Hannes H. Gissurarson: Gegn sköttum í anda Pigous

Dr. Hannes H. Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, flutti fyrirlestur um efnið: „Hvað segir stjórnmálahagfræðin um íslenska peningalykt“ í Þjóðarspeglinum 26. október 2012, en þar kynntu félagsvísindamenn ýmsar rannsóknarniðurstöður sínar í Háskóla Íslands. Hannes sagði, að atvinnustarfsemi einstaklinga hefði ýmis óumsamin áhrif. Enski hagfræðingurinn A. C. Pigou hefði greint þessi óumsömdu áhrif og talið, að ríkið yrði með sköttum og öðrum aðgerðum að leiðrétta þau. Annar enskur hagfræðingur, Nóbelsverðlaunahafinn Ronald H. Coase, hefði hins vegar bent á, að oft væri skýringin á slíkum áhrifum, að erfitt væri eða ókleift fyrir geranda og þolanda að semja um málið í frjálsum viðskiptum. Ef viðskiptakostnaður lækkaði, til dæmis með skilgreiningu eignaréttinda, þá hyrfu slíkir árekstrar oft úr sögunni. Tók Hannes til dæmis peningalyktina svokölluðu, hinn ramma þef, sem oft lagði af síldar- og loðnubræðslum í íslenskum sjávarþorpum, og taldi mengunarskatt á hann misráðinn. Í raun hefði síðustu áratugi myndast eins konar afnota- eða eignarréttur á hreinu andrúmslofti.

Glærur Hannesar um peningalykt

Comments are closed.