Hannes: Aflareynsla eina eðlilega úthlutunarreglan

Prófessor Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, hélt fyrirlestur um fyrirkomulag fiskveiða á Íslandsmiðum á hádegisverðarfundi Washington Policy Center í Seattle í Washington-ríki föstudaginn 14. apríl 2017. Þar rifjaði hann upp, að hann hefði fyrst varpað fram hugmynd um einkaafnotarétt af fiskistofnum á ráðstefnu á Þingvöllum haustið 1980, og hefði verið gert gys að sér í Þjóðviljanum á eftir. Hannes kvað fiskihagfræðinga á einu máli um, að ókeypis eða óheftur aðgangur að fiskimiðum leiddi til ofveiði: Bátum fjölgaði þá að því marki, að enginn ágóði yrði lengur af veiðunum. Valið væri um tvær leiðir til að fækka bátum (eða minnka sókn) niður í hagkvæmasta horf: Önnur væri að úthluta einkaafnotaréttindum eftir aflareynslu og leyfa síðan frjálst framsal þeirra, hin að bjóða upp réttindin. Fyrri leiðin væri eðlilegri, því að þá væri ekki neinum stórvægilegum hagsmunum raskað. Enginn tapaði á þeirri leið. Þá fækkaði bátum eðlilega í frjálsri þróun. Hin leiðin hefði þann mikla ókost, að fjöldi fiskimanna væri hrakinn af miðunum í einu vetfangi, en ekki keyptir smám saman út í friðsamlegum viðskiptum eins og við frjálst framsal.

Þessi væri skýringin á því, sagði Hannes, að úthlutun eftir aflareynslu hefði nær undantekningarlaust verið valin, þegar miðum væri lokað eins og almenningar hefðu forðum verið girtir af (enclosures). Þetta hefði verið gert á Íslandi og gefist vel. Úthlutun eftir aflareynslu væri ólíkt uppboðsleið Pareto-hagkvæm, sem kallað væri, en með því væri átt við, að enginn tapaði, en allir græddu. Úthlutun eftir aflareynslu fullnægði einnig skilyrði Lockes fyrir réttlátri nýmyndun eigna eða afgirðingu almenninga, að enginn yrði við hana verr settur. Eini rétturinn, sem tekinn væri af mönnum, þegar miðum væri lokað fyrir öðrum en handhöfum kvóta, væri rétturinn til að gera út án nokkurs ágóða, eins og leiða mætti út með aðstoð fiskihagfræðinnar. Gerður var góður rómur að máli Hannesar, og rigndi yfir hann spurningum eftir lesturinn. Í ýmsum ríkjum Bandaríkjanna, sem liggja við sjó, hefur einhvers konar kvótakerfi verið tekið upp í fiskveiðum. Bók Hannesar, The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem kom út seint á árinu 2015, er aðgengileg á Netinu. Fyrirlestur Hannesar var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Glærur Hannesar í Seattle 14. apríl 2017

Comments Off

Hannes: Velsæld Norðurlanda þrátt fyrir jafnaðarstefnu

Ljósm. Olav A. Dirkmaat.

Prófessor Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, hélt fyrirlestur á þingi APEE, Association for Private Enterprise Education, á Maui, einni af Havaíeyjum, 12. apríl um „Norrænu leiðirnar: Velsæld þrátt fyrir endurdreifingu“. Hann kvað einskæra goðsögn, að Norðurlandaþjóðirnar ættu velgengni sína að þakka langvinnum yfirráðum jafnaðarmanna. Skýringarnar væru frekar, að þær stæðu vörð um réttarríkið og frjáls utanríkisviðskipti og vernduðu eignarrétt, jafnframt því sem samhugur, gagnkvæmt traust og gagnsæi væri mikið vegna samleitni þeirra og glöggrar sjálfsvitundar.

Hannes benti á, að allt frá 18. öld hefði verið til sterk frjálslyndishefð á Norðurlöndum, eins og sést hefði í ritum Anders Chydeniusar, sem hefði bent á ósýnilegu höndina á undan Adam Smith, og í verkum Johans Augusts Gripenstedts, sem hefði sem forsætisráðherra Svíþjóðar lagt undirstöður undir velmegun Svía. Hin frjálslynda stjórnarskrá Norðmanna frá árinu 1814 og útfærsla einstaklingsréttinda í Danmörku eftir afnám einveldis 1849 væru líka til marks um frjálslyndishefðina. Þrír heimskunnir sænskir hagfræðingar á 20. öld hefðu verið frjálshyggjumenn, Eli Heckscher, Gustav Cassel og Bertil Ohlin. Ef menn ætluðu sér að tala um „sænsku leiðina“, þá yrðu þeir að vita, að þær voru að minnsta kosti þrjár: frjálslynda leiðin 1870–1970, jafnaðarleiðin 1970–1990, þegar sköpun í atvinnulífinu var nær stöðvuð, og blandaða leiðin, sem síðan hefur verið fylgt og felur að miklu leyti í sér afturhvarf til frjálslyndu leiðarinnar.

Gabriel Calzada of the Francisco Marroquin University in Guatemala, Matt Ridley and Professor Gissurarson.

Gabriel Calzada frá Francisco Marroquin háskóla í Guatemala, Matt Ridley og Hannes. Ljósm. Parellada Centeno Javier.

Hannes lagði fram ýmis gögn máli sínu til stuðnings. Til dæmis væru lífskjör sænskættaðs fólks í Vesturheimi miklu betri en Bandaríkjamanna almennt og enn betri en lífskjör Svía í Svíþjóð. Sýndi það í senn áhrif menningar og stofnana á árangur. Annað dæmi væri samanburður „norrænu“ landanna í Vesturheimi, Manitoba, Minnesota, Dakota-ríkjanna beggja, Alberta og Saskatchewan og Norðurlandanna fimm. Velmegun væri að meðaltali miklu meiri í norrænu ríkjunum vestan hafs en í Evrópu. Sýndi þetta áhrif stofnana á árangur.

Loks vék Hannes að frjálslyndishefðinni á Íslandi, sem lesa mætti út úr ritum Jóns Sigurðssonar, leiðtoga Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni, Arnljóts Ólafssonar, höfundar fyrsta hagfræðiritsins á íslensku (sem samið var beint upp úr riti eftir Frédéric Bastiat), og Jóns Þorlákssonar, stofnanda Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra. Hannes lýsti einnig hinum víðtæku og árangursríku umbótum í frjálslyndisátt í stjórnartíð Davíðs Oddssonar 1991–2004. Þótt Íslendingar væru fámenn þjóð á útkjálka heimsins, hefði þeim enn fremur tekist að mynda tvö tiltölulega vel heppnuð kerfi til að leysa úr árekstrum einstaklinga í heimi nískrar náttúru og takmarkaðs náungakærleika. Annað hefði verið íslenska þjóðveldið 930–1262, þar sem réttarvarsla hefði verið í höndum einstaklinga, sem valið gátu um verndarstofnanir (goðana). Hitt væri íslenska kvótakerfið, þar sem framseljanlegum aflakvótum væri úthlutað til útgerðarfyrirtækja. Fyrsta skrefið í þá átt var tekið 1975 (í síld), en kerfið varð altækt 1991. Fiskveiðar á Íslandsmiðum væru í senn sjálfbærar og arðbærar, en sumir horfðu öfundaraugum til útgerðarmanna. Lét Hannes í ljós þá von, að Íslendingar týndu ekki þessari uppgötvun sinni eins og þeir hefðu týnt Vesturheimi eftir að hafa fundið hann árið 1000.

Á þinginu var prófessor Gabriel Calzada, rektor Francisco Marroquin háskóla í Guatemala, kjörinn forseti APEE og prófessor J. R. Clark frá Tennessee háskóla í Chattanooga endurkjörinn ritari. Fyrirlestur Hannesar var þáttur í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Hann hafði á Maui tækifæri til að hitta marga Íslandsvini, sem minnast heimsókna sinna hingað af ánægju, meðal annarra Matt Ridley, Barböru Kolm, Bob Lawson, Douglas Rasmussen og Douglas Den Uyl.

Glærur Hannesar á Maui 12. apríl 2017

Comments Off

Ragnar aðalfyrirlesari um fiskihagfræði

Fyrir framlag sitt tók Ragnar á móti myndabók frá mexíkóskum listamanni.

Ragnar Árnason prófessor, formaður rannsóknaráðs RNH, var aðalfyrirlesari (keynote speaker) á ráðstefnu Fiskihagfræðingafélags Norður-Ameríku, North American Association of Fisheries Economists, sem haldin var í La Paz í Baja California í Mexíkó 22.–24. mars 2017. Erindi hans nefndist „Catch Shares: Potential for Optimal Use of Marine Resources“, Aflahlutdeild: Möguleikar á hagkvæmri nýtingu auðlinda sjávarins. Sífellt fleiri þjóðir taka upp kerfi aflahlutdeildar í fiskveiðum, en íslenska kvótakerfið er eitt dæmi þess.

Ragnar verður einnig aðalfyrirlesari á ráðstefnu Fiskihagfræðingafélags Evrópu, European Association of Fisheries Economists, sem haldin verður í kastalanum í Dyflinni á Írlandi 25.–27. apríl 2017, en þar talar hann um „Fishing rights“, einkaafnota- eða eignarréttindi til fiskveiða. Skýrsla, sem Ragnar birti árið 2009 ásamt tveimur öðrum höfundum á vegum Alþjóðabankans og FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, The Sunken Billions, Milljörðum sökkt, um sóun í sjávarútvegi, hefur vakið athygli og umræður um heim allan. Óhætt er að segja, að Ragnar sé ásamt Þráni Eggertssyni kunnasti hagfræðingur Íslendinga á alþjóðavettvangi.

Comments Off

Frjáls markaður á ferð

Dwight Lee, Federico Fernandez og John Fund (í ræðustól).

Samtök frjálslyndra framhaldsskólanema undir forystu Ísaks Hallmundssonar, RNH og Austrian Economics Center í Vínarborg, sem dr. Barbara Kolm veitir forstöðu, héldu fjölsótt málþing um frjálsan markað, „Free Market Road Show,“ í Háskólanum í Reykjavík laugardaginn 1. apríl 2017. John Fund frá National Review og Fox News talaði um hina nýju lýðstefnu (populism). Hún væri eins konar útrás óánægðs fólks, sem teldi kjörna fulltrúa sína ganga erinda alþjóðlegrar menntamanna- og skriffinnaklíku frekar en eigin þjóðar. Fund lagði áherslu á hinar öru framfarir, sem orðið hefðu í krafti frjálsra viðskipta. Í umræðum eftir ræðu Funds kvað prófessor Hannes H. Gissurarson íhalds- og frjálshyggjumenn alls ekki mega hverfa frá frjálsum alþjóðaviðskiptum, en beina óánægju alþýðufólks heldur að hinni alþjóðlegu klíku, sem sæti yfir hlut skattgreiðenda og neytenda og tekið hefði sér bólfestu í ábyrgðarlausum báknum, alþjóðastofnunum, háskólum og mörgum  fjölmiðlum.

Álvarez.

Federico Fernandez frá Austrian Economics Center lýsti deilihagkerfinu, þar á meðal airbnb gistingu og Uber akstri. Taldi hann hvort tveggja hagkvæmt og æskilegt. Prófessor Dwight R. Lee frá Georgíu-háskóla í Atlanta minnti á, að ríkisafskipti næðu sjaldnast tilgangi sínum. Einn aðalkosturinn á frjálsum markaði væri, að menn hættu þar mistökum, af því að þeir töpuðu á þeim, en í opinberum stofnunum héldu þeir þeim áfram, af því að þau væru styrkt af almannafé. Gordon Kerr, fjármálaráðgjafi í Lundúnum, gerði að umtalsefni ýmsa veikleika á hinu alþjóðlega peningakerfi. Gloria Álvarez frá Guatemala gagnrýndi lýðstefnu í Rómönsku Ameríku, ekki síst undir forystu Castro-bræðra á Kúbu og Hugos Chávez í Venesúela.

Guðlaugur Þór talar. Álvarez t. v. (hálffalin), Björn Jón og Kerr t. h.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra flutti lokaávarp þingsins. Vísaði hann því á bug, að kjör Trumps forseta og úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi um úrsögn úr Evrópusambandinu væri sambærilegt. Trump vildi ekki frjáls alþjóðaviðskipti, en helstu stuðningsmenn úrsagnarinnar úr ESB væru einmitt fylgismenn slíkra viðskipta. Íslendingar ættu að stunda frjáls viðskipti, en ekki ganga í önnur bandalög en þau, sem þeir hefðu hag af, eins og Atlantshafsbandalagið. Engin merki væru um, að Bandaríkjamenn væru að breyta um utanríkisstefnu. Auk Ísaks Hallmundssonar hafði Magnús Örn Gunnarsson veg og vanda af þinginu, en Björn Jón Bragason stjórnaði umræðum, sem voru fjörugar. Bárust ræðumönnum margar spurningar. Sjónvarpið ræddi við John Fund um stjórnmálaviðhorfið í Bandaríkjunum og Viðskiptablaðið við Gloriu Álvarez um ástandið í Rómönsku Ameríku. Um kvöldið hittust ráðstefnugestir, þar á meðal ræðumenn, á Petersen vínstúkunni á efstu hæð Gamla bíós.

Þátttaka RNH í þinginu var liður í samstarfsverkefni þess og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Comments Off

Heimurinn eftir Brexit og Trump

RNH, Samtök frjálslyndra framhaldsskólanema og Austrian Economics Center í Vínarborg efna til fundar í Háskólanum í Reykjavík laugardaginn 1. apríl kl. 11–13:30 um „Heiminn eftir Brexit og Trump“. Fundurinn er þáttur í „Free Market Road Show“ eða Frjálsum markaði á ferðinni, sem Austrian Economics Center skipuleggur víða um heim. Dagskráin hljóðar svo:

11:00 Opnun

11:20 A Major Economic Reconfiguration: The End of the Free Trade Area?

Ræðumenn: John Fund frá National Review, áður Wall Street Journal, og prófessor Dwight R. Lee

12:20 Hádegisverður

13:30 Troubled Times in a Divided World

Ræðumenn: Gloria Álvarez, aðgerðasinni í Rómönsku Ameríku, og Gordon Kerr, fjármálaráðgjafi í Lundúnum

14:30 Kaffihlé

15:00 Ávarp: Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra

Frá kl. 21:30 um kvöldið verður samkoma í Petersen svítunni (efstu hæð Gamla bíós). Þátttaka RNH í fundinum er liður í samstarfsverkefni þess og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir, ungir og gamlir, frjálslyndir og forvitnir. Bækur frá hugveitunni IEA í Lundúnum og Almenna bókafélaginu verða á boðstólum við vægu verði eða engu eftir atvikum og áhuga.

Hér útskýrir Gloria Álvarez, hvers vegna sósíalismi hentar ekki alþýðu manna:

Hér talar John Fund um bandarísk stjórnmál:

Comments Off

Ásgeir og Hersir: Endurreisn Íslands

Ásgeir flytur framsögu. Ljósm. Kristinn Ingvarsson.

Fjármálasérfræðingarnir Ásgeir Jónsson og Hersir Sigurgeirsson, dósentar í Háskóla Íslands, kynntu helstu niðurstöður nýrrar bókar sinnar, The Icelandic Financial Crisis: A Study Into the World’s Smallest Currency Area, á ráðstefnu í Háskóla Íslands 1. mars 2017. Á meðal þess, sem kemur fram í bókinni, er þetta:

  • Með neyðarlögunum 6. október 2008, sem sett voru í tíð samsteypustjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, en að frumkvæði Seðlabankans, valdi Ísland þá leið að „þjóðnýta“ ekki tapið af bankahruninu, með öðrum orðum að leggja það ekki á herðar skattgreiðenda. Eigendur hlutafjár í bönkunum töpuðu því öllu, og skuldabréfaeigendur töpuðu verulegum hluta krafna sinna, en innstæðueigendur töpuðu engu.
  • Að lokum tapaði íslenska ríkið engu heldur, heldur græddi nokkuð á bankahruninu. Ástæðan var sú, að það var vegna gjaldeyrishaftanna, sem sett voru á í upphafi bankahrunsins, í sterkri samningsaðstöðu gagnvart kröfuhöfum bankanna (aðallega vogunarsjóðum), sem voru reiðubúnir að sætta sig við afslátt á kröfum sínum gegn því að fá þær greiddar í erlendri mynt. Mið-hægri-stjórnin, sem tók við völdum 2013, taldi eðlilegt, að bankarnir (eða bú þeirra) tækju á sig þann kostnað, sem þeir hefðu valdið þjóðinni.
  • Með því að veita innstæðueigendum forgang í bú föllnu bankanna samkvæmt neyðarlögunum voru um €10 milljarðar færðir frá öðrum kröfueigendum til þeirra. Innstæðueigendur voru ekki síst bjargálna Bretar, en margir kröfuhafar í upphafi þýskir bankar. Erlendis var sá misskilningur algengur, að Íslendingar hefðu mismunað innlendum og erlendum sparifjáreigendum, en í rauninni var sparifjáreigendum annars vegar og öðrum kröfuhöfum hins vegar mismunað.
  • Horfur voru mjög ískyggilegar í upphafi bankahrunsins. Skuldir hins opinbera jukust um 70% af vergri landsframleiðslu, VLF, vegna þess, og var það meira en í nokkru öðru Evrópulandi að Írlandi undanteknu. Ísland var víða, en með röngu, talið gjaldþrota.
  • Eftir að ríkisstjórnir Stóra Bretlands og Hollands höfðu einhliða ákveðið að greiða út innstæður í útbúum Landsbankans í þessum tveimur löndum, kröfðust þær þess, að íslenska ríkið endurgreiddi þeim „lánin“ með vöxtum. Þetta hefði verið fjárskuldbinding um €4 milljarða eða nær helmingur vergrar landsframleiðslu á ári. Bú Landsbankans gat þó að lokum greitt öllum innstæðueigendum. Kröfugerð Breta og Hollendinga á hendur Íslendingum olli harðri milliríkjadeilu, en henni var hafnað með úrskurði EFTA-dómstólsins í málinu.
  • Helsti kostnaður íslenska ríkisins af bankahruninu var vegna taps Seðlabankans á lánum til viðskiptabankanna, en það nam um €2 milljörðum. Af því voru €1,7 milljarður vegna lána gegn ótryggðum skuldabréfum og €245 milljónir vegna neyðarláns til Kaupþings með veði í FIH banka í Danmörku. Einnig var mikið tap af sparisjóðnum í Keflavík, um €140 milljónir. Þótt þeir Ásgeir og Hersir sneiði hjá dómum um stjórnmálamenn, hefði þetta tap getað orðið miklu minna, ef Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefði ekki selt FIH banka með lökum kjörum og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra ekki tekið sparisjóðinn í Keflavík upp á arma sína.
  • Þrátt fyrir að Ísland hafi sloppið tiltölulega vel frá bankahruninu, er ekki víst, að önnur lönd geti fetað í fótspor þess. Hinar sérstöku aðstæður á Íslandi auðvelduðu hina tvíþættu leið út úr vandanum, annars vegar að reisa skjaldborg utan um innlenda hluta bankakerfisins og gera upp erlenda hlutann, hins vegar að færa tapið frá sparifjáreigendum til skuldabréfaeigenda, sem flestir voru erlendir.
  • Hröð endurreisn Íslands ætti ekki að vera undrunarefni, því að hagkerfið er í eðli sínu traust. Það var reist á arðbærum fiskveiðum, ríkulegum orkulindum og verulegum mannauð, en til viðbótar kom eftir hrunið óvæntur ferðamannastraumur. Eignir bankanna reyndust líka vera meiri en gert hafði verið ráð fyrir.

Kristrún talar við þá Ásgeir, Hersi og Sigurð. Ljósm. Kristinn Ingvarsson.

Í pallborði eftir framsögur þeirra Ásgeirs Jónssonar og Hersis Sigurgeirssonar voru auk þeirra dr. Sigurður Hannesson, ráðgjafi stjórnvalda um uppgjör við kröfuhafa, Kristrún Heimisdóttir, aðstoðarmaður utanríkisráðherra í bankahruninu (Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur frá Samfylkingunni) og Jóhannes Rúnar Sveinsson, lögfræðiráðgjafi stjórnvalda um bankahrunið. Kristrún harmaði þá staðreynd, að Íslendingar skyldu ekki snúa bökum saman í bankahruninu eins og Danir gerðu til dæmis. Þess í stað notfærðu sumir stjórnmálamenn það til að gera upp gamlar sakir. Kristrún kvað Íslendinga verða að endurmeta utanríkisstefnu sína í ljósi þess, hversu fáa vini þeir ættu í raun. Bandaríkjamenn væru ekki sami trausti bakhjarlinn og í Kalda stríðinu, eins og vel hefði komið í ljós, þegar þeir gerðu gjaldeyrisskiptasamninga við skandinavísku bankana þrjá, en ekki við hinn íslenska. Þessir samningar hefðu gert seðlabönkunum kleift að bjarga ýmsum innlendum bönkum frá falli.

Comments Off