Fjörug og fjölsótt stúdentaráðstefna

Friedman talar.

RNH studdi svæðisþing Evrópusamtaka frjálslyndra stúdenta og Samtaka frjálslyndra framhaldsskólanema, sem haldið var í Háskólanum í Reykjavík laugardaginn 30. september 2017. Stóð RNH að komu þriggja ræðumanna á fundinn, þeirra dr. Daniels Mitchells, prófessors Edwards Stringhams og prófessors Davids D. Friedmans. Þingið var fjölsótt og tókst hið besta. Mitchell minnti á, að enginn efaðist um Laffer-áhrifin svokölluðu: Tekjur af skattheimtu geta náð hámarki, en lækka síðan. Hann kvaðst sjálfur engan áhuga hafa á að hámarka tekjur af skattheimtu, heldur hagvöxt, og það yrði áreiðanlega við talsvert lægra mark en hámark skattekna. Stringham benti á, að í frjálsum samningum gætu menn leyst úr mörgum málum án atbeina hins opinbera, og rakti dæmi um það úr nýlegri bók sinni, Sjálfsprottinni reglu (Private Governance), sem kom út hjá Oxford University Press 2015. Friedman talaði um lög án ríkisvalds, en hann vinnur nú að bók um það efni. Friedman hefur skrifað fjölda bóka um tengsl hagfræði og laga og er áhugamaður um íslenska þjóðveldið.

Fyrir hádegi stjórnaði Erna Ýr Öldudóttir þinginu, en eftir hádegi Ragnhildur Kolka. Þau Magnús Örn Gunnarsson, Marta Stefánsdóttir og Ísak Hallmundarson höfðu veg og vanda af skipulagningu þingsins auk margra annarra framhaldsskólanema. Nokkrir erlendir stúdentar sóttu það auk íslensku þátttakendanna. Rannsóknastjóri RNH, prófessor Hannes H. Gissurarson, bauð fyrirlesurum og öðrum erlendum þátttakendum og nokkrum fleiri gestum í grillveislu heim til sín á föstudagskvöldið, en Gamma hélt öllum þátttakendum hóf á laugardagskvöldið. Gestir voru einnig leystir út með bolum og bókum, sem heimspekingurinn dr. Tom Palmer tók saman fyrir Atlas Foundation, Hvers vegna frelsi? (Why Liberty: Your Life, Your Choices, Your Future) og Friður, ást og frelsi (Peace, Love & Liberty). Stuðningur RNH við svæðisþingið var þáttur í samstarfsverkefni með ACRE, Evrópusamtökum íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Rannsóknastjóri RNH, prófessor Hannes H. Gissurarson, sleit þinginu með nokkrum orðum:

Comments are closed.