Hannes: Sex ráð til að rjúfa þögnina

Bled í Slóveníu.

Evrópuvettvangur um minningu og samvisku hélt ársfund sinn í Bled í Slóveníu 15. nóvember 2018, og sótti dr. Hannes H. Gissurarson prófessor hann fyrir hönd RNH. Á undan ársfundinum fór alþjóðleg ráðstefna í Ljubljana 13.–14. nóvember undir heitinu „Skuggahlið tunglsins“, og var hún um minningar þeirra þjóða Mið- og Austur-Evrópu, sem lentu undir stjórn kommúnista eftir seinni heimsstyrjöld og endurheimtu ekki frelsi sitt fyrr en árin 1989–1991. Á ráðstefnunni í Ljubljana flutti Hannes erindi um raddir fórnarlambanna. Lagði hann út af orðum Elies Wiesels, að böðullinn dræpi alltaf tvisvar, í seinna skiptið með þögninni. Hannes benti á, að kommúnisminn væri ekki fordæmdur eins skilyrðislaust og nasisminn, þótt til þess væri full ástæða: hungursneyðir af mannavöldum, fjöldamorð, nauðungarflutningar þjóðflokka, rekstur þrælabúða, ógnarstjórn og eymd.

Hannes, dr. Pawel Ukielski og dr. Łukasz Kamiński. Ljósm. Peter Rendek, Platform.

Hannes reifaði sex ráð til að rjúfa þögnina, lýsa upp skuggahlið tunglsins. Háskólar, sérstaklega félags- og hugvísindadeildir, hefðu verið herteknir af vinstri mönnum. Þess vegna þyrfti að búa frjálslyndum fræðimönnum athvarf og aðstöðu í sjálfstæðum stofnunum. Í annan stað yrði að tryggja, að nemendur í skólum fengju fræðslu um ódæði allra alræðissinna, ekki síður kommúnista en nasista. Ekki mætti til dæmis þegja um það, að Stalín hefði verið bandamaður Hitlers fyrstu tvö styrjaldarárin. Í þriðja lagi þyrfti að reisa minnismerki og reka söfn eins og hið merkilega safn í Varsjá um uppreisnina 1944. Í fjórða lagi ætti að ógilda alla þá opinberu viðurkenningu, sem valdsmenn úr röðum kommúnista hefðu víða hlotið. Myndastyttur af Bería væru jafnóeðlilegar og af Himmler, svo að ekki væri minnst á götunöfn og heiðursmerki. Í fimmta lagi þyrfti að halda reglulega ráðstefnur til að kynna forvitnilegar rannsóknir. Til dæmis hefði prófessor Frank Dikötter varpað ljósi á ógnarstjórn Maós í Kína í þremur stórfróðlegum bókum, og Svartbók kommúnismans hefði markað tímamót árið 1997.

Í sjötta lagi þyrfti að gera vönduð rit um alræðisstefnuna aðgengileg að nýju, jafnt á prenti og á Netinu, eins og Almenna bókafélagið á Íslandi beitti sér fyrir með Safni til sögu kommúnismans, en þegar hafa tíu rit verið endurprentuð í þeirri ritröð, þar á meðal Greinar um kommúnisma eftir Bertrand Russell, Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir Ants Oras og Ég kaus frelsið eftir Víktor Kravtsjenko. Hannes kvað þrjú slík rit koma út í vetur, Framtíð smáþjóðanna: Erindi á Íslandi og öðrum Norðurlöndum 1946–1948 eftir norska skáldið Arnulf Øverland, Guðinn sem brást eftir sex rithöfunda, þar á meðal Arthur Koestler, André Gide og Ignazio Silone, og Til varnar vestrænni menningu: Ræður sjö rithöfunda 1950–1958, en höfundar eru Tómas Guðmundsson, Gunnar Gunnarsson, Kristmann Guðmundsson, séra Sigurður Pálsson í Hraungerði, Guðmundur G. Hagalín, séra Sigurður Einarsson í Holti og Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.

Glærur Hannesar í Ljubljana

Ráðstefnan í Ljubljana var haldin í þinghúsinu. Forseti Slóveníu, Borut Pahor, og forseti Slóveníuþings, Alojz Kovšca, fluttu þar ávörp, en meðal ráðstefnugesta voru Janez Janša, fyrrverandi forsætisráðherra Slóveníu, og sendiherrar Úkraínu og Póllands í Slóveníu. Á ársfundinum í Bled var prófessor Łukasz Kamiński frá Póllandi endurkjörinn forseti Evrópuvettvangsins, en með honum sitja í stjórn dr. Andreja Valič Zver frá Slóveníu, dr. Wolfgang-Christian Fuchs frá Þýskalandi, dr. Toomas Hiio frá Eistlandi og Zsolt Szilágyi frá Rúmeníu. Samþykkt var á fundinum að veita fimm samtökum aðild að vettvangnum, en í honum voru fyrir 57 samtök og stofnanir í 20 löndum. Peter Rendek var ráðinn framkvæmdastjóri í stað dr. Neelu Winkelmanns. Borgarstjórinn í Bled, Janez Fajfar, hélt kvöldverð fyrir ársfundargesti miðvikudagskvöldið 14. nóvember. Evrópuvettvangur um minningu og samvisku var stofnaður í Prag haustið 2011 að áeggjan Evrópuþingsins, sem samþykkt hafði ályktun um, að minnast yrði fórnarlamba alræðisstefnunnar í Evrópu, kommúnisma og nasisma. Þátttaka Hannesar í ráðstefnunni og ársfundinum var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“.

Nokkrir ráðstefnugestir fyrir framan ráðhúsið í miðborg Ljubljana.

Comments are closed.