Hannan tók málstað Íslendinga 2008

RNH studdi ráðstefnu frjálshyggjustúdenta, Students for Liberty Iceland, sem haldin var í Kópavogi 6. september 2019. Aðalræðumaður ráðstefnunnar var Daniel Hannan, ritari ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, og leiðtogi íhaldsmanna á Evrópuþinginu. Morgunblaðiðbirti viðtal við Hannan 12. september. Hann ræddi þar aðallega um fyrirhugaða útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, en hann var einn forystumaður útgönguhreyfingarinnar. Hann taldi Evrópusambandið bjóða Bretum afarkosti til að halda þeim inni. „Ímyndaðu þér að Ísland leitaði til ESB um fríverslunarsamning en sambandið setti í staðinn tvö skilyrði; annars vegar að þið þyrftuð að segja upp öllum fríverslunarsamningum ykkar við önnur ríki, því sambandið sæi um þá, og hins vegar að Evrópusambandið hefði hér eftir full yfirráð yfir Kópavogi!“ sagði Hannan og vísaði með því til deilunnar um Norður-Írland. „Ég er hins vegar fyrsti breski stjórnmálamaðurinn, og er mjög stoltur af því, sem tók málstað Íslands í Icesave-deilunni. Ég var alltaf viss um að nást myndi upp í skuldirnar, og var því mjög ósáttur við að bresk stjórnvöld fældu frá sér traustan vin og bandamann með notkun hryðjuverkalaganna,“ sagði Hannan enn fremur.

Comments Off

Gullfót eða rafmynt?

Frá málstofunni.

Samtök frjálslyndra framhaldsskólanema hélt umræðufund um æskilega nýskipan peningamála með prófessor Edward Stringham og Peter C. Earle fjármálafræðingi sunnudaginn 8. september kl. 20–22 að Hlíðarsmára 19 í Kópavogi. Báðir töldu þeir óheppilegt, að ríkið framleiddi gjaldmiðla, enda félli það iðulega á þá freistni að framleiða of mikið af þeim, og afleiðingin yrði verðbólga, sem skekkti verð og truflaði viðskipti. Earle bar saman kosti gullfótar, þar sem framleiðsla gjaldmiðils ræðst af gullforða útgefandans (sem oftast yrði seðlabanki), og rafmyntar. Kosturinn við gullfótinn væri, hversu stöðugur hann væri, en rafmyntir hefðu verið fremur óstöðugar, og væri þær þó að verða stöðugri. Kvaðst hann þess vegna ekki geta gert upp á milli þessara tveggja tegunda peninga.

Júlíus Viggó Ólafsson framhaldsskólanemi stjórnaði fundinum. Þeir Stringham og Earle, sem starfa báðir í Hagfræðirannsóknarstofnun Bandaríkjanna, American Institute of Economic Research,  voru staddir á Íslandi í tengslum við ráðstefnu frjálshyggjustúdenta 6. september um framtíð og frelsi. Þátttaka RNH í þessum viðburðum er liður í samstarfsverkefni við Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna, ACRE, Alliance of Conservatives and Reformists in Europe.

Comments Off

Málstofa um Frédéric Bastiat

Hagfræðirannsóknastofnun Bandaríkjanna, American Institute of Economic Research, hélt málstofu í Hlíðarsmára 19 í Kópavogi laugardaginn 7. september kl. 17–19. Þar töluðu prófessor Edward Stringham og einn sérfræðingur stofnunarinnar, Brad DeVos, um AIER og um franska rithöfundinn Frédéric Bastiat, sem uppi var á nítjándu öld, en hann er einn orðsnjallasti talsmaður viðskiptafrelsis fyrr og síðar, eins og sést á tveimur frægustu ritgerðum hans, Um hið sýnilega og ósýnilega og Bænarskrá kertasteypara. Í fyrri ritgerðinni bendir Bastiat á hinar ósýnilegu afleiðingar viðskiptafrelsis og viðskiptatálmana, en í hinni seinni lætur hann kertasteypara krefjast verndar frá samkeppni við framleiðanda annars ljósgjafa, sólarinnar. Á fundinum var Bastiat-félagið á Íslandi stofnað, en það er eitt margra um allan heim, og er Magnús Örn Gunnarsson forsvarsmaður þess.

Bastiat.

Í umræðum á eftir framsöguerindum þeirra Stringhams og DeVos benti prófessor Hannes H. Gissurarson á, að fyrsta íslenska hagfræðiritið, Auðfræði eftir Arnljót Ólafsson, sem kom út 1880, hefði verið samið undir sterkum áhrifum frá Bastiat. Einnig hefði Bastiat átt marga lærisveina á Norðurlöndum á nítjándu öld, þar á meðal sænska ráðherrann Johan August Gripenstedt, sem hefði með umbótum sínum 1856–1866 skapað forsendur fyrir velmegun Svía á tuttugustu öld. Á íslensku hefur eitt rit Bastiats komið út, Lögin, og hyggst RNH beita sér fyrir endurútgáfu þeirrar bókar. Einnig er hið aðgengilega yfirlitsrit Henrys Hazlitts, Hagfræði í hnotskurn, skrifað í anda Bastiats.

Þeir Stringham og DeVos voru staddir á Íslandi í tengslum við ráðstefnu íslenskra frjálshyggjustúdenta daginn áður. Stuðningur RNH við Bastiat-félagið er liður í samstarfsverkefni við Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna, ACRE, Alliance of Conservatives and Reformists in Europe, um blágrænan kapítalisma.

Comments Off

Daniel Hannan: Ísland á samleið með Bretlandi

Ljósm. Kristinn Magnússon.

Daniel Hannan, ritari Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, ACRE, og leiðtogi breskra íhaldsmanna á Evrópuþinginu, var aðalræðumaður á ráðstefnu íslenskra frjálshyggjustúdenta, Students for Liberty Iceland, og Hagfræðirannsóknastofnunar Bandaríkjanna, American Institute of Economic Research, um „Frelsi og framtíð“, sem haldin var í Salnum í Kópavogi síðdegis 6. september 2019. Hannan kvað Ísland og Bretland vera vinaþjóðir, og hann hefði margoft komið til Íslands. Þessar þjóðir ættu samleið. Furðulegt væri að horfa upp á ýmsa reyna að koma í veg fyrir, að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi um útgöngu úr Evrópusambandinu væru virt. Bretland væri miklu betur komið utan ESB en innan. Rökin fyrir alþjóðlegu viðskiptafrelsi væru hins vegar mjög sterk. Stuðningur sinn við útgöngu væri ekki síst til að auka viðskiptafrelsi, þótt vitanlega hlytu Bretar að versla áfram við aðrar Evrópuþjóðir og óskuðu Evrópusambandinu alls góðs. Það væri umfram allt almenningur, sem hagnaðist á viðskiptafrelsi. Sérhagsmunahópar vildu oftast, að ríkið verndaði þá fyrir samkeppni.

Ljósm. Kristinn Magnússon.

Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, setti ráðstefnuna með nokkrum orðum. Hann minnti á, að Hannan hefði mótmælt harðlega í breskum blöðum, þegar breska Verkamannaflokksstjórnin hefði sett hryðjuverkalög á Íslendinga. Hefði það verið drengilega gert. Davíð fór í ávarpi sínu nokkrum orðum um áhyggjuskipti kynslóðanna. Hann hefði í forsætisráðherratíð sinni fengið að heyra ótal viðvaranir um þúsaldarvandann, sem hefði enginn reynst vera. Síðan hefði verið talað um síþreytu og þá um kulnun í starfi og nú um hlýnun jarðar. Iðulega væri hættan orðum aukin. Davíð kvað velmegun og friðsæld aldrei hafa verið meiri en nú, en berjast yrði fyrir frelsinu á hverjum degi. Satt að segja væri frelsið lagt í einelti, svo að notað væri algengt orð á okkar tímum. Hann benti einnig á, að margt af þeim umbótum, sem hann hefði beitt sér fyrir í forsætisráðherratíð sinni, til dæmis uppgreiðsla opinberra skulda, lækkun skatta, sala ríkisfyrirtækja, efling lífeyrissjóða og þróun kvótakerfisins, hefði verið alls ótengt aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu, þótt vissulega hefði verið mikið framfaraskref að opna hagkerfið og tengjast Evrópumarkaðnum.

Hannes H. Gissurarson prófessor talaði um grænan kapítalisma. Hann gerði greinarmun á umhverfisverndarsinnum eins og sér, sem vildu nýta gæði náttúrunnar skynsamlega manninum í hag, og umhverfisöfgasinnum, sem teldu náttúruna hafa sérstakan rétt gegn manninum. Í raun og veru væri áreksturinn samt ekki milli manns og náttúru, heldur milli tveggja hópa manna, sem vildu nýta gæðin á ólíkan hátt. Dæmi væru úlfar í Ölpunum, sem legðust á sauðfé. Hvort ætti að gæta hagsmuna þeirra, sem vildu friða úlfana, eða hinna, sem vildu nýta sauðféð til að fæða og klæða fólk? Hins vegar væri ekki nóg að verðleggja gæðin, einnig þyrfti að stofna til eignarréttar á þeim. Vernd krefðist verndara. Til dæmis mætti breyta veiðiþjófum í Afríku, sem dræpu fíla og nashyrninga, í veiðiverði með einu pennastriki — með því að gera þorpin þeirra að eigendum fíla- og nashyrningahjarða.

Halla Sigrún Mathiesen var ráðstefnustjóri, en einnig töluðu Mariam Gogoshvili frá Georgíu, prófessor Edward Stringham, Peter C. Earle og Andrew Heaton. Ráðstefnan vakti mikla athygli. Morgunblaðið sagði rækilega frá henni, Viðskiptablaðið birti grein um Hannan og Viljinn tók við hann viðtal. Þátttaka RNH í ráðstefnunni var liður í samstarfsverkefni við ACRE, Alliance of Conservatives and Reformists in Europe, um blágrænan kapítalisma.

Comments Off

Fjármálakreppan 2008 og framvindan síðan

RNH studdi ráðstefnu Students for Liberty Iceland og American Institute for Economic Research í Reykjavík 6. september. Í tengslum við hana komu margir fyrirlesarar til landsins, þar á meðal hagfræðiprófessorinn Edward Stringham og fjármálafræðingurinn Peter C. Earle frá Bandaríkjunum. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands notaði tækifærið og hélt málstofu að morgni 6. september með Stringham og Earle um fjármálakreppuna 2008 og framvinduna síðan. Þar hélt Stringham því fram, eins og margir aðrir fræðimenn, að rætur kreppunnar lægju í ódýrum og áhættusömum húsnæðislánum annars vegar og lágvaxtastefnu bandaríska seðlabankans hins vegar. Hann kvað ekkert óeðlilegt við það, að fjármálastofnanir reyndu að minnka áhættu sína með skuldatryggingum og afleiðum. Dr. Sigurður Jóhannesson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar, stjórnaði málstofunni.

Þátttaka RNH í komu Stringhams og félaga hans og í fundum og málstofum með þeim á Íslandi var liður í samstarfsverkefni við ACRE, Alliance of Conservatives and Reformists in Europe, um „blágrænan kapítalisma“.

Comments Off

Norrænu leiðirnar í Las Vegas

Hannes flytur umsögn sína. T. v. við hann situr prófessor Gwartney.

Á „Freedomfest“, frelsisveislunni, í Las Vegas í júlí 2019 var rannsóknastjóri RNH, prófessor Hannes H. Gissurarson, beðinn að vera umsegjandi um fyrirlestur prófessors James Gwartneys um jafnari tekjudreifingu í heiminum. Gwartney studdist við tölur frá Angus Maddison-verkefninu og Alþjóðabankanum, sem sýna, að tekjudreifing, eins og hún mælist samkvæmt Gini-stuðlinum svonefnda, hefur verið að jafnast í heiminum. Taldi Gwartney meginskýringuna vera byltingu í upplýsingamiðlun og samgöngutækni, sem væri að því leyti mikilvægari en iðnbyltingin í lok átjándu aldar, að hún næði til alls heimsins. Fjölmennar þjóðir hefðu brotist úr fátækt í bjargálnir.  Gwartney taldi, að tiltölulega jöfn tekjudreifing á Norðurlöndum væri ekki síst vegna samleitni (homogeniety) þjóðanna, sem þau byggðu.

Í umsögn sinni ræddi Hannes sérstaklega um Norðurlönd. Hann benti á, að Norðurlandaþjóðirnar byggju að langri og sterkri frjálshyggjuhefð. Til dæmis hafði sænsk-finnski presturinn Anders Chydenius sett fram kenninguna um samband ávinningsvonar og almannahags í krafti frjálsrar samkeppni á undan Adam Smith, og frjálslyndir sænskir stjórnmálamenn nítjándu aldar hefðu beitt sér fyrir víðtækum umbótum, sem hleypt hefðu af stað örum og samfelldum hagvexti í marga áratugi, og mætti kalla það fyrstu sænsku leiðina. Að sögn Hannesar hvíldi velgengni Svía á tuttugustu öld eins og annarra Norðurlandaþjóða á öflugu réttarríki, opnu hagkerfi og samheldni og sáttarhug vegna samleitni þjóðarinnar, eins og Gwartney hefði bent á. Það hefði ekki verið fyrr en árin 1970–1990, sem sænskir jafnaðarmenn hefðu lagt inn á braut ofurskatta og stórfelldra afskipta af atvinnulífinu.

Önnur sænska leiðin, sem farin var 1970–1990, reyndist ófær að sögn Hannesar. Svíar voru lentir öfugum megin á Laffer-boganum svonefnda, þar sem aukin skattheimta hafði ekki í för með sér auknar skatttekjur, heldur minnkandi. Sjá hefði mátt í Svíþjóð þá sviðsmynd, sem Ayn Rand hefði brugðið upp í skáldsögunni Undirstöðunni (Atlas Shrugged), en hún hefur komið út á íslensku: Þeir, sem sköpuðu verðmæti, hurfu ýmist á brott, hættu að framleiða eða fitjuðu ekki upp á nýjungum. Í einkageiranum urðu nánast engin störf til á þessu tímabili, aðeins í opinbera geiranum. En nú reyndist Svíum vel samheldnin og sáttarhugurinn, kvað Hannes: Með þjóðinni myndaðist óskráð samkomulag frá 1990 og áfram um að fara þriðju sænsku leiðina, sem felst ekki síst í að efla einkaframtak og halda sköttum í hófi. Þátttaka Hannesar í Freedomfest er liður í samstarfsverkefni við ACRE, Samtök íhaldsmanna og umbótasinna í Evrópu, um kapítalisma 21. aldar.

Comments Off