Hannes í Helsinki um norræna frjálshyggju

Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, flutti erindi á ráðstefnu norrænna íhaldsstúdenta í Helsinki í Finnlandi 20. maí 2023 um, hvað skildi norræna frjálshyggju frá sambærilegum stefnum í öðrum Evrópulöndum. Hann benti á, að norrænar þjóðir hefðu allt frá frumdögum germanskrar menningar átt sér hugmynd um sjálfstjórn einstakra ættbálka, sem farið hefði fram með því, að menn hefðu komið saman á þingum og ráðið ráðum sínum, eins og rómverski sagnritarinn Tacitus sagði frá í Germaníu. Til hefði orðið norrænn réttur, viðleitni bænda til að halda konungum í skefjum, sem lýst væri í ræðum Þorgeirs Ljósvetningagoða og Þorgnýs lögmanns hins sænska, svo að ekki sé minnst á orð Einars Þveræings. Þessari hugmynd um lög sem sammæli borgaranna frekar en fyrirmæli að ofan sjái líka stað í hinum Jósku lögum frá 1241, en þau hefjast einmitt á því, að með lögum skuli land byggja. Enn fremur eru reglur fyrir dómara eftir Olaus Petri frá um 1525 í sama anda.

Tvisvar hefði verið reynt að rjúfa hina norrænu hefð laga og réttar, fyrst þegar einvaldskonungar hefðu seilst til valda á síðmiðöldum og eftir það og síðan þegar svokallaðir jafnaðarmenn hefðu öðlast víðtæk völd á tuttugustu öld í krafti fjöldafylgis. En einveldi í vaðmálsklæðum væri engu skárra en purpuraklætt einveldi, sagði danski frjálshyggjumaðurinn Nathan David á nítjándu öld. Aðalatriðið væri að takmarka ríkisvaldið, ekki í höndum hvers það væri. Hannes benti á, að jafnt konungar sem jafnaðarmannaleiðtogar hefðu þó þurft að laga stefnu sína að hinni fornu norrænu hefð, og raunar hefði jafnaðarstefna látið undan síga í lok tuttugustu aldar. Velgengni Norðurlanda væri aðallega vegna öflugs réttarríkis, frjálsra alþjóðaviðskipta, mikillar samkenndar og ríks trausts manna í milli, en úr því kynni að draga með fjöldainnflutningi fólks, ef það vildi ekki semja sig að norrænum siðum.

Comments Off

Starfslokaráðstefna Hannesar

Í tilefni þess, að Hannes H. Gissurarson varð sjötugur 19. febrúar 2023, hélt Háskóli Íslands 180 manna starfslokaráðstefnu honum til heiðurs 12. maí, þar sem ellefu manns töluðu, en síðan var móttaka í húsakynnum skólans.

Dr. Barbara Kolm, forstöðumaður Hayek-stofnunarinnar í Vín og varaformaður bankaráðs austurríska seðlabankans, talaði um trausta peninga. Prófessor Bruce Caldwell, Duke-háskóla, rakti rannsóknir sínar á ævi Friedrichs von Hayeks. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lýsti því, hvernig Íslendingar komust út úr fjármálakreppunni, sem skall á 2008. Gabriela von Habsburg, myndhöggvari og fyrrverandi sendiherra Georgíu í Þýskalandi (og barnabarn síðasta keisara Austurríkis-Ungverjalands), sagði sögu Georgíu, smáríkis í hinum enda Evrópu. Prófessor Þráinn Eggertsson greindi hina stórfelldu tilraun í Kína til að sameina vaxandi atvinnulíf og flokkseinræði. Prófessor Stephen Macedo, Princeton-háskóla, varaði við þeirri illsku, sem hlaupin væri í stjórnmálaátök.

Prófessor Þór Whitehead ræddi um afstöðu Churchills og Roosevelts til Íslands. Dr. Neela Winkelmann, fyrrverandi forstöðumaður Evrópuvettvangs minningar og samvisku, sagði frá tilgangi og starfsemi vettvangsins. Yana Hrynko, safnstjóri í Kænugarði, fór orðum um samskipti Rússa og Úkraínumanna. Prófessor Ragnar Árnason leiddi rök að því, að nýta mætti ýmsar auðlindir með því að finna þeim eigendur og ábyrgðarmenn. Dr. Tom G. Palmer, forstöðumaður alþjóðasviðs Atlas Network, kvaðst hafa áhyggjur af þróuninni víða í átt frá lýðræði og frelsi.

Allar þessar ræður eru á Netinu. Forseti Íslands, dr. Guðni Th. Jóhannesson, tók á móti ræðumönnum og fleiri gestum á Bessastöðum, jafnframt því sem forseti Alþingis, Birgir Ármannsson, sýndi erlendum gestum Alþingishúsið og fjármálaráðherra bauð ræðumönnum og fleiri gestum í Ráðherrabústaðinn að ráðstefnunni lokinni.

Comments Off

Málstofa í Lissabon Hannesi til heiðurs

Á fjölmennri ráðstefnu evrópskra frjálshyggjustúdenta í Lissabon 22.–23. apríl var sérstök dagskrá helguð Hannesi H. Gissurarsyni, rannsóknastjóra RNH, í tilefni sjötugsafmælis hans og starfsloka í Háskóla Íslands. Robert Tyler, sérfræðingur í hugveitunni New Direction í Brüssel, ræddi við Hannes, sem sagði samkomunni, að þrjár bækur hefðu haft mest áhrif á sig ungan, The Gulag Archipelago eftir Aleksandr Solzhenítsyn, The Open Society and Its Enemies eftir Karl Popper og The Road to Serfdom eftir Friedrich von Hayek. Hefði Hayek komið til Íslands í apríl 1980 og Milton Friedman í ágúst 1984, og hefðu fyrirlestrar þeirra vakið mikla athygli. Hitti Hannes þá tvo oft eftir það, en kvað einkennilegt til þess að vita, að ekki væru nú margir á lífi, sem kynnst hefðu þessum andans jöfrum jafnvel.

Mörgum ráðstefnugestum þótti merkilegt, að Hannes hefði haustið 1984 rekið ásamt nokkrum vinum ólöglega útvarpsstöð í því skyni að mótmæla ríkiseinokun á útvarpsrekstri. Eftir eltingarleik í röska viku fann lögreglan loks stöðina og lokaði, og hlaut Hann eftir það sinn fyrsta dóm, og sagði Hannes þennan dóm eina, sem hann væri stoltur af. En þeir félagar náðu tilgangi sínum, því að í framhaldinu samþykkti Alþingi að afnema ríkiseinokunina.

Hannes sagði líka frá hinum víðtæku umbótum, sem Davíð Oddsson og aðrir samherjar hans beittu sér fyrir upp úr 1991, en kostir þeirra sáust best á því, hversu snöggir Íslendingar voru að rétta úr kútnum eftir bankahrunið 2008. Rifjaði Hannes upp, þegar hann fór með Davíð í Hvíta húsið 6. júlí 2004, en þar sungu þeir í Ávölustofu (Oval Office) afmælissönginn alkunna fyrir Bush Bandaríkjaforseta, því að hann varð 58 ára þennan dag, þótt ekki væri söngurinn jafnkliðmjúkur og þegar Marilyn Monroe söng forðum fyrir Kennedy forseta, eins og Colin Powell utanríkisráðherra, sem stóð þá við hlið Hannesar, hafði orð á við hann.

Comments Off

Hannes gagnrýnir Rawls í Amsterdam

Fyrsta kauphöll heims, sem enn starfar, var stofnuð í Amsterdam árið 1602. Hún hafði lengi aðsetur í reisulegu húsi við Oudebrugsteeg (Gömlubrúarstíg), og þar flutti Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, fyrirlestur 20. apríl 2023 í fundarsal stjórnar kauphallarinnar. Átti það vel við, því að Hannes varði þar kapítalismann fyrir rökum jöfnunarsinna. Fremstur þeirra fræðilega var bandaríski heimspekingurinn John Rawls, sem setti fram kenningu um réttlæti árið 1971. Hún var í fæstum orðum, að réttlátt væri það skipulag, þar sem hinir verst settu nytu eins góðra lífskjara og framast gæti orðið. Um slíkt skipulag hlytu upplýstir menn, sem vissu þó ekki, hvernig þeim myndi sjálfum vegna í lífinu, að semja.

Hannes spurði, hvers vegna upplýstir menn, sem væru að semja um framtíðarskipulag, hefðu aðeins í huga kjör hinna verst settu. Hvað um hina best settu, sem iðulega væru hinir hæfustu? Væri ekki skynsamlegra að semja um öryggisnet, sem enginn félli niður fyrir, en leyfa hinum hæfustu síðan að afla eins hárra tekna og þeir gætu? Rawls horfði líka fram hjá því, hvers vegna sumir lentu í röðum hinna verst settu, til dæmis vegna leti og óráðsíu. Frjálst val einstaklinga á markaði hlyti enn fremur að raska tekjudreifingunni, svo að stundum yrði hún ójafnari, án þess að neinu ranglæti hefði verið beitt. Það væri eitthvað einkennilegt við að segja, að Salieri hefði orðið verr settur við það, að Mozart kom í heiminn.

Hvað sem slíkum röksemdum liði, væri ljóst, sagði Hannes, að hinir verst settu nytu miklu betri lífskjara við kapítalisma en annars staðar. Væri hagkerfum heims skipt í fernt eftir atvinnufrelsi, reyndust meðaltekjur 10% tekjulægsta hópsins í frjálsasta fjórðungnum hærri en meðaltekjur allra í ófrjálsasta fjórðungnum!

Comments Off

Hannes gagnrýnir Piketty í París

Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, fetaði í fótspor þjóðsagnahetjunnar Sæmundar fróða í Svartaskóla, Sorbonne, í París, nema hvað þar flutti Hannes fyrirlestur 19. apríl 2023, en var ekki aðeins að afla fróðleiks eins og Sæmundur forðum. Fyrirlestur Hannesar hafði meðal annars að geyma gagnrýni á kenningar franska hagfræðingsins Tómasar Pikettys, átrúnaðargoðs vinstri manna. Piketty hefur ekki áhyggjur af fátækt, heldur velmegun. Sumir séu orðnir allt of ríkir, og ná þurfi auðnum af þeim með háum alþjóðlegum sköttum.

Í Svartaskóla benti Hannes á, að í heiminum sem heild hefði tekjudreifing orðið jafnari síðustu áratugi, þótt líklega hefði hún orðið nokkru ójafnari á Vesturlöndum. Í suðrænum löndum hefur fátækt snarminnkað og hundruð milljóna stikað á sjömílnaskóm í bjargálnir. Í útreikningum sínum leiðrétti Piketty ekki fyrir skekkjum, sem hljótast af fasteignabólum (ofmati á eignum efnafólks) og lækkun skatta á háar tekjur (svo að þær koma skýrar og beinna fram), og tæki lítið sem ekkert tillit til jöfnunaráhrifa skatta (vanmæti kaupmátt tekjulægsta hópsins). Piketty lokaði líka augunum fyrir því gagni, sem auðmenn gera án þess að ætla sér það: Þeir verða mótvægi við opinberu valdi, lækka tilraunakostnað nýjunga, sem breytast úr munaðarvöru í almenningseign, og leggja fé í fjárfestingar.

Áhyggjur Pikettys af því, að auðurinn hafi orðið fastur við fámennan hóp, er enn fremur tilefnislaus að sögn Hannesar. Á listum, sem birtast reglulega um ríkasta fólkið, sést mikil breyting. Áður fyrr hafði meiri hlutinn erft auðæfi sín. Nú hefur meiri hlutinn skapað þau sjálfur. Raunar er sú skáldsaga frá öndverðri nítjándu öld, sem Piketty vitnar oftast í, Faðir Goriot eftir Balzac, einmitt lýsing á því, hversu fallvaltur auðurinn er.

Comments Off

Hannes um frumkvöðla í Lundúnum

Frá v.: dr. Barbara Kolm, dr. Dan Mitchell og Hannes.

Í málstofu í Lundúnum 18. apríl var Hannesi H. Gissurarsyni, rannsóknastjóra RNH, falið að ræða um hlutverk frumkvöðla á frjálsum markaði. Þegar Karl Marx skipti á nítjándu öld fólki í tvær stéttir, borgara og öreiga, horfði hann fram hjá þeim, sem lifa af að selja þekkingu sína, kunnáttu og hugvit frekar en hrátt vöðvaafl, svo sem rafvirkjum, tölvunarfræðingum, læknum og verkfræðingum. Atvinnulífið er ekki ein stór verksmiðja, heldur iðandi kös ótal ólíkra fyrirtækja og einstaklinga, sem skiptast á vöru og þjónustu, þegar þeir sjá sér hag í því. Marx horfði líka fram hjá þeim, sem knýja áfram hagkerfið með því að fitja upp á á nýjungum, frumkvöðlum, áhættufjárfestum og framkvæmdamönnum.

Flestir viðurkenna, að nýsköpun sé nauðsynleg, sagði Hannes. En spurningin er, hvort hún sé líklegri við einn opinberan nýsköpunarsjóð með tíu manna stjórn, sem ákveði, í hverju skuli festa fé, eða við tíu þúsund eða fleiri aflögufæra áhættufjárfesta. Sjóðurinn gerir í mesta lagi nokkrar tilraunir á ári, en tíu þúsund áhættufjárfestar gera væntanlega að minnsta kosti tíu þúsund tilraunir. Enn fremur er hæfileikinn til að sannfæra meiri hlutann í sjóðstjórn um verkefni, til dæmis með áferðarfallegum glærum og myndugum málflutningi, ekki nauðsynlega hæfileikinn til að reka fyrirtæki með hagnaði til langs tíma. Ályktunin hlýtur að vera, að nýsköpun sé líklegust í skipulagi einkaeignar, viðskiptafrelsis og valddreifingar, markaðskerfi.

Frumkvöðlar eru að sögn Hannesar sjaldnast reknir áfram af ágirndinni einni saman, heldur miklu miklu fremur af sköpunargleði, forvitni, nýjungagirni og metnaði. Og um leið og þeir hagnast sjálfir, gera þeir öðrum gagn. Þetta sést best á kjörum fátæklinga í ólíkum hagkerfum. Ef löndum heims er skipt í fernt eftir því, hversu víðtækt atvinnufrelsi er, þá eru meðaltekjur 10% tekjulægsta hópsins í frjálsasta fjórðungnum hærri en meðaltekjur í heild í ófrjálsasta fjórðungnum samkvæmt mælingum Fraser-stofnunarinnar í Vancouver.

Comments Off