Markús: Þriðjudag 3. október kl. 12:05

RNH vekur athygli á, að þriðjudaginn 3. október flytur Markús Þ. Þórhallsson erindið „Til varnar Íslandi. Saga InDefence hópsins 2008-2013“. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er annar fyrirlestur þessa haustmisseris í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Icesave deilan setti mark sitt á íslenskt samfélag um árabil. Hrun fjármálakerfisins og afleiðingar þess urðu til þess að InDefence hópurinn var stofnaður. Tilurð hópsins og tilgangur voru rannsökuð, hverjir voru meðlimir og hvaða hlutverk hver og einn hafði innan hans. Sú kenning var gaumgæfð að þeir hafi litið á sig sem frelsishetjur samtímans í rómantískum anda 19. aldarinnar. Þjóðernisleg orðræða þeirra var skoðuð og gagnrýni sem þeir fengu úr ýmsum áttum og efasemdir um heilindi þeirra. Hópurinn var settur saman af fólki sem flest hefur numið við erlenda háskóla. Það hefur verið álitinn mesti munurinn á InDefence og öðrum grasrótarhópum.

Hver réð og hvernig voru ákvarðanir teknar? Raktar eru ástæður þess að farið var af stað í áróðursstríð eftir að Bretar beittu hryðjuverkalögum og ferðin til Westminster sem færði þeim óvenjulegt tilboð. Barátta InDefence gegn Icesave-samningunum, aðkoma þeirra að þjóðaratkvæðagreiðslum og samskipti þeirra við alla aðila málsins eru gaumgæfð. InDefence-hópnum var fylgt til ársins 2013 þegar niðurstaða EFTA dómsstólsins lá fyrir, þó hópurinn sé enn til.

Markús Þ. Þórhallsson er með meistaragráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands og byggir fyrirlesturinn á lokaverkefni hans. Markús leggur nú stund á meistaranám í frétta- og blaðamennsku og stjórnar einnig morgunútvarpi á Útvarpi Sögu. Næsta fyrirlestur í fundaröðinni mun Hannes H. Gissurarson prófessor flytja þriðjudaginn 17. október um „Bankahrunið í sögulegu ljósi“.

Comments Off

Fjörug og fjölsótt stúdentaráðstefna

Friedman talar.

RNH studdi svæðisþing Evrópusamtaka frjálslyndra stúdenta og Samtaka frjálslyndra framhaldsskólanema, sem haldið var í Háskólanum í Reykjavík laugardaginn 30. september 2017. Stóð RNH að komu þriggja ræðumanna á fundinn, þeirra dr. Daniels Mitchells, prófessors Edwards Stringhams og prófessors Davids D. Friedmans. Þingið var fjölsótt og tókst hið besta. Mitchell minnti á, að enginn efaðist um Laffer-áhrifin svokölluðu: Tekjur af skattheimtu geta náð hámarki, en lækka síðan. Hann kvaðst sjálfur engan áhuga hafa á að hámarka tekjur af skattheimtu, heldur hagvöxt, og það yrði áreiðanlega við talsvert lægra mark en hámark skattekna. Stringham benti á, að í frjálsum samningum gætu menn leyst úr mörgum málum án atbeina hins opinbera, og rakti dæmi um það úr nýlegri bók sinni, Sjálfsprottinni reglu (Private Governance), sem kom út hjá Oxford University Press 2015. Friedman talaði um lög án ríkisvalds, en hann vinnur nú að bók um það efni. Friedman hefur skrifað fjölda bóka um tengsl hagfræði og laga og er áhugamaður um íslenska þjóðveldið.

Fyrir hádegi stjórnaði Erna Ýr Öldudóttir þinginu, en eftir hádegi Ragnhildur Kolka. Þau Magnús Örn Gunnarsson, Marta Stefánsdóttir og Ísak Hallmundarson höfðu veg og vanda af skipulagningu þingsins auk margra annarra framhaldsskólanema. Nokkrir erlendir stúdentar sóttu það auk íslensku þátttakendanna. Rannsóknastjóri RNH, prófessor Hannes H. Gissurarson, bauð fyrirlesurum og öðrum erlendum þátttakendum og nokkrum fleiri gestum í grillveislu heim til sín á föstudagskvöldið, en Gamma hélt öllum þátttakendum hóf á laugardagskvöldið. Gestir voru einnig leystir út með bolum og bókum, sem heimspekingurinn dr. Tom Palmer tók saman fyrir Atlas Foundation, Hvers vegna frelsi? (Why Liberty: Your Life, Your Choices, Your Future) og Friður, ást og frelsi (Peace, Love & Liberty). Stuðningur RNH við svæðisþingið var þáttur í samstarfsverkefni með ACRE, Evrópusamtökum íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Rannsóknastjóri RNH, prófessor Hannes H. Gissurarson, sleit þinginu með nokkrum orðum:

Comments Off

Friedman: Mánudag 2. október kl. 16

David D. Friedman

Prófessor David D. Friedman flytur erindi á ráðstefnu European Students for Liberty og Samtaka frjálslyndra framhaldsskólanema í Háskólanum í Reykjavík, stofu V101, laugardaginn 30. september kl. 15–16. En hann mun líka tala á sameiginlegri málstofu hagfræðideildar, lagadeildar og heimspeki- og sagnfræðideildar Háskóla Íslands, stofu Odda 202, mánudaginn 2. október kl. 16–17. Þar mun prófessor Jesse Byock, sem hefur gefið út fjölda bóka um íslenska þjóðveldið, einnig segja nokkur orð um kenningar Friedmans. Dr. Birgir Þór Runólfsson hagfræðidósent, sem skrifaði doktorsritgerð um endalok íslenska þjóðveldisins, verður fundarstjóri.

Erindi sitt nefnir Friedman „Engan konung nema lögin“ og vísar þar til frægra ummæla Adams frá Brimum um, að Íslendingar hefði á þjóðveldistímanum ekki haft annan konung en lögin. Friedman er sannkallaður fjölfræðingur. Þótt hann kenni hagfræði og lög, hefur hann ekki setið eitt einasta námskeið í hagfræði, heldur tók doktorspróf sitt í fræðilegri eðlisfræði. Hann hefur skrifað hagfræðilega greiningu á sektum og viðskiptaleyndarmálum, stærð ríkja, stríðum, fólksfjölda og íslenska þjóðveldinu. Hann hefur gefið út fjölda bóka um hagfræði og lög, en einnig tvær skáldsögur, ævintýri frá miðöldum, og ásamt konu sinni matreiðslubók um miðaldamat. RNH styður málstofuna sem þátt í samstarfsverkefni með ACRE, Evrópusamtökum íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Comments Off

David Friedman á stúdentaráðstefnu

David D. Friedman

Margt kunnra ræðumanna verður á ráðstefnu Evrópusamtaka frjálslyndra stúdenta og Samtaka frjálslyndra framhaldsskólanema á Íslandi laugardaginn 30. september. Þar á meðal er prófessor David D. Friedman. Hann er sonur hins áhrifamikla hagfræðings Miltons Friedmans, en sjálfur kunnur fyrir róttæka markaðshyggju. Kallar David Friedman sig anarkó-kapítalista, því að hann telur einstaklinga geta með frjálsum viðskiptum leyst úr flestum eða öllum sínum málum. Friedman hefur mikinn áhuga á miðaldasögu og hefur meðal annars skrifað grein um íslenska þjóðveldið. Hann hefur gefið út bækur um lög og hagfræði og tvær skáldsögur. Á ráðstefnunni ræðir dr. Daniel Mitchell rökin fyrir skattalækkunum og prófessor Edward Stringham lýsir hlutverki frumkvöðla í frjálsu atvinnulífi.

David Friedman var fyrsti fyrirlesarinn hjá Félagi frjálshyggjumanna haustið 1979, en þá talaði hann um réttarvörslu í höndum einstaklinga, eins og tíðkaðist í íslenska þjóðveldinu. Daniel Mitchell hefur nokkrum sinnum komið til Íslands og haldið erindi um skattamál. Edward Stringham var einn af þeim, sem fengu sérstakan stúdentastyrk til að sækja ráðstefnu Mont Pelerin samtakanna í Reykjavík í ágúst 2005. Nokkrir aðrir ræðumenn kynna hreyfingu frjálslyndra stúdenta og helstu sjónarmið. Ráðstefnan er haldin í stofu V101 í Háskólanum í Reykjavík frá kl. 11 til 16. Allir eru velkomnir, á meðan húsrúm leyfir. Skráningargjald er 1.000 kr., og er í því innifalið kaffi, hádegisverður, kvöldfagnaður og bækur. RNH styður ráðstefnuna sem þátt í samstarfsverkefni með ACRE, Evrópusamtökum íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Comments Off

Yeonmi Park: Gleymið ekki Norður-Kóreu

Yeonmi, Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Jónas Sigurgeirsson útgefandi. Ljósm.: visir.is Anton Brink

Yeonmi Park, höfundur bókarinnar Með lífið að veði, flutti erindi um lífið í Norður-Kóreu fyrir troðfullum hátíðasal Háskóla Íslands föstudaginn 25. ágúst. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra kynnti Yeonmi, en bók hennar hefur verið á metsölulistum á Íslandi og víðar mánuðum saman. Hún kvað erfitt að lýsa ástandinu í Norður-Kóreu fyrir öðrum. Þar hefði Kim-ættin stjórnað með harðri hendi frá lokum síðasta stríðs, og væru einræðisherrarnir tignaðir sem guðir. Sagðist hún fegin að sjá, hversu vingjarnlegur og blátt áfram forsætisráðherra Íslands væri í samanburði við þá Kim-menn. Jafnmargir hefðu týnt lífi í hungursneyðinni í Norður-Kóreu á tíunda áratug 20. aldar og byggju nú á Íslandi, um og yfir 300 þúsund manns. Hún hefði rekið upp stór augu, þegar hún hefði í fyrsta skipti séð ruslatunnu í öðrum löndum. Í Norður-Kóreu væri engu fleygt, sem ætilegt væri.

Yeonmi er á 24. aldursári. Hún stundar nú háskólanám í Bandaríkjunum. Ljósm. visir.is Anton Brink

Í erindi sínu lýsti Yeonmi ævintýralegum flótta sínum og móður sinnar til Kína fyrir tíu árum, en þar hefðu þær mæðgur lent í klóm mansalshrings, sem hefði selt þær í nauðungarhjónabönd. Eftir tveggja ára misjafna vist í Kína hefðu þær flúið yfir Gobi-eyðimörkina til Mongolíu og eftir mikla mæðu komist þaðan til Suður-Kóreu. Yeonmi kvaðst hafa verið lengi að venjast frelsinu í Suður-Kóreu. Hún hefði til dæmis ekki vitað, hverju hún ætti að svara, þegar hún var spurð, hver eftirlætislitur hennar væri. Í Norður-Kóreu hefði rauður verið fyrirskipaður litur, því að hann væri litur byltingarinnar og verkalýðsins. Norður-Kóreumenn ættu erfitt uppdráttar í Suður-Kóreu, því að þeir væru vanir að hlýða, en ekki að velja og hafna sjálfir.

Vera Knútsdóttir, stjórnmálafræðingur og framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, stjórnaði umræðum að erindinu loknu. Aðspurð sagðist Yeonmi telja, að Kínverjar myndu ráða úrslitum um örlög Norður-Kóreu. Þeir héldu verndarhendi yfir kommúnistastjórninni þar. Hins vegar yrði frelsun Norður-Kóreu að vera verk þjóðarinnar sjálfrar, ekki annarra. Hún taldi litlar líkur á, að Norður- og Suður-Kórea myndu sameinast á næstu árum. Íbúarnir hefðu fjarlægst á síðustu áratugum. Til dæmis væri orðaforðinn í Suður-Kóreu annar en í norðurhlutanum. Yeonmi hvatti til stuðnings við mannréttindasamtök, sem reyndu að hafa áhrif til góðs í heimalandi hennar. Hún kvaðst vita af mörgum brýnum úrlausnarefnum á Vesturlöndum, en bað menn að gleyma samt ekki Norður-Kóreu.

Að fundinum stóðu Almenna bókafélagið, sem gaf bók Yeonmi Park út, RNH og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands. Þátttaka RNH í honum er liður í samstarfsverkefni með ACRE, Evrópusamtökum íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna: Minninguna um kommúnismann“. Erindi Yeonmi var streymt á visir.is, og þar má horfa á það í heild, og gerðu það um fimm þúsund manns. Einnig má horfa á upptöku af því á heimasíðu Háskólans. Morgunblaðið birti leiðara um heimsókn Yeonmi Park og boðskap, og Kastljós Sjónvarpsins ræddi við hana 29. ágúst.

Comments Off

Föstudagur 25. ágúst: Yeonmi Park

RNH heldur ásamt Almenna bókafélaginu og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands fund í hátíðasal Háskóla Íslands í hádeginu föstudaginn 25. ágúst, þar sem Yeonmi Park, höfundur bókarinnar Með lífið að veði, segir frá lífi sínu í Norður-Kóreu, síðasta kommúnistaríkinu.

Park er aðeins 24 ára, en hún flúði fyrir tíu árum frá Norður-Kóreu með móður sinni. Bók hennar hefur verið þýdd á fjölda mála og verið efst á metsölulistum hérlendis. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra kynnir höfundinn, og Vera Knútsdóttir, stjórnmálafræðingur og framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, stjórnar umræðum að erindi Parks loknu.

Fundurinn er kl. 12:00–13:15. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir, á meðan húsrúm leyfir. Fundurinn er liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“.

Comments Off