Hannes fastur dálkahöfundur í The Conservative

Rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, er orðinn fastur dálkahöfundur í netblaðinu The Conservative, sem samtök íhalds- og umbótaflokka í Evrópu gefa út. Fyrsta grein Hannesar birtist í blaðinu 11. nóvember og var um úrslitin í bandaríska forsetakjörinu. Næst skrifaði Hannes um kunna sögu í stjórnmálaheimspeki, ánægjuvél Nozicks, og benti á, að þýskur heimspekingur hefði seint á nítjándu öld sagt svipaða sögu. Þá skrifaði Hannes um þá þversögn lýðræðisins, að í kjörklefanum kysu menn oft á móti mönnum og málum, en í kjörbúðinni kysu þeir það, sem þeir vildu. Þessu næst rifjaði Hannes upp kynni sín af Margréti Thatcher í tilefni lýsingarinnar á henni í sjónvarpsþáttaröðinni Krúnunni, sem er um bresku konungsfjölskylduna. Þá sagði Hannes frá sögulegri heimsókn Winstons Churchills til Íslands, þegar hann heilsaði í fyrsta sinn opinberlega með sigurmerki sínu, V-inu. Í síðustu grein sinni árið 2020, sem birtist 10. desember, gagnrýndi Hannes sameiginlega fiskveiðistefnu Evrópusambandsins og bar hana saman við árangursríka fiskveiðistefnu Íslendinga.

Comments are closed.