Fimm ný félög ganga inn í Evrópuvettvanginn

Dr. Lukas Kamiński.

Evrópuvettvangur minningar og samvisku, Platform of European Memory and Conscience, hélt ársþing sitt 2020 á netinu 25. janúar 2021, en ætlunin hafði verið að halda það í Prag í nóvember, en því varð að breyta vegna kórónufaraldursins. Tilgangur vettvangsins er að halda á lofti minningu fórnarlamba alræðisstefnu tuttugustu aldar, kommúnismans ekki síður en nasismans. RNH hefur átt aðild að vettvangnum frá 2013, en rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, sneri Svartbók kommúnismans á íslensku og samdi einnig sögu íslensku kommúnistahreyfingarinnar, Íslenska kommúnista 1918–1998. Sagnfræðingurinn dr. Lukasz Kamiński frá Póllandi var endurkjörinn forseti vettvangsins, en fimm ný félög gengu inn í hann, frá Bretlandi, Slóveníu, Úkraínu, Georgíu og Tékklandi. Evrópuþingið hefur gert 23. ágúst að minningardegi fórnarlamba alræðisstefnunnar, en þann dag árið 1939 gerðu Stalín og Hitler með sér hinn svokallaða griðasáttmála og skiptu á milli sín Mið- og Austur-Evrópu.

RNH hefur stutt það framtak Almenna bókafélagsins að gefa út Safn til sögu kommúnismans undir ritstjórn Hannesar H. Gissurarson, en nú eru komin út á netinu og á prenti í þeim flokki ritin:  Greinar um kommúnisma eftir breska heimspekinginn Bertrand Russell (2015); Konur í þrælakistum Stalíns eftir Elinor Lipper frá Sviss og Aino Kuusinen frá Finnlandi (2015); Úr álögum eftir þýska kommúnistann Jan Valtin, öðru nafni Richard Krebs (2015); Leyniræðan um Stalín eftir rússneska einræðisherrann Níkita Khrústsjov (2016); El campesino – Bóndinn eftir spænska herforingjann Valentín González (2016); Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir eistneska bókmenntafræðinginn Ants Oras (2016); Eistland. Smáþjóð undir oki erlends valds eftir sænsk-eistneska blaðamanninn Anders Küng (2016); Þjónusta, þrælkun, flótti eftir finnska prestinn Aatami Kuortti (2016); Ráðstjórnarríkin: Goðsagnir og veruleiki eftir ensk-ungverska rithöfundinn Arthur Koestler (2017); Ég kaus frelsið eftir úkraínska flóttamanninn Víktor Kravtsjenko (2017); Nytsamur sakleysingi eftir sænska kommúnistann Otto Larsen (2017); Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958 eftir Tómas Guðmundsson, Gunnar Gunnarsson, Kristmann Guðmundsson, Guðmund G. Hagalín, Sigurð Einarsson í Holti og Davíð Stefánsson frá Fagraskógi (2018); og Framtíð smáþjóðanna: Erindi á Norðurlöndum 1946–1948 eftir norska skáldið Arnulf Øverland (2019). Einnig hefur  hugveitan New Direction í Brüssel birt skýrslu eftir Hannes, sem var upphaflega tekin saman fyrir Evrópuvettvanginn, Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature , þar sem hann ræddi um sögulegt eðli kommúnismans og bókmenntaverk um hann, þar á meðal fangabúðasögur, skáldsögur, sagnfræðirit og sjálfsævisögur.

Comments are closed.