Hannes í Westminster-höll

Hannes og Cleverly.

Jamie Borwick, fimmti barón Borwick, bauð Hannesi H. Gissurarsyni, rannsóknastjóra RNH, í hóf, sem hann hélt 28. júní 2023 í Cholmondeley-salnum í Westminster-höll, breska þinghúsinu, í tilefni þrjú hundruð ára afmælis Adams Smiths. Enginn veit með vissu, hvenær Adam Smith var fæddur, en hann var skírður 5. júní 1723, sem er venjulega talinn fæðingardagur hans. Utanríkisráðherra Breta, James Cleverly, flutti ræðu í hófinu og taldi frelsisboðskap Smiths enn eiga fullt erindi við okkur, en minnti líka á, að Vesturlandamenn mættu ekki láta sér nægja að njóta frelsisins, heldur yrðu þeir líka að verja það, og nú ógnuðu því tvö stórveldi, grá fyrir járnum og hin skuggalegustu, Rússland og Kína.

Hafði Hannes tækifæri til að skiptast á skoðunum við Cleverly, en Hannes er óspar á að láta þá skoðun sína í ljós, að Ísland eigi helst heima með grannríkjunum í Norður-Atlantshafi, Noregi, Bretlandi, Kanada og Bandaríkjunum, og síður í Evrópusambandinu.

Að sögn Hannesar setti afmælisbarnið sjálft, Adam Smith, fram tvær snjallar hugmyndir, sem rifja þyrfti reglulega upp. Hin fyrri er, að eins gróði þurfi ekki að vera annars tap. Menn og þjóðir geta grætt á hinni alþjóðlegu verkaskiptingu, ef og þegar ólíkir hæfileikar og landkostir fá að nýtast sem best í frjálsum viðskiptum. Seinni hugmyndin er, að hagkerfi geti verið skipulegt án þess að vera skipulagt. Regla getur komist á, þótt enginn einn aðili komi henni á. Smith orðaði það svo, að við frjálsa samkeppni á markaði leiddi „ósýnileg hönd“ menn, sem aðeins ætluðu sér að keppa að eigin hag, að því að vinna að almannahag.

Comments are closed.