Saga kvenhetju

Almenna bókafélagið hefur gefið út bók eftir flóttakonu frá Norður-Kóreu, Með lífið að veði. Höfundurinn, Yeonmi Park, er aðeins 23 ára, fædd í október 1993. Skömmu eftir að hún fæddist, skall á hungursneyð í landinu, og er talið, að mörg hundruð þúsund manns hafi þá soltið í hel. Faðir Park hóf svartamarkaðsbrask til að hafa í og á fjölskyldu sína, en var sendur í þrælabúðir. Móðir hennar var líka um skeið fangelsuð.

Þær mæðgur ákváðu vorið 2007 að flýja norður til Kína. En smyglararnir, sem fengnir voru til að koma þeim yfir landamærin, stunduðu mansal. Strax og til Kína kom, var móður Park nauðgað og síðar henni sjálfri, og báðar voru þær seldar í nauðungarhjónabönd. Maðurinn, sem tók Park að sér, lagði ást á hana, en fór misjafnlega með hana. Þær mæðgur gáfust ekki upp, og tókst þeim í febrúar 2009 að komast til Mongólíu eftir margra sólarhringa gang í fimbulkulda yfir Góbí-eyðimörkina. Þar beið þeirra óvissa, sem lauk með því, að suður-kóresk stjórnvöld fengu þær afhentar.

Park sló eftirminnilega í gegn í alþjóðlegum sjónvarpsþætti haustið 2014, og á tveimur dögum horfðu 50 milljónir manna á ræðu hennar á Youtube. Bók hennar kom út á ensku haustið 2015, og stundar hún nú háskólanám í Bandaríkjunum, jafnframt því sem hún vekur ötullega athygli á mannréttindabrotum í Norður-Kóreu. Útgáfa bókarinnar er studd af RNH og liður í samstarfsverkefni við ACRE, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna: Minninguna um kommúnismann“. Jónas Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri Almenna bókafélagsins, hafði tækifæri til að ræða við enskukennara og leiðbeinendur Park á fundi Mont Pèlerin samtakanna í Seoul í Suður-Kóreu í maí 2017. Norður-Kórea er sem kunnugt er eitt af tveimur kommúnistaríkjum, sem eftir standa í heiminum. Að næturlagi sést vel munurinn á kommúnisma og kapítalisma frá gervihnetti:

Comments Off

Hannes: Hvikum ekki frá frjálsum alþjóðaviðskiptum

Dr. Klaus flytur erindi sitt.

Þrír Íslendingar, sem allir tengjast RNH, Gísli Hauksson stjórnarformaður, Hannes H. Gissurarson rannsóknastjóri og Jónas Sigurgeirsson framkvæmdastjóri, sóttu svæðisþing MPS, Mont Pèlerin samtakanna, í Seoul í Suður-Kóreu 7.–10. maí 2017. MPS eru alþjóðleg samtök frjálslyndra fræðimanna og stuðningsmanna einstaklingsfrelsis, sem þeir Friedrich A. von Hayek, Frank H. Knight, Ludwig von Mises, Karl R. Popper, Milton Friedman og fleiri stofnuðu í Sviss vorið 1947. Halda þau allsherjarþing annað hvort ár og svæðisþing eftir atvikum þess í milli. Á meðal fyrirlesara í Seoul voru margir kunnir fræðimenn, þar á meðal Nóbelsverðlaunahafarnir Vernon Smith og Lars Peter Hansen og hagfræðingarnir prófessor Israel Kirzner, sérfræðingur um frumkvöðla og framkvæmdamenn, og prófessor John B. Taylor, sem Taylor-reglan um peningastefnu er kennd við. Vaclav Klaus, fyrrverandi forseti Tékklands, og Hwang Kyo-ahn, starfandi forseti Suður-Kóreu, ávörpuðu þingið, en svo vildi til, að forsetakjör fór fram í Kóreu á næstsíðasta degi þingsins, 9. maí.

Hwang, forsætisráðherra Kóreu og starfandi forseti, ávarpar samkomuna.

Umræðuefnin á svæðisþinginu voru fjölmörg, þar á meðal hagvöxtur og ójöfn tekjudreifing, félagslegar bætur og skattlagning, hið alþjóðlega fjármálakerfi, öryggismál á Kóreuskaga og kóreska hagkerfið. Umræður eru bundnar trúnaði og ekki ætlast til þess, að menn segi frá öðru en því, sem þeir sjálfir færa fram. Hannes H. Gissurarson var umsegjandi þriggja fyrirlestra um hagþróun í Kóreu í samanburði við önnur lönd. Hann tók undir það, sem kom fram í fyrirlestrum á svæðisþinginu, að hagþróun í Kóreu gengi kraftaverki næst. Í byrjun sjöunda áratugs 20. aldar var Suður-Kórea eitt fátækasta land heims, en nú er hagkerfi þess hið 11. stærsta í heimi. Árið 1950 var landsframleiðsla á mann (sem er algengasti mælikvarðinn á lífskjör) um 1% af meðallandsframleiðslu á mann í löndum OECD, Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar. Þá skall á Kóreustríðið, en í því féllu hálf önnur milljón manna, og 40% iðnaðarins var lagður í rústir. En árið 1970 var landsframleiðsla á mann komin upp í 14% af meðaltalinu í löndum OECD og árið 2016 upp í 85%.

Dr. Ed Feulner, Heritage Foundation, segir frá kynnum sínum af Kóreu.

Hannes taldi, að velgengni Kóreumanna hefði orðið þrátt fyrir ríkisafskipti, sem voru veruleg í landinu, aðallega fram undir 1960, en ekki vegna þeirra. Hann benti á, að velgengni lítilla ríkja væri ekki síst vegna þess, að þau væru oftast mjög samleit og samstæð (homogeneous), gagnkvæmt traust mikið og gagnsæi verulegt. Þetta skýrði tvímælalaust að miklu leyti velgengni Norðurlanda, sem hefðu auk þess ætíð stutt réttarríkið og stundað alþjóðaviðskipti. Hagkerfi þeirra hefðu verið opin. Hannes sagði, að fríverslunarsamningar milli þjóða, eins og Kóreumenn væru að gera, væru eflaust oft til hins betra, en auðvitað væri hagkvæmast og best, að heimurinn væri allur eitt fríverslunarsvæði. Þjóðir sköðuðust mest sjálfar á því að reisa í kringum sig tollmúra til að vernda innlenda framleiðslu. Fríverslunarsamningar gætu líka skaðað þriðju aðila: Til dæmis gerði það Kóreu erfitt fyrir, þegar Mexíkó gerði fríverslunarsamning við Bandaríkin.

Jónas, Hannes og Gísli. T. h. er merki ráðstefnunnar, Kóreuhlutarnir tveir, myrkur og ljósadýrð.

Kóreumenn hefðu líka forðast þau mistök valdsmanna í mörgum öðrum fátækum löndum  að halda landbúnaði niðri. Jafnframt því sem þungaiðnaði var vissulega gert léttara fyrir með skattaívilnunum og greiðum aðgangi að lánsfé, var jarðnæði skipt upp á milli bænda og mynduð skilyrði til blómlegrar matvælaframleiðslu. Enn fremur hefðu ríkisafskiptin af iðnframleiðslu einkum miðast að því að efla útflutning, en ekki vernda innlend fyrirtæki fyrir samkeppni. Leiðin fram á við væri í Kóreu hin sama og annars staðar að mismuna hvergi ólíkum atvinnugreinum og opna hagkerfið eftir megni.

Þegar rætt var um, hvort bæta ætti innlendum framleiðslugreinum upp, þegar þær væru sviptar tollvernd, rifjaði Hannes upp söguna af því, þegar hann hefði haustið 2984 kynnt einn íslenska seðlabankastjórann fyrir Milton Friedman svofelldum orðum: „Prófessor Friedman, hér er maður, sem myndi missa starfið, væru kenningar yðar framkvæmdar á Íslandi.“ Friedman svaraði að bragði: „Nei, hann myndi aðeins þurfa að færa sig í arðbærara starf.“ Hannes kvað þetta lögmál markaðarins: Menn yrðu að færa sig í arðbærari störf, þegar aðstæður breyttust. Hinu væri ekki að neita, að oft gæti slík aðlögun verið vandkvæðum bundin og valdið ólgu í stjórnmálum, eins og sjá mætti á Vesturlöndum.

Hannes tók annað dæmi um óvinsælar, en farsælar aðgerðir í átt að hagræðingu. Það væri, þegar verksmiðja væri flutt úr hálaunalandi í láglaunaland. En þá væri um endurdreifingu tekna að ræða frá ríkum til fátækra, sem ætti að vera öllum mannúðarsinnum kappsmál. Tiltölulega hálaunaðir launþegar misstu af einu tækifæri til að selja vinnuafl sitt og munaði lítt um það, en fátækt fólk í viðtökulandinu fengi tækifæri til að bæta kjör sín með dugnaði. Endurdreifingin væri líka aðeins til skamms tíma, en til langs tíma væri þeim, sem misstu spón úr sínum aski, bætt það upp. Þar eð varan væri nú framleidd ódýrar en áður, yrði til tekjuafgangur, sem skilaði sér annaðhvort í verðlækkun hennar eða auknum gróða, en hvort tveggja hefði að lokum í för með sér aukið framboð lífsgæða.

Hannes lagði áherslu á, að frjálslyndir stjórnmálaleiðtogar mættu hvergi hvika frá stuðningi sínum við frjáls alþjóðaviðskipti. Enn ætti það við, sem ensk-þýski stjórnmálamaðurinn John Prince Smith hefði sagt: Tilhneiging okkar til að skjóta á aðra minnkar, ef við sjáum í þeim væntanlega viðskiptavini. Ekki ætti síður við það, sem væri oft kennt Bastiat, en Thomas Watson hjá IBM hefði líklega sagt fyrstur: Ef varan fær ekki að fara yfir landamærin, þá mun herliðið þramma yfir þau.

Í Seoul fékk Hannes líka tækifæri til að skiptast á skoðunum um starfsemi seðlabanka og íslenska bankahrunið við prófessor John Taylor. Peter Boettke, hagfræðiprófessor í George Mason-háskóla, er forseti Mont Pèlerin-samtakanna, en prófessor Pedro Schwartz frá Spáni var formaður dagskrárnefndar og þeir Kyu-Jae Jeong, Tae-shin Kwon og Inchul Kim höfðu forystu um skipulagninguna. Næsta svæðisþing þeirra verður í Stokkhólmi 2.–5. nóvember 2017. Þar verður rætt um þá ógn, sem frelsinu stafar af auknu lýðskrumi í hinum vestræna heimi (populisma). Næsta allsherjarþing samtakanna verður síðan á Kanaríeyjum 30. september til 6. október 2018. Þátttaka þeirra Gísla, Hannesar og Jónasar í þinginu í Seoul var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Alliance of Conservatives and Reformists in Europe, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Málstofa um frumkvöðla í frjálsu hagkerfi. Frá v.: J. R. Clark, Israel Kirzner og Nóbelsverðlaunahafarnir Lars Peter Hansen og Vernon Smith.

Comments Off

Gagnrýni á bók Boyes um bankahrunið

Óeirðir á Austurvelli í kjölfar bankahrunsins.

Vorhefti tímaritsins Þjóðmála 2017 er komið út. Þar er löng og rækileg grein á ensku eftir rannsóknastjóra RNH, prófessor Hannes H. Gissurarson, um bók enska blaðamannsins Rogers Boyes, Meltdown Iceland, Ísland bráðnað, en hún var fyrsta bókin, sem birtist á ensku um bankahrunið og hefur mótað skoðanir margra útlendinga á því. Helstu heimildarmenn Boyes á Íslandi voru að sjálfs hans sögn hagfræðingarnir Þorvaldur Gylfason, Gylfi Magnússon og Katrín Ólafsdóttir. Hannes bendir hins vegar á ýmsar villur, smávægilegar og stórvægilegar, í bók Boyes. Til dæmis segir Boyes, að faðir Björgólfs Guðmundssonar hafi verið forstjóri Skeljungs, en tengdafaðir hans gegndi þeirri stöðu. Hann kveður einnig Jón Steinar Gunnlaugsson hafa orðið forseta Hæstaréttar, en það varð hann aldrei.

Hannes lýsir því í grein sinni, hvernig Boyes taki bókstaflega ýmsar goðsagnir, sem íslenskir blaðamenn hafi smíðað, oft að erlendri fyrirmynd, til dæmis um kolkrabba, sem stjórnað hafi íslensku atvinnulífi fyrir 1990. Sannleikurinn sé sá, að hópurinn, sem þar er átt við, hafi aðeins stjórnað einu af tíu stærstu fyrirtækjum landsins um áratugar skeið, enda voru önnur stórfyrirtæki flest ríkisfyrirtæki, samvinnufyrirtæki eða sölusamtök. Boyes segi einnig sögu um, hvernig þeir Davíð Oddsson og Milton Friedman hafi hist, en þeir hafi aldrei hist. Einnig haldi Boyes því fram, að útgefendur bóka Davíðs (Ólafur Ragnarsson og Pétur Már Ólafsson) hafi þess vegna notið sérstakrar fyrirgreiðslu, sem enginn kannast við.

Boyes endurtekur að sögn Hannesar margvíslegan misskilning um íslenska kvótakerfið, til dæmis að ríkið hafi fært útgerðarmönnum fiskistofnana að gjöf. Eini rétturinn, sem aðrir landsmenn hafi verið sviptir, segir Hannes, þegar fiskveiðar voru bundnar við handhafa kvóta, var rétturinn til að gera út án nokkurs arðs, eins og fiskihagfræðingar hafi sýnt fram á. Frásögn Boyes af Icesave-deilunni sé einnig lituð af sjónarmiði bresku Verkamannaflokksstjórnarinnar, sem setti að nauðsynjalausu hryðjuverkalög á Íslendinga í miðju bankahruninu. Margt fleira kemur fram í grein Hannesar, sem vinnur að skýrslu fyrir fjármálaráðuneytið um íslenska bankahrunið.

Grein Hannesar um bók Boyes

Comments Off

Hannes: Minnumst fórnarlambanna

Prófessor Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, flutti fyrirlestur á málstofu í Evrópuþinginu í Brüssel 26. apríl um, hvers vegna minnast ætti fórnarlamba alræðisstefnunnar í Evrópu. Evrópuvettvangur um minningu og samvisku, sem RNH á aðild að, og Brüssel-borg undirbúa nú í sameiningu minnismerki um fórnarlömbin, sem komið verður fyrir á einu torgi borgarinnar, og hefur verið efnt til samkeppni um hugmyndir um það. Hannes kvað engan ágreining um, að minnast ætti fórnarlamba Helfararinnar, eins hræðilegasta viðburðar tuttugustu aldar. Menn vildu sýna fórnarlömbum hennar virðingu og reyna að koma í veg fyrir, að eitthvað sambærilegt endurtaki sig. Enn skorti þó á viljann og áhugann á að minnast á sama hátt fórnarlamba kommúnismans. Auðvitað væri Helförin einstæð í sögu mannkyns, sagði Hannes, en hin kerfisbundna útrýming hugsanlegra eða raunverulegra andstæðinga kommúnismans væri líka einstæð. Nasismi og kommúnismi væru sömu ættar.

Hannes benti í því sambandi á, að alræðisherrarnir Stalín og Maó töpuðu ekki styrjöldum, svo að ódæði þeirra voru ekki dregin fram í dagsljósið í réttarhöldum eins og í Nürnberg. Á sagnfræðingnum hvíldi sú frumskylda að sögn Hannesar að hafa það, sem sannara reyndist. Þar væri niðurstaðan ótvíræð. Þau gögn, sem aðgangur hefði fengist að í kommúnistaríkjunum fyrrverandi, sýndu, að þeir Robert Conquest og Aleksandr Solzhenítsyn hefðu í öllum aðalatriðum haft rétt fyrir sér um glæpsamlegt eðli kommúnismans. Hin fámenna þjóð hans sjálfs uppi á hjara veraldar hefði jafnvel kynnst alræðinu, og sagði Hannes frá afdrifum Veru Hertzsch, barnsmóður Benjamíns Eiríkssonar hagfræðings, og dóttur þeirra, en þær mæðgur létust úr vosbúð í þrælabúðum Stalíns, og örlögum bróður Hennýar Ottósson kjólameistara og fyrrverandi eiginmanns hennar og barnsföður, en þeir voru báðir myrtir í útrýmingarbúðum nasista. Hann lýsti líka stuttlega útgáfu ýmissa bóka á íslensku gegn alræðisstefnunni.

Á sagnfræðingnum hvíldi líka sú skylda, kvað Hannes, að tala fyrir hina þöglu, sem sviptir hefðu verið rétti eða getu til að tala sjálfir. Alræðisherrarnir mættu ekki sofna svefninum langa í fullvissu um, að myrkraverk þeirra hyrfu með þeim úr sögunni. Hannes gerði orð franska sagnfræðingsins Chateaubriands að sínum: „Við hina djúpu þögn undirgefninnar, þar sem ekkert heyrist nema glamrið í hlekkjum þrælsins og hvísl uppljóstrarans, allir skjálfa af ótta við harðstjórann og sami háski er að vera í náðinni hjá honum og vekja óánægju hans, birtist sagnfræðingurinn, sem tryggja á makleg málagjöld fyrir hönd alþýðu manna. Neró dafnaði til einskis, því að Tacitus hafði þegar fæðst í Rómaveldi.“ Þátttaka Hannesar í málstofunni var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“.

Glærur Hannesar í Brüssel

Comments Off

Erindi í Brüssel um fórnarlömb alræðisstefnunnar

Hannes flytur erindi á ráðstefnu Evrópuvettvangsins í júní 2016.

Dr. Hannes H. Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði og rannsóknastjóri RNH, flytur erindi á málstofu Evrópuvettvangs um minningu og samvisku í Evrópuþinginu í Brüssel miðvikudaginn 26. apríl um, hvers vegna þurfi að minnast fórnarlamba alræðisstefnunnar í Evrópu, nasisma, fasisma og kommúnisma. Í formála Svartbókar kommúnismans, sem Hannes þýddi á íslensku 2009, giskar prófessor Stéphane Courtois á, að fórnarlömb nasismans hafi verið um 25 milljónir manns, en kommúnismans um 100 milljónir manns. Courtois bendir á, að nasisminn tapaði stríði, en kommúnisminn féll frekar um sjálfan sig. Þótt kommúnistar hafi gerst sekir um glæpi gegn mannkyni og glæpi gegn friði, hafa engin Nürnberg-réttarhöld verið háð yfir kommúnismanum og engar kvikmyndir eða ljósmyndir teknar í þrælabúðum kommúnista. Þess vegna hefur kommúnisminn ekki verið lagður á minni mannkyns í sama mæli og nasisminn. Hannes tók saman fyrir Evrópuvettvanginn yfirlit yfir ýmsar bækur og kvikmyndir um alræðisstefnuna, sérstaklega kommúnismann. Síðar á árinu ætlar RNH í samstarfi við Almenna bókafélagið að minnast aldarafmælis bolsévíkabyltingarinnar í Rússlandi, sem gerð var undir forystu hins blóðþyrsta Vladímírs Leníns 7. nóvember 1917, meðal annars með endurútgáfu Ég kaus frelsið eftir Víktor Kravtsjenko, Nytsamur sakleysingi og fleiri bóka. Allt eru þetta liðir í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“.

Comments Off

Hannes: Ísland líti í báðar áttir

Frá v.: Salvör Nordal, Hulda Þórisdóttir, Kristrún Heimisdóttir, Ásgeir Jónsson og Hannes. Ljósm. Kristinn Ingvarsson.

Prófessor Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, var einn framsögumanna á ráðstefnu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, utanríkisráðuneytisins og fleiri aðila um, hvert Ísland stefndi, í Norræna húsinu miðvikudaginn 19. apríl 2017. Hannes rifjaði upp, að rómverski guðinn Janus hafði tvær ásjónur, og sneru þær hvor í sína átt. Íslandi væri eins farið. Það væri á miðju Norður-Atlantshafi og yrði að snúa í senn í vestur og austur. Það væri hæpið, sem prófessorarnir Anne Sibert og Baldur Þórhallsson hefðu haldið fram eftir bankahrun, að Ísland væri of lítið til að geta staðist og yrði þess vegna að skríða í skjól Evrópusambandsins. Rök Jóns Sigurðssonar fyrir sjálfstæði Íslands væru enn í fullu gildi. Smáríkjum hefði einmitt fjölgað stórkostlega á 20. öld af tveimur ástæðum. Við frjáls alþjóðaviðskipti nytu þau ábata af frjálsum alþjóðaviðskiptum, og aukið lýðræði hefði líka haft í för með sér almennari viðurkenningu á sjálfsákvörðunarrétti smáþjóða. Hannes benti á, að sumt væri ódýrara að meðaltali í smáríkjum, til dæmis löggæsla, því að lítil ríki væru oftast samleitari en stór, traust manna í milli meira og aðhald í krafti gagnsæis virkara. Hagkerfi lítilla ríkja væri ósjaldan opnari og sveigjanlegri en stórra, enda væru þau að jafnaði auðugri.

Hagsmunir Íslendinga væru skýrir, þröngir og raunhæfir: Þeir snerust um að selja fisk og aðra vöru og þjónustu og tryggja öryggi í herlausu landi, sagði Hannes. Vitnaði hann í Bjarna Benediktsson forsætisráðherra, sem sagt hefði, að virðing smáþjóða á alþjóðavettvangi stæði í öfugu hlutfalli við mælgi þeirra þar. Þótt Íslendingar hefðu í hinni alþjóðlegu lánsfjárkreppu orðið fyrir sárum vonbrigðum með forna bandamenn, ættu þeir í utanríkismálum um tvo kosti að velja. Annar væri Atlantshafskosturinn, aukið samstarf við grannríkin á Norður-Atlantshafi, Noreg, Stóra Bretland, Bandaríkin og Kanada að ógleymdum vinum í Færeyjum og Grænlandi. Hinn væri Evrópusambandskosturinn, aukið samstarf við ríkin á meginlandi Evrópu. Þótt annar kosturinn útilokaði ekki hinn, væri Atlantshafskosturinn samt eðlilegri og skárri, enda væri Bretlandi stærsti viðskiptavinur okkar og Bandaríkin öflugasta herveldi heims og á færi fárra annarra en þeirra að halda hér uppi vörnum. Engilsaxnesku stórveldin og Norðurlönd væru líka í fararbroddi um frelsi og mannréttindi í heiminum. Íslendingar mættu hins vegar ekki týna sjálfum sér, slíta sálufélagið við Egil og Snorra, Njáluhöfund, Hallgrím og Jónas. Þótt Íslendingar þyrftu að vita af smæð sinni, mættu þeir ekki láta hana smækka sig, heldur stækka.

Dr. Ásgeir Jónsson, dósent og forseti hagfræðideildar, sagði, að peningalegt fullveldi hefði reynst Íslendingum vel til að komast út úr bankahruninu, en til langs tíma litið hefði það valdið óstöðugleika. Dr. Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar, gerði greinarmun á fullveldi og sjálfræði og kvað þjóðir oft vera í orði kveðnu fullvalda, þótt þær væru í raun lítt sjálfráðar. Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur, fyrrverandi aðstoðarkona utanríkisráðherra, taldi, að komið hefði í ljós í bankahruninu, hversu einir á báti Íslendingar reru. Þeir yrðu að endurmeta öryggisstefnu sína í viðsjálli veröld. Dr. Hulda Þórisdóttir kynnti nokkrar niðurstöður úr rannsóknum, sem sýna, að gagnkvæmt traust hefur lítt minnkað á Íslandi, og mælist það meira á Norðurlöndum en víðast annars staðar. Hannes benti í því tilefni á, að samheldni og traust væru mikilvægar skýringar á velgengni Norðurlanda. Hann tók einnig undir þá skoðun Kristrúnar, að verulegur munur væri á kjöri Donalds Trumps í Bandaríkjunum og úrslitum í þjóðaratkvæðagreiðslunni í Bretlandi um útgöngu úr Evrópusambandinu. Trump heimtaði tollvernd, en breskir íhaldsmenn styddu frjáls alþjóðaviðskipti. Rækilega var sagt frá ráðstefnunni í Morgunblaðinu, en þátttaka Hannesar í henni var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna.

Glærur Hannesar í Reykjavík 19. apríl 2017

Comments Off