Líftaug landsins

Ragnheiður Kristjánsdóttir, Sumarliði Ísleifsson og Helgi Þorláksson færa forseta Íslands eintak af verkinu.

Rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, var einn framsögumanna á málþingi Sagnfræðistofnunar í Háskóla Íslands þriðjudaginn 16. janúar 2018 síðdegis um nýútkomna tveggja binda bók um utanríkisverslun Íslands, Líftaug landsins. Ræddi einn fræðimaður við hvern bókarhöfund: Orri Vésteinsson fornleifafræðingur við Helga Þorláksson, prófessor emeritus, um verslun að fornu; Hannes við Gísla Gunnarsson, prófessor emeritus, um einokunarverslunina 1602–1787; Hrefna Róbertsdóttir skjalavörður við Önnu Agnarsdóttur, prófessor emeritus, um fríhöndlun; Gunnar Karlsson, prófessor emeritus, við Helga Skúla Kjartansson prófessor um verslunarfrelsi á 19. öld; Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor við Guðmund Jónsson prófessor um utanríkisverslun Íslendinga á 20. öld. Ritstjóri bókarinnar var Sumarliði Ísleifsson sagnfræðingur, en málstofustjóri Ragnheiður Kristjánsdóttir, forstöðumaður Sagnfræðistofnunar.

Hannes kvað utanríkisverslun hafa á 20. öld skipt Íslendinga, sem þá hefðu nýlega orðið fullvalda þjóð, miklu máli, eins og sæist á dæmum um, hvernig þeir hefðu í raun sætt sig við skerðingu á fullveldi sínu til tryggingar mörkuðum. Dæmi væru, þegar leyfður hefði verið innflutningur á léttum vínum frá Spáni 1922 þrátt fyrir áfengisbann, þegar Íslendingar hefðu haldið áfram að selja Ítölum fisk 1935 þrátt fyrir viðskiptabann Þjóðabandalagsins á þá sökum stríðsins í Eþíópíu og þegar látið hefði verið undan kröfu Nasista-Þýskalands 1939 um að banna bók eftir Wolfgang Langhoff um þýskar fangabúðir. Hannes sagði rannsókn Gísla Gunnarssonar á einokunarversluninni hafa opnað augu sín fyrir því, að hún hefði verið innheimtustofnun fyrir auðlindaskatt, sem runnið hefði úr sjávarútvegi í landbúnað: Með konunglegum verðskrám hefði verði á sjávarafurðum verið haldið niðri, en verði á landbúnaðarafurðum haldið langt fyrir ofan heimsmarkaðsverð. Komið hefði verið með þessu í veg fyrir vöxt sjávarútvegs og íslenskt atvinnulíf staðnað í nokkrar aldir.

Margt bar á góma. Þeir Orri Vésteinsson og Helgi Þorláksson ræddu um þær kenningar Helga, að utanríkisverslun hefði verið sáralítil á þjóðveldisöld og aðallega miðast við þarfir höfðingja og kirkjunnar og að ákvæðin í Gamla sáttmála 1262 um siglingu sex skipa á ári til Íslands hefðu verið um hámark, ekki lágmark. Höfðingjar hefðu viljað ráða versluninni og ekki kært sig um of marga aðkomumenn. Gylfi Zoëga rifjaði upp, að í upphafi 20. aldar hefði Ísland verið eitt fátækasta land Vestur-Evrópu. Í lok aldarinnar hefði það verið eitt ríkasta land heims. Eitthvað hefði bersýnilega verið rétt gert, sagði Gylfi. Spurningin væri, hvað það væri. Gylfi varpaði fram nokkrum tilgátum, sem snerust aðallega um stofnanir, reglur og venjur Íslendinga. Til dæmis hefðu íslensk lög mjög miðast við dönsk, en Danir stæðu framarlega um þrifnað og menningu. Hagkerfið íslenska hefði aldrei verið alveg lokað þrátt fyrir höftin, og það hefði smám saman opnast á seinni hluta aldarinnar. Eignarréttur hefði verið hér virtur, og nefndi Gylfi sérstaklega, hversu vel heppnað kvótakerfið í sjávarútvegi væri. Íslendingar hefðu búið að auðlindum, gjöfulum fiskistofnum, gnótt orku, legu landsins og nú nýlega náttúrufegurð. Framlag Hannesar H. Gissurarsonar til málstofunnar var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Comments are closed.