Hannes: Beiting hryðjuverkalaganna óþörf og ruddaleg

Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, rannsóknastjóri RNH, hélt erindi á morgunfundi Sjálfstæðisfélags Kópavogs laugardaginn 17. nóvember um skýrslu Félagsvísindastofnunar um bankahrunið 2008, en hann hafði yfirumsjón með henni. Hann hafnaði ýmsum þeim skýringum á bankahruninu, sem virtust sprottnar af stjórnmálagrillum frekar en staðreyndum, til dæmis að það væri vegna „feðraveldis“, hinnar frjálslyndu stjórnarskrár frá 1874 eða „nýfrjálshyggju“. Kvað hann beitingu bresku hryðjuverkalaganna gegn Íslendingum í fjármálakreppunni 2008 hafa verið tilefnislausa og ruddalega. Bretar hefðu þá einnig mismunað eftir þjóðerni (sem er bannað samkvæmt reglum innri markaðar Evrópu) með því að veita öllum öðrum bönkum en þeim, sem voru í eigu Íslendinga, lausafjárfyrirgreiðslu. Hannes gagnrýndi líka nokkra samkennara sína fyrir að styðja frekar málstað Breta en Íslendinga í Icesave-deilunni og velti fyrir sér, hvers vegna þeir hefðu viljað leiða okkur í skuldafangelsi. Var það vegna þess, að þeir vonuðust eftir því að verða fangelsisstjórarnir? Það væri herfilegur misskilningur, að Íslendingar hefðu mismunað breskum innstæðueigendum með neyðarlögunum. Öðru nær. Þeir hefðu með þeim lögum fært þá (og alla aðra innstæðueigendur) fram fyrir aðra kröfuhafa, til dæmis þýska eða bandaríska banka. Ef einhver mismunun hefði verið, þá hefði hún verið milli allra innstæðueigenda annars vegar og annarra kröfuhafa hins vegar, en slíka mismunun mætti rökstyðja með brýnni nauðsyn.

Davíð Örn Jónsson laganemi stjórnaði fundinum, sem var fjölmennur, og bárust fjöldi fyrirspurna til framsögumanns, meðal annars um Kaupþingslánið í miðju bankahruninu, sölu bankanna í árslok 2002, drengskap Pólverja og Færeyinga í erfiðleikum Íslendinga og öllu lakari framkomu Norðurlandaþjóða. Rakti Hannes atburðarásina í undanfara Kaupþingslánsins: Stjórnendur Kaupþings hefðu sagt seðlabankastjórunum, að vilji ríkisstjórnarinnar væri, að Seðlabankinn veitti Kaupþingi neyðarlán. Einn seðlabankastjórinn hefði haft samband við forsætisráðherra, sem staðfest hefði þetta, og væri til upptaka af því símtali. Seðlabankastjórarnir hefðu frekar viljað veita Landsbankanum lánið en Kaupþingi, en talið sig verða að fara að vilja ríkisstjórnarinnar, en lánveitingin hefði auðvitað verið á ábyrgð þeirra, en ekki ríkisstjórnarinnar. Þeir hefðu tekið veð fyrir láninu, sem hefði verið talið tvöfalt meira virði en lánið, og það hefði verið allsherjarveð og þess vegna staðið á móti öllum skuldum Kaupþings við bankann. Hins vegar hefði ný stjórn Seðlabankans haldið svo illa á málum í samningum við Dani 2010 um sölu veðsins, FIH banka, að ekki hefði endurheimst nema brot af raunvirði veðsins, svo að mestallt lánið til Kaupþings hefði því miður tapast. Kaupendur, þar á meðal lífeyrissjóðir í Danmörku og Svíþjóð, hefðu stórgrætt á kaupunum, og hefði raunar verið skrifuð um þau heil bók, Kunsten at tømme en bank og slippe godt fra det.

Hannes kvað sölu íslensku ríkisbankanna í árslok 2002 hafa verið um það óheppilega, að þeir hefðu verið seldir báðir í einu að kröfu framsóknarmanna. Hærra verð hefði fengist fyrir þá, hefðu þeir verið seldir hvor á eftir öðrum. Sá munur hefði verið á kaupendahópunum, að S-hópurinn, sem keypti Búnaðarbankann, hefði verið nátengdur Framsóknarflokknum, enda forystumaður hans fyrrverandi varaformaður flokksins og ráðherra. Augljós undirmál hefðu verið um að selja bankann strax aftur Kaupþingi. Samson-hópur þriggja manna, sem keypti Landsbankann, hefði hins vegar ekki haft nein tengsl við Sjálfstæðisflokkinn. Einn maður í hópnum hefði verið framsóknarmaður, annar óflokksbundinn, en hinn þriðji, Björgólfur Guðmundsson, að vísu verið sjálfstæðismaður, en hann hefði verið kosningastjóri Alberts Guðmundssonar í harðsóttu prófkjöri gegn Davíð Oddssyni fyrir borgarstjórnarkosningarnar 1982. Þótt gott hefði verið eftir það á milli Björgólfs og Davíðs, hefðu þeir því síður en svo verið einhverjir gamlir vinir eða bandamenn. Hannes vitnaði í Milan Kundera um það, að á vegi lífsins væri jafnan þoka framundan, svo að aðeins sæist í viðmælendur og spölkorn áleiðis, en þegar horft væri um öxl, virtist allt skýrt og augljóst. Svo hefði verið um sölu bankanna. Auðvelt væri að vera vitur eftir á. Líklega hefði verið skynsamlegast að selja bankana að öllu leyti í almennu útboði, eins og Davíð Oddsson hefði viljað, en verið borinn ráðum, þó að vitanlega hefðu síðan einstakir aðilar keypt upp hluti og öðlast yfirráð yfir bönkunum, líklega sömu aðilar og eignuðust þá að lokum. Hannes kvaðst þó ekki viss um, að bankarnir hefðu hagað sér öðru vísi, hefðu eigendur verið aðrir. Bankamenn um allan heim hefðu hagað sér ógætilega árin fyrir fjármálakreppuna og sumir jafnvel miklu verr en íslensku bankamennirnir, sem hefðu verið glannar frekar en glæpamenn. Erindi Hannesar var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og frjálsan markað“.

Glærur Hannesar í Kópavogi

Comments are closed.