Yeonmi Park: Gleymið ekki Norður-Kóreu

Yeonmi, Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Jónas Sigurgeirsson útgefandi. Ljósm.: visir.is Anton Brink

Yeonmi Park, höfundur bókarinnar Með lífið að veði, flutti erindi um lífið í Norður-Kóreu fyrir troðfullum hátíðasal Háskóla Íslands föstudaginn 25. ágúst. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra kynnti Yeonmi, en bók hennar hefur verið á metsölulistum á Íslandi og víðar mánuðum saman. Hún kvað erfitt að lýsa ástandinu í Norður-Kóreu fyrir öðrum. Þar hefði Kim-ættin stjórnað með harðri hendi frá lokum síðasta stríðs, og væru einræðisherrarnir tignaðir sem guðir. Sagðist hún fegin að sjá, hversu vingjarnlegur og blátt áfram forsætisráðherra Íslands væri í samanburði við þá Kim-menn. Jafnmargir hefðu týnt lífi í hungursneyðinni í Norður-Kóreu á tíunda áratug 20. aldar og byggju nú á Íslandi, um og yfir 300 þúsund manns. Hún hefði rekið upp stór augu, þegar hún hefði í fyrsta skipti séð ruslatunnu í öðrum löndum. Í Norður-Kóreu væri engu fleygt, sem ætilegt væri.

Yeonmi er á 24. aldursári. Hún stundar nú háskólanám í Bandaríkjunum. Ljósm. visir.is Anton Brink

Í erindi sínu lýsti Yeonmi ævintýralegum flótta sínum og móður sinnar til Kína fyrir tíu árum, en þar hefðu þær mæðgur lent í klóm mansalshrings, sem hefði selt þær í nauðungarhjónabönd. Eftir tveggja ára misjafna vist í Kína hefðu þær flúið yfir Gobi-eyðimörkina til Mongolíu og eftir mikla mæðu komist þaðan til Suður-Kóreu. Yeonmi kvaðst hafa verið lengi að venjast frelsinu í Suður-Kóreu. Hún hefði til dæmis ekki vitað, hverju hún ætti að svara, þegar hún var spurð, hver eftirlætislitur hennar væri. Í Norður-Kóreu hefði rauður verið fyrirskipaður litur, því að hann væri litur byltingarinnar og verkalýðsins. Norður-Kóreumenn ættu erfitt uppdráttar í Suður-Kóreu, því að þeir væru vanir að hlýða, en ekki að velja og hafna sjálfir.

Vera Knútsdóttir, stjórnmálafræðingur og framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, stjórnaði umræðum að erindinu loknu. Aðspurð sagðist Yeonmi telja, að Kínverjar myndu ráða úrslitum um örlög Norður-Kóreu. Þeir héldu verndarhendi yfir kommúnistastjórninni þar. Hins vegar yrði frelsun Norður-Kóreu að vera verk þjóðarinnar sjálfrar, ekki annarra. Hún taldi litlar líkur á, að Norður- og Suður-Kórea myndu sameinast á næstu árum. Íbúarnir hefðu fjarlægst á síðustu áratugum. Til dæmis væri orðaforðinn í Suður-Kóreu annar en í norðurhlutanum. Yeonmi hvatti til stuðnings við mannréttindasamtök, sem reyndu að hafa áhrif til góðs í heimalandi hennar. Hún kvaðst vita af mörgum brýnum úrlausnarefnum á Vesturlöndum, en bað menn að gleyma samt ekki Norður-Kóreu.

Að fundinum stóðu Almenna bókafélagið, sem gaf bók Yeonmi Park út, RNH og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands. Þátttaka RNH í honum er liður í samstarfsverkefni með ACRE, Evrópusamtökum íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna: Minninguna um kommúnismann“. Erindi Yeonmi var streymt á visir.is, og þar má horfa á það í heild, og gerðu það um fimm þúsund manns. Einnig má horfa á upptöku af því á heimasíðu Háskólans. Morgunblaðið birti leiðara um heimsókn Yeonmi Park og boðskap, og Kastljós Sjónvarpsins ræddi við hana 29. ágúst.

Comments are closed.