Sagnfræðingar: Minnumst fórnarlamba kommúnismans

Sagnfræðingarnir Antoine Arjakovsky og Stéphane Courtois, sem kynnti bók sína um Lenín, upphafsmann alræðisstefnunnar.

RNH á aðild að Evrópuvettvangi minningar og samvisku. Á ráðstefnu vettvangsins í París 8.–9. nóvember 2017 var eftirfarandi yfirlýsing samþykkt:

Fyrir hundrað árum gerðu bolsévíkar byltingu og stofnuðu blóðugt draumaríki sitt. Þeir rifu upp með rótum það skipulag samskipta og siðferðis, sem áður hafði staðið, og voru upphafsmenn alræðisstjórnar. Með ofbeldi og án miskunnar var hrundið af stað allsherjarskipulagningu, sem miðaði að því að ná fullkomnu taki á fólki. Menn voru sviptir réttindum sínum, og ógnarstjórn leysti af hólmi réttarríki og mannúðarstefnu.

Hundrað árum eftir byltingu bolsévíka er morðingjastjórnin, sem þá rændi völdum, enn talin á einhvern hátt réttlætanlegri og afsakanlegri en stjórn þjóðernissósíalista, nasista, þrátt fyrir að fórnarlömb kommúnista hafi reynst rúmlega tvöfalt fleiri, mörg ekki verið nafngreind og liggi sum enn í ómerktum gröfum. Við þetta verður ekki unað.

Nú, að öld liðinni, sjáum við, hvernig reynt er að gera glæpi kommúnista afstæða. Tilraunir til að afmarka þá við valdatíma Stalíns og kalla þá „stalínisma“ eru ótækar einfaldanir á hinu djúprætta alræðiseðli kommúnismans. Þetta veldur því, að enn eru kommúnistatákn ekki bönnuð í Evrópu og enn starfa þar kommúnistaflokkar. Margir liðsmenn alræðisstjórna sættu aldrei ákæru eða refsingu fyrir glæpi sína.

Evrópa okkar daga er reist á rótgrónum hugmyndum um einstaklingsfrelsi, réttarríki, lýðræði og mannréttindi. Tugmilljónir fórnarlamba kommúnismans verðskulda virðingu, minningu og réttlæti, svo að komið verði í veg fyrir viðleitni til að endurvekja kommúnisma eða aðrar alræðisstefnur.

Þess vegna skorar Evrópuvettvangur minningar og samvisku og þátttakendur á alþjóðlegri ráðstefnu um „Kommúnisma í hundrað ár: Sögu og minningu“, sem haldin var í París í Frakklandi 8.–9. nóvember 2017, á Evrópuþjóðir að hefjast handa:

  • Í því skyni að sýna fórnarlömbum alræðisstjórna kommúnista virðingu knýjum við á um opinbert bann, sem nái til Evrópu allrar, við því að sýna kommúnistatákn opinberlega.
  • Í því skyni að rækta minninguna biðjum við um minnisvarða í hjarta Evrópu um fórnarlömb alræðisstefnunnar.
  • Í því skyni að ná fram réttlæti leggjum við til, að stofnaður verði Alþjóðlegur dómstóll um glæpi kommúnismans.

Við, hið frjálsa Evrópufólk okkar daga, deilum lífsgildum. Okkur er skylt að verja þau og boða. Lýðræði skiptir máli!

Comments Off

100 ára alræðisstjórn kommúnista

Snorri

Í tilefni hundrað ára afmælis rússnesku byltingarinnar, valdaráns Vladímírs Leníns og félaga hans í Pétursborg 7. nóvember 1917, gefur RNH í samstarfi við Almenna bókafélagið út röð verka um reynsluna af hundrað ára alræðisstjórn kommúnista. Fyrst ber að nefna tveggja binda rit um frumsögu íslensku kommúnistahreyfingarinnar eftir sagnfræðinginn og skákmanninn Snorra G. Bergsson: Roðinn í austri um tímabilið 1919–1924 og Rauða fána um tímabilið 1925–1930. Áður hafði Snorri veitt tveimur háskólaprófessorum aðstoð við undirbúning bóka þeirra: Þór Whitehead í Sovét-Íslandi: Óskalandinu (2010) og Hannesi H. Gissurarsyni í Íslenskum kommúnistum 1918–1998 (2011).

Koestler

Í annan stað sér rannsóknastjóri RNH, prófessor Hannes H. Gissurarson um útgáfu nokkurra gamalla verka um alræðisstjórn kommúnista, sem endurprentuð eru á hundrað ára afmæli rússnesku byltingarinnar. Ráðstjórnarríkin: Goðsagnir og veruleiki eftir ungverska rithöfundinn Arthur Koestler varð þrætuepli fyrir bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík 1946; Milli austurs og vesturs geymir greinar norska skáldsins Arnulfs Øverlands, sem las íslenskum kommúnistum pistilinn í ferð hingað 1948; Guðinn sem brást eftir Arthur Koestler, Ignazio Silone, André Gide og fleiri nafnkunna rithöfunda kom út hjá Stuðlabergi 1950; Ég kaus frelsið eftir rússneska flóttamanninn Víktor Kravtsjenko kom út hjá Prentsmiðju Austurlands 1951; Konur í einræðisklóm eftir Margarete Buber-Neumann, sem var fyrst fangi Stalíns og síðan Hitlers, kom út 1954; Nytsamur sakleysingi eftir norska sjómanninn Otto Larsen var ein af fyrstu útgáfuritum Almenna bókafélagsins 1956; Þjóðbyltingin í Ungverjalandi eftir danska blaðamanninn Erik Rostböll kom út hjá Almenna bókafélaginu 1957. Tilgangurinn með endurprentun þessara verka ásamt formálum og skýringum er að gera þau aðgengilegum nýjum kynslóðum nemenda og fræðimanna. Þetta tilefni er einnig notað til að heiðra minningu tveggja ötulla baráttumanna gegn alræðisstefnum, Geirs Hallgrímssonar forsætisráðherra og Eyjólfs Konráðs Jónssonar, ritstjóra og alþingismanns.

Útkoma þessara níu bóka á byltingarafmælinu 7. nóvember 2017 er liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, „Evrópa fórnarlambanna.“

Comments Off

100 ár – 100 milljónir

Í þau hundrað ár, sem liðin eru frá bolsévíkabyltingunni 2017, hafa að minnsta kosti 100 milljónir manna týnt lífi af völdum kommúnista, skrifaði prófessor Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, í Morgunblaðið 7. nóvember 2017. Hafði hann fyrir þessu sagnfræðiprófessorinn Stéphane Courtois, ritstjóra Svartbókar kommúnismans. Hannes hafnaði hinni algengu skýringu á ógnarstjórn Leníns og Stalíns, að hún hefði aðeins verið rússnesk venja: Á tveimur mánuðum myrti leynilögregla bolsévíka fleira fólk en dæmt hafði verið til dauða í rússneska keisaraveldinu 1825–1017. Alræði og kúgun kommúnistaríkjanna voru miklu frekar rökréttar og fyrirsjáanlegar afleiðingar af tilrauninni til að endurskapa allt skipulagið eftir óraunhæfum kenningum Marx og Engels. Hannes rifjaði upp, að Marx og Engels leyndu hvergi því mati sínu, að líklega yrði að framkvæma byltinguna, sem þeir sáu fyrir sér, með ógnarstjórn. Hannes vitnaði líka á óvinsamleg ummæli þeirra um Íslendinga og aðrar Norðurlandaþjóðir.

Sumir kommúnistar höfðu jafnvel sjálfir áttað sig á hættunni af því að sameina allt stjórnvald og hagvald á einni hendi. „Í landi, þar sem stjórnin er eini vinnuveitandinn, bíður stjórnarandstæðingsins hægur hungurdauði,“ skrifaði Trotskíj. Og Rósa Lúxembúrg hafði bent á, að frelsið væri alltaf frelsi stjórnarandstæðingsins. Það var hins vegar Friedrich A. von Hayek, sem setti fram hina fræðilegu skýringu á kúguninni við miðstýrðan áætlunarbúskap: Í slíku kerfi væri ógerlegt að stilla saman mannlegar þarfir, og af því leiddi, að slíkar þarfir yrði að einfalda og minnka og jafnvel stundum hafa að engu, en til þess þyrftu stjórnvöld að ná tökum á sálum manna ekki síður en að segja þeim fyrir verkum. Kennari Hayeks, Ludwig von Mises, hafði þegar árið 1920 sagt fyrir um endalok sósíalismans með þeim rökum, að miðstjórnin yrði að taka ákvarðanir sínar án nægilegra upplýsinga um framleiðslu og neyslu.

Í grein sinni sagði Hannes stuttlega sögu kommúnistahreyfingarinnar á Íslandi. Brynjólfur Bjarnason var annar af tveimur fulltrúum íslenskra kommúnista á þingi Alþjóðasambands kommúnista í Moskvu 1920, en þar minntist Lenín á hernaðarlegt mikilvægi Íslands í hugsanlegu stríði á Norður-Atlantshafi. Brynjólfur var fyrsti og eini formaður kommúnistaflokks Íslands, sem starfaði 1930–1938 með verulegum fjárstuðningi frá Moskvu. Samkvæmt fyrirmælum frá Moskvu tókst kommúnistum 1938 að fá til bandalags við sig vinstri sinnaða jafnaðarmenn í nýjan flokk, Sósíalistaflokkinn, en stalínistarnir Brynjólfur og Einar Olgeirsson veittu honum forystu. Kremlarbændur héldu Sósíalistaflokknum uppi fjárhagslega eins og forvera hans. Gömlu stalínistarnir misstu þó smám saman tökin á Sósíalistaflokknum, sem var leystur upp 1938, um leið og Alþýðubandalaginu var breytt úr kosningabandalagi í stjórnmálaflokk. Þótt Alþýðubandalagið berðist hart gegn jafnaðarmönnum, rauf það öll opinber tengsl við Kremlverja. Eftir fall Ráðstjórnarríkjanna sameinaðist Alþýðubandalagið Alþýðuflokknum í Samfylkingunni, en síðasta verk gömlu Alþýðubandalagsforystunnar var að fara í boðsferð til kúbverska kommúnistaflokksins haustið 1998. Reyndi hún þá árangurslaust að ná tali af Castro. Lauk sögu íslensku kommúnistahreyfingarinnar því með snökti frekar en gný.

Að lokum sagði Hannes, að kommúnisminn væri að sönnu dauður, en vofa hans gengi ljósum logum um vestræna háskóla. RNH á aðild að Evrópuvettvangi um minningu og samvisku, sem hélt ásamt öðrum tvær ráðstefnur á ártíð bolsévíkabyltingarinnar. Önnur var í Washington-borg, þar sem Niall Ferguson og Frank Dikötter töluðu meðal annarra, hin í París, þar sem Stéphane Courtois kynnti nýja bók um Lenín. Sagnfræðingafélagið hafði hins vegar ekki áhuga á því að halda ráðstefnu með RNH af sama tilefni. Grein Hannesar í Morgunblaðinu var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“.

Comments Off

Frjálshyggja og lýðskrum

Hannes stjórnar fundi. Dr. Jacob Lundberg í ræðustól.

Fjörugar umræður urðu um frjálshyggju, lýðstefnu og verkefni okkar daga á sérstöku þingi Mont Pelerin samtakanna í Stokkhólmi 2.–5. nóvember 2017. Á meðal þeirra hugmynda, sem ræddar voru (án þess að allir tækju nauðsynlega undir þær), voru: Frjálshyggjumenn vilja vera heimsborgarar; þeir leitast við að tryggja frið milli einstaklinga og ríkja í krafti umburðarlyndis og afskiptaleysis. Lýðstefnumenn reyna ekki að takmarka ríkisvaldið eins og frjálshyggjumenn, heldur hrifsa það til sín. Rannsóknir sýna, að í lýðskrumi er frekar fólgið andsvar við menningarlegum breytingum en skírskotun til efnahagserfiðleika einstakra stétta eða hópa. Lýðstefnumenn eru andvígir valdastéttum í opinberu skjóli. Þeir vísa til Aðalstrætis frekar en Bankastrætis. Ef manni er sagt að fara í spilavíti með þeim skilmálum, að hann haldi eftir öllum gróðanum, en geti velt tapinu yfir á aðra, þá mun hann fyrr eða síðar tapa öllu. Þegar í stað spilavítisins er settur banki, er komin ein skýring á hinni alþjóðlegu lausafjárkreppu áranna 2007–9 og óánægju margra eftir hana. Lýðstefnumenn sækja fylgi í þá skoðun, að vitlaust sé gefið í spilinu. En þótt lýðstefna nærist á skiljanlegri óánægju, ógnar hún réttarríkinu og allri umræðumenningu. Ef til vill er sigursælasti lýðskrumarinn á valdastól um þessar mundir Vladímír Pútín Rússlandsforseti, sem hefur lagt undir sig stjórnkerfið í landi sínu og safnað feikilegum auði.

Frjálshyggjumenn styðja frelsi og ekki vald. Í hagtölum er hætt við, að hinar stórkostlegu lífskjarabætur síðustu hundrað ára vegna tækninýjunga séu vanmetnar: Nathan Rothschild var ríkasti maður heims á sínum tíma, en hann lést 1836 vegna ígerðar, sem hefði nú verið auðvelt að taka til meðferðar. Bætt lýsing og upphitun húsa hafa breytt lífi margra til hins betra. Og frjálslynt fólk verður að standa saman um að minnsta kosti sumt. Daginn eftir að öfgamúslimar fordæmdu danskt dagblað fyrir að birta skopmyndir af Múhameð spámanni, hefðu öll vestræn dagblöð átt að endurprenta þær.

Þeir Friedrich A. von Hayek, Milton Friedman, Ludwig von Mises, George J. Stigler, Luigi Einaudi, Karl Popper og aðrir kunnir menntamenn stofnuðu Mont Pelerin samtökin 1947 sem eins konar alþjóðlegt málfundafélag frjálslyndra fræðimanna, sem störfuðu í sömu hefð og John Locke, Adam Smith, Alexis de Tocqueville og Acton lávarður. Á meðal ræðumanna á þinginu í Stokkhólmi voru Karen Horn, Deirdre McCloskey, Mark Pennington, Lotta Stern, Luigi Zingales, Johan Norberg og Anders Åslund. Dr. Nils Karlson hjá Ratio stofnuninni í Stokkhólmi hafði veg og vanda af því að skipuleggja ráðstefnuna. Rannsóknastjóri RNH, prófessor Hannes H. Gissurarson, var fundarstjóri á málstofu, þar sem ungir fræðimenn kynntu niðurstöður rannsókna sinna á því, hvernig frumkvöðlar geta brotið á bak aftur einokun í skjóli ríkisins og hvaða áhrif skattheimta hafi á skatttekjur af mjög tekjuháu fólki (samkvæmt Laffer-boganum). Tveir aðrir Íslendingar sóttu ráðstefnuna, Birgir Þór Runólfsson hagfræðidósent og Gísli Freyr Valdórsson, ritstjóri Þjóðmála. Þátttaka Hannesar í þinginu var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna.

Comments Off

Norberg: Margar ástæður til bjartsýni

Margar ástæður eru til þess að taka framtíðinni fagnandi, sagði sænski sagnfræðingurinn og sjónvarpsmaðurinn Johan Norberg á fundi Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála, Almenna bókafélagsins og RNH í Háskóla Íslands 23. október. Þar kynnti Norberg bók sína, Framfarir: Tíu ástæður til að taka framtíðinni fagnandi, sem Almenna bókafélagið gaf út sama dag í þýðingu Elínar Guðmundsdóttur og í samstarfi við eignastýringarfélagið Gamma. Norberg benti á, að fátækt hefði víðast snarminnkað, ekki síst í krafti frjálsra alþjóðaviðskipta. Tekjudreifing hefði einnig orðið jafnari í heiminum, aðallega við það að fjölmennar þjóðir eins og Kínverjar og Indverjar hefðu brotist til bjargálna. Það væri frekar fagnaðarefni en hitt, að menn hefðu áhyggjur af ójafnri tekjudreifingu, því að áður fyrr hefði nánast allir verið jafnfátækir. Norberg benti á, að heilsufar hefði batnað stórkostlega, jafnframt því sem dregið hefði úr ofbeldi og stríðum fækkað. Nýmæli í vísindum og tækni gerðu mönnum líka kleift að bæta umhverfið og verjast hamförum.

Þorbjörn Þórðarson fréttamaður var umsegjandi. Hann benti á, að kerfi frjálsra viðskipta ætti sér marga heita andstæðinga og sumir teldu sig afskipta, og kynni það að skýra uppgang þjóðrembuflokka á Vesturlöndum. Tók Norberg undir það, en kvað mikilvægast að auðvelda fólki að laga sig að nýjum aðstæðum. Þess vegna ætti frekar að styrkja endurhæfingu fyrir atvinnulífið en atvinnuleysi. Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðidósent var fundarstjóri. Að erindi Norbergs og umsögn Þorbjörns loknum urðu fjörugar umræður. Prófessor Hannes H. Gissurarson benti meðal annars á, að útvíkkun markaða hefði haft í för með sér fjölgun lítilla ríkja, því að hún gerði smáþjóðum kleift að nýta sér kosti verkaskiptingar og frjálsra viðskipta. Þjóðrækni og frjálslyndi gætu þess vegna farið saman, enda yrði að gera strangan greinarmun á þjóðrækni og þjóðrembu. Stöð tvö tók viðtal við Norberg, sem flutt var í kvöldfréttum 24. október. Einnig ræddu Morgunblaðið og Viðskiptablaðið við hann. Gísli Hauksson, stjórnarformaður RNH, skrifaði grein í „Markaðinn“ í Fréttablaðinu 25. október um boðskap Norbergs. Stuðningur RNH við útgáfu bókar Norbergs og fundinn í Háskólanum er þáttur í samstarfsverkefni við ACRE, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna.

Comments Off

Norberg bjartsýnn um framtíðina: Mánudag 23. október kl. 17

Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála í Háskóla Íslands heldur í samstarfi við Almenna bókafélagið fund í stofu N-132 í Öskju, náttúruvísindahúsi Háskóla Íslands, mánudaginn 23. október kl. 17–18, sem RNH vill vekja athygli á. Frummælandi er hinn heimskunni sænski sagnfræðingur og sjónvarpsmaður Johan Norberg, sem kynnir bók sína, Framfarir: Tíu ástæður til að taka framtíðinni fagnandi, sem er að koma út í íslenskri þýðingu Elínar Guðmundsdóttur. Norberg telur, að stóru fréttirnar séu ekki alltaf sagðar, að fátækt sé að minnka, lífslíkur að aukast, heilsufar að batna, stríðum að fækka, ofbeldi að hörfa, hópar, sem hafa átt undir högg að sækja, eins og konur og samkynhneigðir, að njóta sín betur. Fundarstjóri er Stefanía Óskarsdóttir dósent og umsegjandi Þorbjörn Þórðarson fréttamaður, en síðan taka við frjálsar umræður. Að fundinum loknum áritar Norberg bók sína. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. Hér er viðtal við Norberg um bókina og um stjórnmálaviðhorfið um þessar mundir:

Comments Off