Hannes kynnir Norrænu leiðirnar í Kaupmannahöfn

Velgengni Norðurlandaþjóðanna er þrátt fyrir endurdreifingartilraunir jafnaðarmanna, ekki vegna þeirra, sagði dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, rannsóknastjóri RNH, á evrópska frelsismótinu (European Liberty Forum) í Comwell Conference Center í Kaupmannahöfn 30. maí 2018. Þar kynnti hann rit sitt, Norrænu leiðirnar (The Nordic Models), sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í árslok 2016. Hann lýsir hinni sterku frjálshyggjuhefð Svía, en sænsk-finnski presturinn Anders Chydenius birti rit um það, hvernig eins gróði þarf ekki að vera annars tap og hvernig atvinnulífið getur verið skipulegt án þess að vera skipulagt, nokkrum árum á undan útkomu Auðlegðar þjóðanna eftir Adam Smith. Frjálshyggjumaðurinn Johan August Gripenstedt forsætisráðherra beitti sér á nítjándu öld fyrir umfangsmiklum umbótum í frjálsræðisátt. Á tuttugustu öld héldu kunnir hagfræðingar uppi merki atvinnufrelsis, Eli Heckscher, Gustav Cassel og Bertil Ohlin. Frjálshyggja var líka öflug í Noregi og Danmörku, eins og norska Eiðsvallastjórnarskráin 1814 bar órækt vitni um. Á Íslandi mæltu Jón Sigurðsson, leiðtogi Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni, Arnljótur Ólafsson, höfundur fyrsta hagfræðiritsins, og Jón Þorláksson forsætisráðherra fyrir atvinnufrelsi.

Hannes sagði þó ekki rétt að gera of mikið úr velgengni Norðurlandaþjóðanna. Eðlilegt væri að bera saman lífskjör á Norðurlöndunum fimm og í norðlægum ríkjum Bandaríkjanna og fylkjum Kanada, til dæmis Manitoba, Minnesota og Norður- og Suður-Dakota. Í ljós kæmi, að landsframleiðsla á mann í „norrænum ríkjum“ Vesturheims væri talsvert meiri en í norrænum ríkjum Evrópu.

Hannes kvað Íslendinga auðvitað ekki hafa lagt margt til heimsmenningarinnar, enda hefðu þeir löngum verið fáir og fátækir. Þó mætti nefna þrennt: Þjóðveldið 930–1262 hefði verið merkilegt skipulag laga án ríkisvalds, þar sem réttarvarsla hefði verið í höndum einstaklinga. Kvótakerfið í sjávarútvegi væri í senn sjálfbært og arðbært. Íslendingar hefðu líka í bankahruninu fundið leið, sem aðrar þjóðir væru nú að feta: að gera innstæður í bönkum að forgangskröfum, en með því væri hægt að fella niður ríkisábyrgð á innstæðum, semi hefði leitt ófáa bankamenn í freistni.

Rit Hannesar um Norrænu leiðirnar verður brátt aðgengilegt á Netinu.

Glærur Hannesar í Kaupmannahöfn 29. maí 2018

Comments Off

Hannes kynnir Grænan kapítalisma í Brüssel

Í umhverfismálum ber að gera greinarmun á nýtingarstefnu (wise use environmentalism) og umhverfistrúarstefnu (ecofundamentalism). Nýtingarsinnar vilja hreint og óspillt umhverfi, en um leið skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda mannkyni til hagsbóta. Umhverfistrúarmenn halda því fram, að „náttúran“ sé manninum æðri, og krefjast friðunar (preservation) frekar en verndunar (conservation). Þetta sagði dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, rannsóknastjóri RNH, á umhverfisráðstefnu ACRE í Bibliotheque Solvay í Brüssel 24. maí 2018, en þar kynnti hann nýútkomið rit sitt, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Private Property Rights, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í árslok 2017. Ritið verður bráðlega aðgengilegt á Netinu.

Hannes kvað skýrt dæmi um muninn á nýtingarstefnu og umhverfistrúarstefnu varða „þokkafull risadýr“ (charismatic megafauna) eins og hval, fíl og nashyrning. Umhverfistrúarmenn virðast telja þessi dýr eins konar heilagar kýr og vilja alfriða þau. Nýtingarsinnar telja hins vegar skynsamlegast að úthluta nýtingarréttindum til þeirra aðila, sem helst hafa hagsmuna að gæta. Til dæmis ættu íbúar á fílaslóðum að eignast fílana og selja aðgang að þeim. Þá myndu veiðiþjófar breytast í veiðiverði með einu pennastriki.

Hannes benti á, að hvalastofnar, sem nýttir eru á Íslandsmiðum, langreyður og hrefna, eru síður en svo í útrýmingarhættu. Þeir éta um sex milljón lestir af sjávarmeti árlega, aðallega svifi og smáfiskum, en Íslendingar landa um einni milljón lesta af fiski. Þegar umhverfistrúarmenn krefjast alfriðunar, virðast þeir ætlast til, að Íslendingar beri kostnaðinn af slíkri friðun. Svipað er að segja um makríl. Evrópusambandið virðist ætlast til þess, að Íslendingar fóðri makrílinn, sem ratað hefur á Íslandsmið, en vill banna þeim að veiða hann.

Hannes lýsti líka íslenska kvótakerfinu, en fiskveiðar á Íslandsmiðum eru í senn sjálfbærar og arðbærar, á meðan víða annars staðar er stunduð rányrkja í hafi. Á meðal annarra ræðumanna á umhverfisráðstefnu ACRE var hinn kunni heimspekingur Sir Roger Scruton, sem samið hefur bókina Græna heimspeki og fjölda annarra verka. Í tengslum við ráðstefnuna birti Hannes greinar á Netinu um sjálfbærar og arðbærar fiskveiðar og um verndun (en ekki friðun) þokkafullra risadýra.

Glærur Hannesar í Brüssel 24. maí 2018

Comments Off

Hannes: Því studdu menntamenn alræði?

Hannes flytur erindi sitt. Ljósm. Ragnhildur Kolka.

Tuttugasta öldin var best allra tíma, og hún var verst allra tíma, sagði dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, rannsóknastjóri RNH, í erindi í Háskóla Íslands 26. apríl. Hún var öld hagsældar og framfara, en um leið fjöldamorða alræðissinna, nasista og kommúnista. Talið er, að um 120–125 milljónir manna hafi týnt lífi af völdum alræðisstefnunnar á nýliðinni öld, en hún réð líka miklu um örlög margra annarra. Erindi Hannesar var haldið í tilefni útkomu rits eftir hann, Totalitarianism in Europe: Three Cases Studies, Alræði í Evrópu: Þrjár rannsóknir, sem samið var að frumkvæði ACRE, Alliance of Conservatives and Reformists in Europe, sem liður í samstarfsverkefni við RNH, Europe of the Victims, Evrópu fórnarlambanna.

Lipper

Fyrst sagði Hannes frá Elinor Lipper, ungri og gáfaðri stúlku af gyðingaættum, sem gerðist kommúnisti og sendiboði Kominterns víða um Evrópu, jafnframt því sem hún átti í sambandi við ítalska skáldið Ignazio Silone. Hún fór til Rússlands 1937, en var svo óheppin, að þá voru hreinsanir Stalíns í kommúnistahreyfingunni að ná hámarki, og hírðist hún í þrælabúðum í ellefu ár. Hún var svissneskur ríkisborgari, og fyrir harðfylgi svissneskra yfirvalda var hún látin laus 1948 og skrifaði þá bók um reynslu sína, sem seldist vel og vakti mikla athygli. Voru útdrættir úr henni meðal annars birtir í Tímanum og Vísi, og hefur sá í Vísi nýlega verið endurútgefinn. Í rannsókn sinni komst Hannes að mörgu óvæntu um Lipper.

Þá sagði Hannes frá óvæntum endurfundum í sextugsafmæli Brynjólfs Bjarnasonar vorið 1958, þegar gyðingakona, Henny Goldstein-Ottósson, sem flúið hafði undan Hitler til Íslands 1934, sá skyndilega í veislunni þýskan nasista, sem hún hafði þekkt af illu einu á Íslandi fyrir stríð, dr. Bruno Kress. Lét hún í ljós óánægju sína, en málið var að sinni þaggað niður. Bróðir Hennyar, Siegbert Rosenthal, kona hans og sonur voru send í Auschwitz mánuði áður en Henny Goldstein og íslenskur maður hennar hefðu getað tekið á móti þeim. Voru konan og barnið myrt umsvifalaust, en Siegbert var valinn til þátttöku í svokölluðu „hauskúpusafni“ rannsóknarstofnunar SS-sveitanna, Ahnenerbe, og síðan myrtur. Svo einkennilega vildi til, að Bruno Kress var á Íslandi styrkþegi Ahnenerbe, en verkefni hans var að skrifa íslenska málfræði. Þá var hann æstur nasisti, en eftir stríð gerðist hann kommúnisti og forstöðumaður Norrænu stofnunarinnar í Greifswald-háskóla. Forstöðumaður Ahnenerbe var eftir stríð hengdur fyrir stríðsglæpi, en Kress varð heiðursdoktor frá Háskóla Íslands 1986.

Loks rifjaði Hannes upp þætti úr ævisögu Halldórs K. Laxness, sem var um árabil beittasti penni stalínismans á Íslandi. Hann skrifaði tvær lofgerðir um ferðir sínar til Ráðstjórnarríkjanna, Í austurvegi 1932 og Gerska æfintýrið 1938, en löngu seinna viðurkenndi hann, að hann hefði þar ekki sagt rétt frá. Hafði hann í seinni ferðinni meðal annars orðið í Moskvu vitni að réttarhöldunum yfir Búkharín og öðrum gömlum kommúnistum, sem Stalín neyddi til að játa á sig hinar furðulegustu sakir og lét síðan skjóta, og einnig að handtöku Veru Hertzsch heima hjá sér, þar sem Laxness var staddur, en hún var þýsk barnsmóðir íslensks námsmanns, sem búið hafði um skeið í Moskvu. Var Vera saklaus af öllu öðru en því að hafa um skeið verið gift manni, sem stalínistar töldu andstæðing sinn.

Hannes leitaði skýringa á því, hvers vegna margir menntamenn á tuttugustu öld aðhylltust alræðisstefnu og beittu sér gegn kapítalismanum, kerfi samkeppni og séreignar. Ein var skýring Schumpeters, að menntamenn væru firrtir og ábyrgðarlausir. Önnur var skýring Mises, að þeir byggjust við meiri frama í sósíalisma en kapítalisma. Hin þriðja er skýring Jouvenels, að menntamenn legðu fæð á markaðinn, því að þeir teldu sig ekki geta unnið eftir pöntun, heldur innri köllun. Hin fjórða er skýring Hayeks, að menntamenn ofmætu iðulega mátt skynseminnar til að umskapa skipulagið og vanmætu að sama skapi þá sjálfsprottnu þróun, sem ber ávöxt í kapítalismanum: Þeir skildu illa, að regla gæti komist á, án þess að nokkur hefði komið henni á. Taldi Hannes allar þessar skýringar eiga rétt á sér í dæmi Laxness, en aðallega þó skýring Hayeks.

Húsfyllir var á fyrirlestri Hannesar, sem Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála í Háskóla Íslands hélt. Bessí Jóhannsdóttir var fundarstjóri, en dr. Dalibor Rohac frá Slóvakíu, sérfræðingur American Enterprise Institute í Washington-borg í málefnum Mið- og Austur-Evrópu, veitti andsvar. Kvaðst hann hafa alist upp í alræðisríki og séð gaddavírinn og varðturnana úr stofuglugganum hjá sér í Bratislava. Örlagasögurnar, sem Hannes segði, væru átakanlegar og ættu að vera Vesturlandabúum umhugsunarefni. Á meðal þeirra, sem tóku til máls, voru Tómas Ingi Olrich, fyrrverandi menntamálaráðherra, og Þór Whitehead, prófessor emeritus í sagnfræði.

Glærur Hannesar 26. apríl 2018

Comments Off

Tszwai So fær fyrstu verðlaun í samkeppni Evrópuvettvangsins

László Tökés Evrópuþingmaður, dr. Łukasz Kamiński, forseti Evrópuvettvangsins, og Tszwai So.

Hönnuðurinn Tszwai So frá Spheron Architects á Bretlandi hlaut fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppni Evrópuvettvangs um minningu og samvisku, en hún var um besta hugmyndina að minnisvarða um fórnarlömb alræðis í Evrópu, sem fyrirhugað er að reisa á Jean Rey-torgi í miðri Brüssel-borg. Niðurstöður dómnefndar voru kynntar á fundi Evrópuvettvangsins í Brüssel 24. apríl 2018, og var rannsóknastjóri RHN, dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, viðstaddur. Einnig voru þar þrír þingmenn á Evrópuþinginu, László Tökés frá Rúmeníu, sem var gestgjafi fundarins, Milan Zver frá Slóveníu and Petras Auštrevičius frá Litáen. Fulltrúar sendiráða Póllands, Tékklands og Litáens sóttu einnig fundinn. Hugmynd Sos var, að torgið yrði eins konar sögulegt pósthús, þar sem birt yrðu bréf frá föngum í alræðisríkjunum.

Comments Off

Alræði í Evrópu: Þrjár rannsóknir

Rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, flytur erindi á fundi Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála fimmtudaginn 26. apríl 2018 kl. 17 í Háskóla Íslands, Háskólatorgi, stofu 101 (Ingjaldsstofu). Fundarefnið er „Alræði í Evrópu: Þrjár rannsóknir“, en rit með því heiti er nýkomið út eftir Hannes á ensku, Totalitarianism in Europe: Three Case Studies, og gefur ACRE, Alliance of Conservatives and Reformists in Europe, það út sem lið í samstarfsverkefni með RNH, „Evrópa fórnarlambanna.“ Þar birtir Hannes þrjár rannsóknir, sem hann hefur gert.

Hin fyrsta er á örlögum Elinors Lippers, sem samdi umtalaða bók um ellefu ára vist sína í þrælakistum Stalíns, og birtist útdráttur úr henni í íslenskum blöðum. Eftir útkomu bókarinnar og vitnisburð í réttarhöldum og á ráðstefnum virtist Lipper hafa horfið, og lítið var um hana vitað. Hannes tók sér fyrir hendur að grafa upp, hver hún var og hvað hefði orðið um hana.

Önnur rannsóknin er á því, hvernig örlög tveggja Þjóðverja á Íslandi fyrir stríð fléttuðust saman: Henny Goldstein var landflótta Gyðingur, en Bruno Kress styrkþegi SS-stofnunarinnar Ahnenerbe. Goldstein missti marga ættingja sína í Helförinni, þar á meðal fyrir tilstilli Ahnenerbe. Eftir stríð gerðist Kress kommúnisti. Endurfundir þeirra í sextugsafmæli Brynjólfs Bjarnasonar urðu sögulegir.

Rohac

Þriðja rannsóknin er á málsvörn Halldórs Laxness áratugum saman fyrir alræðisstefnu Stalíns. Hannes rekur meðal annars, hvernig Laxness lét dátt við ítalska fasista í því skyni að koma bókum sínum út á ítölsku og hvernig hann daufheyrðist við frásögnum ýmissa kunningja sinna erlendra um kúgunina í kommúnistaríkjunum, auk þess sem hann þagði í aldarfjórðung um það, að hann varð í Moskvu 1938 vitni að handtöku saklausrar konu, barnsmóður Íslendings.

Dr. Dalibor Rohac, stjórnmálahagfræðingur frá Slóvakíu og sérfræðingur í Evrópufræðum í AEI, American Enterprise Institute, bregst stuttlega við erindi Hannesar, en kl. 18 verður móttaka fyrir gesti fundarins í Litla Torgi við hlið Hámu, mötuneytis Háskólans. Bessí Jóhannsdóttir cand. mag. stjórnar fundinum.

Comments Off

Hannes: Hvað geta aðrar þjóðir lært af bankahruninu?

Dr. Alejandro Chafuen, Acton Institute, og Hannes H. Gissurarson bera saman bækur sínar á þingi APEE.

Þrír aðallærdómarnir fyrir aðrar þjóðir af íslenska bankahruninu 2008 eru, að hagkerfi þarf ekki að hrynja, þótt bankakerfi falli, að skynsamlegt er að veita innstæðueigendum forgangskröfur í bú banka og að þá má afnema ríkisábyrgð á innstæðum. Þetta sagði rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, í erindi á málstofu um peninga og bankamál á ársmóti APEE, Association of Private Enterprise Education, Samtaka um einkaframtaksfræðslu, í Las Vegas 1.–5. apríl 2018. Hann bætti við, að aðrir lærdómar af bankahruninu væru, að geðþóttavald yrði alltaf misnotað, eins og Bretar hefðu gert með setningu hryðjuverkalaga gegn Íslendingum, að smáþjóðir ættu enga vini, þegar á hólminn væri komið, og að miklu máli skipti að veita röggsamlega forystu, eins og Seðlabankinn hefði gert fyrir og í bankahruninu, þegar hann beitti sér fyrir því að reisa varnargarð um Ísland (ring-fencing).

Alan Kors flytur erindi. Nýr forseti APEE, Andrew Young (t. v.), og Edward Stringham hlusta á. Ljósm.: Peter Boettke.

Á meðal fyrirlesara á þinginu, voru prófessor Barry Weingast, sem reifaði skýringar á því, hvers vegna sumar þjóðir væru fátækar (en Adam Smith ræddi það mál í þriðju bók Auðlegðar þjóðanna); skýringarnar væru í fæstum orðum, að afætur hrifsuðu arðinn af auðskapendum. Prófessor Randall Holcombe spurði, hvort valdastéttir á Vesturlöndum hefðu breytt kerfi frjálsrar samkeppni í eins konar ríkiskapítalisma (political capitalism). Prófessor Alan Charles Kors gagnrýndi kröfuna um pólitískan rétttrúnað í háskólum, sem gengi þvert gegn sannfæringu upplýsingarmanna um hugsanafrelsi. Prófessor Larry White bar saman þrjár tegundir gjaldmiðla, gullfót, pappírsfót og rafmynt, og taldi gullfót hafa reynst best. Rafmyntir væru ekki einfaldar í framleiðslu.Prófessor Michael Munger velti fyrir sér, hvort markaðskapítalismi gæti verið sjálfbær eða stöðugur, en myndi ekki þróast vegna starfsemi sérhagsmunahópa í klíkukapítalisma; það færi eftir því, hvort eðlilegur hagvöxtur yrði meiri en ávinningurinn fyrir sérhagsmunahópa af því að seilast til ríkisvaldsins.

Buchanan á skrifstofu sinni í George Mason háskóla. Ljósm. Hannes H. Gissurarson.

Í nokkrum málstofum var rætt um stjórnmálahugmyndir James M. Buchanans, föður almannavalsfræðinnar (public choice theory) og Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði 1986, ekki síst í tilefni árásar á hann í nýútkominni bók eftir Nancy Maclean, Lýðræði í fjötrum (Democracy in Chains). Í einni málstofunni stóð Hannes H. Gissurarson upp og mælti nokkur orð um Buchanan, sem kom til Íslands 1982 og Hannes hitti einnig margoft á þingum Mont Pelerin samtakanna og málstofum Liberty Fund. Hannes sagði, að í huga Buchanans hefði „hinn hagsýni maður“ (homo economicus) verið vinnutilgáta, en ekki raunsönn lýsing á manneðlinu. Buchanan hefði einmitt gagnrýnt suma Chicago-hagfræðingana fyrir að trúa því, að menn kepptu ætíð að eigin hag. Hins vegar yrði að gera ráð fyrir slíkri eiginhagsmunagæslu í stjórnmálum jafnt og viðskiptum, svipað og skipasmiðir yrðu að gera ráð fyrir vondu veðri, þótt það væri oftast gott. Hannes kvað Buchanan hafa í samtölum við sig gert skarplegar athugasemdir um kvótakerfið íslenska: Einhverjir yrðu að hafa hag af því að afgirða almenninga (enclose commons), og breytingin yrði að vera Pareto-hagkvæm í þeim skilningi, að enginn tapaði á henni. Úthlutun framseljanlegra aflakvóta fullnægði þessum skilyrðum ólíkt auðlindaskatti eða sölu eða leigu veiðileyfa.

Í Las Vegas notaði Hannes H. Gissurarson tækifærið og hélt fund með fræðimönnum frá Brasilíu til að leggja á ráðin um þing Mont Pelerin samtakanna, sem fyrirhugað er að halda í São Paulo haustið 2020. Á ársmótinu var prófessor Andrew Young kjörinn forseti APEE í stað Gabriels Calzada og dr. Jerry Jordan, fyrrv. aðalbankastjóri Seðlabankans í Cleveland, varaforseti. Prófessor Edward Stringham (sem flutti nýlega fyrirlestur á svæðisþingi Evrópusamtaka frjálslyndra stúdenta á Íslandi) verður áfram ritstjóri Journal of Private Enterprise, sem samtökin gefa út, og prófessor J. R. Clark gjaldkeri. Þátttaka Hannesar var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Næsta ársmót APEE verður á Sælueyju, Paradise Island, nálægt Nassau á Bahama eyjum 5.–8. apríl 2019.

Comments Off