Öllum viðburðum aflýst vegna veiru

Las Vegas.

Rannsóknastjóri RNH, prófessor Hannes H. Gissurarson, átti að vera fyrirlesari og þátttakandi í fjölda funda og ráðstefna árið 2020, sem öllum var aflýst, þar á meðal málstofu Liberty Fund um Balzac og kapítalismann í París í mars, alþjóðlegri ráðstefnu Samtaka um einkaframtaksfræðslu, Association of Private Enterprise Education, APEE, í Las Vegas í apríl, árlegri fundaröð Austurríska hagfræðisetursins, Austrian Economics Center, um frjálsan markað (Free Market Road Show) í maí um alla Evrópu og Frelsishátíðinni, Freedomfest, í Las Vegas í júlí. Vonir standa til, að halda megi eitthvað af þessum fundum og ráðstefnum árið 2021, ef og þegar veirufárinu slotar. Þess í stað einbeitti Hannes sér að bók, sem hann tók að sér að semja fyrir hugveituna New Direction í Brüssel um „Twenty-Four Conservative-Liberal Thinkers“. Kemur hún væntanlega út í desember.

Comments Off

Alþjóðleg ráðstefna um veirufaraldurinn

Rannsóknastjóri RNH, prófessor Hannes H. Gissurarson, flutti erindi á alþjóðlegri ráðstefnu, sem Austrian Economics Center í Vínarborg hélt á Netinu 8. maí 2020 um veirufaraldurinn, Covid-19. Hann byrjaði á að rifja upp, að í dag væri afmælisdagur Friedrichs von Hayeks, en hann hefði kennt, að þekkingin dreifðist á mennina, en enginn hefði hana alla til að bera. Farsóttafræðingar vissu margt, sem hagfræðingar vissu ekki, og öfugt. Menn með sérþekkingu ættu stundum til að halda, að afkimi þeirra væri allur heimurinn. Margir frjálshyggjumenn væru hlynntir því, sem kallað hefði verið „næturvarðarríkið“, en samkvæmt þeirri hugmynd ætti ríkið að gegna svipuðum skyldum og næturverðir í miðaldaborgum, vernda borgarana gegn ofbeldi, en láta þá að öðru leyti afskiptalausa. Hvort sem menn tækju undir þá hugmynd eða ekki, væri ljóst, að sum verkefni væru þess eðlis, að óheppilegt væri að fela þau ríkinu. Opinberir starfsmenn fyndu ekki hjá sér sömu hvöt til að hagræða og hefðu sjaldnast heldur sömu reynslu og þekkingu og menn úti í atvinnulífinu. Einstaklingar yrði að bera ábyrgð á lífi sínu sjálfir, en ekki varpa henni yfir á aðra.

Þrátt fyrir alla sína galla væri ríkið samt fulltrúi heildarinnar, farvegur eða vettvangur eðlilegrar samkenndar og samábyrgðar. Áföll eins og jarðskjálftar, eldgos, snjóflóð, sjávarskaflar (tsunami) og farsóttir væru oftast engum að kenna. Þegar þau skyllu yfir, hrifu þau saklausa borgara með sér, og lífið yrði um skeið að siglingu á björgunarbát. Ríkið hlyti að reyna að koma í veg fyrir slík áföll eða milda að minnsta kosti afleiðingar þeirra. Réttlætanlegt væri til dæmis að skerða frelsi manna, svo að þeir smituðu ekki aðra af farsóttum. Hannes minnti síðan á, að hugsuðir eins og heilagur Tómas af Akvínas og David Hume, sem hefðu stutt einkaeignarréttinn glöggum rökum, hefðu verið þeirrar skoðunar, að hann hrykki úr gildi við sérstakar aðstæður. Hannes kvaðst túlka það svo, að réttlætanlegt gæti verið að nota fé skattgreiðenda til að milda afleiðingar af áföllum. Menn mættu hins vegar ekki mikla fyrir sér vandann. Í sögulegu samhengi væri veirufaraldurinn, sem riðið hefði yfir heiminn árið 2020, ekki mjög mannskæður.

Það væri ef til vill ekki alls kostar rétt, bætti Hannes við, að þessi veirufaraldur hefði ekki verið neinum að kenna. Enn væri ekki vitað með vissu, hver upptök faraldursins í Wuhan væru. Kínversk stjórnvöld hefðu takmarkað mjög alla upplýsingagjöf, og það leiddi til grunsemda um handvömm þeirra. Hannes sagði, að í verufaraldrinum hefðu rökin gegn víðtækum ríkisafskiptum verið staðfest enn einu sinni. Í Kína hefði ófrelsið torveldað upplýsingagjöf og skjót viðbrögð, og á Vesturlöndum hefðu opinberar stofnanir tafið fyrir lausnum. Það væri einkaframtakið, sem væri að smíða öndunarvélar, framleiða grímur og prófa sig áfram með lyf. Eina leiðin út úr þeim vanda, sem veirufaraldurinn hefði myndað, væri að örva hagvöxt með því að veita atvinnulífinu aukið svigrúm. Menn gætu ekki hírst í björgunarbátum alla ævi. Þeir hentuðu ekki til siglinga um heimshöfin sjö.

Glærur Hannesar í maí 2020 um veirufaraldurinn

Comments Off

Fundur Mont Pelerin samtakanna í Stanford, janúar 2020

Frá v.: Ragnar, Birgir Þór og Hannes Hólmsteinn.

Þrír Íslendingar, prófessorarnir Ragnar Árnason, Birgir Þór Runólfsson og Hannes H. Gissurarson, sem allir sitja í Rannsóknaráði RNH, sóttu svæðisþing Mont Pelerin samtakanna í Stanford 15.–17. janúar, en forseti samtakanna, prófessor John Taylor, sá um þingið ásamt starfsliði Hoover-stofnunarinnar.

Guedes flytur ávarp sitt.

Í fyrsta kvöldverði fundarins spjallaði George Shultz, sem er 99 ára og hinn ernasti, um ástand og horfur í heimsmálum. Shultz var hagfræðiprófessor í Chicago og fjármálaráðherra og utanríkisráðherra Bandaríkjanna í forsetatíð Ronalds Reagans. Í öðrum kvöldverðinum sagði Paulo Guedes, fjárálaráðherra Brasilíu, frá metnaðarfullri umbótaáætlun sinni, en Guedes nam hagfræði í Chicago undir handleiðslu Miltons Friedmans. Í þriðja og síðasta kvöldverðinum talaði frumkvöðullinn Peter Thiel um atvinnulíf og stjórnmál á 21. öld.

Alejandro Chafuen og Hannes Hólmsteinn sóttu báðir sitt fyrsta þing Mont Pelerin samtakanna í Stanford 1980.

Á meðal annarra fyrirlesara voru Bruce Caldwell (ævisöguritari Hayeks), sem sagði frá stofnfundi samtakanna 1947, en hann var haldinn að frumkvæði Hayeks; David Henderson, sem rifjaði upp fund samtakanna í Stanford 1980; Skidelsky lávarður (ævisöguritari Keynes), sem sagði sína skoðun á helstu ágreiningsmálum hagfræðinga um þessar mundir; Niall Ferguson, sem harmaði úrættun réttarríkisins; John Cogan, sem varpaði fram hugmyndum um, hvernig greiða mætti upp skuldir hins opinbera í Bandaríkjunum; Samuel Gregg, sem taldi nauðsynlegt að dýpka skilning á siðferðilegum undirstöðum kapítalismans; Bridgett Wagner, sem greindi frá viðhorfum og verkefnum hinnar áhrifamiklu hugsmiðju Heritage Foundation í Washington-borg; og Borwick lávarður, fimmti barón Borwick, sem varði útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Í hádegisverði 17. janúar töluðu Axel Kaiser og Ernesto Silva um hið alvarlega ástand í Síle. Þar hafa vinstri-öfgamenn skipulagt götuóeirðir í því skyni að leggja að velli hið frjálsa hagkerfi landsins, sem myndaðist á áttunda og níunda tug síðustu aldar og hefur skilað betri árangri en önnur hagkerfi Rómönsku Ameríku. Virðast þeir vilja gera Síle að öðru Venesúela.

Thiel ræðir við Peter Robinson.

Comments Off

Viðtal við Hannes í Nýja Sjálandi

Prófessor Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, birti í júní 2017 grein í The Conservative, sem ECR (European Conservatives and Reformists) gefur út, og var hún um, hvers vegna smáþjóðir væru ríkari og hamingjusamari en stærri þjóðir. Greinin hefur vakið mikla athygli, og hafa jafnvel vinstri sinnaðir menntamenn vitnað í hana, til dæmis Nick Slater í Nýja Sjálandi. Hannes var sunnudaginn 15. desember 2019 í löngu viðtali við Nýsjálenska útvarpið, þar sem hann lýsti röksemdum fyrir smáríkjum: Oftast eru þau samleitari, gagnsærri og friðsamari en stærri ríki og með opnara hagkerfi, en það gerir þeim kleift að nýta kosti alþjóðlegrar verkaskiptingar og viðskipta. Í sumum þeirra, þar á meðal Norðurlöndum og Nýja Sjálandi, er réttarríkið líka öflugt. Aðalveikleiki smáríkja er á hinn bóginn varnarleysi þeirra gagnvart stærri og áleitnari grönnum (eins og Eystrasaltsríkin fundu eftir Griðasáttmála Hitlers og Stalíns árið 1939 og Tíbetar eftir seinni heimsstyrjöld). Berja má í þennan brest með bandalögum við stærri og voldugri ríki (eins og Ísland og Nýja Sjáland gera með bandalagi við Bandaríkin) og með bandalögum smáríkjanna sjálfra undir kjörorðinu: Sameinaðir stöndum við, sundraðir föllum við. Hannes benti á, að margt væri svipað með Íslendingum og Nýsjálendingum. Engilsaxneskar og norrænar stjórnmálahefðir væru náskyldar.

Comments Off

Rawls og Piketty gagnrýndir

Piketty.

Franska fræðatímaritið Journal des Économistes et des Études Humaines, sem De Gruyter-félagið gefur út, hefur sett á Netið ritgerð eftir rannsóknastjóra RNH, prófessor Hannes H. Gissurarson, um „Endurdreifingu í orði og verki“, þar sem hann gagnrýnir tvo helstu hugsuði vinstri stefnu á okkar dögum, heimspekinginn John Rawls og hagfræðinginn Thomas Piketty. Útdráttur úr ritgerðinni hljómar á þessa leið:

Rawls’ theory is about prudence rather than justice. It is about the kind of political structure on which rational people would agree if they were preparing for the worst. Other strategies, such as confining redistribution to upholding a safety net, might also be plausible. Rawls’ theory is Georgism in persons: the income from individual abilities is regarded as if it is at the disposal of the collective and could be taxed as rent. This goes against the strong moral intuition of self-ownership. However, Rawls’ question, where the worst off are as well off as they can be, is interesting. According to the Index of Economic Freedom, it actually may be under relatively unfettered capitalism. Unlike Rawls, Piketty is chiefly worried about the rich, seeking to impose confiscatory taxes on them. But the rich are not a fixed, unchangeable group of people who can effortlessly watch their capital accumulate. Capital is precarious, as is vividly illustrated in Balzac’s novel Père Goriot which Piketty quotes. Different as the approaches of Rawls and Piketty are, both of them agree that their ideal society has to be closed: It must become ‘socialism in one country.’

Comments Off

Hannes: Árekstur hópa, ekki manns og náttúru

Gera verður greinarmun á umhverfisvernd og umhverfistrú (ecofundamentalism), sagði dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, rannsóknastjóri RNH, í erindi um grænan kapítalisma á ráðstefnunni Vikulokum kapítalismans í Varsjá dagana 23.–24. nóvember 2019. Umhverfisverndarmenn vilja nýta náttúrugæðin skynsamlega og leita þess vegna ráða til að minnka umhverfisspjöll eins og mengun og ofveiði. Eitt hið besta er að þeirra dómi að skilgreina eignarrétt (eða einkaafnotarétt) á gæðum náttúrunnar, því að þá verða til eigendur eða gæslumenn. Vernd krefst verndara. Umhverfistrúarmenn telja hins vegar, að maður og náttúra séu andstæður og að umhverfið hafi einhvers konar rétt gagnvart mönnum.

Hannes benti á, að árekstrar í umhverfismálum eru í raun ekki milli manns og náttúru, heldur milli ólíkra hópa manna. Skýrt dæmi er hvalur á Íslandsmiðum. Sumir vilja veiða hann og eta. Aðrir vilja friða hann, jafnvel þótt stofnarnir á Íslandsmiðum séu sterkir. Í þeirra augum virðist hvalur vera eins og heilaga kýrin hindúa. En hvalir éta að mati sjávarlíffræðinga um sex milljónir lesta af sjávarfangi á ári, þar á meðal smáfiski. Íslendingar landa hins vegar ekki nema rösklega einni milljón lesta af fiski. Krafa hvalfriðunarsinna er því í raun um, að Íslendingar taki að sér að fóðra hvalinn fyrir þá án þess að mega nýta hann sjálfir. Þeir eru eins og freki bóndinn, sem rekur kvikfénað sinn í bithaga nágrannans og ætlast til þess, að hann sé þar á fóðrum, sagði Hannes. Hér rekast á tveir hópar manna, ekki maður og náttúra.

Annað dæmi, sem Hannes nefndi, er regnskógurinn á Amasón-svæðinu. Umhverfistrúarmenn vilja friða hann. Rökin eru að vísu veik að dómi Hannesar. Það er ekki rétt, að regnskógurinn framleiði verulegt súrefni handa jarðarbúum, og tryggja má líffræðilegan fjölbreytileika með miklu minni skógi en nú vex þar. En setjum svo, að rökin séu gild og skógurinn sé mannkyni mikilvægur. Þá ættu auðvitað aðrir jarðarbúar að greiða Brasilíumönnum fyrir afnot sín af skóginum, kvað Hannes.

Glærur Hannesar í Varsjá 24. nóvember 2019

Vikulok kapítalismans voru skipulögð af Tomek Kołodziejczuk fyrir Rannsóknamiðstöð kapítalismans, Centrum Kapitalizmu, og Mises-stofnun Póllands, Instytut Misesa. Þau voru haldin í kauphöllinni í Varsjá. Sóttu um 250 manns viðburðinn, og komust færri að en vildu. Á kvöldin var Frelsisvínstúkan í næsta nágrenni við kauphöllina heimsótt, en hún er í fyrrverandi höfuðstöðvum kommúnistaflokks Póllands, og er þar boðið upp á hanastél með nöfnum margra frelsishugsuða og andkommúnista. Hannes notaði tækifærið í Varsjárferð sinni til að heilsa upp á tvo gamla vini, dr. Pawel Ukielski, aðstoðarforstjóra safnsins um uppreisnina í Varsjá 1944, og prófessor Leszek Balcerowicz, fyrrverandi fjármálaráðherra og seðlabankastjóra Póllands, en hann var höfundur áætlunar þeirrar, sem kom Póllandi út úr ógöngum sósíalismans. Þátttaka Hannesar í ráðstefnunni var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Blágrænan kapítalisma“.

Comments Off