Hið íslenska bókmenntafélag gaf 23. september 2025, á dánardægri Snorra Sturlusonar, út ritið Stjórnspeki Snorra Sturlusonar eins og hún birtist í Heimskringlu eftir Sigurð Líndal, prófessor í lögum og einn margfróðasta háskólakennara tuttugustu aldar á Íslandi, arftaka Sæmundar fróða, Ara fróða, Styrmis fróða og Arngríms lærða. Ritið, sem er 134 bls., birtist fyrst í Úlfljóti, tímariti laganema árið 2007. Snorri Sturluson (1179–1241) er talinn höfundur þriggja stórmerkra verka, Eddu, aðalheimild okkar um átrúnað fornmanna, Heimskringlu, sögu Noregskonunga fram í lok tólftu aldar, og Egils sögu, um hinn stórbrotna skáldvíking Egil Skallagrímsson. Snorri var einn voldugasti og auðugasti maður sinnar tíðar og tvisvar lögsögumaður, en einn keppinautur hans um völd lét taka hann af lífi í Reykholti 23. september 1241 með leyfi Noregskonungs, sem var honum reiður fyrir að vilja ekki koma landinu undir konung. Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, skrifaði formála, en prófessor emeritus Hannes H. Gissurarson sá um útgáfuna.
Í tilefni útkomunnar héldu Hið íslenska bókmenntafélag, Miðaldastofa, Lagastofnun Háskóla Íslands og RSE, Rannsóknamiðstöð í samfélags- og efnahagsmálum, samkomu í Eddu, húsi íslenskra fræða, 23. september 2025. Tveir erlendir fyrirlesarar ræddu um framlag Snorra Sturlusonar og Sigurðar Líndals til laga og stjórnmála. Ditlev Tamm, prófessor emeritus í réttarsögu við Kaupmannahafnarháskóla, lýsti hinni fornu lagahefð, sem Sigurður hefði skrifað margt um, og benti á hliðstæðar hennar sunnar í álfunni, til dæmis í skilmálaskránni gullnu í Ungverjalandi árið 1222. Ein mikilvægasta regla þessarar lagahefðar væri Quod omnes tangit ab omnibus approbetur (Það, sem alla varðar, verða allir að samþykkja), en þessi regla varð í meðförum bandarísku byltingarmannanna árið 1776 að vígorðinu: Enga skatta án samþykkis, No taxation without representation. Það væri hins vegar álitamál, hversu mikið af hinni norrænu lagahefð væri upprunalegt og hversu mikið hefði skapast í þjóðernisrómantík nítjándu aldar.
Dr. Tom G. Palmer, alþjóðafulltrúi Atlas Network, sem er samband nær 600 hugveitna um allan heim, ræddi líka um regluna Quod omnes tangit ab omnibus approbetur, sem hann taldi eina helstu undirstöðu vestræns lýðræðis. Í pólsk-litáíska aðalsveldinu hét þessi regla Nic o nas bez nas, Ekkert um okkur án okkar. Palmer taldi í þessu felast, að lýðræði krefðist þátttöku manna í umræðum og um leið virðingu þeirra fyrir góðum og gegnum umræðuvenjum. Hann benti á, að sumt í hinni frægu ræðu Einars Þveræings í Heimskringlu minnti á kafla úr riti Ciceros, De officiis. Þar segir Einar, að konungar séu ójafnir, sumir góðir og aðrir ekki, og sé því best að takmarka vald þeirra til að leggja á skatta og stunda hernað.
Fjörugar umræður urðu að loknum framsöguerindunum. Lilja Alfreðsdóttir, fyrrverandi menntamálaráðherra, rifjaði upp lýsingu rómverska sagnritarans Tacitusar í bókinni Germania á sjálfstjórn germanskra ættbálka og taldi íslenska þjóðveldið 930–1262 minna á hana. Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, lagði áherslu á hina germönsku og engilsaxnesku arfleifð, sem Snorri Sturluson hefði vísað til í Heimskringlu, en þessi arfleifð hefði rekist á viðleitni konunga til að efla vald sitt. Snorri hefði staðið á krossgötum. Nú væri þessi arfleifð aftur orðin mikilvæg, þegar reynt væri að efla miðstýringu í Evrópu og koma landinu undir Brüssel-valdið. Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, benti á, að Snorri hefði alist upp í Odda. Þess vegna mætti telja hann Oddaverja frekar en Sturlung. Velti hann fyrir sér, hvort Snorri hefði átt einhvern þátt í ritun Njáls sögu, sem væri einhver besta bók í heimi. Hannes H. Gissurarson, sem stjórnaði umræðum, kvað Snorra vissulega hafa ritað Egils sögu, en líklega hefði Sturla Þórðarson, frændi hans, ritað Njáls sögu. Mikill munur væri á hinni óvinsamlegu afstöðu til konunga í Egils sögu og hinni tiltölulega vinsamlegu afstöðu til þeirra í Njáls sögu. Ólíkt Snorra hefði Sturla verið fylgismaður konungsvalds.
Húsfyllir var á málstofunni. Garðar Gíslason, fyrrverandi hæstaréttardómari, var fundarstjóri, en RSE styrkti útgáfu bókar Sigurðar. Að málstofunni lokinni bauð RSE til móttöku í Eddu, og um kvöldið fögnuðu aðstandendur bókinni í kvöldverði, þar sem Garðar Gíslason mælti fyrir minni Sigurðar Líndals og Hannes H. Gissurarson fyrir minni Snorra Sturlusonar. Frá v.: Haraldur Bernharðsson, Miðaldastofu, María Jóhannsdóttir, ekkja Sigurðar Líndals, Ditlev Tamm, prófessor emeritus Anna Agnarsdóttir, Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, hönnuður bókarinnar, Elisa Eyvindsdóttir, ritstjóri Úlfljóts, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus Ragnar Árnason, dr. Tom G. Palmer, Garðar Gíslason og Salka Sigmarsdóttir, ritstjóri Úlfljóts.
Daginn fyrir málstofuna birti Hannes H. Gissurarson grein í Morgunblaðinu um þær stjórnmálahugmyndir Snorra, sem enn væru í fullu gildi, vald háð samþykki, mótstöðurétt (sem nú væri rétturinn til að setja valdhafa af í frjálsum kosningum á nokkurra ára fresti, væri þess talin þörf), enga skatta án samþykkis og utanríkisstefnu, sem fæli í sér, að Íslendingar væru vinir erlendra höfðingja, en ekki þegnar þeirra.