Vel heppnuð ráðstefna um fiskihagfræði

Fjórir heimsþekktir fiskihagfræðingar töluðu á alþjóðlegri ráðstefnu Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, RNH og annarra aðila til heiðurs Ragnari Árnasyni 14. júní 2019 um „Úthafsveiðar heims: Í áttina að sjálfbæru og arðbæru kerfi“. Þeir voru prófessorarnir Trond Bjorndal, Rögnvaldur Hannesson, Gordon Munro og James Wilen. Dr. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, setti ráðstefnuna og rifjaði upp, að prófessorsembætti í fiskihagfræði við Háskóla Íslands var stofnað 1989, en Ragnar, sem nú lætur af störfum fyrir aldurs sakir, var fyrsti og eini prófessorinn í greininni. Jón Atli lét í ljós þá von, að Háskólinn mætti áfram njóta starfskrafta Ragnars.

Bjorndal ræddi um bláuggatúnfisk í Norður-Atlantshafi og Miðjarðarhafi, en hann er verðmætasti fiskur í heimi. Hann er uppsjávarfiskur af makrílætt, sem fer víða um. Svo margir aðilar koma því að ákvörðunum um veiðar, að litlar takmarkanir hafa í reynd verið á aðgangi að honum, en það hefur valdið hættu á ofveiði. Afli minnkaði talsvert um skeið, en hefur verið að aukast aftur vegna skynsamlegrar fiskveiðistjórnunar og varlegra ákvarðana um leyfilegan hámarksafla.

Rögnvaldur talaði um, þegar síldarstofninn hvarf næstum því á Norður-Atlantshafi seint á sjöunda áratug. Mátti litlu muna, að stofninn lifði ekki af, en hann hefur smám saman verið að styrkjast síðan. Þetta sýnir, sagði Rögnvaldur, hversu þrautseig og þolgóð náttúran er, en leiða megi stærðfræðileg rök að því, að fremur ólíklegt hefði verið, að stofninn styrktist. Þetta hefði verið slembilukka.

Munro fór orðum um framseljanlega aflakvóta og aðrar aðferðir við fiskveiðistjórnun. Enginn vafi væri á því, að framseljanlegir aflakvótar hefðu reynst vel. En því fleiri sem handhafar slíkra kvóta væru, því erfiðara væri að gera hagkvæma samninga um notkun þeirra. Skilvirkt samstarf kvótahafa væri hins vegar nauðsynlegt. Leikjafræði mætti nota til að greina möguleika og takmarkanir slíks samstarfs, og þar þyrfti fiskihagfræðin að hasla sér völl.

Wilen velti fyrir sér handfæraveiðum um víða veröld. Þær væru stundaðar venjulega á litlum bátum, nálægt ströndum og næðu til margra stofna. Þótt framseljanlegir aflakvótar væru hagkvæmir í úthafsveiðum, þar sem stofnar væru fáir, gætu aðrar aðferðir hentað betur í handfæraveiðum, til dæmis staðbundin veiðiréttindi (einkaeignarréttur yfir afmörkuðum fiskimiðum) eða hópbundin (eignarréttur tiltekins hóps yfir fiskimiðum). Vafalaust myndu tekjur fiskimanna aukast verulega, ef slík réttindi væru skilgreind, en það væri þó ekki vandalaust, sérstaklega ekki í fátækum löndum með losaralegt stjórnarfar.

Í lokaorðunum á ráðstefnunni benti Ragnar á, að flestir fiskistofnar heims hefðu verið ofnýttir, þegar hann fór að gefa fiskihagfræði gaum um og eftir 1980. Þetta hefði sem betur fer breyst. Nú væri nýting fiskistofna víða hagkvæm. Að einhverju leyti væri það að þakka brautryðjendum í fiskihagfræði eins og fyrirlesurunum fjórum á þessari ráðstefnu, Bjorndal, Hannesson, Munro og Wilen. Að ráðstefnunni lokinni var móttaka í Háskólanum, þar sem dr. Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs, og Trond Bjorndal mæltu nokkur orð til Ragnars og létu skála fyrir honum. Þrátt fyrir blíðviðri og sumarleyfi var aðsókin að ráðstefnunni góð og umræður fjörugar, en prófessor Corbett Grainger var umsegjandi að fyrirlestrunum fjórum loknum. Dr. Birgir Þór Runólfsson hagfræðidósent stjórnaði ráðstefnunni.

Um kvöldið höfðu þau Guðlaugur Þór Þórðarson og kona hans, Ágústa Johnson, boð inni fyrir Ragnar Árnason, konu hans, Önnu Agnarsdóttur, fyrirlesara og nokkra fleiri gesti. Í skálaræðu sinni fyrir Ragnari lagði Guðlaugur Þór áherslu á, hversu mikilvægar fiskveiðar væru Íslendingum, enda hefði Halldór Laxness lagt einni söguhetju sinni í munn hin fleygu orð: „Lífið er saltfiskur.“ Þátttaka RNH í ráðstefnunni var liður í samstarfsverkefni við ACRE um „Blágrænan kapítalisma fyrir Evrópu“. Í Viðskiptablaðinu birti Óðinn grein um Ragnar 13. júní 2019, og Morgunblaðið tók viðtöl við fyrirlesarana fjóra.

Frá v.: Kristján Loftsson, James Wilen, Anna Agnarsdóttir, Ragnar Árnason og Ágústa Johnson.

Comments Off

Ráðstefna 14. júní til heiðurs Ragnari

Félagsvísindasvið Háskóla Íslands, RNH og nokkrir aðrir aðilar halda alþjóðlega ráðstefnu undir yfirskriftinni „Offshore Fisheries of the World: Towards a Sustainable and Profitable System“ til heiðurs Ragnari Árnasyni, prófessor í fiskihagfræði, sjötugum. Verður hún í hátíðasal Háskóla Íslands föstudaginn 14. júní kl. 16–18. Að ráðstefnunni lokinni verður móttaka á Litla torgi í Hámu kl. 18–19. Ragnar hefur áratugum saman verið einn af kunnustu og virtustu auðlindahagfræðingum heims og margoft verið vitnað til verka hans á alþjóðlegum vettvangi. Á ráðstefnunni flytja erindi nokkrir heimsþekktir fiskihagfræðingar.

  • 16:00–16:05 Setningarávarp. Jón Atli Benediktsson háskólarektor
  • 16:05–16:25 Próf. Trond Bjorndal: The Northeast Atlantic and Mediterranean Bluefin Tuna Fishery: Stock Collapse or Recovery?
  • 16:25–16:45 Próf. Rögnvaldur Hannesson: Stock Crash and Stock Resilience: The Norwegian Spring Spawning Herring
  • 16:45–17:05 Próf. Gordon Munro: ITQs, Other Rights Based Fisheries Management Schemes, and the New Frontier
  • 17:05–17:25, Próf. James Wilen: Problems and Prospects for Artisanal Fisheries Reform
  • 17:25–17:30, Próf. Corbett Grainger: Critical Comments
  • 17:30–17:45 Spurningar og svör
  • 17:45–17:50 Lokaorð. Próf. Ragnar Árnason
  • 17:50–19:00 Móttaka á Litla Torgi í Hámu

Fundarstjóri verður dr. Birgir Þór Runólfsson hagfræðidósent. Háskólaútgáfan gefur út afmælisrit fyrir Ragnar, sem nefnist Fish, Wealth and Welfare, og gefst áhugamönnum kostur á að skrá sig á Tabula Gratulatoria hér. Eru þar endurprentaðar tíu kunnustu vísindaritgerðir Ragnars. Kostar ritið 6.990 kr. og kemur út haustið 2019. Í afmælisnefnd Félagsvísindasviðs og ritnefnd afmælisritsins sitja Trond Bjorndal (formaður), Birgir Þór Runólfsson, próf. Hannes H. Gissurarson og próf. Þráinn Eggertsson. Einnig gefur Háskólaútgáfan út fyrirlestrana á þessari ráðstefnu undir sama heiti og ráðstefnan ásamt fyrirlestrum á fyrri ráðstefnum RNH um auðlindanýtingu og fyrirkomulag fiskveiða, 6. október 2012, 14. október 2013, 29. október 2013 og 29. ágúst 2016.

Háskólinn og RNH kosta ráðstefnuna, en SFS, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, og Seðlabankinn leggja útgáfu ráðstefnuritsins lið. Þátttaka RNH í ráðstefnunni er liður í samstarfsverkefni með ACRE um „blágrænan kapítalisma fyrir Evrópu“. Ragnar var um árabil deildarforseti hagfræðideildar og stjórnarformaður Hagfræðistofnunar. Hann er formaður rannsóknarráðs RNH og sat um skeið í bankaráði Seðlabankans. RNH hyggst síðan efna til frelsiskvöldverðar haustið 2019, þar sem Ragnar verður aðalræðumaður, en áður hafa meðal annarra dr. Tom Palmer og Davíð Oddsson verið aðalræðumenn í frelsiskvöldverðum.

Hannesson slides

Munro slides

Comments Off

Hannes gagnrýndi Rawls og Piketty

Rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, gagnrýndi kenningar Johns Rawls og Tómasar Pikettys í erindi á Frjálsa sumarskólanum, sem Samtök frjálslyndra framhaldsskólanema efndi til í Reykjavík 1. júní. Var erindið að mestu leyti sótt í skýrslu, sem Hannes hefur tekið saman fyrir hugveituna New Direction í Brüssel. Hannes kvað Rawls hafa rangt fyrir sér um það hvort tveggja, að menn ættu ekki tilkall til þeirra misjöfnu tekna, sem þeir öfluðu sér með misjöfnum hæfileikum sínum, og að til væri einhvers konar sjóður, sem biði dreifingar. Rawls spyrði, við hvaða kerfi hinir verst settu yrðu sem best settir: Hann vildi hámarka lágmarkið. En í því fælist, að kenning hans væri í rauninni ekki um réttlæti, heldur um hyggindi, sem í hag kæmu. Það væri hins vegar fróðleg spurning, við hvaða kerfi hinir verst settu yrðu sem best settir, og leiða mætti rök að því, að það væri við frjálst hagkerfi svipað því sem Adam Smith hefði hugsað sér.

Hannes sagði Piketty um það ólíkan Rawls, að hann virtist hafa miklu meiri áhyggjur af því, að sumir væru ríkir, en af hinu, að einhverjir væru fátækir. Það væri skrýtið, því að fátækt væri böl, en auðlegð blessun, þegar hún væri ekki á kostnað annarra. Fátækt hefði snarminnkað í heiminum síðustu áratugi. Piketty vildi alþjóðlega ofurskatta á hátekjufólk og stóreignamenn í því skyni að jafna tekjudreifinguna í heiminum. En hann horfði fram hjá því, að margvísleg ríkisafskipti, til dæmis úthlutun einkaleyfa og ríkisábyrgð á bönkum, stuðluðu að ójafnri tekjudreifingu. Hann tæki ekki heldur tillit til þess, að lífeyrissjóðir ættu mörg atvinnufyrirtæki. Þegar hann talaði um fjármagn, undanskildi hann enn fremur mannauð (human capital), sem dreifðist áreiðanlega jafnar á menn en annað fjármagn. Gögn sýndu að auki, sagði Hannes, að síðustu áratugi hefur þorri efnamanna skapað auð sinn sjálfur, en ekki þegið hann að erfðum. Hannes benti á, að Piketty vitnaði oft í skáldsögu Balzacs, Föður Goriot. En hún sýndi einmitt, hversu fallvaltur auðurinn væri: Helstu söguhetjurnar væru allar á valdi ástríðna og sólunduðu fé sínu. Hvað sem því liði, væri aðalatriðið ekki að reyna að stækka eina sneið og minnka aðra, heldur að tryggja, að bakaríið væri í fullum gangi.

Samtök frjálslyndra framhaldsskólanema hélt sumarskólann í samstarfi við RNH, Institute of Economic Affairs í Lundúnum og Foundation of Economic Education í New York-ríki. Júlíus Viggó Ólafsson og Hermann Nökkvi Gunnarsson sáu um skipulagninguna. Aðrir fyrirlesarar voru Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Christopher Snowdon, Gunnlaugur Jónsson, Halldór Benjamín Þorbergsson, Jóhannes Stefánsson, Magnús Örn Gunnarsson og Piotr Markiełaŭ. Skólinn var fjölsóttur, og að loknum erindunum var margs spurt.

Glærur Hannesar SFF 1. júní 2019

Comments Off

Frjálsi sumarskólinn á morgun

Markiełaŭ

Samtök frjálslyndra framhaldsskólanema efna til sumarskóla laugardaginn 1. júní kl. 12 til 18:10 að Háaleitisbraut 1. Fyrirlesarar eru dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, Gunnlaugur Jónsson fjármálaráðgjafi, Magnús Örn Gunnarsson nemi, Jóhannes Stefánsson, framkvæmdastjóri Lindarvatns, Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Piotr Markiełaŭ, háskólanemi og aðgerðasinni, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir alþingiskona og Christopher Snowdon rithöfundur. Íslendingana þarf ekki að kynna, en Markiełaŭ er eðlisfræðinemi í Hvíta-Rússlandi, sem hefur tvisvar verið rekinn úr skóla af stjórnmálaástæðum og nokkrum sinnum setið í fangelsi. Fyrirlestur hans ber heitið „Fear and Authoritarianism in Belarus“. Snowdon er deildarstjóri í Institute of Economic Affairs í Lundúnum og skrifar reglulega fyrir Spectator og fleiri tímarit. Hann hefur gefið út gjölda bóka, þar á meðal Killjoys (2017) og Selfishness, Greed and Capitalism (2015). Fyrirlestur hans ber heitið „Paternalism“. Sumarskólinn er haldinn í samstarfi við Institute of Economic Affairs í Lundúnum og Foundation for Economic Education í New York-ríki.

Glærur Hannesar SFF 1. júní 2019

Comments Off

Svæðisþing MPS í Dallas

Hannes, dr. Feulner, fyrrv. forstjóri Heritage Foundation, próf. Taylor, forseti MPS, og próf. Kim, sem skipulagði nýlega svæðisþing MPS í Kóreu.

Rannsóknastjóri RNH, prófessor Hannes H. Gissurarson, sótti svæðisþing Mont Pelerin samtakanna í Dallas/Fort Worth 19.–22. maí 2019. Þingið var helgað þrætueplum í röðum frjálshyggjufólks. Eitt var um skipan peningamála. Er Seðlabanki nauðsynlegur? Gullfótur æskilegur? Rafmyntir hagkvæmar? Frjáls samkeppni í útgáfu peninga raunhæf? Prófessor John Taylor, dr. Warren Coats, prófessor Larry White og fleiri peningamálahagfræðingar skiptust á skoðunum. Annað þrætuepli var mál innflytjenda og hælisleitenda. Allir voru sammála um, að duglegir innflytjendur í leit að atvinnu og betri lífskjörum væru æskilegir. En hvað um innflytjendur, sem aðeins sækjast eftir bótum? Og hversu langt á að ganga í að hleypa milljónum hælisleitendum inn í Vesturlönd og vekja um leið upp frumstætt útlendingahatur? Hannes tók til máls í þeim umræðum og kvað óæskilegt, þegar mynduðust sérstakar lokaðar byggðir innflytjenda og hælisleitenda, sem ekki virtu lög og landsið, eins og gerst hefði í Danmörku og Svíþjóð, en bæði löndin væru nú að herða reglur vegna sárrar reynslu.

Þriðja álitamálið, sem var rætt, var umfang ríkisins. Prófessor David Friedman taldi íslenska þjóðveldið vera til marks um, að réttarvarsla í höndum einstaklinga væri framkvæmanleg. Prófessor Edward Stringham rakti mörg dæmi um lausnir einkaaðila á málum, sem oft hefðu verið falin opinberum aðilum. Einnig var rætt um, hversu langt ríkið ætti að ganga í að skipta sér af hegðun einstaklinga, til dæmis fíkniefnaneyslu og kynlífi, þar á meðal vændi, og af innanríkismálum annarra landa, eins og Bandaríkin hefðu oft gert, til dæmis í Víetnam og Írak. Prófessor Vernon Smith, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði 2002, spjallaði á samkomu síðdegis einn daginn um þá hugsuði, sem hefðu haft mest áhrif á sig, Adam Smith og Friedrich A. von Hayek. Það var einmitt von Hayek, sem stofnaði Mont Pelerin samtökin í Sviss vorið 1947, svo að frjálshyggjumenn um allan heim gætu komið saman reglulega og borið saman bækur sínar.

Tveir ungir prófessorar, Benjamin Powell and Robert Lawson, skipulögðu svæðisþingið af röggsemi. Næsta svæðisþing verður í Stanford í Kaliforníu 15.–17. janúar 2020, en aðalfundur samtakanna verður í Osló 1.–5. september 2020. Hannes H. Gissurarson sótti fyrsta þing samtakanna í Stanford haustið 1980 í boði von Hayeks, hefur verið félagi frá 1984 og í stjórn samtakanna 1998–2004. Hann skipulagði svæðisþing samtakanna á Íslandi í ágúst 2005.

Comments Off

Deilt um alræðishugtakið

Almenna bókafélagið gaf 1. desember 2018 út bókina Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Höfundar voru Tómas Guðmundsson, Gunnar Gunnarsson, Kristmann Guðmundsson, Guðmundur G. Hagalín, Sigurður Einarsson í Holti og Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. Hannes H. Gissurarson prófessor skrifaði 40 blaðsíðna formála og 70 blaðsíðna skýringar aftanmáls. Í formálanum lýsti hann menningarbaráttu Kalda stríðsins, þar sem höfundarnir sex voru þátttakendur, og beitti alræðishugtakinu, en Tómas Guðmundsson hafði einmitt í ræðu sinni gegn kommúnisma kveðið nýja tegund þrælkunar hafa orðið til, andlega þrælkun. Menn þurftu ekki aðeins að hlýða Stóra bróður, heldur líka elska hann.

Hayek á Íslandi 1980.

Á málstofu RNH og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála í Háskóla Íslands 17. maí 2019 gagnrýndi dr. Stefán Snævarr, heimspekiprófessor í Háskólanum í Lillehammer í Noregi, alræðishugtakið eins og Hannes hafði beitt því í formálanum. Það væri af og frá, að nasisminn væri sósíalismi í hefðbundinni merkingu þess orðs, enda hefði nasistar stuðst við einkaframtak. Sósíalisminn væri ekki heldur „leiðin til ánauðar“ eins og Friedrich A. von Hayek hefði haldið fram í frægri bók. Áætlunarbúskapur og lýðræði gætu farið saman. Hannes svaraði því til, að sósíalismi væri til í tveimur gerðum, sjálfvalinn og valdboðinn. Hann hefði ekkert á móti sjálfvöldum sósíalisma, til dæmis í framleiðslusamvinnufélögum eða samyrkjubúum í Ísrael, enda væri frjálsræðisskipulagið aðallega vettvangur fyrir frjálst val einstaklinganna. Valdboðinn sósíalismi fæli hins vegar alltaf í sér kúgun: Ríkið hygðist reka menn í hina „réttu“ átt. Auðvitað væri hinn mjúki vöggustofusósíalismi sænskra jafnaðarmanna miklu skárri en harður vinnubúðasósíalismi rússneskra kommúnista, en frjálshyggjumenn höfnuðu hvoru tveggja og teldu einstaklingana eiga að ráða sér sjálfum og bera fulla ábyrgð á sér sjálfum.

Morgunblaðið birti frétt um málstofuna 6. júní:

Comments Off