Daniel Hannan, ritari Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, ACRE, og leiðtogi breskra íhaldsmanna á Evrópuþinginu, var aðalræðumaður á ráðstefnu íslenskra frjálshyggjustúdenta, Students for Liberty Iceland, og Hagfræðirannsóknastofnunar Bandaríkjanna, American Institute of Economic Research, um „Frelsi og framtíð“, sem haldin var í Salnum í Kópavogi síðdegis 6. september 2019. Hannan kvað Ísland og Bretland vera vinaþjóðir, og hann hefði margoft komið til Íslands. Þessar þjóðir ættu samleið. Furðulegt væri að horfa upp á ýmsa reyna að koma í veg fyrir, að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi um útgöngu úr Evrópusambandinu væru virt. Bretland væri miklu betur komið utan ESB en innan. Rökin fyrir alþjóðlegu viðskiptafrelsi væru hins vegar mjög sterk. Stuðningur sinn við útgöngu væri ekki síst til að auka viðskiptafrelsi, þótt vitanlega hlytu Bretar að versla áfram við aðrar Evrópuþjóðir og óskuðu Evrópusambandinu alls góðs. Það væri umfram allt almenningur, sem hagnaðist á viðskiptafrelsi. Sérhagsmunahópar vildu oftast, að ríkið verndaði þá fyrir samkeppni.
Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, setti ráðstefnuna með nokkrum orðum. Hann minnti á, að Hannan hefði mótmælt harðlega í breskum blöðum, þegar breska Verkamannaflokksstjórnin hefði sett hryðjuverkalög á Íslendinga. Hefði það verið drengilega gert. Davíð fór í ávarpi sínu nokkrum orðum um áhyggjuskipti kynslóðanna. Hann hefði í forsætisráðherratíð sinni fengið að heyra ótal viðvaranir um þúsaldarvandann, sem hefði enginn reynst vera. Síðan hefði verið talað um síþreytu og þá um kulnun í starfi og nú um hlýnun jarðar. Iðulega væri hættan orðum aukin. Davíð kvað velmegun og friðsæld aldrei hafa verið meiri en nú, en berjast yrði fyrir frelsinu á hverjum degi. Satt að segja væri frelsið lagt í einelti, svo að notað væri algengt orð á okkar tímum. Hann benti einnig á, að margt af þeim umbótum, sem hann hefði beitt sér fyrir í forsætisráðherratíð sinni, til dæmis uppgreiðsla opinberra skulda, lækkun skatta, sala ríkisfyrirtækja, efling lífeyrissjóða og þróun kvótakerfisins, hefði verið alls ótengt aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu, þótt vissulega hefði verið mikið framfaraskref að opna hagkerfið og tengjast Evrópumarkaðnum.
Hannes H. Gissurarson prófessor talaði um grænan kapítalisma. Hann gerði greinarmun á umhverfisverndarsinnum eins og sér, sem vildu nýta gæði náttúrunnar skynsamlega manninum í hag, og umhverfisöfgasinnum, sem teldu náttúruna hafa sérstakan rétt gegn manninum. Í raun og veru væri áreksturinn samt ekki milli manns og náttúru, heldur milli tveggja hópa manna, sem vildu nýta gæðin á ólíkan hátt. Dæmi væru úlfar í Ölpunum, sem legðust á sauðfé. Hvort ætti að gæta hagsmuna þeirra, sem vildu friða úlfana, eða hinna, sem vildu nýta sauðféð til að fæða og klæða fólk? Hins vegar væri ekki nóg að verðleggja gæðin, einnig þyrfti að stofna til eignarréttar á þeim. Vernd krefðist verndara. Til dæmis mætti breyta veiðiþjófum í Afríku, sem dræpu fíla og nashyrninga, í veiðiverði með einu pennastriki — með því að gera þorpin þeirra að eigendum fíla- og nashyrningahjarða.
Halla Sigrún Mathiesen var ráðstefnustjóri, en einnig töluðu Mariam Gogoshvili frá Georgíu, prófessor Edward Stringham, Peter C. Earle og Andrew Heaton. Ráðstefnan vakti mikla athygli. Morgunblaðið sagði rækilega frá henni, Viðskiptablaðið birti grein um Hannan og Viljinn tók við hann viðtal. Þátttaka RNH í ráðstefnunni var liður í samstarfsverkefni við ACRE, Alliance of Conservatives and Reformists in Europe, um blágrænan kapítalisma.