Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, var gestur Hermanns Nökkva Gunnarssonar blaðamanns í Dagmálum, sjónvarpsþætti Morgunblaðsins, 22. ágúst 2025. Hannes gagnrýndi harðlega aðgerðaleysi Háskólans, eftir að nokkrir starfsmenn skólans ruddust inn á málstofu, sem ein stofnun Háskólans hélt í Þjóðminjasafninu 6. ágúst, og komu með öskrum og ópum í veg fyrir, að málstofustjórinn, Gylfi Zoëga, og fyrirlesarinn, Gil Epstein frá Ísrael, fengju að tala. Varð fyrir vikið að aflýsa málstofunni. Hannes sagði, að þessir ruddar hefðu ekki verið að mótmæla, eins og þeir hefðu fullan rétt á að gera, heldur hefðu þeir verið að ráðast á málfrelsi og rannsóknafrelsi þeirra, sem málstofuna héldu og sóttu. Akademískt frelsi væri auðvitað ekki aðeins frelsi undan stjórnvöldum, eins og sumir hefðu haldið fram, heldur líka frelsi undan auðjöfrum, sérhagsmunahópum og í þessu tilviki hávaðasömum ruddum. Hannes taldi líklegt, að óeirðaseggirnir hefðu ekki verið reknir áfram af sérstakri samúð með andstæðingum Ísraels. Miklu verra ástand væri í Súdan, þar sem ellefu milljónir manna hrektust um heimilislausir í landinu, en fjórar milljónir væru landflótta, jafnframt því sem annar aðili borgarastríðsins þar syðra væri að reyna að útrýma Alasítum, fámennum þjóðflokki í vesturhuta landsins. Upphlaupsmennirnir í Þjóðminjasafninu hefðu í raun verið reknir áfram af hatri á vestrænum gildum, til dæmis jöfnu frelsi allra, frjálsum markaði, stöðuveitingum samkvæmt hæfileikum, en ekki hörundslit eða kynferði, og vísindum sem frjálsri samkeppni hugmynda. Ísrael væri eina vestræna ríkið í Miðausturlöndum.
Margt bar á góma í þættinum. Hannes tók fram, að auðvitað væri hann hlynntur frjálsum flutningi fólks milli landa, svo framarlega sem innflytjendur væru reiðubúnir til að leggja sitt af mörkum í viðtökulandinu og fylgja þar lögum. En Evrópuríkin hefðu síðustu árin tekið á móti fjölda fólks, sem væri andvígt vestrænum gildum. Þetta fólk vildi ekki viðurkenna jafnrétti kynjanna og væri vinnufælið og ofbeldishneigt. Evrópskir kjósendur kærðu sig ekki um, að slíkt fólk legði undir sig lönd þeirra, og ef stjórnmálaflokkar daufheyrðust við þeim skoðunum, þá yrði þeim ýtt til hliðar.
Hannes benti á, að tímamót hefðu orðið í síðustu þingkosningum á Íslandi, þegar róttæka vinstrið hefði ekki fengið einn einasta mann kjörinn. Það hefði haft fulltrúa á þingi allt frá 1937, þegar þrír þingmenn kommúnistaflokksins hefðu tekið þar sæti, og jafnan átt vís atkvæði 10–20 af hundraði kjósenda. Hannes benti einnig á, að hægrið hefði áður fyrr verið sameinað á Íslandi, en nú dreifðist það á fjóra flokka, Sjálfstæðisflokkinn, sem hefði snarminnkað, Miðflokkinn, Viðreisn og Flokk fólksins.
Hannes kvaðst vera að ljúka verkefni fyrir hugveituna New Direction í Brüssel, sýnisbók norrænnar frjálshyggju allt frá 946 (þegar Hákon góði skilaði til Norðmanna þeim landareignum, sem faðir hans hafði hrifsað af þeim) til 1945 (þegar prófessor Poul Andersen varði reglu gamla Grundtvigs, að frelsið væri frelsi Loka jafnt og Þórs). Kæmi bókin út síðar á þessu ári.