Rit

RNH er í samstarfi við Almenna bókafélagið um að birta reglulega vönduð og læsileg verk um efnahagsmál og stjórnmál:

Íslenskir kommúnistar 1918–1998

eftir dr. Hannes Hólmstein Gissurarson prófessor

Rakin er saga íslensku kommúnistahreyfingarinnar, allt frá því að Brynjólfur Bjarnason tók þátt í götuóeirðum í Kaupmannahöfn haustið 1918 og allt til þess, að þau Margrét Frímannsdóttir og Svavar Gestsson fóru í boðsferð kommúnistaflokks Kúbu haustið 1998. Óslitinn þráður var frá fyrstu kommúnistunum til síðustu Alþýðubandalagsmannanna. Hreyfing kommúnista náði hér meiri áhrifum en víðast hvar annars staðar á Vesturlöndum og þáði fé og ráð frá valdhöfum í kommúnistaríkjunum, þótt sumir fræðimenn reyni að gera lítið úr því. Sú var tíð, að mynd af Stalín var inni á betri stofum á sumum íslenskum heimilum.

Kaupa bókina

Uppsprettan

eftir Ayn Rand

Uppsprettan er þýðing á metsölubókinni The Fountainhead eftir rússnesk-bandarísku skáldkonuna Ayn Rand. Þetta skáldverk kom fyrst út á ensku 1943 og er um ungan arkitekt, Howard Roark, sem lætur hvorki auðjöfra né almenningsálit segja sér fyrir verkum, heldur fylgir sannfæringu sinni í gegnum þykkt og þunnt. Einnig koma við sögu dularfull fegurðardís, kaldrifjaður blaðakóngur, misheppnaður framapotari og tungumjúkur félagshyggjufrömuður. Ayn Rand tekst í verkum sínum að sýna sköpunarmátt kapítalismans. Hinn skapandi einstaklingur er þar jafnan í fyrirrúmi. Þorsteinn Siglaugsson þýddi bókina, sem kom fyrst út á íslensku 1990.

Kaupa bókina

Icesave-samningarnir: Afleikur aldarinnar?

eftir Sigurð Má Jónsson

Þaulreyndur blaðamaður, Sigurður Már Jónsson, fyrrverandi ritstjóri Viðskiptablaðsins, skyggnist á bak við tjöldin í hinum flóknu samningum Íslendinga annars vegar og Breta og Hollendinga hins vegar 2008–2010 um Icesave-kröfuna svonefndu. Lýsir hann klaufalegum vinnubrögðum þeirra Steingríms J. Sigfússonar og Svavars Gestssonar og annarra ráðamanna í málinu. Icesave-samningarnir vörðuðu stórkostlega fjárhagslega hagsmuni þjóðarinnar, enda voru tvær þjóðaratkvæðagreiðslur um þá. Sigurður Már rifjar upp ótrúleg orð og afstöðu stjórnmálamanna, álitsgjafa og fræðimanna.

Kaupa bókina

Undirstaðan

eftir Ayn Rand

Stefið í skáldsögunni Undirstöðunni er: Hvað gerist, ef allir skapandi menn landsins gera verkfall, Atlas — jötunninn, sem ber uppi jörðina — ypptir öxlum, undirstaðan brestur? Hver er munurinn á sköpun og sníkjulífi? Hver er John Galt? Jafnframt er þetta saga af sambandi Dagnýjar Taggarts, sem rekur járnbrautarfyrirtæki fjölskyldu sinnar, og ýmissa tilkomumikilla einstaklinga, hins argentínska auðmannssonar Franciscos d’Anconia, stáljöfursins Hanks Reardens, sem er kvæntur maður, og hins dularfulla Johns Galts. Undirstaðan hefur verið metsölubók um heim allan áratugum saman. Elín Guðmundsdóttir þýddi.

Kaupa bókina

Búsáhaldabyltingin: sjálfsprottin eða skipulögð?

eftir Stefán Gunnar Sveinsson

Búsáhaldabyltingin 2008–2009 er einn ótrúlegasti kaflinn í nútímasögu Íslendinga. Hið friðsæla Ísland fyrri ára steyptist skyndilega um koll. Setið var um Stjórnarráðið, Seðlabankann og Alþingi, ráðherrar urðu að hafa lífverði, reynt var að frelsa fanga úr haldi lögreglunnar, barist var nánast upp á líf og dauða á götum Reykjavíkur, lögreglan var að niðurlotum komin eftir margra daga götubardaga, ríkisstjórn hrökklaðist frá völdum. Stefán Gunnar Sveinsson sagnfræðingur hefur haft aðgang að áður óbirtum trúnaðargögnum, meðal annars skýrslum og endurminningum, og talað við fjölda manns, sem tók beinan eða óbeinan þátt í þessum atburðum, lögreglumenn, mótmælendur, ráðherra og alþingismenn. Margt nýtt kemur þar fram, ekki síst um hlut forystumanna Vinstri grænna í búsáhaldabyltingunni.

Kaupa bókina

Tekjudreifing og skattar

eftir Ragnar Árnason og fleiri

Sex fræðimenn skrifa um umdeilt efni. Ragnar Árnason heldur því fram, að Gini-stuðlar séu oft óheppilegir mælikvarðar á tekjudreifingu og að gera verði greinarmun á raunverulegum ráðstöfunartekjum og raunverulegri skattbyrði annars vegar og á nafnlaunum og nafnsköttum hins vegar. Birgir Þór Runólfsson telur sterk tengsl vera á milli atvinnufrelsis og almennrar hagsældar, þar á meðal lítillar fátæktar. Hannes H. Gissurarson hrekur þá kenningu, að fátækt hafi verið meiri á Íslandi 1991–2004 en á öðrum Norðurlöndum. Helgi Tómasson varar við ýmsum tölfræðigildrum. Axel Hall varar við skattahækkunum til tekjujöfnunar og ber saman skattastefnu Íslands og annarra Norðurlanda. Arnaldur Sölvi Kristjánsson lýsir ýmsum skattagildrum í hinu flókna kerfi bóta og skatta.

Kaupa bókina

Kíra Argúnova

eftir Ayn Rand

Skáldsagan We the Living var framhaldssaga undir nafni söguhetjunnar í Morgunblaðinu 1949, en ekki hefur tekist að hafa upp á þýðanda hennar. Þýðingin hefur verið endurskoðuð og búin til prentunar af Frosta Logasyni útvarpsmanni og dr. Hannesi H. Gissurarsyni prófessor. Í bókinni styðst Rand við eigin reynslu af Ráðstjórnarríkjunum á fyrstu árum þess. Kíra Argúnova er ung og sjálfstæð stúlka, sem elst upp í Pétursborg á öndverðum þriðja áratug tuttugustu aldar. Hún þarf að velja á milli hins myndarlega, skemmtilega, en kærulausa Leós, sem er sonur keisaralegs aðmírals, og hins heiðarlega og einbeitta kommúnista Andrejs, sem vinnur fyrir hina nýju leynilögreglu. Í þessari sögu er fólk af holdi og blóði, en ekki aðeins mælskir prédikarar fyrir ólíkum sjónarmiðum. Í eftirmála segir Ásgeir Jóhannesson, heimspekingur og lögfræðingur, frá lífi og verkum Ayns Rands.

Kaupa bókina

Andersen-skjölin

eftir Eggert Skúlason ritstjóra

Skömmu eftir bankahrun var Gunnar Andersen ráðinn forstjóri Fjármálaeftirlitsins við fögnuð ýmissa áhrifamikilla álitsgjafa, en síðan rekinn eftir tiltölulegan stuttan starfsferil. Hér er saga hans rakin, en hann virðist hafa nálgast verkefni sitt eins og hefnd yfir mönnum, sem hann taldi sig eiga sökótt við, meðal annars yfir Ingólfi Guðmundssyni, fyrrverandi samstarfsmanni sinum í Landsbankanum. Neytti Gunnar allra bragða til að koma í veg fyrir, að Ingólfur fengi vinnu. Steininn tók þó úr, þegar Gunnar hafði forystu um, að skjöl um einkamálefni þingmanns voru send úr Landsbankanum á DV og síðan birt. Fyrir það skýlausa trúnaðarbrot var hann dæmdur í skilorðsbundið fangelsi.

Kaupa bókina

 

Væntanlegt

Metsölubók hins virta vísindarithöfundar dr. Matts Ridleys, Heimur batnandi fer (The Rational Optimist), hefur verið þýdd á íslensku og kemur bráðlega út.

Snorri G. Bergsson sagnfræðingur er að gera viðamikla rannsókn á sögu íslensku kommúnistahreyfingarinnar.

Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson er að skrifa bók um umhverfisvernd og eignaréttindi, og er vinnuheitið Frelsið er grænt.

Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson stjórnar rannsóknarverkefni um erlenda áhrifaþætti íslenska bankahrunsins 2008, þar á meðal setningu hryðjuverkalaganna bresku á íslensk fyrirtæki og stofnanir.

RNH styður einnig og kynnir ýmsar bækur, sem komið hafa út hjá bókaútgáfunni Uglu, þar á meðal bókina Stasiland eftir Önnu Funder, og er hún um lögregluríkið í Austur-Þýskalandi í valdatíð kommúnista. Höfundurinn kynnti bók sína á ráðstefnu RNH 22. september 2012. RNH vekur einnig athygli á ýmsum bókum, sem eru til sölu á bóksölu veftímaritsins Andríkis, þar á meðal hin sígildu frjálshyggjurit Frelsið eftir John Stuart Mill, Ritgerð um ríkisvald eftir John Locke og Löstur er ekki glæpur eftir Lysander Spooner. Einnig má nefna Leyndardóm fjármagnsins eftir Hernando de Soto, Kommúnismann eftir Richard Pipes, Peningarnir sigra heiminn eftir Niall Ferguson og Hagfræði í hnotskurn eftir Henry Hazlitt. RNH stefnir að því að gera Svartbók kommúnismans, sem Hannes H. Gissurarson þýddi 2009, aðgengilega á Netinu 9. nóvember 2014, þegar 25 ár verða liðin frá hruni Berlínarmúrsins. Jafnframt styður RNH það verkefni að gera ýmis fróðleg rit, sem gefin voru í hinni hörðu hugmyndabaráttu fyrir Kalda stríðið og í því, aðgengileg á Netinu, til dæmis Þjónustu, þrælkun, flótta eftir Aatami Kuortti, sem kom út haustið 1938 (á sama tíma og Gerska æfintýrið eftir Halldór Kiljan Laxness), Guðinn sem brást eftir Arthur Koestler, Ignazio Silone, André Gide og fleiri, Úr álögum eftir Jan Valtin (öðru nafni Richard Krebs), Myrkur um miðjan dag eftir Arthur Koestler, Ég kaus frelsið eftir Víktor Kravtsjenko, Bóndann. El campesino eftir Valentin Gonzalez, Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir Ants Oras, Eistland: Smáþjóð undir oki erlends valds eftir Anders Küng og Konur í einræðisklóm eftir Margarete Buber-Neumann.

Comments are closed.