Norrænu leiðirnar í Las Vegas

Hannes flytur umsögn sína. T. v. við hann situr prófessor Gwartney.

Á „Freedomfest“, frelsisveislunni, í Las Vegas í júlí 2019 var rannsóknastjóri RNH, prófessor Hannes H. Gissurarson, beðinn að vera umsegjandi um fyrirlestur prófessors James Gwartneys um jafnari tekjudreifingu í heiminum. Gwartney studdist við tölur frá Angus Maddison-verkefninu og Alþjóðabankanum, sem sýna, að tekjudreifing, eins og hún mælist samkvæmt Gini-stuðlinum svonefnda, hefur verið að jafnast í heiminum. Taldi Gwartney meginskýringuna vera byltingu í upplýsingamiðlun og samgöngutækni, sem væri að því leyti mikilvægari en iðnbyltingin í lok átjándu aldar, að hún næði til alls heimsins. Fjölmennar þjóðir hefðu brotist úr fátækt í bjargálnir.  Gwartney taldi, að tiltölulega jöfn tekjudreifing á Norðurlöndum væri ekki síst vegna samleitni (homogeniety) þjóðanna, sem þau byggðu.

Í umsögn sinni ræddi Hannes sérstaklega um Norðurlönd. Hann benti á, að Norðurlandaþjóðirnar byggju að langri og sterkri frjálshyggjuhefð. Til dæmis hafði sænsk-finnski presturinn Anders Chydenius sett fram kenninguna um samband ávinningsvonar og almannahags í krafti frjálsrar samkeppni á undan Adam Smith, og frjálslyndir sænskir stjórnmálamenn nítjándu aldar hefðu beitt sér fyrir víðtækum umbótum, sem hleypt hefðu af stað örum og samfelldum hagvexti í marga áratugi, og mætti kalla það fyrstu sænsku leiðina. Að sögn Hannesar hvíldi velgengni Svía á tuttugustu öld eins og annarra Norðurlandaþjóða á öflugu réttarríki, opnu hagkerfi og samheldni og sáttarhug vegna samleitni þjóðarinnar, eins og Gwartney hefði bent á. Það hefði ekki verið fyrr en árin 1970–1990, sem sænskir jafnaðarmenn hefðu lagt inn á braut ofurskatta og stórfelldra afskipta af atvinnulífinu.

Önnur sænska leiðin, sem farin var 1970–1990, reyndist ófær að sögn Hannesar. Svíar voru lentir öfugum megin á Laffer-boganum svonefnda, þar sem aukin skattheimta hafði ekki í för með sér auknar skatttekjur, heldur minnkandi. Sjá hefði mátt í Svíþjóð þá sviðsmynd, sem Ayn Rand hefði brugðið upp í skáldsögunni Undirstöðunni (Atlas Shrugged), en hún hefur komið út á íslensku: Þeir, sem sköpuðu verðmæti, hurfu ýmist á brott, hættu að framleiða eða fitjuðu ekki upp á nýjungum. Í einkageiranum urðu nánast engin störf til á þessu tímabili, aðeins í opinbera geiranum. En nú reyndist Svíum vel samheldnin og sáttarhugurinn, kvað Hannes: Með þjóðinni myndaðist óskráð samkomulag frá 1990 og áfram um að fara þriðju sænsku leiðina, sem felst ekki síst í að efla einkaframtak og halda sköttum í hófi. Þátttaka Hannesar í Freedomfest er liður í samstarfsverkefni við ACRE, Samtök íhaldsmanna og umbótasinna í Evrópu, um kapítalisma 21. aldar.

Comments are closed.