem ættu heima með öðrum vestrænum þjóðum.

AB hefur í samstarfi við RNH þegar endurútgefið sjö rit, jafnt á pappír og á Netinu, sem komu út á íslensku í baráttunni við alræðisöflin, auk bókanna tveggja um Eystrasaltsþjóðirnar Greinar um kommúnisma eftir Bertrand Russell, Konur í þrælakistum Stalíns eftir Elinor Lipper og Aino Kuusinen, Úr álögum (Out of the Night) eftir Jan Valtin (öðru nafni Richard Krebs), Leyniræðuna um Stalín eftir Níkíta Khrústsjov og Bóndann eftir Valentín González og Julián Gorkin. RNH er aðili að Evrópuvettvangi minningar og samvisku, þar sem leitast er við að halda uppi minningunni um fórnarlömb alræðisstefnunnar í Evrópu, en Kelam hefur tekið mikinn þátt í starfsemi vettvangsins. Þátttaka RNH í samkomunni og útgáfu bókanna gegn alræðisöflunum var liður í samstarfsverkefni við AECR, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“.

Jónas Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri AB, sýnir Einari K. Guðfinnssyni, forseta Alþingis, nokkrar útgáfubækur AB.

Comments Off

Tvær úthlutunarreglur: Aflareynsla eða uppboð?

RNH stendur ásamt öðrum að ráðstefnu í fundarsal Þjóðminjasafnsins mánudaginn 29. ágúst kl. 14 til 17 um efni, sem mjög er rætt um á Íslandi þessa dagana: Tvær ólíkar leiðir til að úthluta aflaheimildum, aflareynslu (og síðan frjálsum viðskiptum með aflaheimildirnar) annars vegar og uppboði á vegum ríkisins hins vegar. Gary Libecap, prófessor í hagfræði í Kaliforníuháskóla í Santa Barbara, flytur fyrirlestur um „Úthlutun aflaheimilda“. Þar leitast hann við að svara þeirri spurningu, hvers konar fyrirkomulag fiskveiða sé þjóðhagslega hagkvæmast, þegar til langs tíma sé litið. Hann ber saman úthlutun eftir aflareynslu (grandfathering), sem hefur verið langalgengasta aðferðin, og úthlutun á reglubundnu opinberu uppboði, sem talsvert hefur verið rætt um á Íslandi og fáeinar tilraunir hafa verið gerðar með annars staðar. Í því sambandi ræðir hann líka um reynsluna af nýtingu annarra auðlinda en fiskistofna, til dæmis olíulinda og bújarða. Libecap er einn þekktasti auðlindahagfræðingur heims og hefur gefið út fjölda bóka um auðlindanýtingu og birt ritgerðir í American Economic Review, Journal of Political Economy og öðrum vísindatímaritum. Hann hefur verið forseti Economic History Association, Western Economics Association International og International Society for the New Institutional Economics.

Ragnar Árnason, prófessor í fiskihagfræði í Háskóla Íslands, flytur fyrirlestur um „Skattlagningu sjávarútvegs og skilvirkni“. Hann andmælir þremur villum, sem oft eru á kreiki í umræðum um fiskveiðimál: 1) að auðlindarentan þar fáist aðeins af auðlindinni einni saman, en sé ekki sköpuð að neinu leyti af útgerðarfyrirtækjunum; 2) að handhafar aflaheimilda njóti einir auðlindarentunnar í sjávarútvegi; og 3) að auðlindaskattur, hvort sem hann sé innheimtur beint eða á reglubundnum opinberum uppboðum á aflaheimildum, hafi engin áhrif á stærð auðlindarentunnar. Ragnar hefur birt fjölda bóka og ritgerða um auðlindahagfræði og hefur sinnt sérfræðilegri ráðgjöf um víða veröld á sviði fiskveiðimála fyrir Alþjóðabankann og aðrar alþjóðastofnanir.

Að loknum fyrirlestrunum verða pallborðsumræður, sem dr. Birgir Þór Runólfsson, dósent í hagfræði, stjórnar. Í þeim taka þátt fjórir menn: Dr. Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrverandi forstöðumaður Hagfræðistofnunar og fyrrverandi alþingismaður, hefur sinnt stefnumörkun og rannsóknum á sviði sjávarútvegs. Helgi Áss Grétarsson, dósent í lögfræði, hefur að sérgrein auðlindarétt og hefur birt fjölda bóka og ritgerða um fiskveiðimál, meðal annars Þjóðina og kvótann hjá Bókaútgáfunni Codex 2011. Charles Plott, prófessor í California Institute of Technology, er heimskunnur hagfræðingur, sérfræðingur í tilraunahagfræði og hefur sérstaklega skoðað ýmiss konar uppboð. Hannes H. Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, hefur skrifað um siðferðileg sjónarmið við úthlutun afnotaréttinda af auðlindum, síðast í bókinni The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem kom út hjá Háskólaútgáfunni í árslok 2015 og er líka aðgengileg á Netinu. Þátttaka RNH í ráðstefnunni er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Comments Off

Samkoma vegna Eystrasaltsbóka

Davíð Oddsson talar í Ráðherrabústaðnum að kvöldi 26. ágúst 1991. Aðrir frá v.: Algirdas Saudargas, Lennart Meri og Friðrik Sophusson.

Almenna bókafélagið býður ásamt ræðismönnum Eystrasaltsríkjanna þriggja á Íslandi til samkomu og útgáfuhófs föstudaginn 26. ágúst 2016 kl. 17–19 í Litlatorgi í Háskóla Íslands. Þann dag eru endurútgefnar tvær bækur um sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna, sem komu út á íslensku á sínum tíma: Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum (Baltic Eclipse) eftir Ants Oras frá 1955 í þýðingu séra Sigurðar Einarssonar í Holti og Eistland: Smáþjóð undir oki erlends valds (Estland: En studie i imperialism) eftir Andres Küng frá 1973 í þýðingu Davíðs Oddssonar, þá laganema. Tilefni endurútgáfunnar er, að fyrir réttum aldarfjórðungi, 26. ágúst 1991, endurnýjaði Ísland fyrst ríkja viðurkenningu sína á Eystrasaltslöndunum við hátíðlega athöfn í Höfða að viðstöddum utanríkisráðherrum Eystrasaltsríkjanna þriggja og Íslands, Lennart Meri frá Eistlandi, Janis Jürkans frá Lettlandi og Saudargas Algirdas frá Litáen og Jóni Baldvini Hannibalssyni, sem hafði ásamt Davíð Oddsyni forsætisráðherra beitt sér mjög í málinu. Þá um kvöldið sátu utanríkisráðherrarnir boð Davíðs í Ráðherrabústaðnum. Fyrirhuguð er einnig ráðstefna á vegum utanríkisráðuneytisins í september til að minnast þessara tímamóta, og styður RNH það framtak eftir föngum. Eystrasaltsríkin voru öll hernumin af Ráðstjórnarríkjunum 1940 og gerð að ráðstjórnarlýðveldum, en endurheimtu sjálfstæði sitt 1991, eftir að valdarán harðlínukommúnista í Rússlandi misheppnaðist og Ráðstjórnarríkin hrundu.

Tunne Kelam Evrópuþingmaður

Í útgáfuhófinu flytja Davíð Oddsson ritstjóri og Tunne Kelam, þingmaður á Evrópuþinginu, stutt ávörp. Davíð mun segja söguna að baki viðurkenningarinnar á Eystrasaltsríkjunum, en líka frá stuðningi Íslands á bak við tjöldin innan Atlantshafsbandalagsins við aðild Eystrasaltsríkjanna að bandalaginu, á meðan hann var forsætisráðherra 1991–2004. Tunne Kelam er sagnfræðingur að mennt og missti skjalavarðarstöðu sína á hernámstímanum í Eistlandi vegna andófs við kommúnistastjórnina þar. Var hann settur í erfiðisvinnu að næturlagi á ríkisreknu hænsnabúi. Hann gerðist einn af leiðtogum sjálfstæðisbaráttu Eistlendinga og var forseti þjóðþings, sem kosið var til 1990 án fulltingis hernámsyfirvaldanna og eistneskra erindreka þeirra. Náðist þó samkomulag um það ári síðar við hið svokallaða Æðsta ráð, sem rússnesk hernámsyfirvöld höfðu skipað 1940, hvernig sjálfstæði landsins yrði endurheimt í áföngum. Kelam sat á stjórnlagaþingi Eistlands 1991–1992 og var kjörinn þingmaður á þjóðþinginu, Riigikogu, 1992 og sat þar til 2004, þegar hann var kjörinn á Evrópuþingið fyrir eistneska Föðurlandsflokkinn. Hann var varaforseti þjóðþingsins 1992–2003 og formaður Evrópunefndar þess 1997–2003. Hann hefur skrifað nokkrar bækur á móðurmáli sínu um Eistland og Evrópu.

Sandra Vokk

Sandra Vokk, forstöðumaður Unitas í Eistlandi, stjórnar samkomunni. Unitas var stofnuð af Mart Laar, fyrrverandi forsætisráðherra Eistlands, og fleirum árið 2008 til að verja vestræna mannúðarstefnu gegn alræði í orði og verki. Bækurnar tvær eftir Oras og Küng um sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltslandanna eru í ritröðinni „Safn til sögu kommúnismans“, sem Almenna bókafélagið gefur út undir ritstjórn prófessors Hannesar H. Gissurarsonar. Áður hafa komið út í þessari ritröð Greinar um kommúnisma eftir breska heimspekinginn Bertrand Russell 17. júní 2015, Konur í þrælakistum Stalíns eftir Elinor Lipper og Aino Kuusinen 19. júní 2015, Úr álögum eftir Jan Valtin (réttu nafni Richard Krebs) 23. ágúst 2015 og Leyniræðan um Stalín eftir Níkíta Khrústsjov 25. febrúar 2016. Prófessor Hannes skrifar formála og skýringar í öllum ritunum, sem eru líka gefin út á Netinu, og er aðgangur að þeim þar endurgjaldslaus.

Ókeypis aðgangur er að samkomunni og allir velkomnir. Ofannefndar bækur og nokkur önnur útgáfuverk Almenna bókafélagsins verða þar til sölu við vægu verði.  Ritröðin er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“. Hún nýtur einnig stuðnings Atlas Network og IDDE, Samtaka um beint lýðræði í Evrópu. RNH er aðili að Evrópuvettvangi minningar og samvisku, sem heldur á lofti minningunni um fórnarlömb alræðisstefnunnar.

Comments Off