Frjálshyggja og lýðskrum

Hannes stjórnar fundi. Dr. Jacob Lundberg í ræðustól.

Fjörugar umræður urðu um frjálshyggju, lýðstefnu og verkefni okkar daga á sérstöku þingi Mont Pelerin samtakanna í Stokkhólmi 2.–5. nóvember 2017. Á meðal þeirra hugmynda, sem ræddar voru (án þess að allir tækju nauðsynlega undir þær), voru: Frjálshyggjumenn vilja vera heimsborgarar; þeir leitast við að tryggja frið milli einstaklinga og ríkja í krafti umburðarlyndis og afskiptaleysis. Lýðstefnumenn reyna ekki að takmarka ríkisvaldið eins og frjálshyggjumenn, heldur hrifsa það til sín. Rannsóknir sýna, að í lýðskrumi er frekar fólgið andsvar við menningarlegum breytingum en skírskotun til efnahagserfiðleika einstakra stétta eða hópa. Lýðstefnumenn eru andvígir valdastéttum í opinberu skjóli. Þeir vísa til Aðalstrætis frekar en Bankastrætis. Ef manni er sagt að fara í spilavíti með þeim skilmálum, að hann haldi eftir öllum gróðanum, en geti velt tapinu yfir á aðra, þá mun hann fyrr eða síðar tapa öllu. Þegar í stað spilavítisins er settur banki, er komin ein skýring á hinni alþjóðlegu lausafjárkreppu áranna 2007–9 og óánægju margra eftir hana. Lýðstefnumenn sækja fylgi í þá skoðun, að vitlaust sé gefið í spilinu. En þótt lýðstefna nærist á skiljanlegri óánægju, ógnar hún réttarríkinu og allri umræðumenningu. Ef til vill er sigursælasti lýðskrumarinn á valdastól um þessar mundir Vladímír Pútín Rússlandsforseti, sem hefur lagt undir sig stjórnkerfið í landi sínu og safnað feikilegum auði.

Frjálshyggjumenn styðja frelsi og ekki vald. Í hagtölum er hætt við, að hinar stórkostlegu lífskjarabætur síðustu hundrað ára vegna tækninýjunga séu vanmetnar: Nathan Rothschild var ríkasti maður heims á sínum tíma, en hann lést 1836 vegna ígerðar, sem hefði nú verið auðvelt að taka til meðferðar. Bætt lýsing og upphitun húsa hafa breytt lífi margra til hins betra. Og frjálslynt fólk verður að standa saman um að minnsta kosti sumt. Daginn eftir að öfgamúslimar fordæmdu danskt dagblað fyrir að birta skopmyndir af Múhameð spámanni, hefðu öll vestræn dagblöð átt að endurprenta þær.

Þeir Friedrich A. von Hayek, Milton Friedman, Ludwig von Mises, George J. Stigler, Luigi Einaudi, Karl Popper og aðrir kunnir menntamenn stofnuðu Mont Pelerin samtökin 1947 sem eins konar alþjóðlegt málfundafélag frjálslyndra fræðimanna, sem störfuðu í sömu hefð og John Locke, Adam Smith, Alexis de Tocqueville og Acton lávarður. Á meðal ræðumanna á þinginu í Stokkhólmi voru Karen Horn, Deirdre McCloskey, Mark Pennington, Lotta Stern, Luigi Zingales, Johan Norberg og Anders Åslund. Dr. Nils Karlson hjá Ratio stofnuninni í Stokkhólmi hafði veg og vanda af því að skipuleggja ráðstefnuna. Rannsóknastjóri RNH, prófessor Hannes H. Gissurarson, var fundarstjóri á málstofu, þar sem ungir fræðimenn kynntu niðurstöður rannsókna sinna á því, hvernig frumkvöðlar geta brotið á bak aftur einokun í skjóli ríkisins og hvaða áhrif skattheimta hafi á skatttekjur af mjög tekjuháu fólki (samkvæmt Laffer-boganum). Tveir aðrir Íslendingar sóttu ráðstefnuna, Birgir Þór Runólfsson hagfræðidósent og Gísli Freyr Valdórsson, ritstjóri Þjóðmála. Þátttaka Hannesar í þinginu var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna.

Comments Off

Norberg: Margar ástæður til bjartsýni

Margar ástæður eru til þess að taka framtíðinni fagnandi, sagði sænski sagnfræðingurinn og sjónvarpsmaðurinn Johan Norberg á fundi Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála, Almenna bókafélagsins og RNH í Háskóla Íslands 23. október. Þar kynnti Norberg bók sína, Framfarir: Tíu ástæður til að taka framtíðinni fagnandi, sem Almenna bókafélagið gaf út sama dag í þýðingu Elínar Guðmundsdóttur og í samstarfi við eignastýringarfélagið Gamma. Norberg benti á, að fátækt hefði víðast snarminnkað, ekki síst í krafti frjálsra alþjóðaviðskipta. Tekjudreifing hefði einnig orðið jafnari í heiminum, aðallega við það að fjölmennar þjóðir eins og Kínverjar og Indverjar hefðu brotist til bjargálna. Það væri frekar fagnaðarefni en hitt, að menn hefðu áhyggjur af ójafnri tekjudreifingu, því að áður fyrr hefði nánast allir verið jafnfátækir. Norberg benti á, að heilsufar hefði batnað stórkostlega, jafnframt því sem dregið hefði úr ofbeldi og stríðum fækkað. Nýmæli í vísindum og tækni gerðu mönnum líka kleift að bæta umhverfið og verjast hamförum.

Þorbjörn Þórðarson fréttamaður var umsegjandi. Hann benti á, að kerfi frjálsra viðskipta ætti sér marga heita andstæðinga og sumir teldu sig afskipta, og kynni það að skýra uppgang þjóðrembuflokka á Vesturlöndum. Tók Norberg undir það, en kvað mikilvægast að auðvelda fólki að laga sig að nýjum aðstæðum. Þess vegna ætti frekar að styrkja endurhæfingu fyrir atvinnulífið en atvinnuleysi. Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðidósent var fundarstjóri. Að erindi Norbergs og umsögn Þorbjörns loknum urðu fjörugar umræður. Prófessor Hannes H. Gissurarson benti meðal annars á, að útvíkkun markaða hefði haft í för með sér fjölgun lítilla ríkja, því að hún gerði smáþjóðum kleift að nýta sér kosti verkaskiptingar og frjálsra viðskipta. Þjóðrækni og frjálslyndi gætu þess vegna farið saman, enda yrði að gera strangan greinarmun á þjóðrækni og þjóðrembu. Stöð tvö tók viðtal við Norberg, sem flutt var í kvöldfréttum 24. október. Einnig ræddu Morgunblaðið og Viðskiptablaðið við hann. Gísli Hauksson, stjórnarformaður RNH, skrifaði grein í „Markaðinn“ í Fréttablaðinu 25. október um boðskap Norbergs. Stuðningur RNH við útgáfu bókar Norbergs og fundinn í Háskólanum er þáttur í samstarfsverkefni við ACRE, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna.

Comments Off

Norberg bjartsýnn um framtíðina: Mánudag 23. október kl. 17

Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála í Háskóla Íslands heldur í samstarfi við Almenna bókafélagið fund í stofu N-132 í Öskju, náttúruvísindahúsi Háskóla Íslands, mánudaginn 23. október kl. 17–18, sem RNH vill vekja athygli á. Frummælandi er hinn heimskunni sænski sagnfræðingur og sjónvarpsmaður Johan Norberg, sem kynnir bók sína, Framfarir: Tíu ástæður til að taka framtíðinni fagnandi, sem er að koma út í íslenskri þýðingu Elínar Guðmundsdóttur. Norberg telur, að stóru fréttirnar séu ekki alltaf sagðar, að fátækt sé að minnka, lífslíkur að aukast, heilsufar að batna, stríðum að fækka, ofbeldi að hörfa, hópar, sem hafa átt undir högg að sækja, eins og konur og samkynhneigðir, að njóta sín betur. Fundarstjóri er Stefanía Óskarsdóttir dósent og umsegjandi Þorbjörn Þórðarson fréttamaður, en síðan taka við frjálsar umræður. Að fundinum loknum áritar Norberg bók sína. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. Hér er viðtal við Norberg um bókina og um stjórnmálaviðhorfið um þessar mundir:

Comments Off

Hannes: Fimm ákvarðanir breyttu kreppu í hrun

Icesave-samningunum mótmælt á Bessastöðum. Ljósm. Ómar Óskarsson, Mbl.

Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið er fróðleg, en skýrir ekki að fullu bankahrunið. Skýring nefndarinnar er, að bankarnir hafi vaxið of hratt og orðið of stórir. En það er nauðsynlegt skilyrði fyrir hruni þeirra og ekki nægilegt, sagði Hannes H. Gissurarson prófessor á hádegisfyrirlestri Sagnfræðingafélagsins 17. október 2017. Hann kvað fimm ákvarðanir erlendis hafa ráðið úrslitum um, að fyrirsjáanleg kreppa á Íslandi varð að hruni: Erlendir vogunarsjóðir hafi ráðist á veikasta dýrið í hjörðinni; evrópskir seðlabankar hafi stöðvað alla lausafjárfyrirgreiðslu við Ísland vegna gremju yfir íslensku bönkunum; Bandaríkjamenn hafi litið svo á, að Ísland væri ekki lengur á áhrifasvæði þeirra; Breska Verkamannaflokksstjórnin hafi bjargað öllum breskum bönkum nema þeim tveimur, sem voru í eigu Íslendinga, og með því fellt Kaupþing á Íslandi; Breska Verkamannaflokksstjórnin hafi sett hryðjuverkalög á Ísland.

Gordon Brown fyrir aftan skosku og bresku fánana. Ljósm. Murdo Macleod, Guardian.

Hannes rakti í fyrirlestri sínum samskipti Íslendinga, Breta og Bandaríkjanna í aldanna rás. Ísland hefði verið hernaðarlega mikilvægt, eins og Lenín hefði einna fyrstur bent á 1920, eftir að ný tækni kom til sögu, kafbátar og flugvélar. Þess vegna hefðu Bandaríkjamenn gerst bakhjarl Íslands 1941–2006. Bretar hefðu aldrei haft áhuga á að leggja Ísland undir sig, en viljað hafa eitthvað um það að segja, hverjir réðu landinu. Upp úr 2007 hefði flokkur þjóðernissinna í Skotlandi tekið að ógna hinu forna vígi Verkamannaflokksins. Hann hefði talað um „velmegunarboga“, sem lægi frá Írlandi um Ísland til Noregs og viljað, að Skotland kæmist undir þennan boga. Gordon Brown og Alistair Darling hefðu talið ógn stafa af skoskum þjóðernissinnum. Þeir hefðu því gripið fegins hendi tækifæri til að sýna hætturnar af sjálfstæði.

Hannes kvað gögn, sem hann hefði aflað, sýna, að fullkominn óþarfi hefði verið að beita hryðjuverkalögunum á Íslendinga. Birtir hann þau gögn í væntanlegri skýrslu sinni til fjármálaráðuneytisins um bankahrunið. Hann varpaði fram þeirri spurningu, hvar framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefði verið, þegar Bretar mismunuðu breskum bönkum eftir þjóðerni með því að loka þeim, sem voru í eigu Íslendinga (Heritable og KSF), og bjarga öllum öðrum breskum bönkum. Hann sagði það raunar lán í óláni, að Íslandi skyldi ekki hafa verið bjargað. Með neyðarlögunum hefðu Íslendingar rutt brautina fyrir nýju fyrirkomulag bankamála í Evrópu, enda hefði Evrópusambandið nýlega tekið upp forgang innstæðueigenda. Þó hefði verið gott, hefðu Íslendingar sloppið við þá heift og angist, sem fylgdu bankahruninu. Fjörugar umræður urðu að fyrirlestrinum loknum, og tóku meðal annarra þátt í þeim Björn Bjarnason, fyrrv. dómsmálaráðherra, Ragnar Árnason prófessor, Ragnar Önundarson, fyrrv. bankastjóri, og Tómas Ingi Olrich, fyrrv. menntamálaráðherra og sendiherra. Fyrirlesturinn var tekinn upp og er aðgengilegur á vef Sagnfræðingafélagsins. Þeir Björn Bjarnason og Sigurður Már Jónsson, blaðafulltrúi forsætisráðuneytisins, blogguðu um hann, og Morgunblaðið birti um hann frásögn 19. október. Fyrirlestur Hannesar var þáttur í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna í Evrópu.

Glærur Hannesar 17. október 2017

Comments Off

Bankahrunið í sögulegu ljósi: Þriðjudag 17. október kl. 12

Brown á fundi gegn sjálfstæði Skotlands.

Prófessor Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, flytur fyrirlestur um „Bankahrunið í sögulegu ljósi“ á hádegisfundi Sagnfræðingafélagsins í Þjóðminjasafninu 17. október kl. 12–13. Þar beinir Hannes sjónum að þeim lærdómum, sem Íslendingar geta dregið af bankahruninu 2008 um stöðu sína í heiminum. Ísland var þá skilið eftir úti í kuldanum. Evrópskir seðlabankastjórar sammæltust um það í maíbyrjun 2008 að veita íslenska seðlabankanum ekki aðgang að lausafé. Bandarískir ráðamenn höfðu misst áhuga á Íslandi, enda töldu þeir hernaðargildi landsins allt að því horfið. Tveir skoskir stjórnmálamenn, Gordon Brown og Alistair Darling, þurftu óvin til að sýna, hversu harðir þeir væru í horn að taka, en jafnframt til að leiða athygli frá því, að þeir voru að bjarga tveimur illa stöddum skoskum stórbönkum, og ekki síður til að sýna Skotum, hversu illa færi, yrðu þeir sjálfstæðir.

Ísland virtist 2008 aftur vera komið á þann stað, sem það skipaði öldum saman: Danakóngur reyndi fjórum sinnum að selja landið, en enginn vildi kaupa, og danska stjórnin velti einu sinni fyrir sér að skipta á Íslandi og Norður-Slésvík; Svíakóngur hafði ekki fyrir því, þegar hann tók Noreg af Dönum 1814, að krefjast Íslands með, þótt það væri fornt norskt skattland; Bretastjórn hafnaði mörgum hugmyndum á 18. og 19. öld um að taka Ísland; hugmyndir um kaup á Íslandi voru hlegnar niður í Bandaríkjaþingi 1868. Í bankahruninu veittu Norðurlandaþjóðirnar Íslendingum ekki heldur neinn stuðning. Einu vinir Íslendinga í raun voru Færeyingar og Pólverjar.

Ljósm. Haraldur Guðjónsson.

Hannes H. Gissurarson lauk BA-prófum í sagnfræði og heimspeki og cand. mag. prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands og doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla. Hann hefur undanfarin ár fengist við rannsóknir á bankahruninu og er að ljúka skýrslu fyrir fjármálaráðuneytið um erlenda áhrifaþætti þess. Hann hefur í því sambandi rætt við marga innlenda og erlenda áhrifamenn, þar á meðal Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra, Davíð Oddsson, Ingimund Friðriksson og Eirík Guðnason, fyrrv. seðlabankastjóra, Alistair Darling, fyrrv. fjármálaráðherra Breta, Mervyn King, fyrrv. seðlabankastjóra Breta, og Stefan Ingves, seðlabankastjóra Svíþjóðar.

Fyrirlestur Hannesar er þáttur í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Alliance of Conservatives and Reformists in Europe, um „Evrópu, Ísland og framtíð kommúnismans“.

Comments Off

Fjölsótt og fróðleg málstofa um Þjóðveldið

Hvernig má lifa við lög án ríkisvalds? Prófessor David D. Friedman kvaðst hafa velt þessu fyrir sér upp úr 1970, en þá áttað sig á, að það hafði þegar verið gert í Íslenska þjóðveldinu 930–1262. Á fjölsóttri málstofu, sem hagfræðideild, lagadeild og sagnfræði- og heimspekideild héldu saman mánudaginn 2. október lýsti hann greiningu sinni nánar. Í íslenska kerfinu hefðu öll mál verið einkamál, ekki brot gegn ríkinu. Vandamenn manns, sem var til dæmis drepinn, hefðu krafist bóta fyrir hann eða gripið til þess ráðs að hefna drápsins. Lítilmagninn hefði getað leitað til goða síns eða framselt sök sína. Sérstakur sáttasemjarar hefðu oft verið kvaddir til, svo að stöðva mætti deilur eða gagnkvæm dráp. Íslenska þjóðveldið hefði verið tiltölulega stöðugt. Það hefði staðið í þrjú hundruð ár án stórkostlegra blóðsúthellinga ólíkt því, sem gerðist til dæmis í baráttunni um yfirráð yfir Englandi. Kristnitakan hér á landi hefði verið furðufriðsamleg. Friedman sagðist hins vegar sjá ýmsar mótsagnir í lýsingu Íslendinga sagnanna á framkvæmd laga og á sjálfri lögbók Þjóðveldisins, Grágás, sem nú hefði verið gefin út í enskri þýðingu.

Prófessor Jesse Byock brást við erindi Friedmans. Hann taldi skýringuna á mótsögnunum á milli Íslendinga sagna og Grágásar, að menn hefðu ekki fylgt nákvæmlega forskriftum lögbókarinnar. Íslendinga sögur og Sturlunga væru betri heimildir um daglegt líf Forn-Íslendinga. Sumir fyrri fræðimenn hefðu lagt áherslu á skáldlegt gildi Íslendinga sagna, en fyrir sér væru þær frekar heimildir um, hvernig lifinu mætti lifa við lög án ríkisvald. Þær væru um úrlausnir átaka í ríkislausu, fátæku og frumstæðu eylandi. Íslendingar hefðu flust frá Noregi í leit að landi til að byggja og á flótta frá sköttum. Þetta hefði mótað skipulag þeirra, sem torveldaði samanburð við reglur meðal Rómani-fólks og Sómala, eins og Friedman hefði reynt. Byock tók undir það, að Þjóðveldið hefði verið friðsamlegra en margir héldu. Til dæmis sýndu fornleifarannsóknir, að þar hefði ekki verið mikið um húsbrennur.

Margt fleira bar á góma, og skemmtu málstofugestir sér hið besta, en á meðal þeirra voru Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins, Vilhjálmur Árnason heimspekiprófessor og þeir Ragnar Árnason og Ásgeir Jónsson hagfræðiprófessorar. Birgir Þór Runólfsson hagfræðidósent stjórnaði málstofunni. Stuðningur RNH við hana er þáttur í samstarfsverkefni með ACRE, Evrópusamtökum íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Comments Off