Hannes: Fullveldið varð að verja

Í mannþrönginni við Stjórnarráðshúsið 1. desember 1918 voru þeir Tómas Guðmundsson, Davíð Stefánsson og Guðmundur G. Hagalín. Þeir snerust allir gegn hættunni af kommúnismanum, kröfunni um Sovét-Ísland.

Ísland varð fullvalda ríki 1. desember 1918. Á hundrað ára afmæli fullveldisins birti dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, rannsóknastjóri RNH, ritgerð í Morgunblaðinu um fullveldið. Taldi hann Ísland hafa verið ríki í skilningi Hegels, sem vettvangur málamiðlana og einingarafl, frá stofnun Alþingis 930, en í skilningi Webers, sem stofnun með einokun á beitingu valds á afmörkuðu svæði, frá 1. desember 1918. Íslenska ríkinu hefði verið ógnað fyrstu áratugina af flokki byltingarmanna, sem notið hefðu stuðnings erlends alræðisríkis: Kommúnistar hefðu unnið leynt og ljóst að því að stofna Sovét-Ísland og haft meira fylgi en víða annars staðar, 19,5% í kosningunum 1946 og 1949. Nokkrir rithöfundar hefðu risið upp gegn ofríki þeirra í menningarlífinu og haldið frægar ræður gegn kommúnisma, þeir Tómas Guðmundsson, Gunnar Gunnarsson, Kristmann Guðmundsson, Guðmundur G. Hagalín, Sigurður Einarsson í Holti og Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. Gæfi Almenna bókafélagið þessar ræður nú út á bók í tilefni fullveldisins.

Þrátt fyrir baráttu kommúnista hefði Ísland notið verndar og fulltingis Bandaríkjanna allt frá 1941, og það hefði gert því kleift að stækka með því að færa út fiskveiðilögsöguna. Bandarísku öldinni í sögu Íslands hefði hins vegar lokið 2006, þegar herstöðin á Miðnesheiði var lögð niður, og eftir það væru Íslendingar vinasnauðir, eins og komið hefði í ljós í bankahruninu 2008. Íslenskir ráðamenn virtust líka hafa misst sjálfstraustið, eins og sést hefði á undanlátssemi þeirra við útlendinga í Icesave-deilunni. Hannes gat sér til um það, að ein ástæðan væri, hversu lítil skil sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar væru gerð í kennslubókum og yfirlitsritum. Að minnsta kosti tvær kynslóðir hefðu alist upp við ramman áróður gegn hinni djúprættu þjóðernisvitund Íslendinga, sem hefði einmitt fundið sér farveg í fullveldinu 1918. Ritgerð Hannesar var þáttur í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og frjálsan markað“.

Ritgerð Hannesar í Morgunblaðinu

Comments Off

Hannes: Beiting hryðjuverkalaganna óþörf og ruddaleg

Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, rannsóknastjóri RNH, hélt erindi á morgunfundi Sjálfstæðisfélags Kópavogs laugardaginn 17. nóvember um skýrslu Félagsvísindastofnunar um bankahrunið 2008, en hann hafði yfirumsjón með henni. Hann hafnaði ýmsum þeim skýringum á bankahruninu, sem virtust sprottnar af stjórnmálagrillum frekar en staðreyndum, til dæmis að það væri vegna „feðraveldis“, hinnar frjálslyndu stjórnarskrár frá 1874 eða „nýfrjálshyggju“. Kvað hann beitingu bresku hryðjuverkalaganna gegn Íslendingum í fjármálakreppunni 2008 hafa verið tilefnislausa og ruddalega. Bretar hefðu þá einnig mismunað eftir þjóðerni (sem er bannað samkvæmt reglum innri markaðar Evrópu) með því að veita öllum öðrum bönkum en þeim, sem voru í eigu Íslendinga, lausafjárfyrirgreiðslu. Hannes gagnrýndi líka nokkra samkennara sína fyrir að styðja frekar málstað Breta en Íslendinga í Icesave-deilunni og velti fyrir sér, hvers vegna þeir hefðu viljað leiða okkur í skuldafangelsi. Var það vegna þess, að þeir vonuðust eftir því að verða fangelsisstjórarnir? Það væri herfilegur misskilningur, að Íslendingar hefðu mismunað breskum innstæðueigendum með neyðarlögunum. Öðru nær. Þeir hefðu með þeim lögum fært þá (og alla aðra innstæðueigendur) fram fyrir aðra kröfuhafa, til dæmis þýska eða bandaríska banka. Ef einhver mismunun hefði verið, þá hefði hún verið milli allra innstæðueigenda annars vegar og annarra kröfuhafa hins vegar, en slíka mismunun mætti rökstyðja með brýnni nauðsyn.

Davíð Örn Jónsson laganemi stjórnaði fundinum, sem var fjölmennur, og bárust fjöldi fyrirspurna til framsögumanns, meðal annars um Kaupþingslánið í miðju bankahruninu, sölu bankanna í árslok 2002, drengskap Pólverja og Færeyinga í erfiðleikum Íslendinga og öllu lakari framkomu Norðurlandaþjóða. Rakti Hannes atburðarásina í undanfara Kaupþingslánsins: Stjórnendur Kaupþings hefðu sagt seðlabankastjórunum, að vilji ríkisstjórnarinnar væri, að Seðlabankinn veitti Kaupþingi neyðarlán. Einn seðlabankastjórinn hefði haft samband við forsætisráðherra, sem staðfest hefði þetta, og væri til upptaka af því símtali. Seðlabankastjórarnir hefðu frekar viljað veita Landsbankanum lánið en Kaupþingi, en talið sig verða að fara að vilja ríkisstjórnarinnar, en lánveitingin hefði auðvitað verið á ábyrgð þeirra, en ekki ríkisstjórnarinnar. Þeir hefðu tekið veð fyrir láninu, sem hefði verið talið tvöfalt meira virði en lánið, og það hefði verið allsherjarveð og þess vegna staðið á móti öllum skuldum Kaupþings við bankann. Hins vegar hefði ný stjórn Seðlabankans haldið svo illa á málum í samningum við Dani 2010 um sölu veðsins, FIH banka, að ekki hefði endurheimst nema brot af raunvirði veðsins, svo að mestallt lánið til Kaupþings hefði því miður tapast. Kaupendur, þar á meðal lífeyrissjóðir í Danmörku og Svíþjóð, hefðu stórgrætt á kaupunum, og hefði raunar verið skrifuð um þau heil bók, Kunsten at tømme en bank og slippe godt fra det.

Hannes kvað sölu íslensku ríkisbankanna í árslok 2002 hafa verið um það óheppilega, að þeir hefðu verið seldir báðir í einu að kröfu framsóknarmanna. Hærra verð hefði fengist fyrir þá, hefðu þeir verið seldir hvor á eftir öðrum. Sá munur hefði verið á kaupendahópunum, að S-hópurinn, sem keypti Búnaðarbankann, hefði verið nátengdur Framsóknarflokknum, enda forystumaður hans fyrrverandi varaformaður flokksins og ráðherra. Augljós undirmál hefðu verið um að selja bankann strax aftur Kaupþingi. Samson-hópur þriggja manna, sem keypti Landsbankann, hefði hins vegar ekki haft nein tengsl við Sjálfstæðisflokkinn. Einn maður í hópnum hefði verið framsóknarmaður, annar óflokksbundinn, en hinn þriðji, Björgólfur Guðmundsson, að vísu verið sjálfstæðismaður, en hann hefði verið kosningastjóri Alberts Guðmundssonar í harðsóttu prófkjöri gegn Davíð Oddssyni fyrir borgarstjórnarkosningarnar 1982. Þótt gott hefði verið eftir það á milli Björgólfs og Davíðs, hefðu þeir því síður en svo verið einhverjir gamlir vinir eða bandamenn. Hannes vitnaði í Milan Kundera um það, að á vegi lífsins væri jafnan þoka framundan, svo að aðeins sæist í viðmælendur og spölkorn áleiðis, en þegar horft væri um öxl, virtist allt skýrt og augljóst. Svo hefði verið um sölu bankanna. Auðvelt væri að vera vitur eftir á. Líklega hefði verið skynsamlegast að selja bankana að öllu leyti í almennu útboði, eins og Davíð Oddsson hefði viljað, en verið borinn ráðum, þó að vitanlega hefðu síðan einstakir aðilar keypt upp hluti og öðlast yfirráð yfir bönkunum, líklega sömu aðilar og eignuðust þá að lokum. Hannes kvaðst þó ekki viss um, að bankarnir hefðu hagað sér öðru vísi, hefðu eigendur verið aðrir. Bankamenn um allan heim hefðu hagað sér ógætilega árin fyrir fjármálakreppuna og sumir jafnvel miklu verr en íslensku bankamennirnir, sem hefðu verið glannar frekar en glæpamenn. Erindi Hannesar var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og frjálsan markað“.

Glærur Hannesar í Kópavogi

Comments Off

Hannes: Sex ráð til að rjúfa þögnina

Bled í Slóveníu.

Evrópuvettvangur um minningu og samvisku hélt ársfund sinn í Bled í Slóveníu 15. nóvember 2018, og sótti dr. Hannes H. Gissurarson prófessor hann fyrir hönd RNH. Á undan ársfundinum fór alþjóðleg ráðstefna í Ljubljana 13.–14. nóvember undir heitinu „Skuggahlið tunglsins“, og var hún um minningar þeirra þjóða Mið- og Austur-Evrópu, sem lentu undir stjórn kommúnista eftir seinni heimsstyrjöld og endurheimtu ekki frelsi sitt fyrr en árin 1989–1991. Á ráðstefnunni í Ljubljana flutti Hannes erindi um raddir fórnarlambanna. Lagði hann út af orðum Elies Wiesels, að böðullinn dræpi alltaf tvisvar, í seinna skiptið með þögninni. Hannes benti á, að kommúnisminn væri ekki fordæmdur eins skilyrðislaust og nasisminn, þótt til þess væri full ástæða: hungursneyðir af mannavöldum, fjöldamorð, nauðungarflutningar þjóðflokka, rekstur þrælabúða, ógnarstjórn og eymd.

Hannes, dr. Pawel Ukielski og dr. Łukasz Kamiński. Ljósm. Peter Rendek, Platform.

Hannes reifaði sex ráð til að rjúfa þögnina, lýsa upp skuggahlið tunglsins. Háskólar, sérstaklega félags- og hugvísindadeildir, hefðu verið herteknir af vinstri mönnum. Þess vegna þyrfti að búa frjálslyndum fræðimönnum athvarf og aðstöðu í sjálfstæðum stofnunum. Í annan stað yrði að tryggja, að nemendur í skólum fengju fræðslu um ódæði allra alræðissinna, ekki síður kommúnista en nasista. Ekki mætti til dæmis þegja um það, að Stalín hefði verið bandamaður Hitlers fyrstu tvö styrjaldarárin. Í þriðja lagi þyrfti að reisa minnismerki og reka söfn eins og hið merkilega safn í Varsjá um uppreisnina 1944. Í fjórða lagi ætti að ógilda alla þá opinberu viðurkenningu, sem valdsmenn úr röðum kommúnista hefðu víða hlotið. Myndastyttur af Bería væru jafnóeðlilegar og af Himmler, svo að ekki væri minnst á götunöfn og heiðursmerki. Í fimmta lagi þyrfti að halda reglulega ráðstefnur til að kynna forvitnilegar rannsóknir. Til dæmis hefði prófessor Frank Dikötter varpað ljósi á ógnarstjórn Maós í Kína í þremur stórfróðlegum bókum, og Svartbók kommúnismans hefði markað tímamót árið 1997.

Í sjötta lagi þyrfti að gera vönduð rit um alræðisstefnuna aðgengileg að nýju, jafnt á prenti og á Netinu, eins og Almenna bókafélagið á Íslandi beitti sér fyrir með Safni til sögu kommúnismans, en þegar hafa tíu rit verið endurprentuð í þeirri ritröð, þar á meðal Greinar um kommúnisma eftir Bertrand Russell, Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir Ants Oras og Ég kaus frelsið eftir Víktor Kravtsjenko. Hannes kvað þrjú slík rit koma út í vetur, Framtíð smáþjóðanna: Erindi á Íslandi og öðrum Norðurlöndum 1946–1948 eftir norska skáldið Arnulf Øverland, Guðinn sem brást eftir sex rithöfunda, þar á meðal Arthur Koestler, André Gide og Ignazio Silone, og Til varnar vestrænni menningu: Ræður sjö rithöfunda 1950–1958, en höfundar eru Tómas Guðmundsson, Gunnar Gunnarsson, Kristmann Guðmundsson, séra Sigurður Pálsson í Hraungerði, Guðmundur G. Hagalín, séra Sigurður Einarsson í Holti og Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.

Glærur Hannesar í Ljubljana

Ráðstefnan í Ljubljana var haldin í þinghúsinu. Forseti Slóveníu, Borut Pahor, og forseti Slóveníuþings, Alojz Kovšca, fluttu þar ávörp, en meðal ráðstefnugesta voru Janez Janša, fyrrverandi forsætisráðherra Slóveníu, og sendiherrar Úkraínu og Póllands í Slóveníu. Á ársfundinum í Bled var prófessor Łukasz Kamiński frá Póllandi endurkjörinn forseti Evrópuvettvangsins, en með honum sitja í stjórn dr. Andreja Valič Zver frá Slóveníu, dr. Wolfgang-Christian Fuchs frá Þýskalandi, dr. Toomas Hiio frá Eistlandi og Zsolt Szilágyi frá Rúmeníu. Samþykkt var á fundinum að veita fimm samtökum aðild að vettvangnum, en í honum voru fyrir 57 samtök og stofnanir í 20 löndum. Peter Rendek var ráðinn framkvæmdastjóri í stað dr. Neelu Winkelmanns. Borgarstjórinn í Bled, Janez Fajfar, hélt kvöldverð fyrir ársfundargesti miðvikudagskvöldið 14. nóvember. Evrópuvettvangur um minningu og samvisku var stofnaður í Prag haustið 2011 að áeggjan Evrópuþingsins, sem samþykkt hafði ályktun um, að minnast yrði fórnarlamba alræðisstefnunnar í Evrópu, kommúnisma og nasisma. Þátttaka Hannesar í ráðstefnunni og ársfundinum var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“.

Nokkrir ráðstefnugestir fyrir framan ráðhúsið í miðborg Ljubljana.

Comments Off

Oleg Sentsov fær verðlaun Evrópuvettvangsins

Oleg Sentsov.

Kvikmyndagerðarmaðurinn Oleg Sentsov frá Úkraínu, sem situr í rússnesku fangelsi, hlaut verðlaun Evrópuvettvangs um minningu og samvisku árið 2018. Veitti sendiherra Úkraínu í Slóveníu, Mýkhaílo F. Brodovýtsj, verðlaununum viðtöku fyrir hönd Sentsovs við hátíðlega athöfn á alþjóðlegri ráðstefnu Evrópuvettvangsins í Ljubljana 14. nóvember, en hana sótti fulltrúi RNH, dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor. Verðlaunin eru veitt árlega einstaklingi, sem berst gegn alræðisstefnu og fyrir lýðræði og réttarríki. Sentsov fæddist í Símferopol á Krímskaga 1976 og nam hagfræði og kvikmyndagerð. Hafa ýmsar kvikmyndir hans unnið til verðlauna á alþjóðlegum vettvangi. Sentsov snerist gegn hertöku Krímskaga 2014, og handtók þá rússneska öryggislögreglan hann og pyndaði, og var hann dæmdur í 20 ára fangelsi. Brodovýtsj sendiherra sagðist taka við verðlaununum fyrir hönd Sentsovs og annarra þeirra áttatíu einstaklinga, sem sætu í rússneskum fangelsum vegna stuðnings við Úkraínu. Við athöfnina sagði Janez Janśa, fyrrverandi forsætisráðherra Slóveníu og leiðtogi Lýðræðisflokks landsins, að Úkraína væri fyrsta fórnarlamb átakanna eftir Kalda stríðið.

Frá v.: Alojz Kovšca, forseti slóvenska þingsins, dr. Łukasz Kaminski , forseti Evrópuvettvangsins, dr. Andreja Zver, Mýkhaílo F. Brodovýtsj sendiherra með verðlaunagripinn, Janez Janśa, fyrrv. forsætisráðherra Slóveníu. Ljósm. Peter Rendek, Platform.

 

Comments Off

Kappræður um sósíalisma

Ingvar Smári Birgisson, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, og Hreindís Ylva Garðarsdóttir, formaður Ungra vinstri grænna, eiga kappræður um sósíalisma föstudaginn 26. október kl. 18:30–20:30 í félagsheimili Framsóknarflokksins að Hverfisgötu 33. Fundarstjóri er Karítas Ríkharðsdóttir, gjaldkeri Sambands ungra framsóknarmanna.

RNH vekur athygli á þessum tímabæra viðburði, sem haldinn er á vegum Samtaka frjálslyndra framhaldsskólanema og studdur af Students for Liberty. Frá fórnarlömbum sósíalismans segir í ritinu Voices of the Victims eftir rannsóknastjóra RNH, dr. Hannes Hólmstein Gissurarson prófessor.

Eins og Marx og Engels hefðu átt að segja í Kommúnistaávarpinu:
ÖREIGAR ALLRA LANDA, FYRIRGEFIÐ!

Comments Off

800 manna stúdentaráðstefna í Pálsborg postula

Frá setningarfundi stúdentaráðstefnunnar í Maksoud Plaza gistihúsinu í Pálsborg postula.

Velgengni Norðurlanda er ekki að þakka jafnaðarstefnu, heldur viðskiptafrelsi, réttaröryggi og samheldni í krafti samleitni, sagði dr. Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, á fjölmennri ráðstefnu frjálslyndra stúdenta í Brasilíu, Libertycon, 12.–13. október 1018 í Pálsborg postula, São Paulo. Á meðal annarra fyrirlesara voru brasilískir fræðimenn, prófessorarnir Adriano Gianturco og Bruno Garschagen, Bruno Bodart dómari og ýmsir brasilískir aðgerðasinnar. Erlendir fyrirlesarar auk Hannesar voru frá Atlas Network og Students for Liberty. Fernando Henrique Miranda, André Freo og fleiri brasilískir háskólastúdentar höfðu veg og vanda af skipulagningu ráðstefnunnar, sem tókst hið besta. Sóttu hana 800 manns, og var uppselt á hana.

Í fyrirlestri sínum minnti Hannes á, að sænsk-finnski presturinn Anders Chydenius hefði sett fram hugmyndina um „ósýnilega höndina“ á undan Adam Smith og að frjálshyggjuhefðir hefðu verið sterkar á Norðurlöndum á nítjándu öld, eins og ljóst mætti verða af stjórnarskránni, sem Norðmenn samþykktu á Eiðsvöllum 1814, en hún var frjálslyndasta stjórnarskrá síns tíma. Johan August Gripenstedt, einn áhrifamesti stjórnmálamaður Svía, var einnig eindreginn frjálshyggjumaður, aðdáandi Frédèrics Bastiats. Í ráðherratíð hans 1848–1866 mynduðust forsendur fyrir hinu samfellda hagvaxtarskeiði, sem stóð í Svíþjóð í heila öld frá 1870. Nutu jafnaðarmenn góðs af því, þegar þeir komust til valda á fjórða áratug 20. aldar. „Sænska leiðin“, sem fylgt hefði verið 1970–1990 og fólgin hefði verið í háum sköttum og útþenslu ríkisbáknsins, hefði þó reynst ófær, og hefðu Svíar verið síðan að fikra sig frá henni. Jafnvel á hinu fámenna Íslandi hefði verið til frjálshyggjuhefð, sem þeir Jón Sigurðsson, leiðtogi Íslands í sjálfstæðisbaráttunni, Arnljótur Ólafsson, höfundur fyrsta hagfræðiritsins á íslensku, og Jón Þorláksson, stofnandi og leiðtogi fjölmennasta íslenska stjórnmálaflokksins, hefðu mælt fyrir.

Glærur Hannesar í São Paulo

Hannes var spurður, hvaða ráð hann gæti gefið Brasilíumönnum. Hann svaraði því til, að svo virtist sem þrjár nornir stæðu yfir höfuðsvörðum þessarar sundurleitu, suðrænu stórþjóðar, ofbeldi, spilling og fátækt. Brasilíumenn þyrftu að reka þessar nornir á brott, einbeita sér að koma á lögum og reglu, meðal annars með því að herða refsingar fyrir ofbeldisglæpi, og þá myndi tækifærum fátæks fólks til að brjótast í bjargálnir snarfjölga. Aðkomumönnum yrði starsýnt á hina ójöfnu tekjudreifingu í landinu. Ef til vill hefði auður sumra Brasilíumanna skapast í krafti sérréttinda og óeðlilegrar aðstöðu ólíkt því, sem gerðist í frjálsari hagkerfum, en reynslan sýndi, að hinir fátæku yrðu ekki ríkari við það, að hinir ríku yrðu fátækari. Happadrýgst væri að mynda skilyrði til þess, að hinir fátæku gætu orðið ríkari, en með aukinni samkeppni, sérstaklega á fjármagnsmarkaði, myndu hinir ríku þurfa að hafa sig alla við að halda auði sínum. Eitt lögmál hins frjálsa markaðar væri, að flónið og fjármagnið yrðu fljótt viðskila. Skriffinnska stæði líka brasilískum smáfyrirtækjum fyrir þrifum. Þátttaka Hannesar í ráðstefnunni var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Alliance of Conservatives and Reformists in Europe, um Ísland, Evrópu og hinn frjálsa markað. Í ráðstefnulok færði Hélio Beltrão, forstöðumaður Mises-stofnunarinnar í São Paulo, Hannesi að gjöf bókina História do liberalismo brasileiro (Sögu frjálshyggjunnar í Brasilíu) eftir heimspekinginn Antonio Paim.

Helstu skipuleggjendur ráðstefnunnar: Frá v. Jehan Piero Giuliani Dall’Asta, Ivanildo Santos Terceiro, Fernando Henrique Miranda, Nycollas Liberato og André Freo.
Comments Off