Fyrirlestur um bankahrunið í Las Vegas

Rannsóknastjóri RNH, prófessor Hannes H. Gissurarson, flytur erindi um íslenska bankahrunið á málstofu um peninga og bankamál á ársmóti APEE, Association of Private Enterprise Education, sem haldið er á Caesars Palace í Las Vegas 1.–5. apríl. Er málstofan kl. 14:30 til 15:45 mánudaginn 2. apríl. Erindi Hannesar er þáttur í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Alliance of Conservatives and Reformists in Europe, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Í erindinu rekur Hannes stuttlega atburðarásina fram að bankahruni, en telur mega draga sex lærdóma af því og viðbrögðum og reynslu Íslendinga: 1) Ekki er nauðsynlegt, að ríkið bjargi alltaf bönkum. 2) Skynsamlegt er að veita innstæðueigendum forgang í kröfum á bú banka. 3) Þá er ónauðsynlegt, að ríkið ábyrgist innstæður í bönkum. 4) Geðþóttavald, eins og skapað var með hryðjuverkalögunum bresku frá 2001, verður fyrr eða síðar misnotað, eins og gerðist, þegar lögunum var beitt gegn Íslandi. 5) Smáríki standa alltaf ein, þegar á reynir, og þá þurfa þau að bjarga sér sem best þau geta. 6) Veita þarf forystu, eins og Seðlabankinn gerði í bankahruninu, þegar hann lagði á ráðin um að reisa varnarvegg í kringum Ísland, „ring-fencing.“

Glærur Hannesar í Las Vegas

 

Comments are closed.