Viðskiptafrelsi á 21. öld

Hagfræðingurinn og frumkvöðullinn Max Rangeley  kynnti á ráðstefnu evrópskra hugveitna, European Resource Bank, 2. október 2025 í Vínarborg bók, sem hann og Hannan lávarður ritstýra, Viðskiptafrelsi á 21. öld (Free Trade in the Twenty-First Century), en hún kom út nýlega hjá Springer Nature. Á meðal höfunda eru Vernon Smith, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, Liz Truss, fyrrverandi forsætisráðherra Stóra Bretlands, Tony Abbot, fyrrverandi forsætisráðherra Ástralíu, gamalkunnir frjálshyggjuhagfræðingar, dr. Eamonn Butler og prófessorarnir Walter E. Block og Richard M. Ebeling, tveir lávarðar og fyrrverandi viðskiptaráðherrar Breta, Peter Lilley og Syed Kamall, hinn kunni hagsögufræðingur Deirdre McCloskey (sem nú er forseti Mont Pelerin samtakanna) og frá Íslandi rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, en ritgerð hans í bókinni er um viðskiptafrelsi á Norðurlöndum. Ritstjórarnir segja í formála, að þeir hafi stefnt að því að setja ekki aðeins fram hin fræðilegu rök fyrir viðskiptafrelsi, heldur líka að koma áleiðis hinni sterku siðferðilegu sannfæringu, sem búi henni að baki. Fríverslunarsinnar nítjándu aldar trúðu því, að þeir væru að berjast fyrir göfugum málstað, réttlæti öllum til handa. Hagfræðingar væru almennt sammála um rökin fyrir verkaskiptingu, hlutfallslegri hagkvæmni og frjálsum alþjóðaviðskiptum, en engu að síður nyti tollverndarstefna talsverðs fylgis. Þess vegna þyrfti að endurtaka og efla rökin fyrir alþjóðlegu viðskiptafrelsi.

Comments are closed.