David Friedman: Jákvæðar og neikvæðar loftslagsbreytingar

Eðlisfræðingurinn og hagfræðingurinn David D. Friedman sótti rabbfund á vegum RSE, Rannsóknamiðstöðvar í efnahagsmálum og stjórnmálum, í Sjálfstæðishúsinu gamla miðvikudaginn 1. maí 2024 klukkan fjögur. Húsfyllir var á fundinum, sem Halldór Benjamín Þorgeirsson, stjórnarformaður RSE, setti. Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus, stjórnaði fundinum. Hann rifjaði upp, að fyrir fjörutíu og fimm árum hefði Friedman verið fyrsti fyrirlesari Félags frjálshyggjumanna, sem starfaði í tíu ár, 1979–1989. Væru jafnvel nokkrir nú staddir á þessum fundi, sem hefði verið á fundinum forðum. Var umræðuefnið þá lagasetning og réttarvarsla í íslenska Þjóðveldinu 930–1262.

Í stuttri framsöguræðu fór Friedman yfir nokkrar breytingar á þessum fjörutíu og fimm árum. Bæri hæst, að enginn tryði lengur á miðstýrðan áætlunarbúskap, enda hefði hann aðallega verið fólginn í skilningsskorti á nauðsynlegri dreifstýringu í atvinnulífinu. Nú hefði umhverfisöfgastefna tekið við af sósíalisma í gömlu merkingunni og jafnvel breyst í ný trúarbrögð. Friedman vék að hlýnun jarðar. Hann kvað ljóst, að eitthvað hefði hlýnað á síðustu áratugum og líklega væri eitthvað af þeirri hlýnun af manna völdum, vegna losunar gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloft, sérstaklega koltvísýrings. En alls væri óvíst, að þessi hlýnun hefði meiri neikvæðar afleiðingar en jákvæðar. Neikvæðu afleiðingarnar væru hækkun sjávarmáls og röskun á högum þeirra, sem gert hefðu áætlanir um líf sitt með hliðsjón af núverandi loftslagi. Jafnfram gætu einhver dýr eða plöntur, sem hefðu lagað sig að núverandi loftslagi, lent í í erfiðleikum. Jákvæðu afleiðingarnar væru hins vegar stóraukið gróðurlendi. Það hlýnaði jafnframt meira í köldum löndum en heitum og meira á vetrum en sumrum.

Friedman svaraði mörgum fyrirspurnum um ýmis efni. Hann sagðist vera hlynntur afskiptaleysisstefnu Bandaríkjanna í utanríkismálum, en þó ekki alveg strax. Evrópuríkin yrðu að koma sér upp eigin vörnum, en ekki treysta á, að bandarískir skattgreiðendur kostuðu varnir Evrópu. Þau ættu að hafa í fullu tré við Rússaveldi, ef þau beittu sér. Hann rifjaði upp, að í bók sinni Frelsinu í framkvæmd (The Machinery of Freedom), sem kom fyrst út 1971, hefði hann mælt fyrir frjálsum innflutningi fólks, en með því skilyrði, að það gæti ekki þegið opinberar bætur fyrstu tíu ár dvalar sinnar. Sú hugmynd ætti enn við. Innflytjendur, sem vildu vinna, væru eftirsóknarverðir, en ekki innflytjendur, sem leituðust aðeins við að komast á bætur. Hann sagðist lítið þekkja til Íslands nútímans, en þeim mun meira til íslenska þjóðveldisins. Hann hefði lesið margar Íslendinga sögur sér til skemmtunar, en eftirlætisverk hans væri Sneglu-Halla þáttur.

Koma Friedmans til Íslands vakti mikla athygli. Hannes H. Gissurarson skrifaði grein í Morgunblaðið um ýmsar hugmyndir hans. Fréttamennirnir Snorri Másson og Baldur Arnarsson tóku við hann viðtöl, og Gísli Freyr Valdórsson helgaði honum hlaðvarpsþátt í Þjóðmálum. Á heimasíðu Davids er að finna margvíslegt forvitnilegt efni um hin fjölmörgu áhugamál hans.

 

Comments are closed.