Er veiðigjald lögmætt? Þriðjudag 29. október kl. 16

Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, og Helgi Áss Grétarsson, dósent í lagadeild Háskóla Íslands, skiptast á skoðunum um veiðigjald á fundi málfundafélags Lögréttu, félags laganema í Háskólanum í Reykjavík, í Stofu M103 (Dómsalnum) í Háskólanum í Reykjavík þriðjudaginn 29. október 2013 kl. 16. Jón Steinar hefur látið þá skoðun í ljós opinberlega, að veiðigjald standist ekki stjórnarskrá, en Helgi Áss er honum ekki sammála. Á ráðstefnu RNH og félagsvísindasviðs Háskóla Íslands 14. október sl. reifaði dr. Ragnar Árnason ýmis hagfræðileg rök gegn sérstökum skatti á íslenskan sjávarútveg, meðal annars með tilliti til þess, að hann á í síharðnandi samkeppni við sjávarútveg í öðrum Evrópulöndum. Þeir Jón Steinar og Helgi Áss munu hins vegar ræða hin lögfræðilegu sjónarmið um málið, þar á meðal dómafordæmi og túlkun stjórnarskrárinnar og laga um fiskveiðar. RNH styður og kynnir þennan fund Lögréttu sem þátt í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Helgi Áss Grétarsson fæddist 1977. Hann er stórmeistari í skák, lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands 2005 og öðlaðist réttindi héraðdómslögmanns 2006. Hann er dósent í lagadeild Háskóla Íslands með eignarétt að sérsviði. Hann hefur skrifað tvær bækur, Réttarsögu fiskveiða 2008 og Þjóðina og kvótann 2011.

Jón Steinar Gunnlaugsson fæddist 1947. Hann lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands 1973 og starfaði sem héraðsdómslögmaður og hæstaréttarlögmaður, uns hann var skipaður hæstaréttardómari 2004. Hann lét af því starfi 2012. Jón Steinar var einnig prófessor í lögum í Háskólanum í Reykjavík 2002–2004. Hann hefur skrifað þrjár bækur, Deilt á dómarana (1987), Um fordæmi og valdmörk dómstóla (2003) og Um málskot í einkamálum (2005).

Comments are closed.