Kosningaúrslit, stjórnarmyndunartilraunir og forsetakjör

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, fékk dr. Hannes Hólmstein Gissurarson prófessor til sín á ÍNN miðvikudaginn 2. nóvember til að ræða úrslitin í þingkosningunum 29. október, stjórnarmyndunartilraunir að þeim loknum og forsetakjörið, sem framundan er í Bandaríkjunum. Hannes kvað úrslitin ótvíræð skilaboð um tvennt frá kjósendum: Þeir vildu Bjarna Benediktsson sem forsætisráðherra og gætu ekki hugsað sér vinstri stjórn. Hann kvað eina helstu fréttina af úrslitunum vera, að hið hefðbundna vinstra (sem lengst voru Alþýðubandalag og Alþýðuflokkur, en gengu líka undir öðrum nöfnum: kommúnistaflokkur til 1938, Sósíalistaflokkur til 1956, Samfylking og Vinstri grænir frá 1998) hefði aldrei verið minna. Það hefði löngum haft fylgi um 30–35% kjósenda, farið upp í 44% 1978 og upp í hvorki meira né minna en rösk 51% 2009, eftir bankahrunið. Nú hefði það hrapað niður í rösk 21%.

Hannes sagði, að Píratar hefðu tapað kosningabaráttunni. Fólki hefði ekki litist á þá. Annars væri það jafnan svo í kosningabaráttu, að menn ofmætu getu ríkisins. Það gæti ekki skapað hagvöxt eða hamingju, heldur aðeins einstaklingarnir sjálfir með framtaki, dugnaði og hagsýni. Segja ætti hið sama við ríkið og Díogenes sagði við Alexander mikla, þegar keisarinn stóð yfir einsetumanninum og spurði, hvort ekki mætti gera eitthvað fyrir hann: „Jú, eitt, að þú færir þig frá sólinni.“ Hannes kvað Hillary Clinton miklu skárri forsetaframbjóðanda en Donald Trump, sem væri andvígur viðskiptafrelsi. Trump vildi reisa múra, en þess í stað þyrfti að smíða brýr. Trump bæri ekki heldur næga virðingu fyrir konum, en Hannes kvaðst vera frjálslyndur jafnréttissinni í anda Johns Stuarts Mills: Konur og karlar ættu að njóta sama réttar fyrir lögunum og jafnrar virðingar sem einstaklingar.

Bj0rnBjarna 02NOV16 from inntv on Vimeo.

Comments Off

Myndband um endurreisn Íslands

Endurreisn Íslands hefur vakið athygli um heim allan. Þýskir kvikmyndagerðarmenn frá The Freedom Today Network heimsóttu Ísland í október 2016 í tengslum við svæðisþing Evrópusamtaka frjálslyndra stúdenta og gerðu stuttan þátt um þessa endurreisn. Þeir ræddu við dr. Hannes Hólmstein Gissurarson prófessor, Heiðar Guðjónsson fjárfesti, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur laganema og Lukas Schweiger athafnamann, sem búsettur er á Íslandi.

Comments Off

Engin ábyrgð eða sök íslensku þjóðarinnar

Hannes flytur fyrirlestur sinn.

Íslenska þjóðin bar enga ábyrgð og átti enga sök á því, að árin 2008–2009 leit út fyrir, að viðskipti Landsbankans og innstæðueigenda í Bretlandi og Hollandi færu illa. Þetta voru viðskipti einkaaðila, og þeir báru sjálfir ábyrgð á þeim. Íslenska ríkið fullnægði öllum skyldum sínum með því að stofna Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta eftir réttum reglum. Þetta var niðurstaða dr. Hannesar H. Gissurarsonar, prófessors og rannsóknastjóra RNH, í fyrirlestri, sem hann flutti á Þjóðarspeglinum, ráðstefnu félagsvísindasviðs, 28. október 2016. Þar andmælti hann prófessorunum Þorvaldi Gylfasyni, Stefáni Ólafssyni og Vilhjálmi Árnasyni, sem talið höfðu Íslendinga bera siðferðilega ábyrgð á Icesave-málinu, svo að þeir ættu að greiða Bretum og Hollendingum stórar fúlgur fjár, að minnsta kosti í vexti (og upp í höfuðstólinn líka, væri þess þörf) vegna útgjalda, sem Bretar og Hollendingar stofnuðu sjálfir til í málinu.

Hannes benti á, að þeir Stefán og Vilhjálmur hefðu misskilið neyðarlögin íslensku frá 6. október 2008. Þar hefði ekki verið um neina mismunun innstæðueigenda að ræða, heldur hitt, að allir innstæðueigendur, breskir jafnt og íslenskir, voru settir í forgang fram yfir aðra kröfuhafa á bankana. Það breytti engu, að um leið hefði verið gefin út munnleg yfirlýsing um, að innstæðum á Íslandi væri óhætt. Slíkar munnlegar yfirlýsingar hefðu verið gefnar út í mörgum Evrópuríkjum á sama tíma og ekki haft neitt lagagildi.

Hannes ræddi síðan um hugtökin siðferðilega samábyrgð og samsekt og umræður heimspekinga um þau. Vissulega væri stundum hugsanlegt, að menn bæru ábyrgð á einhverju, sem þeir hefðu ekki sjálfir gert. Til dæmis yrði skipstjóri að aðstoða skipbrotsmenn í neyð, ef hann gæti. Það væri líka hugsanlegt, að menn hefðu einhverjar skyldur í krafti þess, hverjir þeir væru frekar en hvað þeir hefðu gert eða samþykkt. Til dæmis ætti einstaklingur skyldur við foreldra sína og Íslendingar skyldur við tungu sína, sögu og menningu. En siðferðileg samábyrgð hefði ýmsar takmarkanir. Í fyrsta lagi mætti ekki svipta einstaklinga ábyrgð á gerðum sínum. Einnig gæti ábyrgð ekki verið umfram getu (eins og Keynes lávarður benti á í deilum um stríðsskaðabætur Þjóðverja). Í þriðja lagi mætti ekki reyna að leiðrétta sögulegt ranglæti með nýju ranglæti (eins og þegar karlar á okkar dögum ættu að gjalda þess í stöðuveitingum, að konur hefðu verið kúgaðar á fyrri öldum, en þess krefjast dólga-femínistar).

David Miliband og Ólafur Þ. Harðarson prófessor í hátíðasal Háskóla Íslands 2012.

Icesave-málið hefði ekki verið vaxið á þann veg, sagði Hannes, að Íslendingar bæru þar einhverja samábyrgð. Íslensk stjórnvöld hefðu fullnægt öllum sínum skyldum og ekkert gert á hluta þeirra bresku og hollensku sparifjáreigenda, sem hefðu kosið að geyma fé sitt frekar á háum vöxtum Landsbankans en annarra banka. Væri um að ræða einhverja siðferðilega samábyrgð eða samsekt, þá væri hún á herðum Breta, sem hefðu sett hryðjuverkalög á Íslendinga að nauðsynjalausu og lokað tveimur breskum bönkum, Heritable og KSF (báðum í eigu Íslendinga), um leið og þeir hefðu bjargað öllum öðrum breskum bönkum. Síðan hefði komið í ljós, að Heritable og KSF hefðu verið miklu betur staddir en margir þeir bankar, sem bjargað var. Einnig væri hugsanlega um að ræða einhverja siðferðilega samábyrgð eða samsekt þeirra vogunarsjóða, sem skipulagt hefðu áhlaup á íslensku bankana. Hannes lét í ljós furðu á því, að utanríkisráðherra stjórnarinnar, sem sett hefði hryðjuverkalög á Íslandi, David Miliband, hefði getað gefið fyrirmæli um það, þegar hann flutti fyrirlestur í Háskóla Íslands 2012, að ekki yrði þá rætt um samskipti Íslendinga og Breta haustið 2008.

Glærur Hannesar í Þjóðarspeglinum 2016

Comments Off

Siðferðileg álitamál í Icesave-deilunni

Á málstofu föstudaginn 28. október 2016 á Þjóðarspeglinum, sem er vettvangur félagsvísindafólks til að kynna rannsóknir sínar, ræðir dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, rannsóknastjóri RNH, siðferðileg álitamál í Icesave-deilu Íslendinga, Breta og Hollendinga. Málstofan er kl. 11–12.45 í stofu 102 í Lögbergi. Tilefni rannsóknarinnar er sú skoðun nokkurra háskólaprófessora, þeirra Þorvaldar Gylfasonar, Stefáns Ólafssonar og Vilhjálms Árnasonar, sem látin var í ljós í deilunni, að Íslendingum bæri siðferðileg skylda til að taka ábyrgð á útgjöldum Breta og Hollendinga vegna Icesave-reikninga Landsbankans, en þessir aðilar kölluðu útgjöldin lán og heimtuðu af því vexti. Hannes gagnrýnir rök þeirra, sem voru meðal annars þau, að íslenska ríkið hefði mismunað innlendum og erlendum innstæðueigendum.

Hannes skoðar einnig almennari umræður heimspekinga eins og Karls Jaspers, Davids Millers (sem var einn af kennurum hans í Oxford) og Jans Narvesons um siðferðilega samábyrgð eða samsekt. Hannes leiðir rök að því, að vissulega megi stundum hugsa sér siðferðilega samábyrgð, en að hún hafi ekki átt við um Íslendinga, sem gátu ekki borið ábyrgð á viðskiptum innstæðueigenda í leit að hárri ávöxtun fjár síns og útbúa Landsbankans erlendis. Íslendingar hafi fullnægt öllum lagalegum og siðferðilegum skyldum sínum með löggjöf á fjármálamarkaði. Fyrirlestur Hannesar er liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Samtökum íhaldsmanna og umbótasinna í Evrópu, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Comments Off

Vel heppnað svæðisþing ESFL á Íslandi

Palmer talar.

Svæðisþing ESFL, European Students for Liberty, Evrópusamtaka frjálslyndra stúdenta, í Reykjavík 8. október 2016 heppnaðist vonum fram, ekki síst vegna þess að þrír framúrskarandi fyrirlesarar lögðu leið sína til Íslands og tóku þátt í þinginu. Dr. Nigel Ashford frá Institute for Humane Studies í Washington-borg lýsti fimm helstu skólum frjálshyggjumanna: Austurrísku hagfræðingunum Mises og Hayek, Chicago-hagfræðingunum, Friedman og Becker, almannavalsfræðingunum undir forystu James M. Buchanans, náttúruréttarsinnum eins og Robert Nozick og Ayn Rand, og stjórnleysingjum, Murray Rothbard og David Friedman. Stjórnleysingjar hafa oft bent á íslenska þjóðveldið 930–1262 sem dæmi um land, þar sem lögin réðu, en ekki ríkið.

Dr. Barbara Kolm frá Austurríska hagfræðisetrinu, Austrian Economics Center gerði grein fyrir skoðun frjálshyggjumanns á Evrópusambandinu. Hún lagði áherslu á, að óheftur innflutningur fólks rækist á velferðarríkið, ef í því felast félagsleg réttindi allra óháð framlagi. Kolm rifjaði upp, að Evrópusambandið hefði í upphafi verið stofnað til að verja fjórfrelsið, en nú hefði það breyst í eitthvert annað og ógeðfelldara fyrirbæri. Dr. Tom Palmer frá Atlas Network og Cato Institute kvað frelsið ekki aðeins felast í keppni eftir veraldlegum gæðum, heldur í því að axla ábyrgð á eigin lífi og rækta með sér hæfileika og komast til þroska. Hann ræddi um nokkur stef í nýútkominni bók sinni, Sjálfsvald eða ríkisvald: Þitt er að velja (Self-Control or State-Control: You Decide.)

Tveir ungir frambjóðendur, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir frá Sjálfstæðisflokknum og Pawel Bartoszek frá Viðreisn, skiptust á skoðunum um það, sem efst er á baugi. Heiðar Guðjónsson fjárfestir mælti nokkur lokaorð og kvaðst vera bjartsýnn um framtíðina. Stjórnarformaður RNH, Gísli Hauksson, bauð öllum ráðstefnugestum (sem voru um 120) í móttöku í húsakynnum eignastýringarfyrirtækisins gamma. Þátttaka RNH í svæðisþinginu var liður í samstarfsverkefni með AECR, Evrópusamtökum íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Comments Off

Forvitnileg ráðstefna á laugardaginn

Evrópusamtök frjálslyndra stúdenta, European Students for Liberty, halda svæðisþing í Háskólanum í Reykjavík laugardaginn 8. október 2016. Þrír kunnir erlendir fyrirlesarar halda þar erindi. Dr. Tom G. Palmer, forstöðumaður Atlas Network í Washington-borg og fræðimaður í Cato-stofnuninni, talar um rökin fyrir frelsi, en hann gaf nýlega út bókina Self-Control or State-Control: You Decide. Dr. Nigel Ashford, forstöðumaður rannsókna í Institute for Humane Studies, lýsir hinum ólíku tegundum eða skólum frjálshyggju: austurrísku hagfræðingunum, Mises og Hayek, Chicago-hagfræðingunum, Friedman og Becker, almannavalsfræðingum eins og James M. Buchanan, mannréttindasinnum eins og Robert Nozick og Ayn Rand og markaðs-stjórnleysingjum, þ. á m. Murray Rothbard og David Friedman. Dr. Barbara Kolm, forstöðumaður Austurrísku hagfræðistofnunarinnar, ræðir um afstöðu frjálslynds fólks til Evrópusambandsins.

Einnig verða pallborðsumræður, þar sem þau Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Pawel Bartozsek skiptast á skoðunum um, hvaða stjórnmálaflokkur er frjálslyndastur á Íslandi. Ráðstefnan hefst klukkan 11 með skráningu þátttakenda, en dagskrá hefst kl. 11.30 og lýkur kl. 16. Að ráðstefnunni lokinni er mótttaka í Gamma að Garðastræti 37 k. 18.30–21. Þátttökugjald er 1.000 kr. og greiðist við komu. Innifalið í því er hádegisverður og móttaka. Skráning fer hér fram.

Almenna bókafélagið býður ráðstefnugestum bækur sínar um þjóðmál fram á afsláttarverði: Heimur batnandi fer eftir Matt Ridley; skáldsögurnar Undirstaðan, Uppsprettan og Kíra Argúnóva eftir Ayn Rand, þjóðmálaritin Icesave-samningarnir: Afleikur aldarinnar? eftir Sigurð Má Jónsson, Búsáhaldabyltingin: sjálfsprottin eða skipulögð? eftir Stefán Gunnar Sveinsson og Andersen-skjölin: Rannsóknir eða ofsóknir? eftir Eggert Skúlason; endurprentanir sígildra rita gegn alræðisstefnunni: Greinar um kommúnisma eftir Bertrand Russell, Konur í þrælakistum Stalíns eftir Elinor Lipper og Aino Kuusinen, Úr álögum eftir Jan Valtin (réttu nafni Richard Krebs), Leyniræðan um Stalín eftir Níkíta Khrústsjov, Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir Ants Oras og Eistland. Smáþjóð undir oki erlends valds eftir Andres Küng. Þátttaka RNH í ráðstefnunni er liður í samstarfsverkefni við AECR, Alliance of European Conservatives and Reformists.

Comments Off