Sex skýr dæmi má nefna um óþarft stórtap hinna föllnu íslensku banka, sagði dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor í fyrirlestri á vorráðstefnu Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands þriðjudaginn 21. apríl 2015. Tvö þeirra voru í Noregi og Finnlandi, en seðlabankar beggja landa neituðu dótturfélögum íslenskra banka um fyrirgreiðslu ólíkt seðlabanka Svíþjóðar, jafnvel þótt um norsk og finnsk fyrirtæki væri að ræða. Tapið af skyndisölu þessara þriggja fyrirtækja, sem öll höfðu verið í eigu Glitnis, nam að sögn Hannesar samtals um sextíu milljörðum króna.
Hannes kvað svipað hafa gerst í Danmörku tveimur árum síðar. Danski seðlabankinn hafði í upphafi veitt FIH banka, sem var í eigu Kaupþings, sömu fyrirgreiðslu og öðrum dönskum bönkum, en hann breytti um stefnu haustið 2010 og krafðist þess, að bankinn yrði seldur. Íslenski seðlabankinn hafði tekið veð í bankanum fyrir neyðarláni til Kaupþings haustið 2008 og fór með veðið. Davíð Oddsson seðlabankastjóri hafði tryggt, að veðið var allsherjarveð (svo að það gæti gengið upp í allar skuldir Kaupþings, ekki aðeins neyðarlánið) og fengið staðfestingu danskra stjórnvalda á því, að það væri traust. En Már Guðmundsson lét undan dönskum stjórnvöldum og seldi bankann haustið 2010 með þeim skilmála, að aðeins væri greiddur út hluti kaupverðsins, en um eftirstöðvarnar færi eftir tapi bankans á ákveðnum tíma. Hannes gagnrýndi Má fyrir að reyna ekki að breyta ákvörðun danskra stjórnvalda, fyrir að selja í raun kaupendum sjálfdæmi um, hversu mikið af eftirstöðvunum þeir greiddu, og fyrir að leysa ekki til sín hluta bankans eða hann allan, eins og hægt hefði verið.
Hannes sneri sér loks að skyndilegri lokun tveggja breskra banka haustið 2008, á sama tíma og Verkamannaflokksstjórnin breska veitti öllum öðrum breskum bönkum, sem sumir voru mjög illa staddir, lausafjárfyrirgreiðslu, Heritable Bank og KSF. Hefði ráðherrar Verkamannaflokksins sakað bankana um margvísleg lögbrot í símtölum við íslenska ráðamenn og beitt mikilli fólsku með því að loka ekki aðeins bönkunum, heldur setja hryðjuverkalög á Íslendinga og gera með því að engu alla von um að bjarga einhverjum bankanna. Nú væri uppgjöri bankanna tveggja að mestu lokið, og komið væri í ljós, að þeir hefðu alls ekki verið gjaldþrota. Endurheimtur væru nánast algerar, þótt kostnaður af skiptunum og lögfræði- og sérfræðikostnaður hefði verið feikilegar. Ekkert misjafnt og þaðan af síður ólöglegt hefði fundist í rekstri þeirra þrátt fyrir rækilegar rannsóknir, sem bresk stjórnvöld hefðu haft allan hag af, að bæru árangur. Léti nærri, að tapið af þessum óþörfu aðgerðum Breta næmi um 150 milljörðum íslenskra króna. Samtals næmi óþarft tap af glópsku og fólsku í þessum sex gernum um 270 milljörðum króna.
Boðskapur Hannesar vakti mikla athygli, og birti Morgunblaðið forsíðufrétt um hann 21. apríl. Einnig fluttu Ríkisútvarpið, Kjarninn og Stundin fréttir af henni. Hannes skrifaði einnig grein fyrir vefútgáfu Viðskiptablaðsins um málið. Seðlabankinn svaraði því til um FIH banka, að bókfært eigið fé fyrirtækis gæti ekki verið viðmiðið í kreppu. Hannes sagði þá, að það væri rétt, en gagnrýni sín hefði beinst að því, að Seðlabankinn hefði látið kúga sig og ekki gert neinar ráðstafanir til að halda uppi verðmæti veðsins. Nú væri komið á daginn, að veðið væri líklega orðið 112 milljarða virði og dönsku kaupendurnir hefðu stórgrætt á kaupunum, en Seðlabankinn tapað sínu, helmingi andvirðis neyðarlánsins til Kaupþings 2008. Stofninn úr erindi Hannesar birtist einnig í hausthefti Þjóðmála. Það var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.