Hannes: Bláa hagkerfið getur verið arðbært

Á Íslandi hefur myndast arðbært og sjálfbært fyrirkomulag fiskveiða, sagði dr. Hannes H. Gissurarson prófessor á alþjóðlegri ráðstefnu um „bláa hagkerfið“ — öryggi á höfum úti og nýtingu auðlinda sjávar — í Gdynia í Póllandi 22. mars 2019. Anna Fotyga, einn af Evrópuþingmönnum Póllands og fyrrverandi utanríkisráðherra, efndi til ráðstefnunnar, en þar var meðal annars rætt um frjálsar siglingar á höfum úti, ýmsa möguleika í Norður-Íshafinu og uppivöðslusemi Rússa í Svartahafi og Kínverja í Suður-Kínahafi. Á meðal annarra fyrirlesara voru Mark Gróbarczyk, ráðherra sjávarútvegs- og siglingamála í Póllandi, Tomasz Szubrycht flotaforingi (rear admiral), Nils Wang, fyrrverandi flotaforingi (rear admiral) og yfirmaður danska sjóhersins, James Bergeron, stjórnmálaráðgjafi flota Atlantshafsbandalagsins, og Batu Kutelia, fyrrverandi sendiherra Georgíu í Bandaríkjunum. Í erindi sínu lagði Hannes áherslu á, að íslenska kvótakerfið í sjávarútvegi hefði myndast, án þess að nokkur hefði orðið við það verr settur, því að eini rétturinn, sem hefði verið tekinn af mönnum, hefði verið rétturinn til að gera út án nokkurs ágóða, en það ástand myndast við ótakmarkaðan aðgang að fiskimiðum, eins og fiskihagfræðingar hafa leitt út. Þess vegna væri upphafleg úthlutun aflakvóta eftir aflareynslu eina færa leiðin til að koma á skilvirku kvótakerfi. Hannes benti á, að þetta hefði einmitt verið fyrirvari Lockes við eignamyndun úr almenningum: að enginn yrði við hana verr settur.

Hannes hefur gefið út tvö rit á ensku um íslenska kvótakerfið, Overfishing: The Icelandic Solution (2000) og The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable (2015). Einnig kom nýlega út eftir hann ritið Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Private Property Rights (2018).

Ráðherrar, flotaforingjar, þingmenn og fyrirlesarar á ráðstefnunni.

Glærur Hannesar í Gdynia 22. mars 2019

Comments are closed.