Piketty.

Franska fræðatímaritið Journal des Économistes et des Études Humaines, sem De Gruyter-félagið gefur út, hefur sett á Netið ritgerð eftir rannsóknastjóra RNH, prófessor Hannes H. Gissurarson, um „Endurdreifingu í orði og verki“, þar sem hann gagnrýnir tvo helstu hugsuði vinstri stefnu á okkar dögum, heimspekinginn John Rawls og hagfræðinginn Thomas Piketty. Útdráttur úr ritgerðinni hljómar á þessa leið:

Rawls’ theory is about prudence rather than justice. It is about the kind of political structure on which rational people would agree if they were preparing for the worst. Other strategies, such as confining redistribution to upholding a safety net, might also be plausible. Rawls’ theory is Georgism in persons: the income from individual abilities is regarded as if it is at the disposal of the collective and could be taxed as rent. This goes against the strong moral intuition of self-ownership. However, Rawls’ question, where the worst off are as well off as they can be, is interesting. According to the Index of Economic Freedom, it actually may be under relatively unfettered capitalism. Unlike Rawls, Piketty is chiefly worried about the rich, seeking to impose confiscatory taxes on them. But the rich are not a fixed, unchangeable group of people who can effortlessly watch their capital accumulate. Capital is precarious, as is vividly illustrated in Balzac’s novel Père Goriot which Piketty quotes. Different as the approaches of Rawls and Piketty are, both of them agree that their ideal society has to be closed: It must become ‘socialism in one country.’

Comments Off

Hannes: Árekstur hópa, ekki manns og náttúru

Gera verður greinarmun á umhverfisvernd og umhverfistrú (ecofundamentalism), sagði dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, rannsóknastjóri RNH, í erindi um grænan kapítalisma á ráðstefnunni Vikulokum kapítalismans í Varsjá dagana 23.–24. nóvember 2019. Umhverfisverndarmenn vilja nýta náttúrugæðin skynsamlega og leita þess vegna ráða til að minnka umhverfisspjöll eins og mengun og ofveiði. Eitt hið besta er að þeirra dómi að skilgreina eignarrétt (eða einkaafnotarétt) á gæðum náttúrunnar, því að þá verða til eigendur eða gæslumenn. Vernd krefst verndara. Umhverfistrúarmenn telja hins vegar, að maður og náttúra séu andstæður og að umhverfið hafi einhvers konar rétt gagnvart mönnum.

Hannes benti á, að árekstrar í umhverfismálum eru í raun ekki milli manns og náttúru, heldur milli ólíkra hópa manna. Skýrt dæmi er hvalur á Íslandsmiðum. Sumir vilja veiða hann og eta. Aðrir vilja friða hann, jafnvel þótt stofnarnir á Íslandsmiðum séu sterkir. Í þeirra augum virðist hvalur vera eins og heilaga kýrin hindúa. En hvalir éta að mati sjávarlíffræðinga um sex milljónir lesta af sjávarfangi á ári, þar á meðal smáfiski. Íslendingar landa hins vegar ekki nema rösklega einni milljón lesta af fiski. Krafa hvalfriðunarsinna er því í raun um, að Íslendingar taki að sér að fóðra hvalinn fyrir þá án þess að mega nýta hann sjálfir. Þeir eru eins og freki bóndinn, sem rekur kvikfénað sinn í bithaga nágrannans og ætlast til þess, að hann sé þar á fóðrum, sagði Hannes. Hér rekast á tveir hópar manna, ekki maður og náttúra.

Annað dæmi, sem Hannes nefndi, er regnskógurinn á Amasón-svæðinu. Umhverfistrúarmenn vilja friða hann. Rökin eru að vísu veik að dómi Hannesar. Það er ekki rétt, að regnskógurinn framleiði verulegt súrefni handa jarðarbúum, og tryggja má líffræðilegan fjölbreytileika með miklu minni skógi en nú vex þar. En setjum svo, að rökin séu gild og skógurinn sé mannkyni mikilvægur. Þá ættu auðvitað aðrir jarðarbúar að greiða Brasilíumönnum fyrir afnot sín af skóginum, kvað Hannes.

Glærur Hannesar í Varsjá 24. nóvember 2019

Vikulok kapítalismans voru skipulögð af Tomek Kołodziejczuk fyrir Rannsóknamiðstöð kapítalismans, Centrum Kapitalizmu, og Mises-stofnun Póllands, Instytut Misesa. Þau voru haldin í kauphöllinni í Varsjá. Sóttu um 250 manns viðburðinn, og komust færri að en vildu. Á kvöldin var Frelsisvínstúkan í næsta nágrenni við kauphöllina heimsótt, en hún er í fyrrverandi höfuðstöðvum kommúnistaflokks Póllands, og er þar boðið upp á hanastél með nöfnum margra frelsishugsuða og andkommúnista. Hannes notaði tækifærið í Varsjárferð sinni til að heilsa upp á tvo gamla vini, dr. Pawel Ukielski, aðstoðarforstjóra safnsins um uppreisnina í Varsjá 1944, og prófessor Leszek Balcerowicz, fyrrverandi fjármálaráðherra og seðlabankastjóra Póllands, en hann var höfundur áætlunar þeirrar, sem kom Póllandi út úr ógöngum sósíalismans. Þátttaka Hannesar í ráðstefnunni var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Blágrænan kapítalisma“.

Comments Off

Jan Valtin í Poitiers

Richard Krebs (Jan Valtin)

Ein eftirminnilegasta heimildin um tuttugustu öld er sjálfsævisaga Jans Valtins, sem hét réttu nafni Richard Krebs, Out of the Night, á íslensku Úr álögum, sagði rannsóknastjóri RNH, prófessor Hannes H. Gissurarson, í fyrirlestri á ráðstefnu um Valtin í Poitiers í Frakklandi 14.–15. nóvember 2019. Krebs var fæddur 1905 og gerðist ungur erindreki hinnar alþjóðlegu kommúnistahreyfingar og síðan gagnnjósnari hjá þýsku leynilögreglunni, Gestapo, en flýði til Bandaríkjanna 1938. Sjálfsævisaga hans var metsölubók í Bandaríkjunum, og urðu harðar deilur um hana á Íslandi sumarið og haustið 1941, áður en fyrri hluti hennar kom út á vegum MFA, Menningar- og fræðslusambands alþýðu, sem jafnaðarmenn stjórnuðu. Halldór K. Laxness rithöfundur birti harða árás á Valtin, en Benjamín H. J. Eiríksson hagfræðingur kvað bókina flytja sannleik. Benjamín hafði orðið afhuga stalínisma í dvöl sinni í Ráðstjórnarríkjunum árin 1935–1936. Íslenskum kommúnistum tókst með herferð sinni gegn Valtin að tefja útkomu seinni hlutans til ársins 1944, og treysti MFA sér ekki til að gefa hann út, heldur gerðu það „Nokkrir félagar“. Hafði fyrri hlutinn þó selst í rösklega fjögur þúsund eintökum.

Rannsóknir hafa leitt í ljós, að margar staðhæfingar Valtins voru réttar, til dæmis að skipverjar á skipum Eimskipafélagsins hafi flutt leyniskjöl Kominterns, Alþjóðasambands kommúnista, á milli landa og að danski verkalýðsleiðtoginn Richard Jensen hafi verið flugumaður Kominterns. Þrátt fyrir ýmsar ýkjur og einhverja ónákvæmni sé bók Valtins mikilvæg til skilningsauka á tuttugustu öld, sagði Hannes. Hann sá um endurprentun bókarinnar árið 2015 og skrifaði formála og skýringar.

Á ráðstefnunni sagði sænski blaðamaðurinn Dennis Renfors frá dvöl Valtins í Svíþjóð og viðtökum bókar hans þar og annars staðar á Norðurlöndum. Sænska og norska öryggislögreglan fylgdist með honum og skrifaði um hann skýrslur. Árið 1942 kom bókin út á sænsku, en vegna hlutleysis Svíþjóðar í stríðinu voru kaflar um fangabúðir nasista og pyndingar þeirra felldir þar út. Þýski sagnfræðingurinn Ernst von Waldenfels, sem skrifað hefur ævisögu Valtins á þýsku, flutti samantekt um rannsóknir sínar. Hélt hann því fram, að söguhetja bókarinnar, Jan Valtin, væri ekki einn og sami maður og höfundurinn, Richard Krebs, þótt hann vildi ekki ganga svo langt að segja, að bókin væri skáldsaga frekar en sjálfsævisaga. Dr. Roger Mattson, sem fæst nú við að skrifa ævisögu Valtins á ensku, lýsti fimm síðustu árunum í ævi Krebs, frá 1945 til 1950. Prófessor Guillaume Bourgeois fór yfir fróðleik um Krebs í skjalasöfnum bresku leynilögreglunnar og fransks málafærslumanns kommúnista, Joë Nordmann. Skýrslur bresku leynilögreglunnar sýndu, að Krebs hafði síður en svo ýkt hlutverk sitt sem erindreka hinnar alþjóðlegu kommúnistahreyfingar. Prófessor Gildas Le Voguer talaði um yfirheyrslur bandarískrar rannsóknarnefndar yfir Krebs.

Prófessor Bourgeois skipulagði ráðstefnuna, og voru umræður líflegar og skemmtilegar. Sonur Richards Krebs, Eric, var sérstakur gestur hennar ásamt konu sinni og las úr óbirtum bréfum föður síns fyrir ráðstefnugesti að kvöldi 14. nóvembers. Fyrirlestrarnir verða væntanlega gefnir út á bók. Þátttaka Hannesar í ráðstefnunni er liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“.

Glærur Hannesar í Poitiers 15. nóvember 2019

Mattson, Eric and Suzanne Krebs, Hannes, Le Voguer og von Waldenfels fyrir framan ráðhúsið i Poitiers.

Comments Off

Hayek og Menger í Vínarborg

Sumar hugmyndir Friedrichs von Hayeks, eins áhrifamesta stjórnmálahugsuðar tuttugustu aldar, má rekja til landa hans, austurríska hagfræðingsins Carls Mengers, sagði dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, rannsóknastjóri RNH, á ráðstefnu um austurrísku hagfræðihefðina í Vínarborg 13.–14. nóvember 2019. Þar ber hæst þá hugmynd Mengers, að eitt helsta verkefni félagsvísindanna ætti að vera að skýra, hvers vegna sum nytsamleg fyrirbæri væru sjálfsprottin, en ekki ætlunarverk. Nefndi Menger í því sambandi tungumálið, peninga, frjálsan markað og venjurétt. Menger hefði gagnrýnt breska nytjastefnu fyrir skilningsleysi á slíkum sjálfsprottnum fyrirbærum, en líka þýska sögustefnu fyrir gagnrýnisleysi á slík fyrirbæri. Hayek hefði tekið þessa hugmynd Mengers upp. Þeir teldu báðir og raunar Karl Popper líka, að sósíalismi væri frekar fræðileg yfirsjón en sérstök stjórnmálastefna, og væri yfirsjónin fólgin í að telja félagsleg fyrirbæri ætlunarverk og þess vegna hæglega fær um að vera endursköpuð. Sósíalistar sæju jafnan mannlegan vilja á bak við félagsleg fyrirbæri, góð og slæm. Þjóðernissósíalistar hefðu til dæmis kennt gyðingum um allt, sem miður hefði farið, en aðrir sósíalistar sett í þeirra stað auðvaldið. Nú á dögum töluðu sumir um tekjudreifingu í frjálsu hagkerfi eins og athöfn eða ætlunarverk, sem breyta mætti að vild, en hún væri í raun og veru niðurstaða úr frjálsu vali óteljandi einstaklinga.

Þeir Menger og Hayek hefðu líka lagt áherslu á takmarkanir einstaklingsbundinnar skynsemi í heimi sífelldrar þróunar og óvissu, en í framhaldi af því hefði Hayek varpað fram hinni mikilvægu spurningu, hvað skýrði þá hinar stórkostlegu framfarir á Vesturlöndum. Svar hans hefði verið, að í frjálsu skipulagi nýttu einstaklingar sér miklu meiri þekkingu en þeir byggju sjálfir yfir, meðal annars fyrir tilstilli venju og verðlagningar. Þeir Menger og Hayek hefðu því verið íhaldssamir frjálshyggjumenn, sagði Hannes: íhaldssamir í virðingu sinni fyrir hefðum og venjum, frjálslyndir með stuðningi sínum við frjálst hagkerfi, óhefta samkeppni og eðlilega verðmyndun á markaði.

Ráðstefnan fór fram í húsakynnum austurríska seðlabankans, en Austurríska hagfræðisetrið undir forystu dr. Barböru Kolm skipulagði hana. Meðal annarra fyrirlesara voru prófessor Erich Weede frá Þýskalandi, prófessor Robert Murphy og dr. Veronique de Rugy frá Bandaríkjunum og Anders Ydstedt frá Svíþjóð. Í erindi sínu velti Weede fyrir sér, hvernig þróunin yrði á næstunni, eftir að Kína væri orðið öflugasta hagkerfi í heimi. Hætta gæti myndast á ófriði, eins og eftir að Þýskaland náði eftir 1870 yfirburðum á meginlandi Evrópu. Þessa hættu mætti minnka með varnarviðbúnaði vestrænna þjóða annars vegar, friði í krafti ótta, og frjálsum viðskiptum hins vegar, friði í krafti gagnkvæms hags. Bandaríkjamennirnir Tom Woods rithöfundur og Richard Stephenson athafnamaður voru á ráðstefnunni sæmdir Hayek-verðlaununum fyrir framtak sitt og frelsisbaráttu. Þátttaka Hannesar í ráðstefnunni var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Blágrænan kapítalisma“.

Glærur Hannesar í Vínarborg 13. nóvember 2019

Comments Off

Chydenius norrænn frumherji frjálshyggju

Sænsk-finnski presturinn Anders Chydenius setti fram svipaðar hugmyndir og Adam Smith í riti, sem kom út ellefu árum áður en Smith gaf út Auðlegð þjóðanna, segir dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, rannsóknastjóri RNH, í ritgerð um Chydenius, en hún var seinni hlutinn í verki hans um frumherja norrænnar frjálshyggju, og var fyrri hlutinn um Snorra Sturluson. Birtist verkið í sænska tímaritinu Svensk Tidskrift 8. nóvember 2019. Chydenius fæddist árið 1729 og var prestur í Finnlandi, en kjörinn á stéttaþingið sænska 1765–1766. Þar beitti hann sér fyrir því, að einokun nokkurra borga á verslun í Norður-Finnlandi væri afnumin og að ritskoðun í sænska konungdæminu, sem þá náði líka til Finnlands, væri felld niður. Var hvort tveggja framkvæmt. Einnig gaf hann út nokkra ritlinga til stuðnings viðskiptafrelsi, þar á meðan Þjóðarhag (Den nationaalle Winsten), þar sem hann kvað atvinnulífið leita eðlilegs jafnvægis, ef hver og einn fengi óáreittur að keppa að sínum markmiðum. Eiginhagsmunagæsla gæti þannig farið saman við þjóðarhag. Chydenius var hins vegar andvígur hvers konar sérréttindum og fríðindum einstakra stétta eða hópa. Þegar hann sat aftur á stéttaþinginu 1778 barðist hann fyrir auknum réttindum vinnufólks. Hann stakk einnig upp á því, að Lapplandi yrði breytt í fríverslunarsvæði til að laða þangað að fólk. Chydenius lést árið 1803.

Í ritgerðinni skrifar Hannes líka um andlega arftaka Chydeniusar, en traust og blómleg frjálshyggjuhefð er í Svíþjóð. Stjórnmálaskörungurinn Johan August Gripenstedt (1813–1874) beitti sér til dæmis fyrir víðtækum umbótum í frjálsræðisátt árin 1866–1876. Sænsku hagfræðingarnir Gustav Cassel (1866–1845) og Eli Heckscher (1879–1952) var heimskunnir fræðimenn og ákveðnir stuðningsmenn viðskiptafrelsis. Var Heckscher einn af stofnendum Mont Pelerin samtakanna 1947. Á meðan jafnaðarmenn voru hvað öflugastir í Svíþjóð, var hagfræðingurinn Sven Rydenfelt (1911–2005) rödd hrópandans í eyðimörkinni. Setur Hannes fram þá skoðun, að velgengni Norðurlanda sé ekki að þakka jafnaðarstefnu eða endurdreifingu fjármuna, heldur hvíli hún á þremur meginstoðum, réttarríki, opnu hagkerfi og samheldni í krafti samleitni.

Comments Off

Hannes: Ætti Úkraína að ganga í EES?

Með auknum frjálsum alþjóðaviðskiptum hefur orðið hagkvæmara en áður að reka smærri stjórnmálaeiningar, því að þær njóta eftir sem áður góðs af alþjóðlegri verkaskiptingu, sagði dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, rannsóknastjóri RNH, á Frelsisvettvangi ECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, í Kænugarði í Úkraínu 7.–10. nóvember 2019. Það hljómaði eins og þversögn, en væri deginum ljósara, að samrunaþróun í efnahagsmálum auðveldaði sundrun ríkja. Sérstakar þjóðir vildu líka stofna eigin ríki: Noregur hefði skilið við Svíþjóð, Ísland við Danmörku, Slóvakía við Tékkland og Úkraína við Rússland, af því að Norðmenn eru ekki Svíar, Íslendingar ekki Danir, Slóvakar ekki Tékkar og Úkraínumenn ekki Rússar. Þess vegna hefði sjálfstæð Úkraína í senn verið hagkvæm og eðlileg. Vandinn við smærri stjórnmálaeiningar væri hins vegar í öryggismálum. Hvernig gæti Úkraína tryggt öryggi sitt gagnvart voldugum og ásælnum granna í norðri? Það svar lægi beinast við, að Úkraína héldi uppi öflugum herafla og torveldaði þannig árásir og ásælni.

En líka væri til önnur leið, sagði Hannes: Hún væri að breyta Rússlandi innan frá með því að veita því gott fordæmi utan frá, svipað og Hong Kong hefði gert gagnvart Kína. Úkraína þyrfti að verða blómlegt ríki, og ráðin til þess væru gamalkunn: að efla atvinnulífið, selja ríkisfyrirtæki, lækka skatta, greiða upp ríkisskuldir, dreifa valdinu, veita skapandi einstaklingum svigrúm og opna hagkerfið. Þetta hefði verið gert á Íslandi árin 1991–2004, og þess vegna hefði hagkerfið verið nógu sterkt til að standast bankahrunið 2008 og rétta tiltölulega fljótt við. Menn hefðu áhyggjur af stjórnmálaspillingu í Úkraínu og eflaust ekki að ástæðulausu, bætti Hannes við. En spillingu mætti minnka með því að flytja ákvarðanir frá skriffinnum og stjórnmálamönnum til einkaaðila, sem rækju fyrirtæki sín á eigin ábyrgð. Ef Úkraínumenn mætu það svo, að ekki væri tímabært að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu og Evrópusambandinu, þá gætu þeir hugsanlega látið sér nægja að sinni að ganga í EES, Evrópska efnahagssvæðið, eins og Ísland hefði gert. Þótt Ísland og Úkraína væru ólík um margt, væru þau bæði lönd á útjaðri Evrópu.

Anna Fotyga, Evrópuþingmaður frá Póllandi og fyrrverandi utanríkisráðherra lands síns, setti ráðstefnuna í Kænugarði og kvaðst vera mjög áhugasöm um nánara samstarf Úkraínu og annarra Evrópulanda. Mústafa Dzhemílev, leiðtogi Krím-tatara, veitti viðtöku frelsisverðlaunum ECR, en á meðal annarra ræðumanna á ráðstefnunni voru Oleksíj Gontsjarenko, þingmaður á Úkraínuþingi, og James Wharton, fyrrverandi ráðherra í bresku ríkisstjórninni og kosningastjóri Borisar Johnsons í leiðtogakjöri Íhaldsflokksins. Þátttaka Hannesar í ráðstefnu ECR var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „blágrænan kapítalisma“.

Comments Off