Rosenfeldt um leynistarfsemi kommúnista 10. september: 12–13

Næsti viðburður á vegum RNH í fyrirlestraröðinni um Evrópu, Ísland og framtíðina verður erindi, sem dr. Niels Erik Rosenfeldt, prófessor emerítus í sagnfræði í Kaupmannahafnarháskóla, flytur mánudaginn 10. september kl. 12–14 í stofu 201 í Odda. Það verður á sviði Evrópusögu, um leynistarfsemi kommúnista á dögum Kominterns, Alþjóðasambands kommúnista, 1919–1943, en um það mál hafa íslenskir sagnfræðingar deilt hart, allt frá því að bók dr. Þórs Whiteheads prófessors, Sovét-Ísland. Óskalandið, kom út haustið 2010. Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands og Varðberg standa að fundinum ásamt RNH, og verður Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, fundarstjóri.

Niels Erik Rosenfeldt fæddist 1941 og lauk cand. mag. prófum í sagnfræði og rússnesku og doktorsprófi í sagnfræði. Hann var prófessor í Kaupmannahafnarháskóla til 2011. Hann hefur rannsakað skjalasöfn í Moskvu áratugum saman, og var doktorsritgerð hans um þetta mál. Nýlega kom út tveggja binda verk, The ‘Special’ World: Stalin’s Power Apparatus and the Soviet System’s Secret Structures of Communication, eftir Rosenfeldt um leynideild þá, sem Stalín rak innan hinnar alþjóðlegu kommúnistahreyfingar. Rosenfeldt fékk H. O. Lange-verðlaunin, sem Konungsbókhlaða (Det kongelige bibliotek) veitir, fyrir bók um Lenín.

Comments are closed.