Mitchell: Viðbótarskattar á ríkt fólk ná ekki tilgangi sínum

Ljósm. Haraldur Guðjónsson.

Dr. Daniel Mitchell, skattasérfræðingur Cato-stofnunarinnar í Washington-borg, telur, að viðbótarskattar á ríkt fólk nái ekki tilgangi sínum. Færði hann rök fyrir þessu í erindi á fundi Samtaka skattgreiðenda og RNH um skattamál 4. nóvember 2013. Mitchell benti þar á, að venjulegir launþegar með fastar tekjur og fastan vinnutíma geti lítið gert, þegar tekjuskattur á þá sé hækkaður. En ríkt fólk hefur sjaldnast tekjur af sambærilegri vinnu. Það hefur tekjur af fjárfestingum og rekstri fyrirtækja. Þegar tekjuskattur á það sé hækkaður, kunni það ótal ráð til að víkja sér undan skattinum. Heill herskari lögfræðinga og endurskoðenda sé því til aðstoðar um það. Þannig verði til margvísleg sóun. Mitchell nefndi sem dæmi, að sumt ríkt fólk í Bandaríkjunum legði allt handbært fé sitt í kaup á skuldabréfum borga og annarra sveitarfélaga, því að tekjur af þeim væru skattfrjálsar. En þetta væri ekki nauðsynlega sú fjárfesting, sem skilaði mestum arði fyrir þjóðarbúið, þegar til langs tíma væri litið.

Mitchell rifjaði upp, að Ronald Reagan hefði lækkað skatt á ríku fólki, en afleiðingin hefði orðið, að ríku fólki hefði snarfjölgað í Bandaríkjunum og skatttekjur af því hefðu stóraukist. Hann ræddi í því sambandi um Laffer-bogann svokallaða, sem sýnir, að skatttekjur eru engar við 0% skatt og aftur engar við 100% skatt. Mitchell kvað ekki deilt um þessi frumatriði, heldur um hitt, hvar boginn næði hámarki — með öðrum orðum við hvaða skatthlutfall skatttekjur ríkisins yrðu mestar. Um það væru skiptar skoðanir. Paul Krugman og fleiri stjórnlyndir hagfræðingar teldu, að þetta hámark væri við um 70% skatt á ríkt fólk, en útreikningar þeirra hefðu verið harðlega gagnrýndir af hagfræðingnum Alan Reynolds. Sjálfur teldi hann, að hámarkið væri nær 20% skatthlutfalli. Hitt væri annað mál, að ekki ætti að stefna að því að hámarka tekjur ríkissjóðs, heldur hagvöxt til langs tíma litið, og þá ætti skatthlutfallið að vera einhvers staðar innan við 20%. Fjörugar umræður urðu að erindi Mitchells loknu, og var þá meðal annars minnst á tímabundinn auðlegðarskatt, sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar lagði á, og á sérstakt veiðigjald í sjávarútvegi.

Mitchell bloggaði um skattamál á Íslandi og lagði til, að ríkisútgjöld yrðu að minnsta kosti fryst og helst lækkuð, en á þessu myndbandi getur einnig að líta svipaðan boðskap hans um skatta á ríkt fólk og í erindinu á Íslandi:

Comments are closed.