Ný bók: Hrun og endurreisn

Bókarhöfundar, Hersir og Ásgeir. Ljósm. Visir/Vilhelm

Tveir sérfræðingar í fjármálafræðum, dr. Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræðideild Háskóla Íslands, og dr. Hersir Sigurgeirsson, dósent í viðskiptafræðideild skólans, hafa gefið út bók um eftirleik íslenska bankahrunsins 2008, The Icelandic Financial Crisis: A Study Into the World’s Smallest Currency Area, hjá Palgrave Macmillan í New York. Af því tilefni er útgáfuráðstefna í Háskóla Íslands miðvikudaginn 1. mars kl. 16–18 í Hátíðasal, þar sem höfundarnir tveir flytja ávörp, en síðan eru pallborðsumræður, og í þeim taka þátt Jóhannes Karl Sveinsson, lögfræðilegur ráðgjafi stjórnvalda í uppgjöri eftir bankahrunið, Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstöðumaður Fjármálaeftirlitsins, dr. Sigurður Hannesson, stærðfræðingur og ráðgjafi stjórnvalda um losun fjármagnshafta, og Kristrún Heimisdóttir, fyrrverandi aðstoðarmaður utanríkisráðherra. Fundarstjóri er dr. Ólafur Þ. Harðarson prófessor.

RNH vekur sérstaka athygli á útgáfuráðstefnunni og bókinni, sem er hin forvitnilegasta. Þeir Ásgeir og Hersir greina sérstöðu íslenska peningakerfisins í bankahruninu, þar sem seðlabankinn gat ekki leyst lausafjárvanda bankanna með seðlaprentun eins og seðlabankar annarra þjóða, því að vandinn var í erlendum gjaldmiðlum, sem ekki fékkst aðgangur að. Einnig rekja þeir, hvernig stjórnvöld í krafti neyðarréttar settu neyðarlögin 6. október 2008 til að koma í veg fyrir, að áfallið af hruni bankanna lenti af fullum krafti á herðum venjulegra borgara, og hversu harkalega breska Verkamannaflokksstjórnin brást við. Þá lýsa þeir hinni hröðu endurreisn íslenska hagkerfisins síðustu árin, þar á meðal samningum við kröfuhafa. Höfundarnir telja, að margt megi læra af íslenska bankahruninu og endurreisn hagkerfisins.

Comments Off

Rafræn fræðirit um atvinnufrelsi og einkaframtak

RNH hefur tekið að sér það verkefni að setja ýmis fræðirit, sem varða atvinnufrelsi og einkaframtak og iðulega eru illfáanleg, á Netið, svo að þau verði aðgengileg öllum. Meðal samstarfsaðila í þessu verkefni eru Atlas Network og ACRE, Alliance of Conservatives and Reformists in Europe. Nú þegar eru fimm slík rit komin á Netið á svæðinu Google Books, og má nálgast þau með því að smella á nöfn ritanna:

  • Individual Transferable Quotas in Theory and Practice, sem kom út 1999, en einn höfundur þess er prófessor Anthony Scott, sem er einn virtasti hagfræðingur heims og lagði ásamt H. Scott Gordon hornstein að fiskihagfræðinni. Lýst er eðli og þróun fyrirkomulags fiskveiða á Nýja Sjálandi og Íslandi. Prófessorarnir Ragnar Árnason og Hannes H. Gissurarson ritstýrðu bókinni.
  • Cutting Taxes to Increase Prosperity, sem kom út 2007 og var þáttur í verkefni fyrir fjármálaráðuneytið um skatta og velferð, sem prófessor Hannes H. Gissurarson sá um. Þar skrifuðu ýmsir kunnir hagfræðingar, þar á meðal Edward C. Prescott, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, og prófessorarnir Pascal Salin, Brendan Walsh og Ragnar Árnason. Dr. Tryggvi Þór Herbertsson og Hannes H. Gissurarson ritstýrðu bókinni.
  • Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, sem kom út 2009 og var þáttur í verkefni fyrir fjármálaráðuneytið um skatta og ve lferð, sem prófessor Hannes H. Gissurarson sá um. Þar ræðir Hannes kenningar um velferðarríkið, ályktanir af mælingum á atvinnufrelsi og áhrif skatta á hagsæld og farsæld.
  • Tekjudreifing og skattar, sem kom út 2014, en þar skrifa ýmsir sérfræðingar um þau efni, þar á meðal prófessor Ragnar Árnason, dr. Helgi Tómasson tölfræðingur og dr. Axel Hall hagfræðingur. Þeir Ragnar og Birgir Þór Runólfsson ritstýrðu bókinni.
  • The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem kom út 2015, en þar skrifar prófessor Hannes H. Gissurarson um fyrirkomulag fiskveiða við Ísland, en þær eru í senn sjálfbærar og arðbærar, ólíkt því sem gerist með ýmsum öðrum þjóðum.
Comments Off

Bók um tekjudreifingu og skatta á Netinu

RNH og AB (Almenna bókafélagið) hafa hafið endurútgáfu ýmissa rita, sem varða einstaklingsfrelsi og atvinnufrelsi, á Netinu í samstarfi við Atlas Network og ACRE, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna. Í ársbyrjun 2016 kom út bókin The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable eftir Hannes H. Gissurarson stjórnmálafræðiprófessor, rannsóknastjóra RNH. Í janúar 2017 kom út eftir Hannes bókin Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör. Í febrúar 2017 kom út greinasafn frá 2014, Tekjudreifing og skattar, sem þeir Ragnar Árnason hagfræðiprófessor og Birgir Þór Runólfsson hagfræðidósent ritstýra. Aðrir höfundar eru Arnaldur Sölvi Kristjánsson hagfræðingur, Axel Hall hagfræðingur, Hannes H. Gissurarson og Helgi Tómasson tölfræðidósent. Höfundar ræða um vandkvæðin á að mæla tekjudreifingu (til dæmis með svonefndum Gini-stuðlum) og skilgreina fátækt skynsamlega. Til dæmis kann lengri meðalaldur, lægri lífeyrisaldur og lengri skólaganga allt að valda því, að  tekjudreifing mælist ójafnari og hlutfallsleg fátækt meiri. Hvað sem því líður, reynist fátækt, jafnt töluleg (absolute) og tiltöluleg (relative) samkvæmt mælingum vera svipuð á Íslandi og á öðrum Norðurlöndum (þar sem hún er einna minnst í heimi) og tekjudreifing í svipuðu horfi líka. Ragnar Árnason vekur athygli á, að reikna verði út hreinan tekjuskatt (greiðslur að frádreginni opinberri þjónustu og bótum), en hann sé miklu fremur stighækkandi á Íslandi en hinn vergi. Birgir Þór Runólfsson ræðir hinar afdráttarlausu niðurstöður, þegar atvinnufrelsi er borið saman í ýmsum löndum: Allir, jafnt ríkir sem fátækir, eru betur komnir í hinum frjálsu hagkerfum. Nokkrir höfunda benda á, þar eð bætur séu tekjutengdar á Íslandi, að þá verði til skattagildrur, þar sem ekki borgi sig fyrir einstaklinga að auka við sig vinnu, því að þá missi þeir bætur. Þessar gildrur þurfi að fjarlægja án þess að greiða þeim bætur, sem þurfi ekki á þeim að halda.

Comments Off

Bók um skatta og lífskjör á Netinu

RNH og AB (Almenna bókafélagið) hafa hafið endurútgáfu ýmissa rita, sem varða einstaklingsfrelsi og atvinnufrelsi, á Netinu í samstarfi við Atlas Network og ACRE, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna. Í ársbyrjun 2016 kom út bókin The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable eftir Hannes H. Gissurarson stjórnmálafræðiprófessor, rannsóknastjóra RNH. Í janúar 2017 kom út eftir Hannes bókin Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör. Þar ræðir Hannes tvær helstu heimspekikenningarnar til varnar farsældarríkinu (eða velferðarríkinu, eins og það er kallað á verri íslensku), hugmyndir Hegels um almenna þátttöku borgaranna án útskúfunar einhvers hluta þeirra og áhyggjur Rawls af hinum verst settu. Hannes rökstyður, að „íslenska leiðin“, sem farin var á Íslandi undir forystu Davíðs Oddssonar 1991–2004, hafi fallið prýðilega að kenningum Hegels og Rawls. Útskúfun hafi verið minni en í flestum öðrum löndum vegna þess, að atvinnuleysi var hverfandi, fátækt óveruleg, lífeyrissjóðir öflugir og starfsaldur tiltölulega langur. Fátækasti hópurinn á Íslandi hafi notið betri kjara en í flestum öðrum löndum og átt þess kost að bæta kjör sín. Raunar hafi tekjur hinna tekjulægstu aukist hraðar á Íslandi á þessu tímabili en í öllum öðrum Evrópulöndum að hinum olíuauðga Noregi undanteknum. Hannes vekur athygli á gögnum frá Fraser stofnuninni í Kanada um alþjóðlegan samanburð á atvinnufrelsi, sem veita afdráttarlausa vísbendingu um, að hinir verst settu séu skár settir í frjálsum hagkerfum en öðrum. Þess vegna eigi jafnaðarmaður af ætt Rawls að vera hlynntur frjálsu markaðskerfi, alþjóðlegu viðskiptafrelsi og réttarríkinu. Hannes lýsir einnig árangrinum af verulegum og almennum skattalækkunum árin 1991–2004 og varar við skattahækkunum.

Comments Off

Æviágrip Ólafs Björnssonar prófessors

Hannes H. Gissurarson ræðir við Ólaf Björnsson um frjálshyggju í Ríkisútvarpinu 12. nóvember 1978.

Út er komið í tímaritinu Andvara 2016 æviágrip Ólafs Björnssonar prófessors eftir Hannes H. Gissurarson prófessor, rannsóknastjóra RNH. Ágripið er alllangt, 63 blaðsíður. Hannes segir frá ættum Ólafs og æsku og námi hans í Menntaskólanum á Akureyri og Kaupmannahafnarháskóla, en Ólafur var annálaður námsgarpur. Hann lýsir áhuga Ólafs á róttækum stjórnmálahugmyndum á háskólaárunum og starfi hans í Kyndli, félagi róttækra stúdenta í Kaupmannahöfn. Við lestur rita þeirra Ludwigs von Mises og Friedrichs Hayeks gerðist Ólafur þó um það leyti fráhverfur sósíalisma. Sannfærðist hann um, að hagfelldasta skipulag atvinnumála hvíldi á dreifingu valdsins og frjálsum alþjóðaviðskiptum. Við áætlunarbúskap væri þekking og kunnátta einstaklinganna úti í atvinnulífinu ekki fullnýtt.

Þegar Ólafur Björnsson sneri að loknu hagfræðiprófi heim 1938, gerðist hann því einn beinskeyttasti gagnrýnandi haftabúskaparins, sem hér var rekinn af mestu afli 1930–1960. Einnig þýddi hann 1945 útdrátt úr Leiðinni til ánauðar eftir Hayek, og olli það hörðum blaðadeilum. Ólafur kenndi hagfræði í Viðskiptaháskólanum, síðar viðskiptadeild Háskólans, frá útmánuðum 1940 og allt þar til hann lét af starfi sjötugur 1982. Gaf hann út mörg merk fræðirit, þar á meðal stórvirkið Þjóðarbúskap Íslendinga. Hann sat jafnframt á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1956–1971. Árið 1978 kom út eftir hann stjórnmálaritið Frjálshyggja og alræðishyggja, sem hafði mikil áhrif á margt ungt fólk. Ólafur lést 1999 og lét eftir sig eiginkonu og þrjá syni. Ritgerð Hannesar er þáttur í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Alliance of Conservatives and Reformists in Europe, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Æviágrip Ólafs Björnssonar.pdf

Comments Off

Þjónusta, þrælkun, flótti

Aatami Kuortti

Hinn 25. desember 2016 var réttur aldarfjórðungur liðinn frá því, að Ráðstjórnarríkin geispuðu golunni. Þann dag vék Míkhaíl Gorbatsjov úr stöðu sinni, og daginn eftir var hinn rauði fáni með hamar og sigð í horni dreginn í síðasta sinn niður í Kremlkastala. Af því tilefni endurútgaf Almenna bókafélagið nú merka heimild um Ráðstjórnarríkin sálugu, bókina Þjónusta, þrælkun, flótti eftir Aatami Kuortti. Hún kom fyrst út á vegum Kristilegs bókmenntafélags haustið 1938 í þýðingu séra Gunnars Jóhannessonar. Höfundur var prestur, finnskumælandi Ingríumaður, en Ingría eða Ingermanland er svæðið við Kirjálabotn milli Finnlands og Eistlands. Þjónaði séra Aatami þremur lúterskum söfnuðum í Ingríu 1927-1930. Hann var handtekinn fyrir að neita að veita leynilögreglu ráðstjórnarinnar upplýsingar um sóknarbörn sín og sendur í tíu ára þrælkunarvinnu í Kirjálalandi, Karelíu.

Eftir nokkurra mánaða vist í vinnubúðum tókst Kuortti að flýja, og gekk hann dag og nótt í átt til Finnlands, var tekinn höndum einu sinnum en slapp úr klóm leynilögreglunnar, og eftir tólf sólarhringa ferð um skóga og vötn Kirjálalands komst hann til Finnlands. Þar setti hann saman lýsingu á lífinu undir ráðstjórn, fangavist sinni og flótta í einföldu og látlausu máli og því áhrifamiklu. Kom bók hans út á finnsku 1934, sænsku 1935, dönsku 1937 og hollensku 1940. Hún var fyrsta bókin á íslensku eftir fanga í þrælkunarbúðum ráðstjórnarinnar, Gúlaginu. Svo vill til, að haustið 1938 komu út í Reykjavík tvær bækur um Ráðstjórnarríkin, bók Kuorttis og Gerska æfintýrið eftir Halldór Kiljan Laxness. Höfundarnir voru nálægt því að vera samtímamenn. Kuortti fæddist 1903, ári á eftir Laxness, og lést 1997, ári á undan skáldinu. Er fróðlegt að bera bækurnar tvær og efnistök höfunda saman í ljósi reynslunnar.

Bók Kuorttis er hin áttunda í röð endurútgefinna verka um alræðisstefnuna, en sú ritröð er þáttur í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Samtaka íhaldsmanna og umbótasinna í Evrópu, um „Evrópu fórnarlambanna“. Áður hafa komið út Greinar um kommúnisma eftir Bertrand Russell, Konur í þrælakistum Stalíns eftir Elinor Lipper og Aino Kuusinen, Úr álögum eftir Jan Valtin (Richard Krebs), Leyniræðan um Stalín eftir Níkíta Khrústsjov (ásamt Erfðaskrá Leníns), El campesino — Bóndinn eftir Valentín González og Julián Gorkin, Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir Ants Oras og Eistland. Smáþjóð undir oki erlends valds eftir Andres Küng. Dr. Hannes H. Gissurarson prófessor skrifar formála og skýringar aftanmáls í allar bækurnar.

Comments Off