
Júlíus Viggó Ólafsson.
Samkomusalur Safnahússins við Hverfisgötu var troðfullur laugardaginn 4. október 2025, þegar Evrópusamtök frjálslyndra stúdenta (Students for Liberty Europe) og RSE, Rannsóknamiðstöð í samfélags- og efnahagsmálum, héldu saman ráðstefnu um efnið: ESB: Vinur frelsisins eða óvinur? Breki Atlason, Íslandsfulltrúi Evrópusamtakanna, var fundarstjóri, en Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, kynnti ræðumenn og og stjórnaði fyrirspurnatíma. Júlíus Viggó Ólafsson, einn af forystumönnum ungra sjálfstæðismanna, flutti stutt ávarp í byrjun, þar sem hann sagði, að ungt fólk væri óðum að hafna vinstrinu, ekki síður á Íslandi en annars staðar, en mikilvægt væri, að það hafnaði ekki atvinnufrelsinu, þótt sumt af því kysi að fylgja þjóðlegri íhaldsstefnu. Dr. Eamonn Butler, fyrrverandi forstöðumaður Adam Smith stofnunarinnar í Lundúnum og höfundur fjölmargra bóka um frjálshyggju, talaði fyrstur í fyrri lotu. Hann er Íslandsvinur og var einn fárra, sem andmælti opinberlega í Bretlandi beitingu hryðjuverkalaga á Íslendinga í bankahruninu haustið 2008. Butler sagði, að fyrir sér og öðrum stuðningsmönnum útgöngu úr Evrópusambandinu, Brexit, hefði vakað að ná aftur yfirráðum yfir landinu í stað þess að færa þau til ógagnsæs, ólýðræðislegs og ábyrgðarlauss skrifstofubákns í Brüssel. Brexit hafði tekist, sagði Butler, að því leyti, að Bretar hefðu aftur náð yfirráðum yfir eigin landi, en hann og aðrir stuðningsmenn útgöngunnar hefðu hins vegar vanmetið illvild skriffinnanna í Brüssel, sem hefðu notað hvert tækifæri, sem gafst, til að torvelda útgönguna.

Frá v.: Breki Atlason, Eamonn Butler, John Fund og Ragnar Árnason.
Þegar Hannes H. Gissurarson kynnti næsta ræðumann, John Fund, einn af ritstjórum tímarits bandarískra íhaldsmanna, National Review, vakti hann athygli á fornri kínverskri bölbæn: Megir þú lifa á áhugaverðum tímum. Hann sagði, að nú lifðu Bandaríkjamenn svo sannarlega á áhugaverðum tímum. Fund ræddi um uppgang lýðstefnu, populisma, í Norður-Ameríku og Evrópu. Skýringin á honum væri sú, að valdastéttir í þessum tveimur heimsálfum tækju ekki tillit til hagsmuna og áhugamála venjulegs fólks, ekki síst andstöðu þess við því, að öfgafullir vinstri menn reyndu með afturköllunarfári (cancel culture) og vælumenningu (wokeisma) að troða skoðunum sínum upp á aðra. Fund bætti því við, að Íslendingar stæðu frammi fyrir sögulegri ákvörðun um Evrópusambandið, hvort ætti að færa valdið frá Reykjavík til Brüssel. Eftir því yrði tekið um allan heim, stæðu Íslendingar gegn valdastéttinni í Brüssel. Viðtal var við Fund í Morgunblaðinu 4. október og í Silfrinu á Ríkisútvarpinu 6. október, og ræddi hann þar aðallega um bandarísk stjórnmál.
Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði í Háskóla Íslands, benti á atriði, sem hann taldi augljóst: Menn ganga aðeins í félög, telji þeir sér sérstakan hag í því. Hann mat það svo, að kostnaðurinn af því að ganga í Evrópusambandið yrði miklu meiri fyrir Íslendinga en ávinningurinn. Ísland væri eitt auðugasta ríki Evrópu eins og tvö önnur ríki, sem hvorugt væri í ESB, Noregur og Sviss, og þess vegna myndi það þurfa að greiða miklu meira til ESB en það fengi frá því. Íslendingar ættu verulegar náttúruauðlindir, sem ESB væri líklegt til að ásælast. Ísland þyrfti ekki að ganga í ESB til að tryggja öryggi sitt. Það gerði landið með varnarsamningnum við Bandaríkin annars vegar og aðild að Norður-Atlantshafsbandalaginu hins vegar. Gerðist Ísland aðildarríki, þá hefði það ekki meira að segja um Evrópumál en önnur smáríki, sem hefðu eins og allir vissu hverfandi áhrif. Ragnar bætti við, að til væri viðbótarröksemd, jafnvel þótt komist yrði að þeirri ólíklegu niðurstöðu, að meiri ávinningur yrði en kostnaður af inngöngu. Hún væri, að ákvörðun um inngöngu væri undirorpin óvissu, en líklega óafturkræf. Þess vegna gæti verið skynsamlegt að fresta ákvörðuninni, uns ljóst yrði, hvað framtíðin bæri í skauti sér. Reyndist innganga óskynsamleg, yrði tapið af ákvörðun um inngöngu meira en ágóðinn af henni, reyndist innganga skynsamleg.
Glærur Ragnars
Fjörugar umræður urðu á eftir fyrri lotu. Dr. Daniel Mitchell frá Freedom and Prosperity Association í Washington-borg talaði fyrstur í seinni lotu. Hann benti á, að bilið milli lífkjara í Bandaríkjunum og Evrópusambandinu hefði breikkað talsvert síðustu áratugi. Hagkerfi ESB-landanna hefði staðnað, og ástæðan var sú að sögn hans, að þar væri minna frelsi en í Bandaríkjunum. Mitchell studdi mál sitt ýmsum gögnum, sem öll voru sótt í viðurkenndir heimildir svo sem Alþjóðabankann. ESB var sökkvandi skip, sagði hann. Ef til vill hefði verið skynsamlegt af fátækari þjóðum Evrópu að ganga inn til tryggingar öryggi þeirra og bættu réttarfari, en það ætti alls ekki við um Ísland. Eftir ráðstefnuna bloggaði Mitchell um hana.
Glærur Mitchells

Siri Terjesen.
Þegar Hannes kynnti tvo síðari ræðumennina í seinni lotunni, minnti hann á kínverska heilræðið, að betra væri að kveikja á kertum en bölva myrkrinu. Þau Siri Terjesen, hagfræðiprófessor í Florida Pacific háskóla, og Gale Pooley, hagfræðiprófessor í Utah Tech háskóla, fengjust bæði við að kveikja kerti. Þau settu fram vonina um betri framtíð ungs fólks þrátt fyrir lýðskrumara og skriffinna, greina skilyrðin fyrir framförum, hagvexti, bættum lífskjörum. Terjesen útskýrði hlutverk frumkvöðla í hagkerfinu, en ríkið gæti liðsinnt þeim með hóflegum sköttum og vönduðu regluverki. Pooley lýsti nýrri aðferð við að mæla lífskjör. Hún væri ekki fólgin í peningum, ekki einu sinni peningum á núvirði hverju sinni, heldur „tímaverði“, en það væri peningaverð deilt með vinnulaunum á klukkustund. Framfarir fælust í því, að það tæki styttri og styttri tíma að afla þess fjár, sem nægði til að kaupa gæði. Fyrir þann tíma, sem maður hefði þurft að vinna árið 1952 til að geta keypt sér eitt loftkælitæki, hefði hann til dæmis getað árið 2024 keypt 45,5 slík tæki. Fyrir þann tíma, sem hann hefði þurft að vinna árið 1900 til að geta keypt sér eina kókflösku, hefði hann árið 2023 getað keypt 55,2 flöskur. Pooley lagði áherslu á sköpunarmátt einstaklinga eins og hann hafði gert í nýlegri bók, sem hann skrifaði með Marian Tupy, Ofgnótt (Superabundance).
Glærur Terjesens
Glærur Pooleys

Snorri Másson.
Snorri Másson, þingmaður Miðflokksins, mælti nokkur lokaorð. Hann kvað miklar hættur hafa steðjað að málfrelsi á Vesturlöndum síðustu ár undir merkjum vælumenningar og afturköllunaráráttu. Því mætti ekki gleyma, að málfrelsið væri líka frelsi til að láta í ljós óvinsælar skoðanir. Að ráðstefnunni lokinni bauð RSE þátttakendum í móttöku í Safnahúsinu, og þar fóru fram fjörugar umræður. Um kvöldið sátu hinir erlendu ræðumenn og forystumenn Students for Liberty grillveislu að heimili Hannesar H. Gissurarsonar, þar sem Einar Arnalds Kristjánsson sá um að grilla. Lukas Schweiger, sem býr á Íslandi, en var um skeið formaður Students for Liberty Europe, Halla Margrét Hilmarsdóttir, ein af Íslandsfulltrúum Students for Liberty Europe, og Gísli Valdórsson, starfsmaður RSE, veittu einnig aðstoð við ráðstefnuhaldið, og þótti allt takast hið besta.
