Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, var gestur Gísla Freys Valdórssonar í hinu vinsæla hlaðvarpi hans, Þjóðmálum, 27. ágúst 2025. Þeir ræddu aðallega um, hvernig skilgreina ætti og rökstyðja frjálshyggju. Hannes benti á, að venjulega væri orðið notað um það hugmyndakerfi, sem þeir John Locke, David Hume og Adam Smith hefðu reist. Hann bætti við, að í rauninni næðu rætur frjálshyggjunnar þó miklu lengra aftur í tímann, til hinna fornu germönsku hugmynda um vald í höndum þjóðarinnar og mótstöðuréttinn, eins og Snorri Sturluson lýsti í Heimskringlu. Hannes kvað ríkið veita þrenns konar nauðsynlega þjónustu, að halda uppi lögum og reglu, að verja borgarana gegn hættum, jafnt að innan og utan, og að tryggja, að þeir, sem geta ekki séð sér farborða af eigin rammleik, fái lifað mannsæmandi lífi (þótt það fæli ekki í sér, að veita ætti fullhraustu fólki aðstoð). Líklega þyrfti ríkið ekki nema um fimmtán af hundraði vergrar landsframleiðslu til þess að geta veitt þessa þjónustu. Hannes minnti síðan á gamla vígorðið um, að skattlagning krefðist íhlutunarréttar hinna skattlögðu (no taxation without representation). Þetta merkti til dæmis, að óeðlilegt væri að skattleggja fyrirtæki, því að þau hefðu ekki kosningarrétt. Hannes taldi einu eðlilegu og réttlátu skattana vera flata skatt á tekjur eða neyslu (virðisaukaskatt). Til dæmis fæli fjármagnstekjuskattur í sér tvísköttun, eins og John Stuart Mill hefði einna fyrstur bent á, því að fjármagnstekjur væru tekjur af fjármagni, sem myndast hefði af tekjum eftir skatt, við sparnað og hagsýni. Með fjármagnstekjuskatti væri hinum sparsömu og hagsýnu refsað, en eyðsluklærnar verðlaunaðar.
Í þættinum rifjaði Hannes upp sögu Eiríks af Pommern, sem var konungur allra Norðurlanda snemma á fimmtándu öld. Árið 1429 hefði hann lagt á Eyrarsundstollinn, en hann urðu öll skip að greiða, sem leið áttu um Eyrarsund, ella urðu þau fyrir skothríð úr Krónborgarkastala. Síðar hefði hann verið afhrópaður og þá sest að á Gotlandi á Eystrasalti og gerst sjóræningi. Það væri hins vegar áleitin spurning, hvort einhver siðferðilegur munur væri á að heimta toll af skipum á siglingu um Eyrarsund og ræna skip á siglingu um Eystrasalt. Var tollurinn ekki skattlagning án íhlutunarréttar og því óbeinn þjófnaður, en sjóránin beinn þjófnaður? Hannes nefndi einnig, að breski heimspekingurinn G. E. M. Anscombe hefði haldið því fram, að meginverkefni stjórnmálaheimspekinnar væri að skýra út muninn á ríkinu og stigamannahópum (mafíum), en hvorir tveggja byðu fram vernd gegn gjaldi.
Hannes kvað muninn á frjálshyggju og sósíalisma sjást einna best á ólíkum viðhorfum til fátæktar. Frjálshyggjumenn vildu greiða leið manna út úr fátækt, fjölga tækifærum þeirra til að brjótast til bjargálna, en sósíalistarnir gera fátæktina bærilegri, en með því auðvelduðu þeir fólki að sitja föstu í fátækt. Frjálshyggjumenn vildu hjálp til sjálfshjálpar, land sjálfstæðra og vel stæðra einstaklinga. Hannes bætti því við, að helstu röksemdirnar fyrir einkaeignarrétti væru tvær. Hin fyrri væri, að það, sem allir ættu, hirti enginn um. Hin síðari væri, að garður væri granna sættir. Hannes kvaðst hlynntur einkaeignarrétti á náttúruauðlindum, að minnsta kosti þeim, sem hefðu lengi verið nýttar, en mikilvægasta auðlindin væri maðurinn sjálfur, kunnátta hans, þekking og vitneskja, enda sýndu rannsóknir, að þorri tekna væru vinnutekjur, en ekki afgjöld af auðlindum.