Hannes: Þarf ríkið meira en 15% af VLF?

Dr. Hannesi H. Gissurarsyni, prófessor emeritus og forstöðumanni rannsókna RNH, var falið að tala um hlutverk ríkisins í fyrirlestri í hagfræðideild Háskólans í Belgrad í Serbíu 22. apríl 2024. Hann rifjaði upp dæmisöguna um miskunnsama Samverjann. Maður hafði verið rændur á leið frá Jórsölum til Jeríkó og lá hjálparvana við vegarbrúnina. Prestur og Levíti færðu sig yfir á hina brúnina, þegar þeir sáu hann, og héldu áfram göngu sinni, en Samverji aumkvaði sig yfir hann, flutti hann á gistihús og greiddi fyrir hann kostnað. Hannes sagði, að hér væri komið eitt mikilvægasta hlutverk ríkisins: að halda uppi lögum og reglu, svo að ræningjar ógnuðu ekki ferðalöngum.

Þrjár aðrar ályktanir mætti draga af dæmisögunni. 1) Samverjinn hefði verið aflögufær. Æskilegt væri, að til væri efnafólk. 2) Samverjinn hefði gert góðverk sitt á eigin kostnað. Vinstri menn vilja alltaf gera góðverk á annarra kostnað. 3) Menntamennirnir tveir gengu fram hjá. Vafalaust hafa þeir talið eins og vinstri menn nútímans, að einhverjir aðrir ættu að gera góðverkin.

Tvö óvefengjanleg verkefni ríkisins væru landvarnir og löggæsla, vernd fyrir erlendum og innlendum ræningjum, sagði Hannes. Flest annað gætu einkaaðilar annast. Ríkið hefði síðustu öldina hins vegar tekið að sér miklu víðtækara hlutverk. Velferðarríkið hefði til dæmis þanist út, þótt þörfin fyrir velferð hefði snarminnkað með stórauknum ráðstöfunartekjum almennings, fjölgun atvinnutækifæra, bættri heilsu og ríflegri lífeyri. Hannes vitnaði til þess, að bandaríski hagfræðingurinn James M. Buchanan hefði einu sinni giskað á, að líklega þyrfti ríkið ekki nema 15% af vergri landsframleiðslu til að sinna nauðsynlegum verkefnum.

Comments are closed.