Hannes H. um ósýnilegu höndina, Porto Alegre 9. apríl

Prófessor Hannes H. Gissurarson, sem situr í rannsóknarráði RNH og er ritstjóri rannsóknarverka setursins, heldur fyrirlestur á ráðstefnunni Forum da liberdade, Vettvangi um frelsi, dagana 8.–9. apríl í Porto Alegre í Brasilíu. Ráðstefnan er haldin árlega, og standa að henni samtök ungra frumkvöðla og kaupsýslumanna í fylkinu Rio Grande do Sul í Brasilíu. Á meðal annarra ræðumanna eru Alexandre Tombini, seðlabankastjóri Brasilíu, Jorge Gerdau Johannpeter, einn helsti athafnamaður Brasilíu, Julio Saguier, framkvæmdastjóri stórblaðsins La Nación í Argentínu (sem Christina Kirchner, forseti landsins, hefur reynt að þagga niður í), Paulo Kakinoff, forstjóri brasilíska flugfélagsins GOL, José Mariano Beltrame, öryggismálaráðherra Rio de Janeiro-fylkis, og prófessor Randy T. Simmons, Ríkisháskólanum í Utah. Hannes talar á fundi kl. 18–19.30 þriðjudaginn 9. apríl. Aðrir ræðumenn á þeim fundi eru Eduardo Campos, fylkisstjóri í Pernambuco og leiðtogi Sósíalistaflokks Brasilíu, og dr. Yaron Brook, framkvæmdastjóri Ayn Rand Institute í Kaliforníu.

Að þessu sinni er ráðstefnan helguð hugmynd franska hagfræðingsins og rithöfundarins Frédérics Bastiats um það, sem er sýnilegt, og hitt, sem er ósýnilegt. Fyrsta íslenska hagfræðiritið, Auðfræði Arnljóts Ólafssonar, sem út kom 1880 (endurpr. 1988), var skrifað undir sterkum áhrifum frá Bastiat, og rit hans, Lögin, kom út í íslenskri þýðingu 2001. Fyrirlestur Hannesar H. Gissurarsonar nefnist „Ósýnilega höndin gerð sýnileg. Hugleiðingar um stjórnmálahagfræði og atvinnufrelsi“. Þar fer hann yfir ýmis atriði, sem ekki liggja öll í augum uppi, til dæmis um samanburð hagkerfa og tengsl skattheimtu og skatttekna. Fyrirlesturinn er þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, „Evrópa, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Hér er viðtal við Hannes Hólmstein, áður en hann hélt erindið:

Comments are closed.