Á þingi evrópskra hugveitna í Vínarborg 2. október 2025 kynnti hagfræðingurinn og framkvæmdamaðurinn Max Rangeley bók, sem hann ritstýrir ásamt Daniel Hannan lávarði um Fríverslun á 21. öld, en Springer Nature gefur hana út. Á meðal höfunda eru Vernon Smith, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, fyrrverandi forsætisráðherrar Stóra Bretlands og Ástralíu, þau Liz Truss og Tony Abbot, gamalkunnugir frjálshyggjuhagfræðingar, Eamonn Butler, Walter E. Block og Richard M. Ebeling, tveir breskir lávarðar og fyrrverandi viðskiptaráðherrar, Peter Lilley og Syed Kamall, hinn kunni hagsöguhöfundur Deirdre McCloskey (sem gegnir nú stöðu forseta Mont Pelerin samtakanna) og rannsóknastjóri RNH, prófessor emeritus Hannes H. Gissurarson, sem skrifar um fríverslun á Norðurlöndum. Í formála segja ritstjórarnir, að fyrir þeim vaki ekki aðeins að setja fram helstu fræðilegu röksemdir fyrir fríverslun, heldur líka að koma til skila ástríðu fríverslunarsinna nítjándu aldar, sem töldu sig vera að berjast fyrir göfugum og miklum málstað. Þeir benda á, að um fátt séu hagfræðingar eins sammála og röksemdirnar fyrir fríverslun, en engu að síður hafi tollverndarstefnu aukist fylgi síðustu áratugi. Þess vegna verði að fara á ný með gömul sannindi.
Prófessor emeritus Hannes H. Gissurarson sagði í ræðu sinni á þinginu, að nú virtust evrópsk og raunar líka bandarísk stjórnmál vera að umhverfast, gerbreytast. Tilraunir vinstrisins til að umskapa skipulagið eftir forskrift Marx hefðu mistekist hrapallega, svo að nú væri Gramsci nú orðinn helsti spámaður þess. Vinstrið hefði, eins og Gramsci hefði séð fyrir sér, lagt undir sig háskóla, fjölmiðla og ýmsar opinberar stofnanir, sums staðar jafnvel dómstóla. Þótt það hefði tapað baráttunni um ríkisvaldið, af því að sósíalisminn hefði hvergi gengið upp, hefði það unnið baráttuna um dagskrárvaldið, öðlast hugmyndalegt forræði á Vesturlöndum. Vinstrið gæti hins vegar glatað þessu forræði sínu vegna stuðnings við vælumenninguna (wokeism) og afturköllunarfárið, sem riðið hefði húsum síðustu árin, en venjulegt fólk með heilbrigða dómgreind hafnaði. Hægrið hefði hins vegar ekki áttað sig á því, að fjórfrelsið fræga, frjáls flutningur fjármagns, vöru, þjónustu og fólks yfir landamæri, mætti ekki fela í sér óheftan aðgang glæpalýðs, öfgamúslima og bótabetlara að vestrænum farsældar- og friðsældarríkjum. Hannes minnti á orð Friedrichs A. von Hayeks í Lundúnablaðinu The Times 11. október 1978: „Þótt ég styðji það lokamarkmið, að landamæri milli ríkja hætti með öllu að hindra frjálsan flutning fólks yfir þau, tel ég, að innan hvers þess tímabils, sem raunhæft er að líta til, muni allar tilraunir til að hrinda þessu markmiði í framkvæmd endurvekja sterka þjóðerniskennd.“
Hannes kvað von Hayek heldur betur hafa reynst forspáan. Í Stóra Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi mældust nú flokkar, sem takmarka vildu óheftan innflutning fólks, stærri en hefðbundnir mið- og hægri flokkar. Verkefnið framundan væri að veita hinni sterku þjóðerniskennd, sem endurvakin hefði verið, í farveg frelsis og réttar frekar en valdboðs og miðstýringar. Landamæri ættu að vera opin duglegu, heiðarlegu, löghlýðnu fólki, sem skapaði verðmæti, en lokuð glæpalýð, öfgamúslimum og bótabetlurum. Ekki ætti að hleypa neinum óþjóðalýð inn í vestræn ríki. Ekki mætti fórna fríverslun á altari óhefts innflutnings fólks. Á meðal annarra ræðumanna á þinginu voru dr. Barbara Kolm, forstöðumaður Austrian Economics Center í Vínarborg og þingmaður í Austurríki, Pieter Cleppe, ritstjóri BrusselsReport.eu, og prófessor Christopher Lingle, en hann hélt upp á 77 ára afmæli sinn sama dag og þingið var haldið. Sést hann hér í miðjunni, en til vinstri við hann er Hannes H. Gissurarson og til hægri við hann Pieter Cleppe.