Skattadagurinn íslenski 2013

Skattadaginn bar 2013 upp á 7. júlí samkvæmt útreikningum Sambands ungra sjálfstæðismanna. Skattadagurinn er sá dagur, þegar fólk fer að vinna fyrir sig sjálft, eftir að það hefur fyrri hluta ársins orðið að vinna fyrir hið opinbera. Íslendingar þurfa nú að greiða röskan helming sjálfsaflafjár síns til hins opinbera.

Þátttaka RNH í skattadeginum er liður í samstarfsverkefni setursins og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna. Einnig reiknar hugveitan New Direction í Brüssel, sem RNH starfar einnig með, út skattadag fyrir ýmsar Evrópuþjóðir, þótt þeir útreikningar séu gerðir dálítið öðru vísi.

Rannsóknir fræðimanna sýna, að háir skattar minnka vinnufýsi manna og verðmætasköpun. Skattahækkanir geta að vísu aukið skatttekjur ríkisins til skamms tíma, en til langs tíma kunna þær að minnka, vegna þess að skattstofninn dregst saman. Þetta sést best af samanburði Sviss og Svíþjóðar, tveggja auðugra ríkja, sem sluppu á 20. öld við stóráföll eins og styrjaldir og hernám.

Árið 1990 var skatthlutfallið í Svíþjóð 52,3% af vergri landsframleiðslu, VLF, en 25,9% í Sviss. Skatttekjur á mann voru þá í Svíþjóð 14.923 Bandaríkjadalir, en 9.061 dalur í Sviss. Væri samband skatthlutfalls og skatttekna bein lína (skattstofnar ekki breytilegir), þá ættu skatttekjur á mann að hafa verið tvöfalt hærri en í Sviss, þar eð skatthlutfallið var tvöfalt hærra.

Árið 2011 var skatthlutfallið í Svíþjóð 44,5% af VLF, en 28,5% í Sviss. En skatttekjur á mann voru þá svipaðar í þessum tveimur löndum, 25.361 Bandaríkjadalur í Svíþjóð og 23.948 dalir í Sviss. Með öðrum orðum fengust nánast sömu skatttekjur með 28,5% og 44,5% hlutfalli.

Laffer-boginn svokallaði snýst um það, að skatttekjur eru 0 krónur við 0% skatthlutfall, rísa síðan að einhverju hámarki, en falla síðan og eru 0 krónur við 100%, af því að enginn vinnur nema þá sem þræll, ef allar hans tekjur eru teknar frá honum. Dr. Birgir Þór Runólfsson hagfræðidósent, sem situr í rannsóknarráði RNH, hefur til fróðleiks dregið eins konar Laffer-boga með þessum tölum frá Svíþjóð og Sviss frá 2011, þótt auðvitað sé boginn frekar dreginn til skilningsauka en að honum sé ætlað að vera nákvæm lýsing veruleikans hverju sinni. Einnig er fróðlegt, að Svíar hafa dregið verulega úr skattheimtu, og er það þáttur í „nýju sænsku leiðinni“, sem dr. Nils Karlson frá Ratio-stofnuninni í Stokkhólmi lýsti á fundi RNH 14. janúar 2013.

Það fór síðan vel á því, að forseti Íslands skyldi láta það verða sitt fyrsta embættisverk eftir skattadaginn að undirrita lög um lækkun hins ofurháa veiðigjalds á útgerð. Mjór er mikils vísir. Matthew Elliott frá Samtökum breskra skattgreiðenda mun tala á sameiginlegum fundi Samtaka íslenskra skattgreiðenda 20. september 2013. Jafnframt mun þá Almenna bókafélagið gefa út greinasafn um skatta og tekjudreifingu undir ritstjórn Ragnars Árnasonar prófessors og Birgis Þórs Runólfssonar.

Hér bendir Edward C. Prescott, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, á það í fyrirlestri á Íslandi, að skatttekjur fara ekki alfarið eftir skatthlutfalli:

Comments are closed.