Deilur um efnahagsumbæturnar 1991–2004

Jón Sigurðsson. Málverk Þórarins B. Þorlákssonar (föðurbróður Jóns Þorlákssonar).

Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson prófessor, birti árið 2017 tvær ritgerðir í bandaríska tímaritinu Econ Journal Watch í ritröð þess um frjálshyggju í ýmsum löndum. Fyrri ritgerðin var um sögu frjálshyggjunnar á Íslandi fram á ofanverða tuttugustu öld, og þar ræddi Hannes um hagfræðiskrif Jóns Sigurðssonar og Arnljóts Ólafssonar á 19. öld og Jóns Þorlákssonar, Benjamíns Eiríkssonar og fleiri á 20. öld. Arnljótur, Jón og Benjamín voru höfundar fyrstu hagfræðiritanna á íslensku. Þau voru Auðfræði (1880), Lággengið (1924) og Orsakir erfiðleikanna í atvinnu- og gjaldeyrismálunum (1938). Einnig tók tímaritið viðtal við Hannes (podcast). Seinni ritgerðin var um efnahagsumbæturnar 1991–2004 og ólíkar skýringar á bankahruninu 2008. Þar eð Hannes vék þar að kenningum Stefáns Ólafssonar prófessors um fátækt og tekjudreifingu á Íslandi síðustu áratugi, veitti tímaritið Stefáni kost á að svara, og gerði hann það haustið 2017.

Nú er hausthefti Econ Journal Watch 2018 komið út með andsvari Hannesar við skrifi Stefáns, og rifjar höfundur þar upp, að Stefán hélt því fram fyrir þingkosningarnar 2003, að fátækt væri almennari á Íslandi en öðrum Norðurlöndum, og fyrir þingkosningarnar 2007, að tekjudreifing (eins og hún mældist 2004) væri ójafnari á Íslandi en öðrum Norðurlöndum. Hannes kveður gögn sýna, að hvort tveggja hafi verið rangt. Hann gagnrýnir einnig ýmsar fullyrðingar Stefáns Ólafssonar um bankahrunið, en Stefán vildi kenna Davíð Oddssyni um það að miklu leyti.

Comments Off

Skýrsla Hannesar um bankahrunið

Bjarni tekur við skýrslunni um bankahrunið úr hendi Hannesar Hólmsteins. Ljósm. Haraldur Guðjónsson, Viðskiptablaðið.

Rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, afhenti Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra 25. september 2008 skýrslu þá, sem hann hefur unnið á vegum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins 2008. Helstu niðurstöður skýrslunnar eru, að Bretar hafi beitt hryðjuverkalögum gegn Íslendingum að óþörfu, því að þeir hefðu getað náð yfirlýstu markmiði sínu með miklu mildari úrræðum, að Bretar hafi brotið gegn banni samningsins um Evrópska efnahagssvæðisins gegn mismunun vegna þjóðernis, því að þeir hafi í fjármálakreppunni boðið öllum breskum bönkum aðstoð nema tveimur, sem þeir hafi beinlínis lokað, Heritable og KSF (Kaupthing Singer & Friedlander), en þeir voru í eigu Íslendinga, og að Bandaríkjamenn hafi í fjármálakreppunni veitt Svíþjóð, Danmörku og Noregi þá aðstoð, sem þeir hafi neitað Íslendingum um. Hannes gerir þá niðurstöðu fjármálafræðinganna dr. Ásgeirs Jónssonar og dr. Hersis Sigurgeirssonar að sinni, að eignasöfn íslensku bankanna hafi almennt ekki verið betri né verri en erlendra banka á sama tíma. Hann rekur einnig í skýrslunni, hvernig stjórnvöld í Noregi, Finnlandi og Danmörku hafi aðstoðað innlenda og vel tengda kaupsýslumenn við að komast yfir eignir íslensku bankanna á smánarverði.

Hannes Hólmsteinn heldur því fram, að viðbrögð íslenskra stjórnvalda við bankahruninu hafi verið skynsamleg. Með neyðarlögunum frá 6. október 2008 hafi þau róað almenning og takmarkað fjárskuldbindingar íslenska ríkisins. Það geti orðið öðrum þjóðum fordæmi að gera innstæður að forgangskröfum, eins og Íslendingar hafi gert, en með því verði ríkisábyrgð á bönkum óþörf. Tvær stjórnmálaályktanir megi draga af bankahruninu: að geðþóttavald verði alltaf misnotað, og sé beiting hryðjuverkalaganna bresku dæmi um það, og að Ísland staði eitt í heiminum, enginn hafi viljað hjálpa því í hruninu nema Færeyingar og Pólverjar.

Skýrsla Hannesar Hólmsteins er á ensku, en hann kynnti efni hennar í sjónvarps- og útvarpsviðtölum, þar á meðal í Speglinum á Ríkisútvarpinu, Harmageddon á FM97.7 og Ísland vaknar á K-100, í íslenskum útdrætti á heimasíðu fjármálaráðuneytisins og í fjórum greinum í Morgunblaðinu:

Beiting hryðjuverkalaganna var Bretum til minnkunar

Íslendingum var neitað um aðstoð, sem aðrir fengu

Viðbrögð íslenskra stjórnvalda við bankahruninu voru skynsamleg

Framkoma sumra granna í bankahruninu var siðferðilega ámælisverð

Árið 2017 birti Hannes Hólmsteinn einnig skýrslu um lærdóma fyrir Evrópuþjóðir af íslenska bankahruninu hjá hugveitunni New Direction í Brüssel.

Viðbrögð þeirra, sem hafna niðurstöðum Hannesar Hólmsteins, af því að þeir telja hina alþjóðlegu fjármálakreppu ekki skipta miklu máli um bankahrunið, enda beri Íslendingar einir alla sök á því, hafa verið misjöfn, eins og skopteiknarar hafa hagnýtt sér:

 

Comments Off

Fjölmennt og fjörugt hjá frjálshyggjustúdentum

Rösklega hundrað manns sóttu svæðisþing Evrópusamtaka frjálslyndra stúdenta, European Students for Liberty, og Samtaka frjálslynda framhaldsskólanema laugardaginn 22. september 2018 á Grand Hotel. Þau Magnús Örn Gunnarsson, Marta Stefánsdóttir og Sigurvin Jarl Ármannsson sáu aðallega um skipulagningu þingsins, sem hátt í þrjátíu erlendir stúdentar sóttu.

Vera Kítsanova frá Rússlandi segir frá.

Dagskráin var fjölbreytt. Fyrir hádegi talaði James Lark III frá Bandaríkjunum um „Economic Fallacies: Discussion of Some Common Fallacies and Misconceptions about Economics“. Lark talaði einnig á fyrsta svæðismóti ESFL á Íslandi fyrir fimm árum. Þá talaði Kyle Walker frá Bandaríkjunum um „Ideas and People: How SFL is Changing the World“. Eftir hádegi talaði Gil Dagan frá Ísrael um „How free trade can help the Middle East“ og hjónin Matt B. og Terry Kibbe frá Bandaríkjunum um „Reaching skeptics with liberalism“. Matt Kibbe er höfundur vinsæls yfirlits- eða inngangsrits um frjálshyggju, sem kom út 2014, Don’t Hurt People and Don’t Take Their Stuff: A Libertarian Manifesto. Að loknu stuttu hléi talaði Bill Wirtz frá Lúxemborg um „The European Case Against the European Union“, Grace Morgan frá Bandaríkjunum um „IGO Watch: Global Taxpayers at Risk“, Vera Kítsanova frá Rússlandi um „Fighting the Russian Leviathan: Libertarians against Putin“ og prófessor Antony Davies frá Bandaríkjunum um „Cooperation, Coercion, and Human Development“. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sleit þinginu með nokkrum orðum.

RNH hefur jafnan stutt svæðisþing ESFL á Íslandi, og er þetta hið fimmta og fjölmennasta, sem haldið hefur verið, og var mikill hugur í þátttakendum. Á föstudagskvöldið bauð rannsóknastjóri RNH, prófessor Hannes H. Gissurarson, fyrirlesurum og erlendum gestum á þinginu heim til sín, og á laugardagskvöldið hittust allir gestir á þinginu í Opnu húsi. Erlendu gestirnir fóru eftir fundinn í ferð um Suðurlandsundirlendið og skoðuðu jökla og hveri, hraunbreiður, fossa og kletta. Þátttaka RNH í svæðisþingunum er liður í samstarfsverkefni við ACRE í Brüssel um „Evrópu, Ísland og hinn frjálsa markað“.

Lark heldur ræðu. Jóhann Ari Sigfússon er fundarstjóri.

Comments Off

Ragnar fyrirlesari á alþjóðlegri ráðstefnu

Prófessor Ragnar Árnason, formaður Rannsóknaráðs RNH, er einn af aðalræðumönnum á alþjóðlegri ráðstefnu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO, og Sjávarútvegsráðuneytis Kóreu í borginni Yeosu syðst á Kóreuskaga 10.–14. september 2018. Meginstef ráðstefnunnar er „Afnot og afnotaréttur í fiskveiðum 2018“ (Tenure and User Rights in Fisheries 2018). Fyrirlestur Ragnars nefnist „Úr opnum aðgangi í takmarkaðan í fiskveiðum“ (Transition from Open Access to Limited Access in Fisheries). Þar greinir Ragnar vanda fiskveiða við ótakmarkaðan aðgang, þegar sókn eykst að því marki, að enginn ágóði er lengur af fiskveiðunum, allur hugsanlegur arður af þeim eyðist upp í of miklum kostnaði. Lausn vandans er fólgin í því að takmarka aðganginn við þá, sem eru að veiðum, og leyfa þeim að versla með afnotaréttindi sín eða veiðileyfi, en þá minnkar sóknin smám saman niður í hagkvæmasta markið í frjálsri verslun með réttindin eða leyfin. Nauðsynlegri minnkun sóknarinnar er komið í kring með því að kaupa út veiðimenn í stað þess að reka þá út. Íslendingar hafa verið brautryðjendur á þessu sviði með kerfi framseljanlegra og ótímabundinna aflaheimilda, kvótakerfinu, í sjávarútvegi. Á meðal annarra ræðumanna á ráðstefnunni er Kristján Skarphéðinsson, ráðuneytisstjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, og lýsir hann reynslu Íslendinga af kvótakerfinu.

Comments Off

Hannes: Kúgunin eðlislæg kommúnismanum

Rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, var einn ræðumanna á alþjóðlegri ráðstefnu um kommúnisma, sem Stofnun sögulegra minninga í Eistlandi hélt í Tallinn 23. ágúst 2018. Var þátttaka Hannesar í ráðstefnunni liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“. Í tölu sinni kvað Hannes það enga tilviljun, heldur eðlislægt kommúnismanum að hafa alls staðar leitt til alræðis, kúgunar og fátæktar. Höfundar hans, Karl Marx og Friðrik Engels, hefðu verið fullir haturs og mannfyrirlitningar, eins og skrif þeirra sýndu vel. Þeir höfðu skömm á smáþjóðum, ekki síst Íslendingum. Þeir Marx og Engels hefðu enn fremur verið vísindatrúar, talið sig handhafa Stórasannleika, en ekki í leit að bráðabirgðasannleika, sem mætti betrumbæta með tilraunum, eins og venjulegir vísindamenn. Í þriðja lagi væri ætíð hætt við því, þegar tómarúm myndaðist eftir byltingu, að hinir ófyrirleitnustu og samviskulausustu fylltu það, eins og Edmund Burke hefði bent á í frægu bréfi sínu um stjórnarbyltinguna frönsku.

Sofi Oksanen og Hannes H. Gissurarson í Tallinn. Ljósm.: Mari-Ann Kelam.

Hannes kvað tvær ástæður í viðbót vera til þess, að kommúnismi leiddi jafnan til alræðis. Í landi, þar sem ríkið væri eini vinnuveitandi, ætti stjórnarandstæðingurinn erfitt um vik, en frelsið væri ekki raunverulegt frelsi, nema það væri frelsi til að gagnrýna stjórnvöld. Í fimmta lagi hygðust kommúnistar afnema dreifðan eignarrétt einstaklinga og frjáls viðskipti þeirra í milli, en við það fyrirkomulag nýttist dreifð þekking þeirra, eins og Friedrich A. Hayek hefði manna best sýnt fram á. En ef ríkið ræki öll atvinnutækin, þá yrði það að fækka þörfum manna og einfalda þær, til þess að allsherjarskipulagning atvinnulífsins yrði framkvæmanleg. Þetta gæti ríkið aðeins gert með því að taka í þjónustu sína öll mótunaröfl mannssálarinnar, fjölmiðla, skóla, dómstóla, listir, vísindi og íþróttir, en það er einmitt slíkt kerfi, sem kallað væri alræði. Á ráðstefnunni voru kynnt tvö ný rit eftir Hannes, Voices of the Victims: Notes Towards a Historiography of Anti-Communist Literature, sem kom út hjá New Direction í Brüssel í árslok 2017, og Totalitarianism in Europe: Three Case Studies, sem kom út hjá ACRE í Brüssel snemma árs 2018.

Á meðal annarra ræðumanna á ráðstefnunni voru Sofi Oksanen, höfundur hinnar kunnu skáldsögu Hreinsunar, sem komið hefur út á íslensku, og prófessor Richard Overy, sérfræðingur í sögu seinni heimsstyrjaldar og höfundur kunnrar bókar um Stalín og Hitler. Jafnhliða ráðstefnunni vígði forseti Eistlands, Kersti Kaljulaid, minnismerki um eistnesk fórnarlömb kommúnismans, en það stendur í útjaðri Tallinn. Á meðal gesta við vígsluna og á ráðstefnunni voru dómsmálaráðherrar Eystrasaltslandanna þriggja, Póllands, Úkraínu og fleiri ríkja.

Keljuraid forseti leggur blómsveig að Minnismerkinu um fórnarlömb kommúnismans. Ljósm. Martin Andreller.

 

Comments Off

Fjölmenni á Frjálsa sumarskólanum

Einar Freyr Bergsson setur skólann.

Fjölmenni sótti Frjálsa sumarskólann, sem ESFL, European Students for Liberty, og SFF, Samtök frjálslyndra framhaldsskólanema, héldu í Reykjavík 28. júlí 2018. Einar Freyr Bergsson, formaður SFF, setti skólann um morguninn, en síðan töluðu Óli Björn Kárason þingmaður um uppruna frjálslyndisstefnunnar og Davíð Þorláksson lögfræðingur um eðlilegt hlutverk ríkisins. Síðdegis töluðu Sigríður Andersen dómsmálaráðherra um rökin fyrir víðtæku tjáningarfrelsi, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, sálfræðingur og varaborgarfulltrúi, um afglæpavæðingu fíkniefna, og Brynjar Níelsson þingmaður um hlutverk fjölmiðla. Hagfræðingurinn Jeffrey Miron, prófessor í Harvard-háskóla og kennslustjóri skólans í hagfræði, flutti loks erindi um undirstöðuatriði frjálshyggju, en hann er höfundur fjögurra bóka um það efni. Var gerður góður rómur að máli Mirons. Um kvöldið hittust nemendur Sumarskólans yfir kvöldverði og skemmtu sér hið besta.

Stuðningur RNH við Frjálsa sumarskólann er liður í samstarfsverkefni þess við ACRE, Alliance of Conservatives and Reformists in Europe, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. ESFL heldur 22. september svæðisþing í Reykjavík í samstarfi við SFF, og hefur þetta myndband verið gert til kynningar:

Comments Off