Browder: Stjórn Pútíns grimm og gerspillt

Browder í Hátíðasalnum.

Húsfyllir var í Hátíðasal Háskóla Íslands föstudaginn 20. nóvember 2015, þegar bandaríski fjárfestirinn Bill Browder sagði sögu sína á fundi RNH, Almenna bókafélagsins og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands. Hann er sonarsonur Earls Browders, formanns kommúnistaflokks Bandaríkjanna, og fjölskylda hans var utangarðsfólk, en vel menntað og átti vel til hnífs og skeiðar, þótt áhugalaust væri um fésýslu. Bill Browder ákvað í uppreisn gegn fjölskyldunni að nema fjármálafræði í Stanford-háskóla og gerast fjárfestir í Rússlandi eftir fall kommúnismans. Þar gekk honum mjög vel, og var vogunarsjóður hans, Hermitage Capital, um skeið mjög stór. Viðskipti voru þar sviptingasöm, og tapaði Browder einn daginn 900 milljónir dala, en honum tókst að rétta aftur úr kútnum. Varð Browder vitni að misjöfnu athæfi olígarkanna rússnesku og valdamanna í bandalagi við þá. Taldi hann Pútín í upphafi umbótamann. Þetta átti eftir að breytast. Pútín snerist gegn Browder, honum var neitað um landvistarleyfi í Rússlandi, og samstarfsmaður hans og vinur, lögfræðingurinn Sergej Magnítskíj, var fangelsaður, pyndaður og myrtur. Þetta hafði mikil áhrif á Browder, sem hét því að unna sér ekki hvíldar, fyrr en réttlætið næði fram að ganga.

Áheyrendur á fyrirlestri Browders.

Browder fékk eftir talsvert þóf Bandaríkjaþing til að samþykkja lög, sem meina banamönnum Magnítskíjs að koma til Bandaríkjanna eða eiga þar einhver viðskipti. Vinnur Browder að því að fá svipuð lög samþykkt annars staðar. Evrópuþingið hefur þegar ályktað tvisvar um Magnítskíj-málið, en framkvæmdastjórn Evrópusambandsins þráast við að hrinda þeim ályktunum í framkvæmd og setja morðingja Magnítskíjs á bannlista. Browder hefur einnig komið fram í hinum kunna fréttaskýringarþætti Sextíu mínútum (60 minutes) og í ótal fréttaviðtölum og skýrt mál sitt í mörgum myndböndum á Youtube og í bókinni Eftirlýstur (Red Notice), sem Almenna bókafélagið gefur út nú í haust, en sú bók er að koma út á 22 tungumálum. Varar Browder við stjórn Pútíns, sem er að sögn hans grimm og gerspillt. Koma Browders til landsins vakti mikla athygli. Kastljós tók við hann viðtal, og einnig var rætt við hann í Morgunblaðinu og Viðskiptablaðinu.

Margir þeir, sem hlýddu á fyrirlestur Browders í Háskólanum, blogguðu um það. Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, sem stjórnaði fundinum, sagði: „Þetta er ótrúleg en sönn saga sem minnir á frásagnir fyrri tíma um stöðu einstaklingsins andspænis alræðisstjórn í Rússlandi. Stjórn sem fer sínu fram án minnsta tillits til mannréttinda. Stjórnarhættir Vladimírs Pútíns taka á sig æ ógeðfelldari mynd og vald sitt reisir hann í vaxandi mæli á því að skapa ótta á meðal rússnesks almennings sem talin er trú um að öryggi þjóðarinnar sé í hættu fái forsetinn ekki öllu sínu framgengt heima og erlendis.“

Ragnhildur Kolka bókmenntafræðingur skrifaði: „Ótrúleg saga manns sem tekst á við mafíuveldi Pútíns Rússlandsforseta. Hefði getað setið þarna í allan dag og hlustað á frásögn hans; hvernig hann varð ofurfjárfestir í Rússlandi eftir fall Sovétríkjanna, græddi milljarða og tapaði þeim í hendur mafíunnar oligarkanna. Saga þessa manns er í senn spennusaga, en líka átakanleg saga ungs manns sem tók þátt í þessari baráttu en varð fórnarlamb glæpsamlegrar ófyrirleitni Pútínveldisins.“ Þátttaka RNH í fundinum var liður í samstarfsverkefni við AECR, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Comments Off

Hannes: Gleymum aldrei fórnarlömbunum

Prófessor Hannes H. Gissurarson flutti erindi á ársfundi Evrópuvettvangs um minningu og samvisku, Platform of European Memory and Conscience, sem haldinn var í ráðhúsinu í Wroclaw í Póllandi 17.–18. nóvember 2015. Lýsti hann samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“. Einn mikilvægasti liðurinn í því verkefni er að gera bækur, sem komu á sínum tíma út á íslensku gegn alræðisstefnum kommúnista og nasista, aðgengilegar á Netinu, jafnframt því sem prentuð eru nokkur eintök á pappír fyrir söfn og áhugamenn. Árið 2015 komu út þrjú rit í þessari röð, Greinar um kommúnisma eftir breska heimspekinginn Bertrand Russell 17. júní, á sextíu ára afmæli Almenna bókafélagsins, Konur í þrælakistum Stalíns eftir Elinor Lipper og Aino Kuusinen 19. júní, á hundrað ára afmæli kosningarréttar kvenna, og Úr álögum (Out of the Night) eftir Jan Valtin, öðru nafni Richard Krebs 23. ágúst, á evrópskum minningardegi fórnarlamba alræðisstefnunnar.

Árið 2016 er ætlunin að endurútgefa sex bækur á þennan hátt, Leyniræðuna um Stalín eftir Níkíta Khrústsjov 15. febrúar, sextíu árum eftir flutninginn, El Campesino — Líf og dauða í Ráðstjórnarríkjunum eftir Valentín Gonzalez og Julián Gorkin 17. júlí, áttatíu árum eftir að spænska borgarastríðið hófst, Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir Ants Oras og Eistland — Smáþjóð undir oki erlends valds eftir Andres Küng 26. ágúst, tuttugu og fimm árum eftir að Ísland tók aftur upp stjórnmálasamband við Eystrasaltslöndin, fyrst ríkja, Þjóðbyltinguna í Ungverjalandi eftir Erik Rostböll 23. október, sextíu árum eftir að byltingin hófst, og Svartbók kommúnismans undir ritstjórn Stéphane Courtois 25. desember, aldarfjórðungi eftir fall Ráðstjórnarríkjanna. Ritin verða aðgengileg til lesturs og niðurhalds á Google Books og einnig til niðurhals á Kindle.

Frá ráðstefnunni í ráðhúsinu í Wroclaw. Hannes H. Gissurarson situr í annarri röð fyrir miðju.

Ráðstefnugestir sóttu sérstakan hátíðafund í tilefni þess, að hálf öld er liðin frá því, að pólskir biskupar gáfu út yfirlýsingu um, að Pólverjar og Þjóðverjar þyrftu að sættast eftir hildarleiki fyrri tíðar. „Við fyrirgefum og biðjum um, að okkur verði fyrirgefið.“ Voru þar einnig þrír kardínálar, menntamálaráðherra Póllands og borgarstjórinn í Wroclaw. Á ráðstefnunni var talsvert rætt um þá ógn, sem steðjar að Úkraínu, og um tilraunir gamalla kommúnista í ýmsum löndum Mið- og Austur-Evrópu til að takmarka aðgang að skjölum um ódæði í valdatíð þeirra. Í lok ráðstefnunnar kvaddi Hannes sér hljóðs og færði fyrir hönd stuðningsmanna Evrópuvettvangsins dr. Neelu Winkelmann, framkvæmdastjóra vettvangsins, þakkir fyrir vel unnin störf. Fagnaði hann því, að hún heldur áfram í starfi sínu. Göran Lindblad, fyrrverandi þingmaður Hófsama sameiningarflokksins sænska, var endurkjörinn forseti Evrópuvettvangsins. Bandaríski rithöfundurinn Anne Applebaum, Janez Jansa, fyrrverandi forsætisráðherra Slóvakíu, og tékkneski leikarinn Ondrej Vetchý bættust á ráðstefnunni í fulltrúaráð vettvangsins (Board of Trustees). Þrjár stofnanir og samtök gerðust að þessu sinni aðilar að vettvangnum, og eru þeir nú 51 talsins.

Comments Off

Höfuðóvinur Pútíns flytur erindi

Bandaríski fjárfestirinn og rithöfundurinn Bill Browder flytur erindi í hátíðasal Háskóla Íslands föstudaginn 20. nóvember 2015 kl. 12–13 á vegum RNH, Almenna bókafélagsins og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands. Erindið nefnist „Rússland Pútíns“. Bók Browders, Eftirlýstur (Red Notice), er nýkomin út á íslensku, en þar lýsir hann ævintýralegu lífi sínu og uppgjörinu við Pútín. Browder er sonarsonur Earls Browders, sem var formaður kommúnistaflokks Bandaríkjanna, en snerist gegn vinstri stefnu fjölskyldunnar og nam fjármálafræði í Stanford-háskóla. Hann var einn auðsælasti fjárfestirinn í Rússlandi eftir hrun kommúnismans, og gekk þá á ýmsu. Hann studdi um skeið baráttu Pútíns gegn ólígörkunum, en síðan snerist Pútín gegn honum. Þegar rússneskur lögfræðingur Browders var handtekinn, pyndaður og myrtur, hét hann því að minnast hans með því að setja alla þá, sem að ódæðinu stóðu, á svartan lista í Bandaríkjunum og um heim allan. Browder tókst að fá Bandaríkjaþing til að setja sérstök lög um þetta, sem kennd eru við lögfræðinginn, Sergej Magnítskíj-lögin. Pútín telur Browder vera höfuðandstæðing sinn. Bók Browders kemur út á 22 tungumálum, en hún dregur nafn sitt af því, að rússnesk stjórnvöld fengu Alþjóðalögregluna Interpol til þess um skeið að lýsa eftir Browder vegna skattamála í Rússlandi, en Interpol hvarf strax frá því, er í ljós kom, að ákærurnar á hendur Browders voru tilhæfulausar. Fundurinn með Browder er þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, er fundarstjóri, og ef tími leyfir, er gert ráð fyrir fyrirspurnum og umræðum. Hér er ræða, sem Browder flutti nýlega í Aspen Institute um það, hvernig hann varð sá maður, sem Pútín telur höfuðandstæðing sinn:

Comments Off

Safn til sögu kommúnismans

Prófessor Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna RNH, sækir ársþing Evrópuvettvangs minningar og samvisku, European Platform of Memory and Conscience, sem haldið er í Wroclaw í Póllandi 17.–19. nóvember 2015. Þar skýrir hann frá samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“ og segir frá nýrri ritröð, sem RNH stendur að ásamt Almenna bókafélaginu, Safni til sögu kommúnismans. Þar eru rit, sem komu út í baráttu íslenskra lýðræðissinna við alræðissinna, endurútgefin á Netinu (jafnt í Google Books og Kindle) og í takmörkuðu upplagi á pappír. Tilgangurinn með endurútgáfunni er að gera þessi rit aðgengileg ungu fólki, sem þarf að skrifa ritgerðir eða leysa verkefni í skóla, og áhugafólki um sögu tuttugustu aldar, ekki síst Kalda stríðsins, þegar lýðræði og alræði laust saman.

Fyrsta ritið í röðinni kom út 17. júní 2015, þegar sextíu ár voru frá stofnun Almenna bókafélagsins. Það var Greinar um kommúnisma eftir hinn kunna breska heimspeking Bertrand Russell, sem hlaut einnig Nóbelsverðlaunin í bókmenntum, en þessar greinar birtust í íslenskum blöðum árin 1937–1956. Ritið er með formála og skýringum eftir Hannes H. Gissurarson.

Annað ritið í röðinni kom út 19. júní 2015, þegar hundrað ár voru liðin frá því, að konur fengu kosningarrétt á Íslandi. Það var Konur í þrælakistum Stalíns og hefur að geyma minningar tveggja kvenna, sem voru saklausar sendar í vinnubúðir Stalíns, en útdráttur úr minningum þeirra birtust í íslenskum blöðum 1951, 1953 og 1975. Þær voru Elinor Lipper frá Sviss og Aino Kuusinen frá Finnlandi. Ritið er með formála og skýringum eftir Hannes H. Gissurarson.

Þriðja ritið í röðinni kom út 23. ágúst, sem Evrópuþingið hefur valið minningardaga fórnarlamba alræðisstefnunnar. Það er Úr álögum (Out of the Night) eftir Jan Valtin, öðru nafni Richard Krebs, sem hafði verið flugumaður Gestapo, en um leið gagnnjósnari Kominterns, Alþjóðasambands kommúnista. Þessi læsilega og reyfarakennda sjálfsævisaga varð metsölubók í Bandaríkjunum 1941. Þegar Menningar- og fræðslusamband alþýðu gaf fyrri hlutann út sumarið 1941, hófu íslenskir kommúnistar mikla herferð gegn bókinni svo að seinni hlutinn kom ekki út fyrr en 1944 og þá á vegum „Nokkurra félaga“. Þeir Halldór K. Laxness og Benjamín H. J. Eiríksson háðu snarpa ritdeilu um bókina og boðskap hennar. Ritið er með formála og skýringum eftir Hannes H. Gissurarson.

Hannes H. Gissurarson er ritstjóri ritraðarinnar. Sigurgeir Orri Sigurgeirsson hannar kápur, Kristinn Ingi Jónsson les prófarkir, Friðbjörn Orri Ketilsson annast skönnun bóka, og Hafsteinn Árnason sér um netútgáfu bókanna. Sérstök áhersla verður líka lögð á að heiðra minningu þeirra Íslendinga, sem beittu sér í baráttunni við alræðisstefnurnar, til dæmis þeirra Lárusar Jóhannessonar, Geirs Hallgrímssonar og Eyjólfs Konráðs Jónssonar.

Árið 2016 er fyrirhugað, að út komi: 1) Leyniræða Khrústsjovs um Stalín, 24. febrúar, sextíu árum eftir að hún var flutt, en hún var eitthvert mesta áfall, sem íslenskir kommúnistar höfðu orðið fyrir; 2) El campesino: Líf og dauði í Ráðstjórnarríkjunum eftir Valentín Gonzalez og Julián Gorkin, 17. júlí, þegar áttatíu ár eru frá upphafi spænska borgarastríðsins, en höfundur barðist þar og flúði til Rússlands; 3) Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir Ants Oras og Eistland. Smáþjóð undir oki erlends valds eftir Anders Küng, 26. ágúst, þegar tuttugu og fimm ár verða frá því, að Ísland viðurkenndi Eystrasaltsríkin, en Davíð Oddsson hafði þýtt bókina um Eistland 1973, þegar hann var laganemi; 4) Þjóðbyltingin í Ungverjalandi, í nóvemberbyrjun, þegar sextíu ár verða frá því, að kommúnistar drekktu uppreisn ungverskrar alþýðu í blóði, 5) Svartbók kommúnismans 25. desember, þegar tuttugu og fimm ár verða frá falli Ráðstjórnarríkjanna. Svartbókin kom út 2009 og er að verða uppseld. Í nokkrum tilvikum verða viðburðir, svo sem fyrirlestrar eða ráðstefnur, tengdir endurútgáfu bókanna.

Á meðal annarra bóka í ritröðinni verða greinar séra Jóhanns Hannessonar um byltinguna í Kína 1949, ræður íslenskra menntamanna (Tómasar Guðmundssonar, Gunnars Gunnarssonar, Guðmundar G. Hagalíns, Kristmanns Guðmundssonar og Sigurðar Einarssonar í Holti) gegn kommúnisma, greinar Max Eastmans um kommúnismann, Myrkur um miðjan dag eftir Arthur Koestler, Guðinn sem brást eftir Arthur Koestler, André Gide og fleiri, Trúin á ráðstjórnina eftir Arthur Koestler (en hún varð mjög umdeild í baráttunni fyrir bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík 1946), Nítján hundruð áttatíu og fjórir eftir George Orwell, Þjónusta. Þrælkun. Flótti eftir finnska prestinn Aatami Kuortti, Konur í einræðisklóm eftir Margarete Buber-Neumann, Ég kaus frelsið eftir Víktor Kravtsjenko og Hin nýja stétt eftir Milovan Djilas. Einhver þessara rita verða gefin út 7. nóvember 2017, þegar hundrað ár verða liðin frá bolsévíkabyltingunni í Rússlandi.

Glærur Hannesar í Wroclaw

Comments Off

Fjörugur fundur um valdatíð Davíðs

Hannes hefur orðið.

Þeir Hannes H. Gissurarson prófessor, Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra Vinstri-grænna, og Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, skiptust á skoðunum um valdatíð Davíðs Oddssonar á fundi Politica, félags stjórnmálafræðinema í Háskóla Íslands, fimmtudagskvöldið 12. nóvember. Troðfullt var í stórum fundarsal, og komust færri að en vildu. Hannes benti á, að Davíð hefði verið óvenju sigursæll stjórnmálamaður: Hann hefði aukið fylgi sitt sem borgarstjóri upp í rösk 60% árið 1990 og síðan verið lengst allra manna samtals og samfleytt forsætisráðherra. Tímamót hefðu orðið, þegar hann varð forsætisráðherra 1991. Sjóðasukki hefði verið hætt, stöðugleika komið á í peningamálum og ríkisfjármálum, lífeyrissjóðir efldir, réttindi fólks tryggð með stjórnsýslulögum og upplýsingalögum og landið verið opnað með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. Þegar Davíð hefði vikið sem forsætisráðherra 2004, hefði skuldasöfnun bankanna ekki verið hafin. Ísland árið 2004 hefði verið gott land.

Hannes kvað Davíð Oddsson hafa verið gagnrýndan fyrir stuðning Íslands við Íraksstríðið, en þar hefði verið um að ræða stuðningsyfirlýsingu við ákvörðun, sem aðrir hefðu tekið og Ísland ekki getað breytt neinu um. Hins vegar hefði Ísland getað stöðvað loftárásir Atlantshafsbandalagsins á Líbíu 2011, því að öll aðildarríki bandalagsins hefðu neitunarvald um slíkar aðgerðir, en það hefði vinstri stjórn þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar ekki gert. Hannes benti einnig á, að sala banka hefði hafist í tíð vinstri stjórnarinnar 1988–1991, þegar Íslandsbanki var stofnaður. Erindi Hannesar var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna.

Ögmundur talar.

Ögmundur Jónasson sagðist vera af sömu kynslóð í stjórnmálum og Davíð, enda væru aðeins nokkrir mánuðir á milli þeirra í aldri. Þegar þeir hefðu hafið afskipti af stjórnmálum um og eftir 1970, hefði verið gróska á vinstri vængnum, en ládeyða hægra megin. Þetta hefði snúist við, þegar Davíð og félagar hans í Eimreiðarhópnum hefðu komið til sögu. Þeir hefðu flutt inn nýjar hugmyndir, skírskotað til Reagans og Thatchers, vitnað í Hayek, Friedman og Buchanan, á meðan vinstri menn hefðu staðnað. Davíð og félagar hans hefðu rofið þá samstöðu um frumgildi eins og velferð og samkennd, sem hefði verið almenn á sjötta og sjöunda áratug tuttugustu aldar. Þeir hefðu stuðlað að ójafnari tekjudreifingu og tekið efnisleg gæði fram yfir andleg. Vilhjálmur Egilsson rifjaði upp, hvernig ástandið var, á meðan verðbólga geisaði á Íslandi fram undir lok níunda áratugarins og atvinnulífið var reyrt í viðjar. Ein ástæðan til þess, að nauðsynlegt hefði verið að selja ríkisbankana tvo upp úr aldamótum 2000 hefði einmitt verið, að hallað hefði á þá í samkeppni við hinn spræka ríkisbanka, sem myndaður hefði verið 1990. Enginn vafi væri á því, að rekstur margra fyrirtækja væri miklu betur kominn í höndum einkaaðila en embættismanna ríkisins. Vilhjálmur kvað hafa verið þægilegt að vinna með Davíð Oddssyni á þingi. Hann hefði verið afskiptalítill um störf þingmanna, en fljótur til ákvarðana og menn treyst orðum hans.

Eftir framsöguerindin voru umræður, og tóku ýmsir til máls. Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og ráðherra, kvaddi sér hljóðs og sagðist geta borið um það, að lítilmagninn hefði ætíð átt málsvara og stuðningsmann í Davíð Oddssyni. Guðni kvað þá Davíð hafa verið prýðilega samstarfsmenn í ríkisstjórn og þeir hefðu með tímanum orðið góðir vinir, en hann skildi ekki, hvers vegna Davíð hefði horfið frá stefnu Sjálfstæðisflokksins um tvíhliða viðræður við Evrópusambandið í stað aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu og frá hugmyndum sínum um dreifða eignaraðild bankanna að sölu þeirra til „kjölfestufjárfesta“. Hann teldi hins vegar, að Davíð hefði með forgöngu sinni í Seðlabankanum bjargað því, sem bjargað varð í bankahruninu. Hann hefði beitt sér fyrir þeirri lausn, sem varð ofan á og reyndist farsæl, að skilja á milli hins innlenda hluta bankakerfisins og hins erlenda. Af þessu tilefni lét Vilhjálmur Egilsson í ljós mikla undrun á því, að Davíð hefði verið flæmdur úr Seðlabankanum. Þótt hann hefði ekki alltaf verið sammála Davíð um vaxtastefnu bankans, hefði hann reynst vel sem seðlabankastjóri.

Fundurinn var tekinn upp, og hefur eitthvað á annað þúsund manns horft á hann á Youtube, en hann verður líka sýndur á sjónvarpsstöðinni ÍNN:

Glærur Hannesar 12. nóvember 2015

Comments Off

Valdatíð Davíðs

Þrír framsögumenn verða á fundi Politica, félags stjórnmálafræðinema í Háskóla Íslands, fimmtudagskvöldið 12. nóvember 2015 kl. 19.30 í stofu 101 í Odda, félagsvísindahúsi Háskóla Íslands, um „Valdatíð Davíðs“, en Davíð Oddsson var borgarstjóri 1982–1991 og forsætisráðherra 1991–2004. Þeir eru Hannes H. Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, sem ritstýrði bókinni Davíð Oddsson í myndum og máli 2008 og sat í bankaráði Seðlabankans 2001–2009, Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst, sem sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1991–2003, og Ögmundur Jónasson, sem hefur setið á þingi frá 1995 og var ráðherra Vinstri grænna 2009–2013. Hannes segir á bloggsíðu sinni á Pressunni: „Það er margt um valdatíð Davíðs að segja, þótt auðvitað komi hann ekki einn við sögu. En merkilegt er, að hann jók fylgi Sjálfstæðisflokkinn í þeim þrennum borgarstjórnarkosningum, 1982, 1986 og 1990, þegar hann var forystumaður hans í Reykjavíkurborg, óháð því, hvort Sjálfstæðisflokkurinn var í ríkisstjórn eða ekki. Og ekki er síður merkilegt, að hann hefur lengst allra Íslendinga verið forsætisráðherra samfleytt og samtals, frá vori 1991 til hausts 2004. Ég mun bregða ýmsum forvitnilegum tölum og myndum á skjá, þótt því miður sé mér skammtaður naumur tími, ekki nema 10 mínútur.“

Þátttaka Hannesar í fundinum er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Margrét Thatcher, forsætisráðherra Breta 1979–1990, sem Davíð Oddsson sést hér með 1991, var verndari AECR.

 

Comments Off