Trump er hættulegur frelsinu

Dr. Palmer rabbar við fundargesti.

Donald Trump er óútreiknanlegur dólgur, sem grefur undan venjum og stofnunum Bandaríkjanna, sagði dr. Tom Palmer, rannsóknarfélagi í Cato stofnuninni og forstöðumaður alþjóðadeildar Atlas Network, á rabbfundi Frjálshyggjufélagsins þriðjudagskvöldið 23. janúar 2018. Palmer kvað erfitt að skýra kjör hans. Líklega hefði það verið eins konar „svartur svanur“, frávik eða slys, þegar margt hefði lagst á eitt um óvænta niðurstöðu. Þau Trump og Hillary Clinton hefðu hvor tveggja verið afleitir kostir. Palmer kvað Trump beita yfirgangi og reyna að hræða menn til hlýðni. Lýðveldissinnar (repúblikanar) væru smeykir við hann vegna kjörfylgis hans, en Lýðræðissinnar (demókratar) hefðu á honum óbeit. Hugsanlega yrði honum vikið frá á kjörtímabilinu (impeachment), en Palmer taldi þó minni líkur á því en meiri. Hann sagði eina skýringuna á fylgi Trumps, að bandarísk orðræða hefði breyst til hins verra á síðustu árum. Nú væri ekki rætt um, hvaða reglum þyrfti að fylgja til að auðvelda gagnkvæma aðlögun ólíkra einstaklinga, heldur væri skírskotað til hópa og andúðar þeirra á öðrum hópum. Hvítt verkafólk fylgdi margt Trump, því að það teldi á sig hallað í orðræðunni, og bæru vinstri menn því nokkra ábyrgð á Trump, þótt sjálfir mótmæltu þeir því harðlega. Ein hættan af Trump væri, að forsetaembættið væri mjög valdamikið, þótt það ætti sér nokkurt mótvægi í dómsvaldi og löggjafarvaldi. Fjörugar umræður urðu að ræðu Palmers lokinni, og sóttu rösklega fjörutíu manns fundinn, sem haldinn var í Petersen-svítunni í Gamla bíói.

Comments Off

Bandaríkin, Trump og frelsið

Þriðjudagskvöldið 23. janúar 2018 rabbar dr. Tom Palmer við áhugafólk um Bandaríkin, Trump og framtíð frelsisins í Petersen-svítunni í Gamla Bíói, Ingólfsstræti 2A. Fundurinn hefst klukkan 20:00 og er á vegum Frjálshyggjufélagsins með stuðningi RNH. Eftir framsöguerindi Palmers eru spurningar og umræður.

Palmer er einn kunnasti og mælskasti frjálshyggjuhugsuður Bandaríkjanna og forstöðumaður alþjóðasviðs Atlas Network í Washington-borg, en þau eru regnhlífarsamtök rannsóknarstofnana um heim allan, sem leita sjálfsprottinna lausna í stað valdboðinna. Hann er einnig rannsóknarfélagi í Cato Institute.

Palmer lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla, er mikill Íslandsvinur og mörgum hér að góðu kunnur. Hann hefur gefið út fjölda bóka um stjórnmál og heimspeki. Stuðningur RNH við fundinn með honum er liður í samstarfsverkefni við ACRE, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Comments Off

Störf Davíðs í Seðlabankanum

Eyþór Arnalds athafnamaður ræðir við afmælisbarnið í móttöku Árvakurs. Ljósm. Eggert Jóhannesson.

Rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, birti grein í Morgunblaðinu á sjötugsafmæli Davíðs Oddssonar 17. janúar 2018, og var hún um ár Davíðs í Seðlabankanum 2005–2009, en sjálfur sat Hannes í bankaráði 2001–2009. Í forsætisráðherratíð Davíðs 1991–2004  jókst atvinnufrelsi á Íslandi verulega, eins og sést á hinni alþjóðlegu vísitölu atvinnufrelsis, sem Fraser stofnunin í Kanada reiknar út ár hvert. Í greininni rifjaði Hannes upp margar viðvaranir Davíðs við útþenslu bankanna, eftir að hann varð seðlabankastjóri, meðal annars í einkasamtölum við Halldór Ásgrímsson og Geir H. Haarde haustið 2005, við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur haustið 2007 og við ýmsa ráðamenn á mörgum fundum á öndverðu ári 2008, þar á meðal Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Hlutu tillögur Davíðs um að flytja Kaupþing úr landi, selja norskan banka í eigu Glitnis og færa Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi úr útbúi (svo að þeir voru í íslenskri lögsögu) í breskt dótturfélag dræmar undirtektir.

Á morgunfundi Viðskiptaráðs 6. nóvember 2007 sagði Davíð: „Ódýrt fé lá um hríð hvarvetna á lausu og ýmsir aðilar hér á landi nýttu það tækifæri af djörfung og krafti. Hin hliðin á útrásinni er þó sú og framhjá henni verður ekki horft að Ísland er að verða óþægilega skuldsett erlendis. Á sama tíma og íslenska ríkið hefur greitt skuldir sínar hratt niður og innlendar og erlendar eignir Seðlabankans hafa aukist verulega þá hafa aðrar erlendar skuldbindingar þjóðarbúsins aukist svo mikið að þetta tvennt sem ég áðan nefndi er smáræði í samanburði við það. Allt getur þetta farið vel en við erum örugglega við ytri mörk þess sem fært er að búa við til lengri tíma.“ Árið 2008 reyndi Seðlabankinn undir stjórn Davíðs hvað eftir annað að gera gjaldeyrisskiptasamninga við erlenda seðlabanka, en stór erlend lán voru þá ekki í boði nema á óhagstæðum kjörum. Seðlabankanum var hvarvetna synjað nema á Norðurlöndum, og voru þó samningar við þau gerðir með eftirgangsmunum. En Ingibjörg Sólrún Gísladóttir taldi viðvaranir Davíðs „útaustur eins manns“ og lagði opinberlega til 4. september 2008, að bankarnir héldu áfram innlánasöfnun erlendis.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í móttöku Árvakurs. Ljósm. Eggert Jóhannesson.

Þegar ljóst varð í septemberlok 2008, að bönkunum yrði ekki bjargað, beitti Davíð sér fyrir því, að varnarveggur yrði reistur um Ísland sem fullvalda ríki (ring-fencing) með því að skilja hinn innlenda hluta bankahlutans frá hinum erlenda og taka ekki ábyrgð á skuldbindingum bankanna, en veita þess í stað innstæðueigendum forgangskröfur í bú þeirra. Reyndist það gæfuspor, en það auðveldaði líka leikinn, að ríkissjóður var nú nær skuldlaus. Davíð beitti sér líka gegn því frá byrjun, að ríkissjóður tæki á sig skuldbindingar vegna Icesave-reikninga Landsbankans. Í grein sinni í Morgunblaðinu lét Hannes í ljós þá skoðun, að aðfinnslur Rannsóknarnefndar Alþingis að störfum Davíðs og starfsbræðra hans tveggja í Seðlabankanum hefðu snúist um smáatriði, sem hefðu engu máli skipt um bankahrunið. Virtist nefndin hafa ætlast til meiri skjalavinnu, þegar þurfti einmitt að taka ákvarðanir fljótt og örugglega. Hannes er að vinna að skýrslu á ensku fyrir fjármálaráðuneytið um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins. Hann kynnti nokkrar helstu niðurstöður hennar á fundi hjá Sagnfræðingafélaginu 17. október 2017.

Davíð hefur frá 2009 verið ritstjóri Morgunblaðsins, og hélt útgáfufélag blaðsins, Árvakur, móttöku síðdegis á afmælisdaginn í húsakynnum sínum, og var hún öllum opin, enda mjög fjölmenn, en um kvöldið bauð Davíð nokkrum vinum sínum og fjölskyldu til samsætis.

Grein Hannesar um Davíð og bankahrunið

Comments Off

Líftaug landsins

Ragnheiður Kristjánsdóttir, Sumarliði Ísleifsson og Helgi Þorláksson færa forseta Íslands eintak af verkinu.

Rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, var einn framsögumanna á málþingi Sagnfræðistofnunar í Háskóla Íslands þriðjudaginn 16. janúar 2018 síðdegis um nýútkomna tveggja binda bók um utanríkisverslun Íslands, Líftaug landsins. Ræddi einn fræðimaður við hvern bókarhöfund: Orri Vésteinsson fornleifafræðingur við Helga Þorláksson, prófessor emeritus, um verslun að fornu; Hannes við Gísla Gunnarsson, prófessor emeritus, um einokunarverslunina 1602–1787; Hrefna Róbertsdóttir skjalavörður við Önnu Agnarsdóttur, prófessor emeritus, um fríhöndlun; Gunnar Karlsson, prófessor emeritus, við Helga Skúla Kjartansson prófessor um verslunarfrelsi á 19. öld; Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor við Guðmund Jónsson prófessor um utanríkisverslun Íslendinga á 20. öld. Ritstjóri bókarinnar var Sumarliði Ísleifsson sagnfræðingur, en málstofustjóri Ragnheiður Kristjánsdóttir, forstöðumaður Sagnfræðistofnunar.

Hannes kvað utanríkisverslun hafa á 20. öld skipt Íslendinga, sem þá hefðu nýlega orðið fullvalda þjóð, miklu máli, eins og sæist á dæmum um, hvernig þeir hefðu í raun sætt sig við skerðingu á fullveldi sínu til tryggingar mörkuðum. Dæmi væru, þegar leyfður hefði verið innflutningur á léttum vínum frá Spáni 1922 þrátt fyrir áfengisbann, þegar Íslendingar hefðu haldið áfram að selja Ítölum fisk 1935 þrátt fyrir viðskiptabann Þjóðabandalagsins á þá sökum stríðsins í Eþíópíu og þegar látið hefði verið undan kröfu Nasista-Þýskalands 1939 um að banna bók eftir Wolfgang Langhoff um þýskar fangabúðir. Hannes sagði rannsókn Gísla Gunnarssonar á einokunarversluninni hafa opnað augu sín fyrir því, að hún hefði verið innheimtustofnun fyrir auðlindaskatt, sem runnið hefði úr sjávarútvegi í landbúnað: Með konunglegum verðskrám hefði verði á sjávarafurðum verið haldið niðri, en verði á landbúnaðarafurðum haldið langt fyrir ofan heimsmarkaðsverð. Komið hefði verið með þessu í veg fyrir vöxt sjávarútvegs og íslenskt atvinnulíf staðnað í nokkrar aldir.

Margt bar á góma. Þeir Orri Vésteinsson og Helgi Þorláksson ræddu um þær kenningar Helga, að utanríkisverslun hefði verið sáralítil á þjóðveldisöld og aðallega miðast við þarfir höfðingja og kirkjunnar og að ákvæðin í Gamla sáttmála 1262 um siglingu sex skipa á ári til Íslands hefðu verið um hámark, ekki lágmark. Höfðingjar hefðu viljað ráða versluninni og ekki kært sig um of marga aðkomumenn. Gylfi Zoëga rifjaði upp, að í upphafi 20. aldar hefði Ísland verið eitt fátækasta land Vestur-Evrópu. Í lok aldarinnar hefði það verið eitt ríkasta land heims. Eitthvað hefði bersýnilega verið rétt gert, sagði Gylfi. Spurningin væri, hvað það væri. Gylfi varpaði fram nokkrum tilgátum, sem snerust aðallega um stofnanir, reglur og venjur Íslendinga. Til dæmis hefðu íslensk lög mjög miðast við dönsk, en Danir stæðu framarlega um þrifnað og menningu. Hagkerfið íslenska hefði aldrei verið alveg lokað þrátt fyrir höftin, og það hefði smám saman opnast á seinni hluta aldarinnar. Eignarréttur hefði verið hér virtur, og nefndi Gylfi sérstaklega, hversu vel heppnað kvótakerfið í sjávarútvegi væri. Íslendingar hefðu búið að auðlindum, gjöfulum fiskistofnum, gnótt orku, legu landsins og nú nýlega náttúrufegurð. Framlag Hannesar H. Gissurarsonar til málstofunnar var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Comments Off

Leiðtoganámskeið frjálslyndra framhaldsskólanema

Hannes flytur erindi sitt á leiðtoganámskeiðinu.

Rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, flutti erindi um frjálshyggju á leiðtoganámskeiði Evrópusamtaka frjálslyndra stúdenta, European Students for Liberty, fyrir nemendur í íslenskum framhaldsskólum og háskólum laugardaginn 13. janúar 2018 í Kópavogi. Sáu þeir Sigurvin Jarl Ármannsson og Magnús Örn Gunnarsson um að skipuleggja námskeiðið, en þar leiðbeindu einnig Gísli Freyr Valdórsson almannatengill og Gunnlaugur Jónsson fjárfestir. Hannes kvað frjálshyggjurnar jafnmargar frjálshyggjumönnunum. Að sumu leyti fælist frjálshyggja í gamalli og góðri alþýðuspeki, eins og þeirri athugasemd Einars Þveræings forðum, að konungar væru misjafnir, sumir góðir og aðrir vondir, og væri því best að hafa engan konung. Hann rifjaði líka upp hnyttin orð Lofts Bjarnasonar útgerðarmanns: „Ég get sofið á næturnar, þótt öðrum gangi vel.“

Hannes bætti við, að sígild frjálshyggja fælist í kröfu Johns Lockes um takmörkun valdsins og kenningu Adams Smiths um kostinn á sjálfsprottnu skipulagi. Fræðileg frjálshyggja á okkar dögum væri einkum fimmþætt. Austurrísku hagfræðingarnir, Hayek og Mises, hefðu bent á, að dreifing þekkingar krefist dreifingar valds og samkeppnin væri þrotlaus þekkingarleit. Chicago-hagfræðingarnir, Friedman, Stigler, Becker og Coase, hefðu leitt út, að verðlagning væri oft skynsamlegri til lausnar málum en skattlagning. Virginíu-hagfræðingarnir, Buchanan og Tullock, hefðu minnt á þá gömlu vinnutilgátu, að menn kepptu aðallega að eigin hagsmunum, og ætti það ekki síður við um valdsmenn en kaupsýslumenn. Í fjórða lagi væri um að ræða heimspekilega frjálshyggju. Karl R. Popper hefði fært rök fyrir „neikvæðri nytjastefnu“, sem fælist í að lágmarka böl (sem menn hefðu tiltölulega skýrar hugmyndir) frekar en hámarka hamingjuna (sem væri miklu óskýrara hugtak). Robert Nozick hefði mælt fyrir lágmarksríki og tekjudreifingu samkvæmt frjálsu vali. Í fimmta lagi hefði Ayn Rand í skáldsögum sínum komið orðum að róttækri einstaklingshyggju, en þrjár þeirra hefðu komið út á íslensku, Undirstaðan (Atlas Shrugged), Uppsprettan (The Fountainhead) og Kíra Argúnova (We the Living).

Erindi Hannesar á leiðtoganámskeiðinu í Kópavogi var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Glærur Hannesar 13. janúar 2018

Comments Off

Grafir án krossa

Í baksýn eru veggspjöld um dapurlegt hlutskipti sígauna í seinna stríði.

Á ársþingi Evrópuvettvangs um minningu og samvisku, sem RNH á aðild að, í Vilnius í Litáen 28.–30. nóvember 2017 var eitt aðalumræðuefnið fjöldamorð á sígaunum, öðru nafni Róma-fólki, í stríðinu, en þar gengu nasistar harðast fram. Evrópuvettvangurinn var stofnaður 2011 til að fylgja eftir samþykktum Evrópuráðsins og Evrópuþingsins um að fordæma alræði kommúnista ekki síður en nasista og halda minningu fórnarlamba þeirra á lofti. Forseti vettvangsins var frá upphafi Göran Lindblad, sem hafði beitt sér í Evrópuráðinu fyrir slíkri samþykkt, á meðan hann var þingmaður Hófsama sameiningarflokksins sænska. Á þinginu í Vilnius var prófessor Lukacz Kaminski frá Póllandi kjörinn forseti vettvangsins. Í fulltrúaráði vettvangsins sitja meðal annarra prófessor Stéphane Courtois, ritstjóri Svartbókar kommúnismans, sem kom út á íslensku 2009, og Anne Applebaum, dálkahöfundur í Washington Post og höfundur bóka um þrælabúðir Stalíns og kúgunina austan járntjalds. Þingið var haldið í Tuskulenai-safninu í friðargarðinum í Vilnius, en þar er fjöldagröf rúmlega sjö hundruð manna, sem kommúnistar tóku af lífi næstu þrjú árin, eftir að ráðstjórnin rússneska hertók landið 1944. Lagði Lindblad, fráfarandi forseti vettvangsins, blómsveig á minnisvarða þeirra þar í garðinum. Rannsóknarsetur Litáens um fjöldamorð og andspyrnu sá um skipulagningu þingsins, en þar fengu fern samtök eða stofnanir aðild að vettvangnum, þar á meðal Collège des Bernardines í París.

Prófessor Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, sótti þingið og gerði þar grein fyrir ýmsum verkefnum, sem RNH sinnir ásamt ACRE, Evrópusamtökum íhaldsmanna og umbótasinna, undir nafninu „Evrópa fórnarlambanna“. Meðal annars hefur Hannes verið fenginn til þess að skrifa skýrslu á ensku um „Raddir fórnarlambanna“, The Voices of the Victims, og er hún væntanleg í árslok 2017. Þar leiðir hann rök að því, að stalínisminn hafi verið rökrétt framhald af marxisma frekar en frávik frá honum og að verjendur stalínismans á Vesturlöndum hafi verið að einhverju marki siðferðilega samábyrgir böðlunum í Kremlkastala. Hann fer þar stuttlega yfir bókmenntir tuttugustu aldar um alræðisstefnuna, þar á meðal skáldsögur Georges Orwells og Arthurs Koestlers, Nítján hundruð áttatíu og fjögur og Myrkur um miðjan dag, og frásagnir flóttamanna og fyrrverandi fanga, til dæmis Ég kaus frelsið eftir Víktor Kravtsjensko, Úr álögum eftir Jan Valtin, Konur í einræðisklóm eftir Margarete Buber-Neumann, Bóndann eftir Valentín González, Nytsaman sakleysingja eftir Otto Larsen, Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir Ants Oras og Greinar um kommúnisma eftir Bertrand Russell. Einnig ræðir hann um niðurstöður þeirra sagnfræðinga, sem reyna að hafa hið sannara um alræðisríki kommúnista, meðal annarra Robert Conquest, Stéphane CourtoisAnne Applebaum, Bent Jensen og Frank Dikötter.

Fundarmenn á ársþingi Evrópuvettvangsins.

Comments Off