Prófessor Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, hélt fyrirlestur um fyrirkomulag fiskveiða á Íslandsmiðum á hádegisverðarfundi Washington Policy Center í Seattle í Washington-ríki föstudaginn 14. apríl 2017. Þar rifjaði hann upp, að hann hefði fyrst varpað fram hugmynd um einkaafnotarétt af fiskistofnum á ráðstefnu á Þingvöllum haustið 1980, og hefði verið gert gys að sér í Þjóðviljanum á eftir. Hannes kvað fiskihagfræðinga á einu máli um, að ókeypis eða óheftur aðgangur að fiskimiðum leiddi til ofveiði: Bátum fjölgaði þá að því marki, að enginn ágóði yrði lengur af veiðunum. Valið væri um tvær leiðir til að fækka bátum (eða minnka sókn) niður í hagkvæmasta horf: Önnur væri að úthluta einkaafnotaréttindum eftir aflareynslu og leyfa síðan frjálst framsal þeirra, hin að bjóða upp réttindin. Fyrri leiðin væri eðlilegri, því að þá væri ekki neinum stórvægilegum hagsmunum raskað. Enginn tapaði á þeirri leið. Þá fækkaði bátum eðlilega í frjálsri þróun. Hin leiðin hefði þann mikla ókost, að fjöldi fiskimanna væri hrakinn af miðunum í einu vetfangi, en ekki keyptir smám saman út í friðsamlegum viðskiptum eins og við frjálst framsal.
Þessi væri skýringin á því, sagði Hannes, að úthlutun eftir aflareynslu hefði nær undantekningarlaust verið valin, þegar miðum væri lokað eins og almenningar hefðu forðum verið girtir af (enclosures). Þetta hefði verið gert á Íslandi og gefist vel. Úthlutun eftir aflareynslu væri ólíkt uppboðsleið Pareto-hagkvæm, sem kallað væri, en með því væri átt við, að enginn tapaði, en allir græddu. Úthlutun eftir aflareynslu fullnægði einnig skilyrði Lockes fyrir réttlátri nýmyndun eigna eða afgirðingu almenninga, að enginn yrði við hana verr settur. Eini rétturinn, sem tekinn væri af mönnum, þegar miðum væri lokað fyrir öðrum en handhöfum kvóta, væri rétturinn til að gera út án nokkurs ágóða, eins og leiða mætti út með aðstoð fiskihagfræðinnar. Gerður var góður rómur að máli Hannesar, og rigndi yfir hann spurningum eftir lesturinn. Í ýmsum ríkjum Bandaríkjanna, sem liggja við sjó, hefur einhvers konar kvótakerfi verið tekið upp í fiskveiðum. Bók Hannesar, The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem kom út seint á árinu 2015, er aðgengileg á Netinu. Fyrirlestur Hannesar var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.