Hannes um hamingjuna í Bristol

Hið forna heiti borgarinnar Bristol í Englandi var Brycgstow, sem merkir Brúarstæði. Hún kemur nokkuð við sögu Íslendinga á fimmtándu öld, þegar Englendingar, ekki síst frá Bristol, stunduðu fiskveiðar og verslun við Íslandsstrendur. Árið 1484 voru 48 Íslendingar skráðir í borginni, og nokkrir kaupmenn þar versluðu jöfnum höndum við Ísland og Portúgal. Þessi fjöruga verslun lagðist niður við dönsku einokunina. Á ráðstefnu í Bristol 17. apríl var Hannesi H. Gissurarsyni, rannsóknarstjóra RNH, falið að segja nokkur orð um, hvernig jarðarbúar gætu leitað hamingjunnar, friðsældar og hagsældar. Hann kvað lítið um svör, þegar stórt væri spurt, en benti á, að eðlilegra væri að reyna að minnka óhamingjuna frekar en auka hamingjuna, ekki síst af því að menn vissu betur, hvað óhamingja væri: fátækt, ofbeldi, stríðsrekstur og sjúkdómar.

Hannes gerði í þessu sambandi lauslegan samanburð á úrræðum vinstri manna og hægri manna. Vinstri menn vilja gera fátæktina léttbærari með því að hjálpa fátæklingum. Hægri menn vilja gera fátæktina sjaldgæfari með því að fækka fátæklingum, og það má gera með því að fjölga með auknu atvinnufrelsi tækifærum til að brjótast úr fátækt í bjargálnir.

Vinstri menn vilja minnka ofbeldi með því að hlusta skilningsríkir á ofbeldisseggina tala, aðallega um misjafna æsku þeirra. Hægri menn vilja halda ofbeldisseggjum í skefjum með harðskeyttri lögreglu og ströngum refsingum.

Vinstri menn vilja banna stríðsrekstur með yfirlýsingum og sáttmálum. Hægri menn telja slík skjöl lítils virði, ef engir eru bakhjarlarnir. Orðagaldur breytir ekki úlfum í lömb. Óvopnaðir samningamenn fá litlu áorkað.

Vinstri menn vilja ráðast á sjúkdóma með því að reka stórar og dýrar heilbrigðisstofnanir. Hægri menn telja einsýnt, að besta heilsubótin felist í góðum lífskjörum. Hagvöxturinn bægði burt fornum fjendum Íslendinga, myrkrinu, kuldanum og rakanum, sagði Hannes, og nú brugga öflug einkafyrirtæki sífellt ný og betri lyf og smíða ný og betri tæki til að lækna margvísleg mein.

Comments are closed.