Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, kynnti nýja bók sína, Conservative Liberalism, North and South: Grundtvig, Einaudi, and their Relevance Today, 18. mars 2025 á þingi Mont Pelerin samtakanna, sem haldið var í Mexíkóborg 16.–19. mars. Hannes benti á, að danski presturinn og sálmaskáldið N. F. S. Grundtvig hefði verið einn áhrifamesti Dani allra tíma. Hann hefði fyllt í skarð í kenningakerfi frjálshyggjunnar með hinni þjóðlegu frjálshyggju sinni, virðingu fyrir margvíslegum sjálfsprottnum samtökum, fjölskyldum, félögum, söfnuðum, klúbbum, samyrkjubúum hins borgaralega skipulags, en umfram allt virðingu fyrir þjóðinni, en í slíkum samtökum hefðu einstaklingar getað átt heima og víkkað út sjálf sín. Með þessu fetaði Grundtvig í fótspor þeirra Edmunds Burkes, Benjamins Constants og Alexis de Tocquevilles, sem hefðu allir skýrt, hvers vegna franska stjórnbyltingin hefði mistekist, með því, að í Frakkland hefðu ekki verið til allar þessar stofnanir, sem staðið gætu milli ríkis og einstaklinga og haft það tvíþætta hlutverk að þjálfa fólk í félagslegri aðlögun og setja valdi ríkisins skorður.
Að sögn Hannesar mætti greina sérstaka norræna leið í alþjóðastjórnmálum. 1) Réttinn til aðskilnaðar eins og í Noregi 1905, Finnlandi 1917 og á Íslandi 1918. 2) Tilfærsla landamæra samkvæmt atkvæðagreiðslum eins og í Slésvík 1920. 3) Sjálfstjórn þjóðernisminnihluta eins og á Álandseyjum, í Færeyjum og á Grænlandi og í löndum Sámi-þjóðflokkanna nyrst á Norðurlöndum. 4) Lausn ágreiningsmála fyrir alþjóðlegum dómstólum eins og gert var um Álandseyjar milli Finnlands og Svíþjóðar 1921 og um Grænland milli Danmerkur og Noregs 1933. 5) Samstarf og samruni með lágmarksafsali fullveldis eins og í Norðurlandaráði og með samningum um margvíslegt norrænt samstarf, þar á meðal afnám vegabréfa, gagnkvæm lagaleg réttindi og fulla aðild að vinnumarkaði.
Hannes bar saman þjóðlega frjálshyggu Grundtvigs og hugmynd ítalska hagfræðingsins Luigis Einaudis um ríkjasamband Evrópu, en Einaudi var forseti Ítalíu 1948–1955. Hann hefði sannfærst um það í tveimur heimsstyrjöldum, að eina ráðið til að verja valddreifingu, viðskiptafrelsi og einkaeignarrétt — þrjú frumgildi frjálshyggjunnar — væri ríkjasamband Evrópu, Evrópusamband. Hannes kvað Evrópusambandið ekki hafa þróast í þá átt, sem Einaudi hefði séð fyrir sér. Evrópusamruninn í efnahagsmálum hefði tekist vonum framar, en Evrópusamruninn í stjórnmálum, sem hefðu hafist upp úr 1990, hefði ekki aðeins ógnað þjóðríkjunum, heldur líka einstaklingsfrelsinu. Evrópa ætti að vera opinn markaður, en ekki lokað ríki. Hannes nefndi ýmsar hugsanlegar umbætur í anda Einaudis til að ná upphaflegum tilgangi sambandsins. 1) Að færa löggjafarvaldið frá hinni ógagnsæju, ábyrgðarlausu og umboðslausu framkvæmdastjórn til Evrópuþingsins. 2) Að skipta Evrópuþinginu í tvær deildar, í Brüssel og Strassborg, þar sem önnur væri núverandi þing, valið í almennum kosningum, en hin tæki við af ráðherraráði Evrópu og væri skipuð fulltrúum ríkja. 3) Að breyta framkvæmdastjórninni í venjulegt stjórnarráð, sem hefði það hlutverk að hrinda ákvörðunum lýðræðislegra kjörinna fulltrúa í framkvæmd. 4) Að skipta Dómstól Evrópusambandsins í tvo dómstóla, þar sem annar úrskurðaði aðeins um, hvort nálægðarreglan hefði verið brotin, en hinn sinnti öðrum verkefnum. 5) Að breyta reglum um val dómara í þessa dómstóla, svo að þeir væru ekki aðeins skipaðir sérstökum áhugamönnum um samrunaþróun, eins og títt væri um svokallaða Evrópusérfræðinga, heldur reyndum dómurum, sem þjálfaðir væru í dæma eftir lögum og ekki áhugamálum. Nú ynnu bæði framkvæmdastjórnin og Dómstóll Evrópusambandsins ötullega að aukinni miðstýringu.
Fjörugar umræður urðu að lokinni tölu Hannesar. Áheyrendur höfðu sérstakan áhuga á hinni norrænu stjórnmálahefð frelsis innan marka laganna, sem rekja mætti alla leið til germanskra þjóðflokka, en þeim hefði rómverski sagnritarinn Tacitus lýst fyrir tvö þúsund árum. Hannes tók fram, að það væri tímaskekkja að telja Snorra Sturluson frjálshyggjumann, en margar hugmyndir frjálshyggjunar gæti þó að líta á verkum hans, vald með samþykki, mótstöðuréttinn, virðingu fyrir einkaeignarrétti og skilningur á kostum alþjóðaviðskipta. Hannes lagði einnig orð í belg í almennum umræðum á þinginu. Í umræðum um hugtakið Ameríku, eftir að minnst hafði verið á, að Evrópumenn hefðu fundið álfuna fimm hundruð árum á undan Kristófer Kólumbusi, minnti Hannes á gamanyrði Oscars Wildes, að Íslendingar hefðu fundið Ameríku, en verið svo skynsamir að týna henni aftur. Hannes minnti líka á ummæli þýska heimspekingsins Lichtenbergs: Sá Ameríkumaður, sem fyrstur fann Kólumbus, var heldur betur óheppinn. Hannes lagði þó áherslu á, að Ameríka og Evrópu ættu sér sameiginlega stjórnmálahefð, þar sem væri frelsi undir marka laganna.
Þau Roberto Salinas og Bertha Pantoja skipulögðu þing Mont Pelerin samtakanna í Mexíkóborg og gerðu það með ágætum. Á meðal ræðumanna voru bandarísk-líbaníski rithöfundurinn Nassim Taleb, perúvíski lögfræðingurinn Enrique Ghersi, Hannan lávarður af Highclere, og prófessorarnir Thomas Hazlett, Randall Holcombe, Deirdre McCloskey og George Selgin.
