Æviágrip Ólafs Björnssonar prófessors

Hannes H. Gissurarson ræðir við Ólaf Björnsson um frjálshyggju í Ríkisútvarpinu 12. nóvember 1978.

Út er komið í tímaritinu Andvara 2016 æviágrip Ólafs Björnssonar prófessors eftir Hannes H. Gissurarson prófessor, rannsóknastjóra RNH. Ágripið er alllangt, 63 blaðsíður. Hannes segir frá ættum Ólafs og æsku og námi hans í Menntaskólanum á Akureyri og Kaupmannahafnarháskóla, en Ólafur var annálaður námsgarpur. Hann lýsir áhuga Ólafs á róttækum stjórnmálahugmyndum á háskólaárunum og starfi hans í Kyndli, félagi róttækra stúdenta í Kaupmannahöfn. Við lestur rita þeirra Ludwigs von Mises og Friedrichs Hayeks gerðist Ólafur þó um það leyti fráhverfur sósíalisma. Sannfærðist hann um, að hagfelldasta skipulag atvinnumála hvíldi á dreifingu valdsins og frjálsum alþjóðaviðskiptum. Við áætlunarbúskap væri þekking og kunnátta einstaklinganna úti í atvinnulífinu ekki fullnýtt. Þegar Ólafur sneri að loknu hagfræðiprófi heim 1938, gerðist hann því einn beinskeyttasti gagnrýnandi haftabúskaparins, sem hér var rekinn af mestu afli 1930–1960. Einnig þýddi hann 1945 útdrátt úr Leiðinni til ánauðar eftir Hayek, og olli það hörðum blaðadeilum. Ólafur kenndi hagfræði í Viðskiptaháskólanum, síðar viðskiptadeild Háskólans, frá útmánuðum 1940 og allt þar til hann lét af starfi sjötugur 1982. Gaf hann út mörg merk fræðirit, þar á meðal stórvirkið Þjóðarbúskap Íslendinga. Hann sat jafnframt á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1956–1971. Árið 1978 kom út eftir hann stjórnmálaritið Frjálshyggja og alræðishyggja, sem hafði mikil áhrif á margt ungt fólk. Ólafur lést 1999 og lét eftir sig eiginkonu og þrjá syni.

Comments Off

Þjónusta, þrælkun, flótti

Aatami Kuortti

Hinn 25. desember 2016 var réttur aldarfjórðungur liðinn frá því, að Ráðstjórnarríkin geispuðu golunni. Þann dag vék Míkhaíl Gorbatsjov úr stöðu sinni, og daginn eftir var hinn rauði fáni með hamar og sigð í horni dreginn í síðasta sinn niður í Kremlkastala. Af því tilefni endurútgaf Almenna bókafélagið nú merka heimild um Ráðstjórnarríkin sálugu, bókina Þjónusta, þrælkun, flótti eftir Aatami Kuortti. Hún kom fyrst út á vegum Kristilegs bókmenntafélags haustið 1938 í þýðingu séra Gunnars Jóhannessonar. Höfundur var prestur, finnskumælandi Ingríumaður, en Ingría eða Ingermanland er svæðið við Kirjálabotn milli Finnlands og Eistlands. Þjónaði séra Aatami þremur lúterskum söfnuðum í Ingríu 1927-1930. Hann var handtekinn fyrir að neita að veita leynilögreglu ráðstjórnarinnar upplýsingar um sóknarbörn sín og sendur í tíu ára þrælkunarvinnu í Kirjálalandi, Karelíu.

Eftir nokkurra mánaða vist í vinnubúðum tókst Kuortti að flýja, og gekk hann dag og nótt í átt til Finnlands, var tekinn höndum einu sinnim en slapp úr klóm leynilögreglunnar, og eftir tólf sólarhringa ferð um skóga og vötn Kirjálalands komst hann til Finnlands. Þar setti hann saman lýsingu á lífinu undir ráðstjórn, fangavist sinni og flótta í einföldu og látlausu máli og því áhrifamiklu. Kom bók hans út á finnsku 1934, sænsku 1935, dönsku 1937 og hollensku 1940. Hún var fyrsta bókin á íslensku eftir fanga í þrælkunarbúðum ráðstjórnarinnar, Gúlaginu. Svo vill til, að haustið 1938 komu út í Reykjavík tvær bækur um Ráðstjórnarríkin, bók Kuorttis og Gerska æfintýrið eftir Halldór Kiljan Laxness. Höfundarnir voru nálægt því að vera samtímamenn. Kuortti fæddist 1903, ári á eftir Laxness, og lést 1997, ári á undan skáldinu. Er fróðlegt að bera bækurnar tvær og efnistök höfunda saman í ljósi reynslunnar.

Bók Kuorttis er hin áttunda í röð endurútgefinna verka um alræðisstefnuna, en sú ritröð er þáttur í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Samtaka íhaldsmanna og umbótasinna í Evrópu, um „Evrópu fórnarlambanna“. Áður hafa komið út Greinar um kommúnisma eftir Bertrand Russell, Konur í þrælakistum Stalíns eftir Elinor Lipper og Aino Kuusinen, Úr álögum eftir Jan Valtin (Richard Krebs), Leyniræðan um Stalín eftir Níkíta Khrústsjov (ásamt Erfðaskrá Leníns), El campesino — Bóndinn eftir Valentín González og Julián Gorkin, Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir Ants Oras og Eistland. Smáþjóð undir oki erlends valds eftir Andres Küng. Dr. Hannes H. Gissurarson prófessor skrifar formála og skýringar aftanmáls í allar bækurnar.

Comments Off

Aldarfjórðungur frá viðurkenningu Slóveníu

Zver flytur erindi sitt 2013. Fundarstjóri er Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra. Ljósm.: Ólafur Engilbertsson.

Ísland varð 19. desember 1991 fyrsta vestræna ríkið til að viðurkenna Slóveníu, sem lýst hafði yfir sjálfstæði sínu og sagt sig úr Júgóslavíu 25. júní það ár. Áður höfðu Úkraína og Litáen viðurkennt hið nýja ríki. Af því tilefni birti rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, grein í Morgunblaðinu, þar sem hann ræddi um smáríki og þjóðríki. Tók hann undir skilgreiningu Ernests Renans á þjóð, að hún væri heild, sem vildi vera saman þjóð, og falla þá Íslendingar og Slóvenar hvorir tveggja undir skilgreininguna. Benti hann einnig á, að samrunaþróun á mörkuðum auðveldaði stofnun smáríkja, því að þau gætu nýtt sér kosti alþjóðlegrar verkaskiptingar og viðskipta. Því stærri sem einingarnar væru í viðskiptum, því smærri gætu þær orðið í stjórnmálum. Slóvenski sagnfræðingurinn Dr. Andreja Zver hélt fyrirlestur á Íslandi 16. september 2013 um reynslu Slóvena af alræðisstefnunni, en um skeið stjórnuðu landinu á víxl fasistar, nasistar og kommúnistar. Eru enn að finnast fjöldagrafir í landinu frá þeim tíma. Zver er gift einum kunnasta stjórnmálamanni Slóveníu, Milan Zver, fyrrverandi menntamálaráðherra, sem situr á Evrópuþinginu.

Comments Off

Gjaldeyriseftirlitið: Vald án eftirlits?

Út er komið nýtt þjóðmálarit Almenna bókafélagsins, Gjaldeyriseftirlitið: Vald án eftirlits? eftir Björn Jón Bragason, sagnfræðing og lögfræðing. Þar er sagt frá Gjaldeyriseftirliti Seðlabankans, sem sett var upp til að fylgjast með því, að gjaldeyrishöftin eftir bankahrunið væru ekki brotin. Samkvæmt frásögn Björns Jóns var ráðið í eftirlitið ungt og óreynt fólk, sem hafði óskýra hugmynd um verkefni sín og valdheimildir. Það virtist halda, að það ætti helst að góma kaupsýslumenn og þyrfti við það ekki að fylgja settum lögum og reglum. Björn Jón lýsir þremur málum, þar sem Gjaldeyriseftirlitið beitti fólk hörðu, en reyndist síðan hafa gengið allt of langt: Aserta-málið, þar sem forstöðumaður Gjaldeyriseftirlitsins, Ingibjörg Guðbjartsdóttir, kærði gamla vinnufélaga fyrir að fylgja ráðgjöf hennar sjálfrar, mál Heiðars Guðjónssonar fjárfestis, sem fékk að kenna á óvild Más Guðmundssonar seðlabankastjóra og undirmanna hans, þegar Heiðar hugðist ásamt öðrum bjóða í Sjóvá, og Samherjamálið, þar sem gerð var að tilefnislausu húsleit hjá einu stærsta og myndarlegasta útgerðarfyrirtæki landsins, jafnframt því sem dómari veitti af vangá heimild til rannsókna á óskyldum erlendum fyrirtækjum.

Björn Jón spyr eins og Rómverjar að fornu: Hver á að hafa eftirlit með eftirlitsmönnunum? Almenna bókafélagið hefur gefið út fjögur þjóðmálarit, þar sem reyndir og ritfærir blaðamenn og sagnfræðingar hafa skrifað um ýmis eftirmál bankahrunsins: Árið 2012 kom út Icesave-samningarnir: Afleikur aldarinnar? eftir Sigurð Má Jónsson blaðamann; árið 2013 Búsáhaldabyltingin: Sjálfsprottin eða skipulögð? eftir Stefán Gunnar Sveinsson, sagnfræðing og blaðamann; árið 2015 Andersen-skjölin: Rannsóknir eða ofsóknir? eftir Eggert Skúlason, fyrrverandi ritstjóra DV; og nú bók Björns Jóns. RNH er einn af samstarfsaðilum AB.

Comments Off

Lundúnir: Rætt um fyrirkomulag fiskveiða

Rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, var framsögumaður á lokuðum hádegisverðarfundi Adam Smith stofnunarinnar í Lundúnum mánudaginn 28. nóvember 2016 um heppilegasta fyrirkomulag fiskveiða, en nú þurfa Bretar að marka eigin fiskveiðistefnu eftir útgönguna úr ESB. Á meðal annarra gesta voru breskir þingmenn og fyrrverandi ráðherrar og tveir Íslendingar, Þórður Ægir Óskarsson sendiherra og Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, stjórnarformaður Ísfélagsins í Vestmannaeyjum. Hannes fór yfir nokkur helstu atriðin í bók sinni, The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem kom út hjá Háskólaútgáfunni í árslok 2015 og er auk þess aðgengileg á Netinu. Einnig rakti hann nýlegar umræður á Íslandi um uppboðsleiðina, en RNH hélt ásamt hagfræðideild Háskóla Íslands og öðrum aðilum ráðstefnu um hana 29. ágúst, þar sem heimskunnir sérfræðingar töluðu, prófessorarnir Gary Libecap og Ragnar Árnason.

Að kvöldi mánudagsins sat Hannes ásamt nokkrum öðrum gestum kvöldverð í lávarðadeild breska þingsins, sem dr. Matt Ridley, fjórði vísigreifi Ridley og höfundur metsölubóka um erfðavísindi og þróun, bauð til. Almenna bókafélagið gaf út bók Ridleys, Heimur batnandi fer, árið 2014. Ridley hefur oft komið til Íslands, ýmist til að veiða lax eða halda fyrirlestra. Á þriðjudaginn hitti Hannes að máli sjávarútvegsráðherra Breta, George Eustice, og nokkra embættismenn og ræddi við þá um reynslu Íslendinga af kvótakerfinu. Kvað hann helstu vandræðin af kerfinu hvorki vera hagfræðileg né tæknileg, heldur þau, að menn utan greinarinnar sæju ofsjónum yfir þeim arði, sem þar myndaðist. Til þess að ná hámarkshagkvæmni yrðu kvótarnir að vera að fullu seljanlegir og varanlegir. Þá tækju handhafar kvótanna að stefna að hámarksarðsemi þeirra til langs tíma.

Á Snjáldru (Facebook) sagði Hannes um fund sinn með ráðherranum: „Við eyddum ekki öllum tímanum í alvöru lífsins, heldur tókum líka upp léttara hjal. Ég sagði honum, að fyrsta enska fiskiskipið hefði birst fyrir Íslandsströndum 1412, að Danakóngar hefðu þrisvar reynt að selja Hinrik VIII. Ísland, árangurslaust, að Sir Joseph Banks hefði bjargað þjóðinni frá hungursneyð á öndverðri 19. öld og að Winston Churchill hefði fyrst gefið V-merkið, sigurmerkið, opinberlega á Íslandi (á siglingu út úr Reykjavíkurhöfn sumarið 1941). Ég dró ekki dul á, að ég teldi Ísland, þetta litla ríki, eiga samleið með Bretum, þótt stórt væri og voldugt, enda væru bæði löndin niður komin á Norður-Atlantshafi.“

Comments Off

Kænugarður: Fórnarlamba Stalíns minnst

Þátttakendur í ársfundinum. Göran Lindblad, forseti vettvangsins, fyrir miðju. Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, 4. frá hægri í fremri röð. Sitt hvorum megin við Lindblad standa tveir Íslandsfarar, Pawel Ukielski frá Póllandi og Sandra Vokk frá Eistlandi.

Á ársfundi Evrópuvettvangs minningar og samvisku, sem haldinn var í ráðherrasal þinghússins í Kænugarði 24.–26. nóvember 2016, var rætt um, hvernig tákn og merki um kúgun kommúnista eru nú óðum fjarlægð í Úkraínu og annars staðar. Fundarmenn skoðuðu Majdan-torg, Soffíukirkjuna og ýmis söfn, og forystumenn vettvangsins hittu að máli Hanna Hopko, formann utanríkisnefndar þingsins, Mykola Knyazhaytsky, formann menningarmálanefndar þingsins, og Yevhen Nyschuk menntamálaráðherra. Nokkur ný samtök gengu í vettvanginn, Stofnun um lýðræði, fjölmiðla og menningu í Albaníu, Samtökin Minningarþræðir í Tékklandi, Minningarsamtök Slóvakíu, pólska Witold Pilecki-rannsóknarsetrið um alræði og Samtök um varðveislu minningarinnar um Majdan-uppreisnina í Úkraínu. Fulltrúar vettvangsins tóku þátt í minningarathöfn 26. nóvember um hungursneyðina í Úkraínu 1932–1933 í boði forseta Úkraínu, Petro Poroshenko, og kveiktu á kertum af því tilefni.

Á fundinum gerði rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, grein fyrir samstarfsverkefni RNH og ACRE, Samtaka íhaldsmanna og umbótasinna í Evrópu, „Evrópu fórnarlambanna,“ sérstaklega endurútgáfu bóka um alræðisstefnuna. Árið 2015 voru gefin út þrjú slík rit, Greinar um kommúnisma eftir Bertrand Russell, Konur í þrælakistum Stalíns eftir Elinor Lipper og Aino Kuusinen og Úr álögum eftir Jan Valtin (Richard Krebs). Árið 2016 voru fimm rit gefin út í sömu röð, Leyniræðan um Stalín eftir Níkíta Khrústjov, Bóndinn – El campesino eftir Valentín González og Julián Gorkin, Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir Ants Oras, Eistland: Smáþjóð undir oki erlends valds eftir Andres Küng og Þjónusta, þrælkun, flótti eftir Aatami Kuortti.

Comments Off