Mats Persson: Atvinnulíf ESB er staðnað

Mats Persson, forstöðumaður hugveitunnar Open Europe í Lundúnum, flutti 12. nóvember erindi um samrunaþróunina í Evrópu á vegum RNH, Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og Evrópuvaktarinnar. Persson kvað Evrópusambandið stríða við kreppu á mörgum sviðum, í bankamálum, stjórnmálum, atvinnumálum og peningamálum. Í ljós hefði komið, að höfundar evrunnar hefði verið allt of bjartsýnir um, að ólík hagkerfi gætu öll notað sama gjaldmiðil. Hin svonefndu PIIGS-lönd, Portúgal, Ítalía, Írland, Grikkland og Spánn, hefðu ekki sömu framleiðni og ríkari löndin í Evrópu, til dæmis Þýskaland, Holland og Finnland. Þau hefðu ekki lagað kostnað innan lands að aðstæðum eins og Eistland og nokkur önnur ríki. Þegar litið væri á línurit um hlutfall einstakra ríkjahópa í heildarframleiðslu í heiminum, væru lönd evrusvæðisins á hraðri niðurleið, ESB-lönd í heild og Bandaríkin á hægri niðurleið, en BRIKS-löndin (Brasilía, Rússland, Indland, Kína og Suður-Afríka) á hraðri uppleið. Stöðnun væri í mörgum löndum Evrópu og mikið atvinnuleysi hjá ungu fólki. Þrír kostir væru til og enginn góður: 1) að krefjast meiri sparnaðar og ráðdeildar þeirra ríkja, sem ættu nú í mestum erfiðleikum, gegn tímabundinni aðstoð; 2) að auka miðstjórnarvald í Brüssel og samræma enn frekar reglur en nú væri; 3) að lönd eins og Grikkland færu út af evrusvæðinu. Morgunblaðið birti viðtal við Persson 12. nóvember, og sama dag talaði fréttastofa Ríkisútvarpsins við hann. Fyrirlestur Perssons er væntanlegur á Youtube.

Glærur Perssons

Comments are closed.