Alræði í Evrópu: Þrjár rannsóknir

Rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, flytur erindi á fundi Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála fimmtudaginn 26. apríl 2018 kl. 17 í Háskóla Íslands, Háskólatorgi, stofu 101 (Ingjaldsstofu). Fundarefnið er „Alræði í Evrópu: Þrjár rannsóknir“, en rit með því heiti er nýkomið út eftir Hannes á ensku, Totalitarianism in Europe: Three Case Studies, og gefur ACRE, Alliance of Conservatives and Reformists in Europe, það út sem lið í samstarfsverkefni með RNH, „Evrópa fórnarlambanna.“ Þar birtir Hannes þrjár rannsóknir, sem hann hefur gert.

Hin fyrsta er á örlögum Elinors Lippers, sem samdi umtalaða bók um ellefu ára vist sína í þrælakistum Stalíns, og birtist útdráttur úr henni í íslenskum blöðum. Eftir útkomu bókarinnar og vitnisburð í réttarhöldum og á ráðstefnum virtist Lipper hafa horfið, og lítið var um hana vitað. Hannes tók sér fyrir hendur að grafa upp, hver hún var og hvað hefði orðið um hana.

Önnur rannsóknin er á því, hvernig örlög tveggja Þjóðverja á Íslandi fyrir stríð fléttuðust saman: Henny Goldstein var landflótta Gyðingur, en Bruno Kress styrkþegi SS-stofnunarinnar Ahnenerbe. Goldstein missti marga ættingja sína í Helförinni, þar á meðal fyrir tilstilli Ahnenerbe. Eftir stríð gerðist Kress kommúnisti. Endurfundir þeirra í sextugsafmæli Brynjólfs Bjarnasonar urðu sögulegir.

Rohac

Þriðja rannsóknin er á málsvörn Halldórs Laxness áratugum saman fyrir alræðisstefnu Stalíns. Hannes rekur meðal annars, hvernig Laxness lét dátt við ítalska fasista í því skyni að koma bókum sínum út á ítölsku og hvernig hann daufheyrðist við frásögnum ýmissa kunningja sinna erlendra um kúgunina í kommúnistaríkjunum, auk þess sem hann þagði í aldarfjórðung um það, að hann varð í Moskvu 1938 vitni að handtöku saklausrar konu, barnsmóður Íslendings.

Dr. Dalibor Rohac, stjórnmálahagfræðingur frá Slóvakíu og sérfræðingur í Evrópufræðum í AEI, American Enterprise Institute, bregst stuttlega við erindi Hannesar, en kl. 18 verður móttaka fyrir gesti fundarins í Litla Torgi við hlið Hámu, mötuneytis Háskólans. Bessí Jóhannsdóttir cand. mag. stjórnar fundinum.

Comments Off

Hannes: Hvað geta aðrar þjóðir lært af bankahruninu?

Dr. Alejandro Chafuen, Acton Institute, og Hannes H. Gissurarson bera saman bækur sínar á þingi APEE.

Þrír aðallærdómarnir fyrir aðrar þjóðir af íslenska bankahruninu 2008 eru, að hagkerfi þarf ekki að hrynja, þótt bankakerfi falli, að skynsamlegt er að veita innstæðueigendum forgangskröfur í bú banka og að þá má afnema ríkisábyrgð á innstæðum. Þetta sagði rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, í erindi á málstofu um peninga og bankamál á ársmóti APEE, Association of Private Enterprise Education, Samtaka um einkaframtaksfræðslu, í Las Vegas 1.–5. apríl 2018. Hann bætti við, að aðrir lærdómar af bankahruninu væru, að geðþóttavald yrði alltaf misnotað, eins og Bretar hefðu gert með setningu hryðjuverkalaga gegn Íslendingum, að smáþjóðir ættu enga vini, þegar á hólminn væri komið, og að miklu máli skipti að veita röggsamlega forystu, eins og Seðlabankinn hefði gert fyrir og í bankahruninu, þegar hann beitti sér fyrir því að reisa varnargarð um Ísland (ring-fencing).

Alan Kors flytur erindi. Nýr forseti APEE, Andrew Young (t. v.), og Edward Stringham hlusta á. Ljósm.: Peter Boettke.

Á meðal fyrirlesara á þinginu, voru prófessor Barry Weingast, sem reifaði skýringar á því, hvers vegna sumar þjóðir væru fátækar (en Adam Smith ræddi það mál í þriðju bók Auðlegðar þjóðanna); skýringarnar væru í fæstum orðum, að afætur hrifsuðu arðinn af auðskapendum. Prófessor Randall Holcombe spurði, hvort valdastéttir á Vesturlöndum hefðu breytt kerfi frjálsrar samkeppni í eins konar ríkiskapítalisma (political capitalism). Prófessor Alan Charles Kors gagnrýndi kröfuna um pólitískan rétttrúnað í háskólum, sem gengi þvert gegn sannfæringu upplýsingarmanna um hugsanafrelsi. Prófessor Larry White bar saman þrjár tegundir gjaldmiðla, gullfót, pappírsfót og rafmynt, og taldi gullfót hafa reynst best. Rafmyntir væru ekki einfaldar í framleiðslu.Prófessor Michael Munger velti fyrir sér, hvort markaðskapítalismi gæti verið sjálfbær eða stöðugur, en myndi ekki þróast vegna starfsemi sérhagsmunahópa í klíkukapítalisma; það færi eftir því, hvort eðlilegur hagvöxtur yrði meiri en ávinningurinn fyrir sérhagsmunahópa af því að seilast til ríkisvaldsins.

Buchanan á skrifstofu sinni í George Mason háskóla. Ljósm. Hannes H. Gissurarson.

Í nokkrum málstofum var rætt um stjórnmálahugmyndir James M. Buchanans, föður almannavalsfræðinnar (public choice theory) og Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði 1986, ekki síst í tilefni árásar á hann í nýútkominni bók eftir Nancy Maclean, Lýðræði í fjötrum (Democracy in Chains). Í einni málstofunni stóð Hannes H. Gissurarson upp og mælti nokkur orð um Buchanan, sem kom til Íslands 1982 og Hannes hitti einnig margoft á þingum Mont Pelerin samtakanna og málstofum Liberty Fund. Hannes sagði, að í huga Buchanans hefði „hinn hagsýni maður“ (homo economicus) verið vinnutilgáta, en ekki raunsönn lýsing á manneðlinu. Buchanan hefði einmitt gagnrýnt suma Chicago-hagfræðingana fyrir að trúa því, að menn kepptu ætíð að eigin hag. Hins vegar yrði að gera ráð fyrir slíkri eiginhagsmunagæslu í stjórnmálum jafnt og viðskiptum, svipað og skipasmiðir yrðu að gera ráð fyrir vondu veðri, þótt það væri oftast gott. Hannes kvað Buchanan hafa í samtölum við sig gert skarplegar athugasemdir um kvótakerfið íslenska: Einhverjir yrðu að hafa hag af því að afgirða almenninga (enclose commons), og breytingin yrði að vera Pareto-hagkvæm í þeim skilningi, að enginn tapaði á henni. Úthlutun framseljanlegra aflakvóta fullnægði þessum skilyrðum ólíkt auðlindaskatti eða sölu eða leigu veiðileyfa.

Í Las Vegas notaði Hannes H. Gissurarson tækifærið og hélt fund með fræðimönnum frá Brasilíu til að leggja á ráðin um þing Mont Pelerin samtakanna, sem fyrirhugað er að halda í São Paulo haustið 2020. Á ársmótinu var prófessor Andrew Young kjörinn forseti APEE í stað Gabriels Calzada og dr. Jerry Jordan, fyrrv. aðalbankastjóri Seðlabankans í Cleveland, varaforseti. Prófessor Edward Stringham (sem flutti nýlega fyrirlestur á svæðisþingi Evrópusamtaka frjálslyndra stúdenta á Íslandi) verður áfram ritstjóri Journal of Private Enterprise, sem samtökin gefa út, og prófessor J. R. Clark gjaldkeri. Þátttaka Hannesar var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Næsta ársmót APEE verður á Sælueyju, Paradise Island, nálægt Nassau á Bahama eyjum 5.–8. apríl 2019.

Comments Off

Fyrirlestur um bankahrunið í Las Vegas

Rannsóknastjóri RNH, prófessor Hannes H. Gissurarson, flytur erindi um íslenska bankahrunið á málstofu um peninga og bankamál á ársmóti APEE, Association of Private Enterprise Education, sem haldið er á Caesars Palace í Las Vegas 1.–5. apríl. Er málstofan kl. 14:30 til 15:45 mánudaginn 2. apríl. Erindi Hannesar er þáttur í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Alliance of Conservatives and Reformists in Europe, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Í erindinu rekur Hannes stuttlega atburðarásina fram að bankahruni, en telur mega draga sex lærdóma af því og viðbrögðum og reynslu Íslendinga: 1) Ekki er nauðsynlegt, að ríkið bjargi alltaf bönkum. 2) Skynsamlegt er að veita innstæðueigendum forgang í kröfum á bú banka. 3) Þá er ónauðsynlegt, að ríkið ábyrgist innstæður í bönkum. 4) Geðþóttavald, eins og skapað var með hryðjuverkalögunum bresku frá 2001, verður fyrr eða síðar misnotað, eins og gerðist, þegar lögunum var beitt gegn Íslandi. 5) Smáríki standa alltaf ein, þegar á reynir, og þá þurfa þau að bjarga sér sem best þau geta. 6) Veita þarf forystu, eins og Seðlabankinn gerði í bankahruninu, þegar hann lagði á ráðin um að reisa varnarvegg í kringum Ísland, „ring-fencing.“

Glærur Hannesar í Las Vegas

 

Comments Off

Gauck fær Ján Langoš-verðlaunin

Forseti Evrópuvettvangsins, Łukasz Kamiński, heilsar Gauck.

RNH á aðild að Evrópuvettvangi minningar og samvisku, sem heldur á lofti minningunni um fórnarlömb kommúnismans og annarra alræðisstefna. Mánudaginn 26. mars átti Evrópuvettvangurinn þátt í því ásamt Ján Langoš stofnuninni í Bratislava í Slóvakíu að veita verðlaun Joachim Gauck, forseta Þýskalands 2012–2017 og áður yfirmanni stofnunar, sem geymir skjöl Stasi, leynilögreglu kommúnista á hernámssvæði Rússa í Þýskalandi (Austur-Þýskalandi). Gauck hlaut verðlaunin fyrir ódeiga baráttu sína gegn alræðisstefnu jafnt fyrir og eftir hrun Berlínarmúrsins. Ján Langoš, sem verðlaunin eru kennd við, var andófsmaður í Slóvakíu undir stjórn kommúnista, innanríkisráðherra Tékkóslóvakíu 1990–1992 og forstöðumaður Minningarstofnunar Slóvakíu í Bratislava frá 2003. Hann lést í bílslysi 2006, þegar hann var á leið í réttarsal að bera vitni gegn fyrrverandi leynilögreglumönnum. Á meðal annarra verðlaunahafa eru Dalai Lama, leiðtogi frelsisbaráttu Tíbets, Václav Havel, fyrrverandi forseti Tékkóslóvakíu, og Sandra Kalniete, Evrópuþingmaður fyrir Lettland.

Comments Off

Trump er hættulegur frelsinu

Dr. Palmer rabbar við fundargesti.

Donald Trump er óútreiknanlegur dólgur, sem grefur undan venjum og stofnunum Bandaríkjanna, sagði dr. Tom Palmer, rannsóknarfélagi í Cato stofnuninni og forstöðumaður alþjóðadeildar Atlas Network, á rabbfundi Frjálshyggjufélagsins þriðjudagskvöldið 23. janúar 2018. Palmer kvað erfitt að skýra kjör hans. Líklega hefði það verið eins konar „svartur svanur“, frávik eða slys, þegar margt hefði lagst á eitt um óvænta niðurstöðu. Þau Trump og Hillary Clinton hefðu hvor tveggja verið afleitir kostir. Palmer kvað Trump beita yfirgangi og reyna að hræða menn til hlýðni. Lýðveldissinnar (repúblikanar) væru smeykir við hann vegna kjörfylgis hans, en Lýðræðissinnar (demókratar) hefðu á honum óbeit. Hugsanlega yrði honum vikið frá á kjörtímabilinu (impeachment), en Palmer taldi þó minni líkur á því en meiri. Hann sagði eina skýringuna á fylgi Trumps, að bandarísk orðræða hefði breyst til hins verra á síðustu árum. Nú væri ekki rætt um, hvaða reglum þyrfti að fylgja til að auðvelda gagnkvæma aðlögun ólíkra einstaklinga, heldur væri skírskotað til hópa og andúðar þeirra á öðrum hópum. Hvítt verkafólk fylgdi margt Trump, því að það teldi á sig hallað í orðræðunni, og bæru vinstri menn því nokkra ábyrgð á Trump, þótt sjálfir mótmæltu þeir því harðlega. Ein hættan af Trump væri, að forsetaembættið væri mjög valdamikið, þótt það ætti sér nokkurt mótvægi í dómsvaldi og löggjafarvaldi. Fjörugar umræður urðu að ræðu Palmers lokinni, og sóttu rösklega fjörutíu manns fundinn, sem haldinn var í Petersen-svítunni í Gamla bíói.

Comments Off

Bandaríkin, Trump og frelsið

Þriðjudagskvöldið 23. janúar 2018 rabbar dr. Tom Palmer við áhugafólk um Bandaríkin, Trump og framtíð frelsisins í Petersen-svítunni í Gamla Bíói, Ingólfsstræti 2A. Fundurinn hefst klukkan 20:00 og er á vegum Frjálshyggjufélagsins með stuðningi RNH. Eftir framsöguerindi Palmers eru spurningar og umræður.

Palmer er einn kunnasti og mælskasti frjálshyggjuhugsuður Bandaríkjanna og forstöðumaður alþjóðasviðs Atlas Network í Washington-borg, en þau eru regnhlífarsamtök rannsóknarstofnana um heim allan, sem leita sjálfsprottinna lausna í stað valdboðinna. Hann er einnig rannsóknarfélagi í Cato Institute.

Palmer lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla, er mikill Íslandsvinur og mörgum hér að góðu kunnur. Hann hefur gefið út fjölda bóka um stjórnmál og heimspeki. Stuðningur RNH við fundinn með honum er liður í samstarfsverkefni við ACRE, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Comments Off