Sørensen um alræðishugarfar Breiviks, föstudag 21. september, HT-102: 12–13

Næsti  viðburður í fyrirlestraröð RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um Evrópu fórnarlambanna verður fyrirlestur norska prófessorsins Øysteins Sørensens um alræðishugarfar hins alræmda landa hans, fjöldamorðingjans Anders Breiviks. Fyrirlesturinn verður á Háskólatorgi, í stofu HT-102, föstudaginn 21. september kl. 12–13. Varðberg stendur einnig að fundinum, og verður formaður Varðbergs, Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, fundarstjóri.

Øystein Sørensen fæddist 1954 í Noregi. Hann lauk kandídatsprófi og síðar doktorsprófi í sagnfræði og er prófessor í sagnfræði í Oslóarháskóla. Hann hefur samið ævisögur Friðþjófs Nansens og Bjørnstjernes Bjørnsons og skrifað margt um vaknandi þjóðarvitund Norðmanna á 19. öld og margvísleg önnur efni, þar á meðal ýmsar samsæriskenningar um sögulega framvindu. Hann gaf 2010 út bókina Drømmen om de fullkomne samfunn (Drauminn um hið fullkomna skipulag), þar sem hann gagnrýndi alræðisstefnu, fasisma, nasisma, kommúnisma og íslamisma. Hann ritstýrði ásamt öðrum greinasafninu Ideologi og terror: totalitære ideer og regimer (Hugmyndafræði og hryðjuverk: alræðisstefnur og stjórnskipulag) 2011. Nýjasta verk hans er ritgerð um alræðishugarfar fjöldamorðingjans Anders Breiviks.

Comments are closed.