Hannes skrifar í Nordisk Tidskrift

Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, birti grein í 2. hefti Nordisk Tidskrift árið 2025 um inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í Norður-Atlantshafsbandalagið, NATO. Hann kvað allar fimm Norðurlandaþjóðirnar hafa fylgt utanríkisstefnu, sem hefði ráðist af raunverulegum hagsmunum þeirra. Ríki hefðu hagsmuni, en ættu ekki vini. Finnar hefðu orðið að sætta sig við þá staðreynd, að þeir hefðu átt voldugan og vægðarlausan nágranna, en enga raunverulega bandamenn. Svíar hefðu allt frá 1814 getað vegna legu sinnar forðast alla þátttöku í stríðum. Danmörk, Noregur og Ísland hefðu öll verið hernumin í seinni heimsstyrjöld, svo að íbúar þessara landa hefðu leitað eftir það til Bandaríkjanna um að tryggja öryggi sitt. En nú hefðu Rússar ráðist í annað sinn inn í Úkraínu, og það hefði breytt afstöðu Finna og Svía. Þessar þjóðir hefðu áttað sig á, að hlutleysi væri ekki lengur raunhæfur kostur. Atlantshafsbandalagið yrði að vera nógu öflugt til þess, að Rússar áræddu ekki að ráðast á neitt aðildarríki þess. Undan landi sæist síðan í Kínaveldi, sem biði færis. Kínverjar eyddu meira í vígbúnað en Evrópuríkin í Atlantshafsbandalaginu öll til samans. Innganga Finna og Svía í Atlantshafsbandalagið væri söguleg. Þetta væri í fyrsta sinn sem öll norrænu ríkin fimm væru í varnarbandalagi frá því, að Kalmarsambandið leystist upp árið 1523. Grein Hannesar er hér:

Grein Hannesar í Nordisk Tidskrift

Comments are closed.