Hannes gagnrýndi Rawls og Piketty

Rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, gagnrýndi kenningar Johns Rawls og Tómasar Pikettys í erindi á Frjálsa sumarskólanum, sem Samtök frjálslyndra framhaldsskólanema efndi til í Reykjavík 1. júní. Var erindið að mestu leyti sótt í skýrslu, sem Hannes hefur tekið saman fyrir hugveituna New Direction í Brüssel. Hannes kvað Rawls hafa rangt fyrir sér um það hvort tveggja, að menn ættu ekki tilkall til þeirra misjöfnu tekna, sem þeir öfluðu sér með misjöfnum hæfileikum sínum, og að til væri einhvers konar sjóður, sem biði dreifingar. Rawls spyrði, við hvaða kerfi hinir verst settu yrðu sem best settir: Hann vildi hámarka lágmarkið. En í því fælist, að kenning hans væri í rauninni ekki um réttlæti, heldur um hyggindi, sem í hag kæmu. Það væri hins vegar fróðleg spurning, við hvaða kerfi hinir verst settu yrðu sem best settir, og leiða mætti rök að því, að það væri við frjálst hagkerfi svipað því sem Adam Smith hefði hugsað sér.

Hannes sagði Piketty um það ólíkan Rawls, að hann virtist hafa miklu meiri áhyggjur af því, að sumir væru ríkir, en af hinu, að einhverjir væru fátækir. Það væri skrýtið, því að fátækt væri böl, en auðlegð blessun, þegar hún væri ekki á kostnað annarra. Fátækt hefði snarminnkað í heiminum síðustu áratugi. Piketty vildi alþjóðlega ofurskatta á hátekjufólk og stóreignamenn í því skyni að jafna tekjudreifinguna í heiminum. En hann horfði fram hjá því, að margvísleg ríkisafskipti, til dæmis úthlutun einkaleyfa og ríkisábyrgð á bönkum, stuðluðu að ójafnri tekjudreifingu. Hann tæki ekki heldur tillit til þess, að lífeyrissjóðir ættu mörg atvinnufyrirtæki. Þegar hann talaði um fjármagn, undanskildi hann enn fremur mannauð (human capital), sem dreifðist áreiðanlega jafnar á menn en annað fjármagn. Gögn sýndu að auki, sagði Hannes, að síðustu áratugi hefur þorri efnamanna skapað auð sinn sjálfur, en ekki þegið hann að erfðum. Hannes benti á, að Piketty vitnaði oft í skáldsögu Balzacs, Föður Goriot. En hún sýndi einmitt, hversu fallvaltur auðurinn væri: Helstu söguhetjurnar væru allar á valdi ástríðna og sólunduðu fé sínu. Hvað sem því liði, væri aðalatriðið ekki að reyna að stækka eina sneið og minnka aðra, heldur að tryggja, að bakaríið væri í fullum gangi.

Samtök frjálslyndra framhaldsskólanema hélt sumarskólann í samstarfi við RNH, Institute of Economic Affairs í Lundúnum og Foundation of Economic Education í New York-ríki. Júlíus Viggó Ólafsson og Hermann Nökkvi Gunnarsson sáu um skipulagninguna. Aðrir fyrirlesarar voru Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Christopher Snowdon, Gunnlaugur Jónsson, Halldór Benjamín Þorbergsson, Jóhannes Stefánsson, Magnús Örn Gunnarsson og Piotr Markiełaŭ. Skólinn var fjölsóttur, og að loknum erindunum var margs spurt.

Glærur Hannesar SFF 1. júní 2019

Comments Off

Frjálsi sumarskólinn á morgun

Markiełaŭ

Samtök frjálslyndra framhaldsskólanema efna til sumarskóla laugardaginn 1. júní kl. 12 til 18:10 að Háaleitisbraut 1. Fyrirlesarar eru dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, Gunnlaugur Jónsson fjármálaráðgjafi, Magnús Örn Gunnarsson nemi, Jóhannes Stefánsson, framkvæmdastjóri Lindarvatns, Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Piotr Markiełaŭ, háskólanemi og aðgerðasinni, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir alþingiskona og Christopher Snowdon rithöfundur. Íslendingana þarf ekki að kynna, en Markiełaŭ er eðlisfræðinemi í Hvíta-Rússlandi, sem hefur tvisvar verið rekinn úr skóla af stjórnmálaástæðum og nokkrum sinnum setið í fangelsi. Fyrirlestur hans ber heitið „Fear and Authoritarianism in Belarus“. Snowdon er deildarstjóri í Institute of Economic Affairs í Lundúnum og skrifar reglulega fyrir Spectator og fleiri tímarit. Hann hefur gefið út gjölda bóka, þar á meðal Killjoys (2017) og Selfishness, Greed and Capitalism (2015). Fyrirlestur hans ber heitið „Paternalism“. Sumarskólinn er haldinn í samstarfi við Institute of Economic Affairs í Lundúnum og Foundation for Economic Education í New York-ríki.

Glærur Hannesar SFF 1. júní 2019

Comments Off

Svæðisþing MPS í Dallas

Hannes, dr. Feulner, fyrrv. forstjóri Heritage Foundation, próf. Taylor, forseti MPS, og próf. Kim, sem skipulagði nýlega svæðisþing MPS í Kóreu.

Rannsóknastjóri RNH, prófessor Hannes H. Gissurarson, sótti svæðisþing Mont Pelerin samtakanna í Dallas/Fort Worth 19.–22. maí 2019. Þingið var helgað þrætueplum í röðum frjálshyggjufólks. Eitt var um skipan peningamála. Er Seðlabanki nauðsynlegur? Gullfótur æskilegur? Rafmyntir hagkvæmar? Frjáls samkeppni í útgáfu peninga raunhæf? Prófessor John Taylor, dr. Warren Coats, prófessor Larry White og fleiri peningamálahagfræðingar skiptust á skoðunum. Annað þrætuepli var mál innflytjenda og hælisleitenda. Allir voru sammála um, að duglegir innflytjendur í leit að atvinnu og betri lífskjörum væru æskilegir. En hvað um innflytjendur, sem aðeins sækjast eftir bótum? Og hversu langt á að ganga í að hleypa milljónum hælisleitendum inn í Vesturlönd og vekja um leið upp frumstætt útlendingahatur? Hannes tók til máls í þeim umræðum og kvað óæskilegt, þegar mynduðust sérstakar lokaðar byggðir innflytjenda og hælisleitenda, sem ekki virtu lög og landsið, eins og gerst hefði í Danmörku og Svíþjóð, en bæði löndin væru nú að herða reglur vegna sárrar reynslu.

Þriðja álitamálið, sem var rætt, var umfang ríkisins. Prófessor David Friedman taldi íslenska þjóðveldið vera til marks um, að réttarvarsla í höndum einstaklinga væri framkvæmanleg. Prófessor Edward Stringham rakti mörg dæmi um lausnir einkaaðila á málum, sem oft hefðu verið falin opinberum aðilum. Einnig var rætt um, hversu langt ríkið ætti að ganga í að skipta sér af hegðun einstaklinga, til dæmis fíkniefnaneyslu og kynlífi, þar á meðal vændi, og af innanríkismálum annarra landa, eins og Bandaríkin hefðu oft gert, til dæmis í Víetnam og Írak. Prófessor Vernon Smith, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði 2002, spjallaði á samkomu síðdegis einn daginn um þá hugsuði, sem hefðu haft mest áhrif á sig, Adam Smith og Friedrich A. von Hayek. Það var einmitt von Hayek, sem stofnaði Mont Pelerin samtökin í Sviss vorið 1947, svo að frjálshyggjumenn um allan heim gætu komið saman reglulega og borið saman bækur sínar.

Tveir ungir prófessorar, Benjamin Powell and Robert Lawson, skipulögðu svæðisþingið af röggsemi. Næsta svæðisþing verður í Stanford í Kaliforníu 15.–17. janúar 2020, en aðalfundur samtakanna verður í Osló 1.–5. september 2020. Hannes H. Gissurarson sótti fyrsta þing samtakanna í Stanford haustið 1980 í boði von Hayeks, hefur verið félagi frá 1984 og í stjórn samtakanna 1998–2004. Hann skipulagði svæðisþing samtakanna á Íslandi í ágúst 2005.

Comments Off

Deilt um alræðishugtakið

Almenna bókafélagið gaf 1. desember 2018 út bókina Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Höfundar voru Tómas Guðmundsson, Gunnar Gunnarsson, Kristmann Guðmundsson, Guðmundur G. Hagalín, Sigurður Einarsson í Holti og Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. Hannes H. Gissurarson prófessor skrifaði 40 blaðsíðna formála og 70 blaðsíðna skýringar aftanmáls. Í formálanum lýsti hann menningarbaráttu Kalda stríðsins, þar sem höfundarnir sex voru þátttakendur, og beitti alræðishugtakinu, en Tómas Guðmundsson hafði einmitt í ræðu sinni gegn kommúnisma kveðið nýja tegund þrælkunar hafa orðið til, andlega þrælkun. Menn þurftu ekki aðeins að hlýða Stóra bróður, heldur líka elska hann.

Hayek á Íslandi 1980.

Á málstofu RNH og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála í Háskóla Íslands 17. maí 2019 gagnrýndi dr. Stefán Snævarr, heimspekiprófessor í Háskólanum í Lillehammer í Noregi, alræðishugtakið eins og Hannes hafði beitt því í formálanum. Það væri af og frá, að nasisminn væri sósíalismi í hefðbundinni merkingu þess orðs, enda hefði nasistar stuðst við einkaframtak. Sósíalisminn væri ekki heldur „leiðin til ánauðar“ eins og Friedrich A. von Hayek hefði haldið fram í frægri bók. Áætlunarbúskapur og lýðræði gætu farið saman. Hannes svaraði því til, að sósíalismi væri til í tveimur gerðum, sjálfvalinn og valdboðinn. Hann hefði ekkert á móti sjálfvöldum sósíalisma, til dæmis í framleiðslusamvinnufélögum eða samyrkjubúum í Ísrael, enda væri frjálsræðisskipulagið aðallega vettvangur fyrir frjálst val einstaklinganna. Valdboðinn sósíalismi fæli hins vegar alltaf í sér kúgun: Ríkið hygðist reka menn í hina „réttu“ átt. Auðvitað væri hinn mjúki vöggustofusósíalismi sænskra jafnaðarmanna miklu skárri en harður vinnubúðasósíalismi rússneskra kommúnista, en frjálshyggjumenn höfnuðu hvoru tveggja og teldu einstaklingana eiga að ráða sér sjálfum og bera fulla ábyrgð á sér sjálfum.

Morgunblaðið birti frétt um málstofuna 6. júní:

Comments Off

Eru nasismi og kommúnismi greinar af sama meiði?

Í formála bókarinnar Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958 heldur dr. Hannes H. Gissurarson prófessor því fram, að þjóðernisjafnaðarstefna Hitlers og sameignarstefna Stalíns hafi verið tvær greinar af meiði alræðisstefnu tuttugustu aldar, en alræðissinnar hafi leitast við að leggja undir sig sálir manna ekki síður en líkama. Fetar hann þar í fótspor rithöfundanna sex, sem eiga ræður í bókinni, þeirra Tómasar Guðmundssonar, Gunnars Gunnarssonar, Kristmanns Guðmundssonar, Guðmundar G. Hagalíns, Sigurðar Einarssonar í Holti og Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Dr. Stefán Snævarr prófessor efast hins vegar um nothæfni alræðishugtaksins og skyldleika nasisma og kommúnisma. Þeir skiptast á skoðunum á málstofu RNH og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála í stofu 101 í Odda í Háskóla Íslands föstudaginn 17. maí kl. 16–17:30, en fundarstjóri er dr. Ólafur Þ. Harðarson prófessor.

Comments Off

Hannes: Norræn leið smáþjóða

Frá fundinum í Lundúnum 9. maí.

Samruni í efnahagsmálum auðveldar smáríkjamyndun, sagði dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, rannsóknastjóri RNH, í fjórum fyrirlestrum, sem hann flutti í „Frjálsum markaði á ferð“, Free Market Road Show, í maí. Fyrsti fyrirlesturinn var í Þessaloniki 6. maí, annar í Aþenu 7. maí, hinn þriðji í Lundúnum 9. maí og hinn fjórði í Stokkhólmi 10. maí. Á meðal annarra fyrirlesara á fundunum voru dr. Richard Rahn, fyrrverandi aðalhagfræðingur bandaríska verslunarráðsins, og bandaríski heimspekiprófessorinn Andrew Bernstein. Austurríska hagfræðistofnunin, Austrian Economics Center, undir forystu dr. Barböru Kolm skipulagði ferðina.

Hannes rifjaði upp skýringu Adams Smiths á velmegun. Hún væri vegna verkaskiptingar á frjálsum markaði, en hún yrði því víðtækari og hagkvæmari sem markaðurinn væri stærri. Ástæðan til þess, að smáríki gætu þrátt fyrir það þrifist og dafnað, væri sú, sagði Hannes, að þau hefðu aðgang að stórum alþjóðlegum mörkuðum og gætu þannig nýtt sér kosti verkaskiptingarinnar. Sjálfstæð ríki hefðu verið 76 talsins árið 1946, þegar Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar, en nú ættu 193 ríki aðild að þeim, en auk þeirra mætti telja Páfagarð og Taívan sjálfstæð. Hannes benti á, að þjóðir margra smáríkja væru líka samleitar, svo að kostnaður af réttarvörslu yrðu ekki eins mikill á mann og í stórum og sundurleitum ríkjum. Smáríki væru almennt ekki heldur herská, svo að útgjöld til hermála væru þar tiltölulega lág.

Hannes vék sérstaklega að Norðurlöndum í þessu sambandi. Hann kvað velgengni þeirra ekki vera vegna jafnaðarstefnu, heldur þrátt fyrir hana. Helstu ástæður til hennar væru, að réttarríkið væri öflugt á Norðurlöndum, þjóðir þeirra stunduðu frjáls viðskipti og væru í þriðja lagi samleitar, sem stuðlaði að sjálfsprottinni samábyrgð og samhug og lækkaði þannig kostnað af rekstri ríkisins. Hannes minnti á, að sterk frjálshyggjuhefð væri á Norðurlöndum, til dæmis í Svíþjóð. Sænsk-finnski presturinn Anders Chydenius hafði sett fram á undan Adam Smith kenningu um sátt einkahags og almannahags við frjálsa samkeppni, og á nítjándu öld hefðu frjálslyndir stjórnmálamenn aukið stórkostlega atvinnufrelsi í Svíþjóð með þeim afleiðingum, að hagvöxtur hefði verið þar örari en í nokkru öðru landi árin 1870–1936.

Að sögn Hannesar gæti Evrópusambandið þróast í ýmsar áttir á næstunni. Það hefði upphaflega verið vettvangur fyrir sátt Frakka og Þjóðverja, sem væri auðvitað lofsverð. Spurningin væri nú hins vegar sú, hvort ESB þróaðist yfir í opinn markað eða lokað ríki, hvort það yrði ríkjasamband eða sambandsríki. Nú væri þjóðríkishugmyndin víða að eflast. Þjóðernisjafnaðarstefnan hefði reynst hræðilega, en ef til vill fengi þjóðernisfrjálshyggja staðist. En ríkið mætti ekki verða fangelsi, heldur heimili.

Comments Off