Chydenius norrænn frumherji frjálshyggju

Sænsk-finnski presturinn Anders Chydenius setti fram svipaðar hugmyndir og Adam Smith í riti, sem kom út ellefu árum áður en Smith gaf út Auðlegð þjóðanna, segir dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, rannsóknastjóri RNH, í ritgerð um Chydenius, en hún var seinni hlutinn í verki hans um frumherja norrænnar frjálshyggju, og var fyrri hlutinn um Snorra Sturluson. Birtist verkið í sænska tímaritinu Svensk Tidskrift 8. nóvember 2019. Chydenius fæddist árið 1729 og var prestur í Finnlandi, en kjörinn á stéttaþingið sænska 1765–1766. Þar beitti hann sér fyrir því, að einokun nokkurra borga á verslun í Norður-Finnlandi væri afnumin og að ritskoðun í sænska konungdæminu, sem þá náði líka til Finnlands, væri felld niður. Var hvort tveggja framkvæmt. Einnig gaf hann út nokkra ritlinga til stuðnings viðskiptafrelsi, þar á meðan Þjóðarhag (Den nationaalle Winsten), þar sem hann kvað atvinnulífið leita eðlilegs jafnvægis, ef hver og einn fengi óáreittur að keppa að sínum markmiðum. Eiginhagsmunagæsla gæti þannig farið saman við þjóðarhag. Chydenius var hins vegar andvígur hvers konar sérréttindum og fríðindum einstakra stétta eða hópa. Þegar hann sat aftur á stéttaþinginu 1778 barðist hann fyrir auknum réttindum vinnufólks. Hann stakk einnig upp á því, að Lapplandi yrði breytt í fríverslunarsvæði til að laða þangað að fólk. Chydenius lést árið 1803.

Í ritgerðinni skrifar Hannes líka um andlega arftaka Chydeniusar, en traust og blómleg frjálshyggjuhefð er í Svíþjóð. Stjórnmálaskörungurinn Johan August Gripenstedt (1813–1874) beitti sér til dæmis fyrir víðtækum umbótum í frjálsræðisátt árin 1866–1876. Sænsku hagfræðingarnir Gustav Cassel (1866–1845) og Eli Heckscher (1879–1952) var heimskunnir fræðimenn og ákveðnir stuðningsmenn viðskiptafrelsis. Var Heckscher einn af stofnendum Mont Pelerin samtakanna 1947. Á meðan jafnaðarmenn voru hvað öflugastir í Svíþjóð, var hagfræðingurinn Sven Rydenfelt (1911–2005) rödd hrópandans í eyðimörkinni. Setur Hannes fram þá skoðun, að velgengni Norðurlanda sé ekki að þakka jafnaðarstefnu eða endurdreifingu fjármuna, heldur hvíli hún á þremur meginstoðum, réttarríki, opnu hagkerfi og samheldni í krafti samleitni.

Comments are closed.